Náttúruvernd
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Frsm. menntmn. (Ragnar Arnalds):
    Herra forseti. Menntmn. deildarinnar hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum um náttúruvernd. Í frv. þessu er kveðið svo á að í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum sem eru í umsjá Náttúruverndarráðs starfi landverðir er annist þar eftirlit og fræðslu.
    Í frv. stóð einnig: ,,Náttúruverndarráð heldur námskeið fyrir landverði.`` Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að ástæðulaust sé að slá því föstu að Náttúruverndarráð haldi þessi námskeið. Það kunni að vera aðrir aðilar sem heppilegri séu til þess, í öllu falli ekki ástæða til að binda það í lögum heldur hafa það laust og óbundið hverjir slík námskeið halda.
    Að öðru leyti er nefndin sammála frv. og mælir með samþykkt þess með breytingu sem hún flytur á þskj. 865.