Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Eins og kunnugt er hafa lengi staðið yfir umræður um nauðsyn breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Sveitarstjórnarmenn hafa lagt mikla áherslu á þetta mál og stjórnmálaflokkarnir hafa lýst yfir þeim vilja sínum að aukin verkefni og völd verði að færa til sveitarfélaganna. Árið 1972 voru gerðar talsverðar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga samhliða breytingum á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og árið 1975 voru gerðar minni háttar breytingar á verkaskiptingunni. Síðan hefur lítið gerst í þessu efni þrátt fyrir miklar umræður um málið.
    Á árinu 1987 má segja að það hafi orðið nokkur þáttaskil í þessum málum, en þá kom út bókin ,,Samstarf ríkis og sveitarfélaga`` sem hafði að geyma álit og tillögur tveggja nefnda sem voru skipaðar af þáv. félmrh. Alexander Stefánssyni og þáv. fjmrh. Þorsteini Pálssyni. Hér var um að ræða heildartillögur um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga ásamt tillögum um breytingar á fjármálalegum samskiptum þessara aðila. Við vinnu sína höfðu nefndirnar einkum til hliðsjónar:
    1. Álitsgerð verkaskiptanefndar ríkis og sveitarfélaga frá 1980, en þessi nefnd var skipuð 1976 af Gunnari Thoroddsen þáv. félmrh.
    2. Skýrslu samninganefndar um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá 1983, en nefndin var skipuð 1982 af Svavari Gestssyni þáv. félmrh.
    3. Samþykkt stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga um verkaskiptamálið frá apríl 1985.
    Nefndirnar settu sér fjögur meginmarkmið í tillögugerð sinni:
    1. Að sveitarfélögin skuli einkum hafa með höndum verkefni sem ráðast af staðbundnum þörfum og þar sem ætla má að þekking á aðstæðum ásamt frumkvæði heimamanna leiði til betri og ódýrari þjónustu en ríkið annist fremur verkefni sem hagkvæmara er að leysa á landsvísu.
    2. Að gera verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga skýrari og einfaldari og að hver málaflokkur falli eftir því sem kostur er aðeins undir einn aðila.
    3. Að saman fari frumkvæði, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð á stofnkostnaði og rekstri.
    4. Að sveitarfélögin verði fjárhagslega sjálfstæð og minna háð ríkisvaldinu en nú er.
    Við undirbúning fjárlagafrv. fyrir árið 1988 ákvað þáv. ríkisstjórn að taka á því ári fyrsta skrefið í heildarendurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Frv. um þetta efni var lagt fram á Alþingi í byrjun desember 1987. Afgreiðsla frv. dróst á langinn og í tengslum við efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í mars var það lagt til hliðar og málinu frestað.
    Í nóvember 1987 skipaði ég nefnd til að undirbúa næsta skref í flutningi verkefna milli ríkis og sveitarfélaga og til að fjalla um uppgjör og eignatilfærslur sem því tengjast. Nefnd þessi var skipuð fulltrúum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og

þeim ráðuneytum sem mest samskipti hafa við sveitarfélögin. Nefnd þessari var ætlað að starfa á grundvelli nefndarálitanna frá 1987. Þegar ljóst var hver yrðu afdrif verkaskiptafrv. sem lagt var fram desember 1987 var nefndinni falið að yfirfara verkaskiptamálið að nýju og undirbúa framlagningu lagafrv. í heild sinni nú í haust. Nefndin gekk frá drögum að áliti um miðjan október sem þá var kynnt fyrir viðkomandi ráðherrum, ríkisstjórn og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Rætt var við fjölda sveitarstjórnarmanna og könnuð viðhorf þeirra til málsins. Með tilliti til þessa og gagnrýni á fyrri tillögur lagði nefndin til nokkrar breytingar frá fyrri tillögum. Helstu breytingarnar voru:
    1. Sveitarfélögin greiði 40% af stofnkostnaði framhaldsskóla, en þetta er í samræmi við lög um framhaldsskóla sem samþykkt voru á sl. ári. Fyrri tillögur gerðu ráð fyrir að ríkið greiddi allan stofnkostnað.
    2. Lagt var til að fallið verði frá áformum um að færa styrki til íþrótta- og æskulýðsfélaga alfarið til sveitarfélaga.
    3. Gert er ráð fyrir að stofnkostnaði við heilsugæslustöðvar og sjúkrahús verði skipt þannig að sveitarfélögin greiði 40% en allur reksturskostnaður verði greiddur af ríkinu. Í fyrri tillögum var reiknað með að ríkið greiddi stofn- og reksturskostnað sjúkrahúsa en sveitarfélögin stofn- og reksturskostnað heilsugæslustöðva.
    4. Lagt er til að hlutverki Framkvæmdasjóðs aldraðra verði breytt og núverandi verkefni hans flytjist að hluta til sveitarfélaga eins og bygging dvalarheimila og íbúða fyrir aldraða.
    Seinna var tekin sú ákvörðun að fella niður tillögur verkaskiptanefndar varðandi byggðasöfn.
    Nefndin ítrekaði fyrri tillögur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í sambandi við breytingar á verkaskiptingunni. Þar er lagt til að veitt verði sérstök framlög til sveitarfélaganna með þrennum hætti:
    1. Framlög til stofnframkvæmda, svo sem grunnskóla, dagvistarheimila, félagsheimila, íþróttamannvirkja og vatnsveitna.
    2. Framlag til reksturs grunnskóla í dreifbýli, svo sem akstur, gæsla í heimavist, mötuneytiskostnaður.
    3. Framlög vegna breyttrar verkaskiptingar, svo sem ýmis rekstrarframlög, t.d. vegna tónlistarskóla o.fl.
    Nefndin lagði mikla áherslu á að upphæð þessara framlaga yrði við það miðuð að hagur hinna minni og vanmegnugri sveitarfélaga yrði betri eftir breytingar á verkaskiptingunni.
    Á undanförnum árum hefur myndast veruleg skuld ríkissjóðs við sveitarfélögin vegna kostnaðarþátttöku ríkissjóðs í ýmsum framkvæmdum á vegum sveitarfélaganna. Samkvæmt lauslegri áætlun menntmrn., sem gerð var seint á sl. ári, var reiknað með að skuld vegna framkvæmda við íþróttamannvirki, félagsheimili, dagvistarheimili og grunnskóla mundi vera um 1 milljarður 65 millj. um sl. áramót. Uppgjör þessara skulda er eitt af þeim

atriðum sem taka þarf á við breytingar á verkaskiptingunni. Nefndin lagði til að skuldir ríkissjóðs við sveitarfélögin verði gerðar upp með sem jöfnustum greiðslum á eigi lengri tíma en fjórum árum eftir að breytingar á verkaskiptingunni taka gildi.
    Helstu breytingar frá gildandi lögum sem lagðar eru til í frv. eru eftirfarandi:
     1. Felld verður niður 15% þátttaka sveitarfélaga í stofnkostnaði nokkurra stofnana fyrir fatlaða.
     2. Felld verði niður sérstök framlög til vatnsveitna í fjárlögum.
     3. Felld verði niður þátttaka sveitarfélaga í rekstri sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva.
     4. Hlutfall sveitarfélaga í stofnkostnaði sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva verði 40% í stað 15%.
     5. Framlög sveitarfélaga til sjúkrasamlaga verði felld niður og sjúkratryggingar verði alfarið verkefni ríkisins.
     6. Framlög sveitarfélaga til atvinnuleysistrygginga verði felld niður.
     7. Ríkissjóður greiði alfarið kostnað við rekstur fræðsluskrifstofa.
     8. Sveitarfélög greiði allan reksturskostnað grunnskóla að undanskildum kennslulaunum.
     9. Sveitarfélög greiði allan stofnkostnað grunnskóla.
    10. Felld verði niður þátttaka ríkisins í stofnkostnaði íþróttamannvirkja á vegum sveitarfélaga.
    11. Felld verði niður þátttaka ríkisins í byggingu félagsheimila.
    12. Bygging dagvistarheimila fyrir börn verði alfarið verkefni sveitarfélaga.
    13. Felld verði niður þátttaka ríkisins í launakostnaði tónlistarskóla.
    14. Felld verði niður framlög sveitarfélaga til sýsluvega.
    15. Felld verði úr gildi sérstök lög um landshafnir og þess í stað gildi um þær almenn hafnalög.
    Til viðbótar við framantaldar breytingar hefur verið lagt fram frv. til l. um málefni aldraðra sem felur í sér breytingar varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra, en lög nr. 92/1982, um málefni aldraðra, falla úr gildi um næstu áramót.
    Í mati á áhrifum breyttrar verkaskiptingar á fjármál sveitarfélaga eru einnig teknar með breytingar sem felast í nýjum lögum um framhaldsskóla. Í heild felur frv. í sér verulegan tilflutning verkefna frá ríkinu til sveitarfélaganna. Þar á móti kemur að létt er af sveitarfélögunum miklum útgjöldum þar sem eru framlög til sjúkratrygginga og atvinnuleysistrygginga. Sveitarfélögin hafa greitt stórfé til þessara verkefna án þess að hafa nánast nokkuð með framkvæmd þeirra að gera.
    Samhliða þessu frv. er lagt fram frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga. Í þeim kafla frv. sem fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er lagt til að veitt verði sérstök framlög til sveitarfélaga vegna breytinga á verkaskiptingunni í samræmi við þær tillögur sem ég hef hér áður rakið. Þessi framlög eru við það miðuð að þau bæti dreifbýlissveitarfélögunum að fullu upp

þann kostnaðarauka sem þau verða fyrir vegna breytinga á verkaskiptingunni. Þar er fyrst og fremst um að ræða aukinn kostnað við rekstur grunnskóla og tónlistarskóla. Mun ég gera nánari grein fyrir þessu þegar ég mæli fyrir tekjustofnafrv. sem væntanlega verður rætt hér síðar í dag. Í því frv. eru ákvæði um hvernig þessum framlögum verður háttað.
    Einnig hafa verið samin drög að reglugerð um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þar sem kveðið er nánar á um einstök atriði. Þessi drög verða lögð fram í nefnd þeirri sem fær frv. til meðferðar.
    Í meðförum Ed. voru gerðar nokkrar breytingar á frv. Þar er fyrst og fremst verið að taka tillit til eindreginna óska Sambands ísl. sveitarfélaga. Veigamestu breytingarnar eru þær að lagt er til að haldið verði óbreyttri kostnaðarskiptingu við byggingu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, þ.e. að ríkið greiði 85% og sveitarfélög 15%. Einnig er lögð til sú breyting varðandi uppgjör ríkisins á skuldum við sveitarfélögin að komið verði upp sérstakri úrskurðarnefnd til að skera úr ágreiningi sem upp kann að koma milli ríkis og
sveitarfélaganna varðandi þessi uppgjör.
    Nefndin verði skipuð þremur mönnum, einum tilnefndum af menntmrh., einum tilnefndum af Sambandi ísl. sveitarfélaga og oddamanni tilnefndum af Hæstarétti.
    Aðrar breytingar sem gerðar voru í Ed. eru minni háttar.
    Herra forseti. Ég hef rakið hér í stuttu máli aðdragandann að því að þetta frv. er lagt fram, hvernig staðið var að samningu þess og hvert aðalefni þess er. Frá því að frv. var lagt fram hefur farið fram á því mjög viðamikil kynning meðal sveitarstjórnarmanna um land allt. Á aðalfundi fulltrúaráðs Sambands ísl. sveitarfélaga sem haldinn var í síðasta mánuði var samhljóða samþykktur stuðningur við frv. með nokkrum breytingum sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hafði áður lagt til. Fulltrúaráðið er ekki neinn þröngur eða afmarkaður hópur. Þar sitja 34 fulltrúar úr öllum kjördæmum landsins. Þeir eru frá litlum sveitarfélögum og stórum, frá dreifbýlis- og þéttbýlissveitarfélögum. Ég veit ekki til að sveitarstjórnarmenn hafi áður náð slíkri samstöðu í jafnstóru og veigamiklu máli. Félmn. Ed. náði einnig algerri samstöðu um afgreiðslu málsins og því ber sérstaklega að fagna.
    Verkaskiptafrv. og tekjustofnafrv. munu ef þau verða að lögum marka þáttaskil í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Þess vegna tel ég að sú samstaða sem náðst hefur um þetta mál sé mjög mikilvæg og ég vænti þess að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar afgreiði það fljótt þannig að það geti orðið að lögum á yfirstandandi þingi.
    Herra forseti. Ég legg að lokinni þessari umræðu til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.