Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er orðið fyllilega tímabært að skýrari og ákveðnari skil séu gerð á milli verkefna ríkis annars vegar og sveitarfélaga hins vegar og það er ánægjulegt að þessi mál skuli nú vera komin svo langt að samstaða virðist nokkurn veginn vera orðin um þessi mál. Svo virðist sem í stórum dráttum séu fulltrúar sveitarfélaganna og ríkisvaldsins ánægðir með niðurstöðuna.
    Á síðasta löggjafarþingi kom fram frv. um breytta verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga eins og hæstv. félmrh. gerði grein fyrir áðan, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Þá var ég ein af þeim sem gagnrýndu það frv. þar sem ég taldi það ekki vera nægilega vel undirbúið og á margan hátt orkaði sú stefna sem birtist í því mjög tvímælis. Helsta ástæða fyrir gagnrýni minni var að þá átti aðallega að flytja verkefni til sveitarfélaganna frá ríkinu án þess að ríkið tæki nokkur verkefni af sveitarfélögunum í staðinn. Þetta hefur verið bætt í þessu frv. þar sem nú er allur pakkinn, ef maður getur sagt svo, tekinn í einu, þ.e. að það eru bæði tekin fyrir þau verkefni sem á að flytja frá sveitarfélögum yfir á ríkið og frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna. Þetta tel ég til mikilla bóta og var ein stærsta gagnrýnin á frv. eins og það var lagt fram í fyrra.
    Ég gagnrýndi einnig fjármögnunarþátt verkaskiptingarinnar sem frv. tók til í fyrra þar sem ég taldi hana vera í lausu lofti. Það er að vísu ekki búið að mæla fyrir því frv. sem nær til þess þáttar, en það er ekki hægt að horfa fram hjá því að það verður að líta á fjármögnunarþátt breytinganna. Það virðist nú hafa náðst nokkurn veginn samkomulag um hvernig því máli skuli háttað. Ég á að vísu eftir að kynna mér það mál nánar, sem ég hef sjálfsagt tækifæri til í félmn. deildarinnar, en það var ljóst í fyrra að ekki var búið að ákveða hvernig ætti að haga fjármögnun sveitarfélaganna á þeim þáttum sem þau áttu að taka yfir þar sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fær tekjur sínar af söluskatti, en það er búið að ákveða að taka upp virðisaukaskatt frá næstu áramótum og þess vegna þyrfti að gera ráð fyrir tekjum eins og er búið að gera þá ráð fyrir núna til þess að Jöfnunarsjóður hefði einhverjar tekjur til að geta gegnt hlutverki sínu. Það er til bóta frá því í fyrra.
    Á síðasta ári höfðum við heldur ekki fengið nein drög að reglugerð varðandi fjárframlög til jöfnunar milli sveitarfélaga og vona ég að það liggi fyrir núna í félmn. hvernig meiningin er að standa að þeim jöfnuði milli sveitarfélaga sem ég tel nauðsynlegt að verði framkvæmdur um leið og skil á milli verkefna ríkisins og sveitarfélaganna eiga sér stað. Ég gagnrýndi einnig að frv. hefði ekki verið sent til kynningar og umsagnar sveitarstjórna eða annarra aðila og álit þeirra lá ekki fyrir í fyrra. Ég hef ekki kynnt mér hvernig staðið hefur verið að þeim þætti núna, en ég vænti þess að það hafi verið betur að kynningu staðið en var gert í fyrra og ef það hefur ekki verið gert er hægt að bæta úr því á stuttum tíma.
    Einnig var merkilegt að þeir sem komu á fund

nefndarinnar í fyrra voru andvígir þeim breytingum sem fólust þá í frv. Ég vona að það hafi verið annað hljóð í strokknum núna, alla vega í Ed. Við í Nd. eigum eftir að kynna okkur hvaða afstöðu fólk hefur til einstakra þátta frv.
    Einstökum köflum frv. eins og t.d. um byggðasöfn hefur að því er mér sýnist verið breytt til þess horfs sem ég tel vera til bóta. Það sem ég er mjög óánægð með varðandi einstaka þætti frv. er X. kafli sem fjallar um breytingu á lögum nr. 112/1976 um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, með síðari breytingum.
    Ég hef miklar efasemdir um að þær breytingar sem þar er gert ráð fyrir séu af hinu góða. Ég tel að ríkið eigi að greiða hlut í menntun sem fer fram á forskólastiginu rétt eins og í annarri menntun svo sem eins og í grunnskólanum. Ég tel menntun fyrir forskólabörn ekkert síður mikilvæga en grunnskólamenntunina. Það er því spurning hvort þessi breyting á verkaskiptingunni hefði ekki verið betri á þann veg að ríkið greiddi laun starfsmanna sem fræða börnin og að sveitarfélögin byggðu yfir starfsemina eins og gert er ráð fyrir með grunnskólana, að sveitarfélögin taki yfir byggingu skólanna en ríkið kosti laun starfsmanna. Ég hefði talið eðlilegt að það sama gilti í þessu tilfelli.
    Það þarf að velta fyrir sér hvert sé markmiðið yfirleitt með dagvistarheimilunum. Þau eru nefnilega ekki bara einhverjir geymslustaðir. Þau hafa mjög mikilvægu uppeldislegu hlutverki að gegna. Ég tel að allt það uppeldisstarf sem fer fram á dagvistarheimilum sé mikilvægt og þess vegna tel ég eðlilegt að meðhöndla þá menntun á sama hátt og gert er annars staðar í skólakerfinu, sérstaklega varðandi grunnskóla. Ég tel slæmt hversu skörp skil eru á milli forskólans og grunnskólans.
    Ég vil benda á að á þinginu í fyrra lögðu þingmenn Kvennalistans fram frv. um átak í byggingu dagvistarheimila. 1. flm. var Sigríður Lillý Baldursdóttir. Það átak gerði ráð fyrir að það yrði stofnaður sjóður þannig að *y1/3*y í sjóði kæmi frá sveitarfélögum, *y1/3*y frá ríkinu og *y1/3*y frá
atvinnurekendum. Ég tel eðlilegt að það verði gert átak í uppbyggingu dagvistarheimila þó að það komi ekki beinlínis þessum lögum við hvernig síðar verður staðið að því eftir að búið er að gera ákveðið átak í uppbyggingu dagvistunarheimila, en ég ítreka að ég tel nauðsynlegt að ríkið hafi yfirumsjón með menntun forskólabarna ekki síður en annarra.
    Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp úr umsögn Arnalds Bjarnasonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, sem sent var félmn. Nd. í fyrra varðandi þetta mál, en hann segir svo:
    ,,Mjög er rætt um hve nauðsynlegt er að laða fólk til starfa í undirstöðuatvinnugreinum og að til þess þurfi að laga kjör þess fólks. Bæjarfélag sem Vestmannaeyjar byggir sína afkomu á sjósókn og fiskvinnslu. Svo er um marga þéttbýlisstaði á landsbyggðinni. Enginn vafi er á hvar undirstöðuverðmæti þessa þjóðfélags eru sköpuð.

Fiskvinnslumannafli byggir einkum á konum sem vinnuafli. Það er því afar mikilvægt viðkomandi launþegum, framleiðslufyrirtækjum, bæjarfélaginu og þjóðarbúinu að nægilegt framboð vinnuafls sé til staðar. Mikilvægur liður í því er að heimili geti vistað börn hér í öruggu og þroskandi umhverfi, m.a. á dagvistarstofnunum. Það er því spurning hvort sé í samræmi við þjóðarhag að ríkissjóður dragi sig úr aðild að uppbyggingu dagvistarstofnana.``
    Ég vildi koma þessu á framfæri vegna þess að ég er sammála því sem þarna kemur fram og tel að það þurfi á einhvern hátt að tryggja þá mikilvægu menntun sem þarna fer fram og ekki að rasa um ráð fram um breytingar á núgildandi lögum. En burt séð frá kostnaðarskiptingunni, sem að sjálfsögðu er mjög mikilvæg, sýnist mér að með frv. sé gert ráð fyrir að niður falli öll fagleg umsjón menntmrn. Ég legg áherslu á hve mikilvægt uppeldislegt hlutverk barnaheimilanna er, eins og ég sagði áðan, og þess vegna þarf að kanna mjög nákvæmlega hvernig þessu verður fyrir komið og gæta þess að ekki verði dregið úr því faglega hlutverki sem dagvistarheimilunum er falið í þessum málum.
    Fóstrufélag Íslands hefur gert athugasemd við þetta atriði og hefur varað við að draga úr hlutverki menntmrn. hvað varðar yfirumsjón með uppeldis- og menntunarmálum forskólabarna. Ég tel varhugavert að draga úr þessu mikilvægi eins og þarna virðist eiga að gera og reyndar er enn frekar, ef ég ber saman frv. eins og það var lagt upphaflega fyrir og eins og Ed. hefur afgreitt það, dregið úr mikilvægi menntmrn. í þessu sambandi. Í janúar sl. skipaði menntmrh. nefnd um nýskipan forskólastigsins og var nefndinni falið að kanna bæði faglega og kostnaðarlega þætti varðandi forskólastigið. Mér kemur því á óvart þar sem þetta er stjórnarfrv. að það skuli ekki vera tekið tillit til þess starfssviðs sem þessi nefnd hefur fengið, að endurskoða lög um dagvistarheimili. Ég inni eftir því hvernig samvinna hafi verið þarna milli menntmrn. og þeirra sem standa að breytingum á þessum lögum. Þetta er um X. kafla laganna, en ég vildi einnig gera að umtalsefni XI. kafla sem fjallar um tónlistarskóla. Þar er gert ráð fyrir breytingu á fyrirkomulagi varðandi tónlistarskóla. Ég hef miklar efasemdir um að þarna sé rétt á málum haldið.
    Fyrir ekki löngu skipaði menntmrn. nefnd sem átti að fjalla um málefni tónlistarskólanna með tilliti til áforma um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og eitt af því sem nefndin átti að fjalla um var að treysta fjárhagslega og faglega stöðu tónlistarskóla.
    Í skýrslunni stendur, með leyfi forseta, á bls. 2 þar sem talað er um hvernig best verði að þessum málum staðið: ,,Um leiðir til að tryggja sem bestan rekstrargrundvöll tónlistarskóla náðist hins vegar ekki samkomulag [í þessari nefnd sem skipuð var] um það hvort flytja eigi tónlistarskóla alfarið yfir til sveitarfélagana. Því höfnuðu fulltrúar tónlistarkennara og skólastjóra alfarið og töldu að samstarf ríkis og sveitarfélaga eins og nú er væri að líkindum besta

fyrirkomulagið í rekstri tónlistarskólanna sem völ væri á. Segja þau að tónlistarfólk í öðrum löndum líti á fyrirkomulagið hérlendis sem fyrirmynd sem ætti að taka upp í öðrum löndum og víða hefðu skólastjórar og kennarar tekið upp baráttu fyrir þessu kerfi í sínum löndum. Á hinn bóginn töldu fulltrúar sveitarfélaganna og fulltrúar félmrn. að heppilegast væri að fela þetta verkefni sveitarfélögum, m.a. vegna þess að þá færi saman frumkvæði, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð auk þess sem það væri stór liður í fyrirliggjandi verkaskiptingarfrv. og gæti stefnt því í hættu ef úr yrði.``
    Mér þykir slæmt ef afstaða fulltrúa sveitarfélaganna og félmrh. helgast fyrst og fremst af því að þeir óttast að þessu frv. sé stefnt í voða þó að fyrirkomulagið haldist óbreytt að því er varðar tónlistarskóla.
    Á bls. 4 í sömu skýrslu stendur, með leyfi forseta: ,,Hærra hlutfall nemenda í tónlistarskólum af íbúafjölda þekkist ekki annars staðar í heiminum. Draga má þá ályktun að tónlistariðkun íslenskra ungmenna komi að hluta til í stað annarrar iðkunar erlendra ungmenna.``
    Ég þarf ekki að tíunda það hér hversu tónlistaruppeldið er mikilvægt og tel að við eigum að gera allt til þess að reyna að koma í veg fyrir að afturför verði á þessu sviði að því er þetta varðar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu tónmennt í grunnskólum landsins er illa fyrir komið og að ástandið
er mjög slæmt þar. Í sömu skýrslu kemur fram að af 216 grunnskólum í landinu er tónmennt einungis kennd í 141 skóla. Þetta er allsendis óviðunandi. Aðeins 55% nemenda á skólaskyldualdri, þ.e. í 1.--8. bekk, hljóta lögboðna fræðslu í tónmennt, en 45% hlutu enga fræðslu í greininni. Ég held að það þurfi að endurskoða þennan kafla laganna með tilliti til þess sem kemur fram í skýrslu frá menntmrn. frá því í mars 1989. Einnig hafa borist áköll frá m.a. samtökum tónlistarskólastjóra sem mótmæla fyrirhuguðum breytingum og benda á að í fyrra tóku undir þeirra málstað þúsundir Íslendinga sem sendu þingmönnum undirskriftir að því er þetta varðaði. Þeir telja að núverandi rekstrarfyrirkomulag sé það besta sem hægt er að hugsa sér, a.m.k. í bili. Ég held að við eigum ekki að rasa um ráð fram og endurskoða þetta ákvæði.
    Það er ekki eingöngu tónlistarfólk sem hefur áhyggjur því að ég er einnig með sams konar yfirlýsingu frá bæjarstjórn Selfoss og fleiri og fleiri hafa lýst áhyggjum sínum vegna þessa ákvæðis.
    Auðvitað er um mikið fjárhagslegt spursmál að ræða. Það er talað um að þarna séu miklir peningar á ferðinni, en ég bendi á að það vafðist ekki fyrir Ed. að breyta kostnaðarskiptingu varðandi heilsugæslustöðvar úr 40% í 15% frá sveitarstjórnum þannig að það hlýtur að vera heilmikill peningur þar sem hefur verið fluttur á milli án þess að það hafi vafist mikið fyrir þeim. Ég hef ekki kynnt mér nákvæmlega hversu mikið fé felst í þeirri breytingu, en ég held að það þurfi að skoða vandlega hvort ekki

er hægt að finna aðrar leiðir til að jafna þennan kostnað ef það er það sem fólk er aðallega að hugsa um.
    Ég vona að við fáum tækifæri til að kynna okkur þessi mál gaumgæfilega og er ástæða til að gera það því að þrátt fyrir þá annmarka sem komu fram í frv. í fyrra töldu mjög margir sveitarstjórnarmenn að það væri ástæða til að samþykkja frv. eins og það var þá óbreytt. Það hafa komið fram mjög margar breytingar að því er ég tel til bóta á frv. Það er að vísu dálítið slæmt hvað við fáum það seint frá Ed. Ég skal gera mitt í nefndinni til að reyna að flýta afgreiðslu þessa máls, en auðvitað verðum við að gaumgæfa þessi mál ekki síður en önnur sem til okkur er vísað.