Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Eggert Haukdal:
    Herra forseti. Það ber vissulega að fagna þeirri miklu samstöðu sem nú hefur náðst um afgreiðslu þeirra verkaskipta- og tekjustofnafrumvarpa sem hér eru til umræðu hvort á eftir öðru. Þar sem frumvörp þessi eru nátengd mun ég fjalla um þau bæði í máli mínu.
    Það hefur tekið langan tíma að ná þessum árangri og það er kannski ekki óeðlilegt miðað við hversu sveitarfélögin í landinu eru misjafnlega sett hvað varðar stærð og aðstæður. Af þeirri ástæðu hefur skort samstöðu meðal sveitarstjórnarmanna. Minni sveitarfélögin hafa óttast um hag sinn kæmi til breytinga. En það hefur tekist að leysa þennan ágreining með farsælu starfi margra góðra manna.
    Með samþykkt frumvarpanna er komið á hreinni skilum í verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaganna og með ákveðinni verkaskiptingu og úrbótum á tekjustofnum er valdið fært heim í hérað. Að mínum dómi á valdið að vera hjá ríkinu og sveitarfélögunum. Það vantar ekkert millistig. Um hin stærri mál sem minni sveitarfélög geta ekki leyst ein er eðlilegt að fleiri sveitarfélög taki höndum saman og við höfum mörg dæmi um slíka samvinnu sem víða hefur gefist vel og mun fara vaxandi.
    Í öllum ágreiningi sem er uppi á hv. Alþingi í hinum stærri málum eru þessi mál og málalok sem ljós í myrkrinu. Það ber að þakka og það sem veldur þessu er fyrst og fremst góð forusta stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga þar sem í sitja þaulreyndir sveitarstjórnarmenn úr flestum flokkum. Einnig ber að þakka réttsýnum mönnum úr ráðuneytum. Góð samstaða þessara manna gerir að verkum að allir stjórnmálaflokkarnir á Alþingi taka fullt tillit til þeirra.
    Of lengi er búið að tala um þessi mál án þess að koma þeim í framkvæmd. Hefði málið farist fyrir eitt árið enn er hætt við að langt væri í land. Þvert á móti blasa nú við mikil tímamót í þessum málum. Menn hafa verið hræddir við að ekki væri nógu vel séð fyrir minni sveitarfélögunum þegar þetta spor yrði stigið svo sem fyrr kom fram í máli mínu. En ég vil trúa því að breytingar á Jöfnunarsjóðnum muni koma í veg fyrir að hin smærri verði út undan. Komi hins vegar upp mismunun í framkvæmd sem þarf að leiðrétta er þess að vænta að það verði lagfært með jafnbreiðri samstöðu og nú liggur fyrir. Það er ástæða til að undirstrika að það var búið að leggja í þetta verk áravinnu og það var orðin nauðsyn að árangur færi að koma í ljós svo sem nú er að verða. En að mörgu leyti hefur undirbúningur þessa máls verið til fyrirmyndar þótt leiðin sé orðin löng að þessu marki.
    Varðandi verkaskiptafrv., sem er mjög mikilvægt fyrir sveitarfélögin og styrkir vitund þeirra í hlutverki sínu, vil ég segja þetta:
    Hér er tekið á flestum þeim verkefnum sem fram að þessu hafa valdið spennu og erfiðleikum í samskiptum þessara tveggja stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga. Veigamestu verkefnin sem flutt verða á milli aðila eru bygging grunnskóla og rekstur annar en kennslulaun. Hér er um mjög mikla breytingu að ræða

sem margir hafa óttast að sveitarfélögin réðu ekki við, en samkvæmt nýrri skiptingu Jöfnunarsjóðs, m.a. til stofnframlaga, eiga minni sveitarfélög greiðari aðgang að fé til stofnframlaga en áður og reikna má með að hærri upphæð fari til þessara mála í dreifbýli en áður. Rekstur framhaldsskóla fer alfarið til ríkisins, en aðilar standa áfram saman að byggingu um 40%:60%.
    Rekstur tónlistarskóla flyst til sveitarfélaga sem hér eftir greiða kennslulaun í þeim skólum er uppfylla skilyrði laga og er sveitarfélögum séð fyrir tekjum til að standa undir þessum kostnaði, þeim minni frá Jöfnunarsjóði, þeim stærri með auknum fjárráðum, m.a. vegna niðurfellingar greiðslna til sjúkratrygginga. Vonandi setja sveitarfélögin áfram metnað sinn í að reka tónlistarskólana með myndarbrag.
    Miklar breytingar eru gerðar á þeim málum sem falla undir heilbr.- og trmrn. Sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins lögðu á það mikla áherslu að rekstur heilsugæslunnar færðist alfarið til ríkisins og bentu m.a. á misvægi í kostnaði þar sem samrekstur sjúkrahúsa og heilsugæslu væri til staðar. Á þetta hefur verið fallist og jafnframt að halda óbreyttri kostnaðarskiptingu í uppbyggingu heilbrigðismannvirkja, 85:15%. Mestu millifærslurnar í fjármunum felast þó í yfirtöku ríkisins og Atvinnuleysistryggingasjóðs á allri sjúkratryggingunni sem samanlagt gæti numið um 1400 millj. kr. á næsta ári. Hér er um að ræða kostnað sem sveitarfélögin hafa ekki nein umráð yfir og hefur vaxið allt að því stjórnlaust undanfarið. Hér hefur kostnaður við tannlækningar vegið þungt.
    Gert er ráð fyrir uppgjöri milli ríkis og sveitarfélaga varðandi útistandandi byggingarskuldir vegna skólamannvirkja, dagvistunarheimila og íþróttamannvirkja. Það er mjög mikilvægt mál og mikið í húfi að rétt sé að staðið. Gert er ráð fyrir að uppgjör taki fjögur ár.
    Í stuttu máli má segja um verkaskiptafrv. að það sé við það miðað að efla sjálfsvitund og sjálfstjórn heimamanna og um leið eru gerðar til þeirra auknar kröfur. Sveitarfélögin fagna þessari þróun og munu vonandi sýna að þau eru þessum vanda vaxin. En ríkisstjórn á hverjum tíma má heldur ekki hér eftir
skerða Jöfnunarsjóðinn með þeim hætti sem of oft hefur verið gert.
    Varðandi tekjustofnafrv. vil ég segja þetta:
    Í allri umræðunni um breytta verkaskiptingu hafa menn óttast að ekki yrði gengið nógu vel frá tekjustofnum, svo og uppgjörsmálum milli ríkis og sveitarfélaga. Fram að þessu hefur ráðstöfunarfé Jöfnunarsjóðsins farið til almennra framlaga sem hafa verið jöfn krónutala á hvern íbúa. Aðeins 6% af ráðstöfunarfé sjóðsins hefur farið í tekjujöfnun milli sveitarfélaganna.
    Samkvæmt frv. er Jöfnunarsjóði gerbreytt og sjóðurinn gerður að virkilegum jöfnunarsjóði sem nú á að veita framlög til sérstakra verkefna og jöfnunarframlög til sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins, samanlagt um 750 millj. kr. ef þessi breyting gengur fram. Í frv. er lagt til að

almennu framlögin hverfi, en stærstur hlutur gangi til að greiða sveitarfélögunum framlög vegna breytinga á lögunum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga svo og til jöfnunarframlaga, en þau hefðu þurft að vera fimmföld á síðasta ári ef vel hefði átt að vera. Nú er ætlað samkvæmt frv. að verja hluta af þessu fé til að standa undir eðlilegri þjónustu hjá minni þéttbýlissveitarfélögum sem ekki hafa nægilegar tekjur til að sinna henni. Verkaskiptaframlögin munu fyrst og fremst ganga til dreifbýlissveitarfélaga til að bæta þeim aukinn kostnað sem þau verða fyrir vegna breyttrar verkaskiptingar. Lögð er áhersla á að sveitarfélögin eigi ekki að vera verr sett en áður. Það er meginmálið. Og 16. gr. frv. um tekjustofna segir fyrir um að hagur sveitarfélaganna verði ekki lakari eftir breytingarnar en áður var. Markmiðið ætti auðvitað að vera að hann yrði betri, en það mun koma í ljós.
    Úthlutun framlaga úr Jöfnunarsjóði á að vera í höndum nefndar þar sem fjórir af fimm nefndarmönnum eru tilnefndir af stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Vert er enn að undirstrika að með setningu reglugerðar samkvæmt lögunum um nýtingu tekjustofna verður að tryggja hag þeirra sveitarfélaga sem minnstu getuna hafa til að takast á við þau verkefni sem koma í þeirra hlut.
    Herra forseti. Ég á sæti í félmn. þessarar hv. deildar sem fær þetta mál til meðferðar og mun þar taka þátt í ásamt öðrum nefndarmönnum að hraða meðferð þessara mála þannig að þau verði lögfest á þessu þingi.