Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Þetta mál er svo mikilvægt að mínum dómi að ég má til að segja um það örfá orð. Aðdragandi þess er orðinn mjög langur. Við sem hér erum inni getum sennilega ýmsir bent á að við höfum einhvern tímann verið í nefnd sem fjallaði um þetta málefni. En svo stórt sem það er og varðar miklu er þetta enn eitt dæmi um mál sem kemur frá Ed. undir þinglok og búið er að sníða í svo nákvæman búning að það má helst engu hagga svo að ekki sé hætta á því að það strandi á þinginu.
    Það er leitt ef svo skyldi vilja til því að þetta mál þarf sannarlega að ná landi. Það er búið að velkjast svo lengi. Ég ætla mér þess vegna að koma örfáum athugasemdum á framfæri þannig að við getum glöggvað okkur á því, bæði á þessari stundu og eins jafnvel vitnað í það síðar meir ef vonir okkar rætast ekki. Ég held stundum að áhugasamir og ágætir forsvarsmenn sveitarfélaganna leggi of mikla áherslu á að þar sé sami málaflokkurinn allur á sömu hendi. Að því leyti er ég á margan hátt sammála hv. 2. þm. Austurl., hæstv. forseta, þar sem hann ræddi um hugmyndafræði þessa máls.
    Ég vil koma á framfæri einni athugasemd eða fleirum þannig að hv. þm. festi sér það í minni því sannarlega ala menn nokkurn ugg í brjósti úti um byggðir landsins hvernig þessum málum vindur fram. Það er sérstaklega óttinn við að enn halli á strjálbýlið sem vekur mönnum þennan ugg í brjósti.
    Ég ætla að leyfa mér að vitna í bréf frá skólastjórum sveitaskóla á Vesturlandi frá því í febrúar sl., taka upp eina setningu, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir svo: ,,Verði frumvarp þetta að lögum er ástæða til að halda að enn breikki bil þeirra nemenda er stunda nám í dreifbýli og þéttbýli.`` Við skulum vona að þessi ótti sé ástæðulaus, en eigi að síður er rétt að hafa þetta hugfast.
    Þá hefur verið minnst á tónlistarskólana. Satt að segja eru þeir orðnir svo njörvaðir inn í þetta verkaskiptafrumvarp að það verður sennilega erfitt að hagga þar nokkru svo að ekki fari allt út böndunum. En að mínum dómi hafa tónlistarskólar úti um land þróast á undanförnum árum á mög skemmtilegan hátt að mörgu leyti. Lögin um tónlistarskóla, þar sem kveðið er svo á að kaup kennara skuli greitt að hálfu af ríkinu, eru kannski ekki svo geysimikill stuðningur. Eigi að síður hefur það þar sem ég þekki til haft þau áhrif að heimamenn hafa hugsað sem svo: Fyrst ríkið býður þennan stuðning skal hlutur okkar ekki eftir liggja. Upp úr þessu samstarfi ríkis og heimamanna hefur á ýmsum stöðum vaxið blómlegt tónlistarlíf. Ég viðurkenni hins vegar að löggjöf um þetta efni þarf að endurskoða, enda eru þessi mál núna í deiglunni. En það er greinilegt að í þessu máli hefur stuðningur ríkisins orðið mikill hvati til dáða á þessu sviði.
    Við skulum vona að þessi æskilega þróun haldi áfram og þá er að vitna í hv. 3. þm. Suðurl. sem sagði í sinni ræðu áðan: Vonandi leggja sveitarfélögin metnað sinn í það að reka tónlistarskólana vel. --- Þetta verðum við að vona. En til þess þarf stuðning.

    Það sýnir áhyggjur manna í þessum efnum t.d. að fyrir nokkrum dögum skuli leiðari í einu dagblaði bera yfirskriftina ,,Tónlistarskólar í hættu``. Þar er lýst áhyggjum þeirra sem hafa áhuga á þessum málum. En þarna verðum við sennilega einnig að vona að vel fari.
    Það var minnst áðan á Jöfnunarsjóðinn og það var minnst á styrk við vatnsveituframkvæmdir. Það er hverju orði sannara að á undanförnum árum hafa sveitarfélögin notið góðs stuðnings við vatnsveituframkvæmdir. Ég minnist þess að allt frá árinu 1947 hefur verið talið að þessi stuðningur væri í allgóðu lagi. Nú taka sveitarfélögin við þessum verkefnum og þá er enn að vona að þau geti sinnt þeim, enda munu þessi mál, lán til vatnsveituframkvæmda, vera efst á baugi hjá Lánasjóði sveitarfélaga.
    Einhver ágætur áhugamaður og frammámaður í samtökum sveitarfélaga sagði í mín eyru um daginn að þetta frumvarp táknaði sættir milli strjálbýlis og þéttbýlis eða að sættir milli strjálbýlis og þéttbýlis hefðu náðst með þessu máli. Mikið væri ánægjulegt ef svo væri. En að sjálfsögðu verðum við að ástunda það, alþingismenn, að jafna rétt fólksins til sjálfsbjargar í lífsbaráttu þess hvar sem það á heima á landinu. Og við verðum auðvitað að leggja áherslu á öðru fremur að bera sáttarorð milli strjálbýlis og þéttbýlis. Við skulum vona að þetta frumvarp sé spor í þá átt.