Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki verða til að tefja umræður um þetta mál, en ég hlýt þó að standa upp og þakka þá umfjöllun sem það hefur fengið. Því ber vissulega að fagna að svo virðist að jafnbreið samstaða sé um þetta mál í hv. Nd. og var í Ed. Það er vissulega ánægjuefni í svo stóru efni sem þetta er að um það sé svo góð samstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Það hafa líka komið fram hjá ýmsum ábendingar um það sem menn telja að betur mætti fara og það er ekki skrýtið í svo stóru máli sem þessu að menn telji að ýmislegt geti orkað tvímælis og álitaefnin séu einhver, en ég held þó, eins og hér hefur komið fram hjá mörgum, að þetta mál hafi fengið svo ítarlega skoðun og eigi sér svo langan aðdraganda að menn geti vænst þess að góðar vonir standi til þess að það skili árangri fyrir sveitarfélögin. Ég hygg líka að það sem greiði götu málsins á þingi sé að hér liggur fyrir, sem ekki lá fyrir á síðasta þingi, heildarmynd af þessu máli, þ.e. bæði frumvarpið um verkaskiptinguna og um tekjustofna, sem og að fyrir þær nefndir þingsins sem um þetta mál fjalla verða lögð drög að reglugerð varðandi Jöfnunarsjóðinn.
    Af því sem fram hefur komið í máli einstakra ræðumanna tel ég mega ráða að þetta mál hafi fengið mjög mikla kynningu. Það var vissulega sent til allra sveitarstjórna og það hafa verið haldnir fundir á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga og félmrn. með flestum ef ekki öllum landshlutasamtökunum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, hæstv. forseti, að fara ofan í einstök atriði sem hafa verið nefnd í dag. Menn hafa sett fram áhyggjur að því er varðar tónlistarskólana, að því er varðar grunnskólana svo dæmi séu nefnd.
    Ég nefni að það kom fram í máli hv. 6. þm. Suðurl. að hann hefur áhyggjur af hlut grunnskólanna í þessari breytingu og orðaði það svo að hrikta muni í hjá fámennari sveitarfélögunum. Ég hygg þó að þegar litið er til þeirra draga að reglugerð sem liggur fyrir og verður send hv. félmn., þar sem fram kemur ítarleg sundurliðun á því hvernig þessum framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði háttað, bæði að því er varðar bundin framlög, sérstök framlög og jöfnunarframlög, komi vel fram einmitt í þeim reglugerðardrögum að það er lögð sérstök áhersla á að hlutur fámennari sveitarfélaganna sé ekki fyrir borð borinn.
    Ég vil nefna það sérstaklega, sem væntanlega kemur einnig fram þegar við ræðum frumvarp um tekjustofnana í þessu sambandi, að jöfnunarframlög eru í raun margfölduð við þessa breytingu. Það er um að ræða fimmföldun að því er varðar jöfnunarframlögin. Að því er varðar sérstök framlög sem fara til þess að bæta fámennari sveitarfélögum upp kostnaðarsamar stofnframkvæmdir og aðstoða dreifbýlissveitarfélög til að standa undir auknum rekstrarkostnaði við grunnskóla og tónlistarskóla, þá er um verulega háar fjárhæðir að ræða, eða til viðbótar nálægt 350 millj. kr. Að auki ber á það að líta að

hlutir eins og sjúkratryggingar og atvinnuleysistryggingar hafa verið þung byrði fyrir hin smærri sveitarfélög en er nú létt af þeim. Allt þetta verða menn að hafa með í myndinni þegar menn skoða dæmið í heild sinni.
    Ég tel fullvíst að það hafi verið lögð sérstök áhersla á það við samningu þessa frumvarps og við smíði reglugerðardraganna að hagur dreifbýlissveitarfélaganna sé ekki fyrir borð borinn. Enda er það beinlínis tekið fram í drögunum að reglugerð að áhersla sé á það lögð að hagur dreifbýlissveitarfélaganna verði ekki lakari eftir verkaskiptinguna en áður var. Það er auðvitað grundvallaratriði sem við verðum að ganga út frá.
    Að því er varðar dagvistarheimilin, sem nokkuð hafa verið nefnd, þá ber ég ekki kvíðboga fyrir því að þessir veigamiklu málaflokkar, þ.e. dagvistun og tónlistarskólarnir, séu ekki vel settir í höndum sveitarfélaganna. Við skulum líta á það að varðandi tónlistarskólana t.d. hefur frumkvæðið og forræði í þeim málum raunverulega verið hjá sveitarfélögunum. Ríkið hefur einungis komið inn að því er varðar hálf kennslulaunin, en sveitarfélögin hafa haft forræði í málinu að því er varðar reksturinn. Að því er varðar dagvistarheimilin þá hefur reksturinn verið hjá sveitarfélögunum og stofnkostnaðurinn áður skipst milli ríkis og sveitarfélaga.
    Ég hygg að sá ótti, sem fram hefur komið um að það mundi draga úr faglegri umsjón menntmrn. við þessa breytingu, sé ástæðulaus og vitna til þess að í lögum um dagvistarheimili kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta: ,,... að ráðuneyti skal hafa í þjónustu sinni starfsmann sem lokið hefur námi í Fósturskóla Íslands eða í sambærilegum skóla og hlotið framhaldsmenntun. Auk þess skal hann hafa reynslu í uppeldisstarfi. Þessi starfsmaður skal athuga allar umsóknir um húsaskipan og rekstur dagvistarheimila áður en leyfi er veitt. Ber honum að hlutast til um að fullnægt sé öllum ákvæðum sem lög þessi og reglugerðir mæla fyrir um varðandi byggingu og rekstur dagvistarheimila. Hann skal vera stjórnendum dagvistarheimila til ráðuneytis um starfsemi heimilanna og annast eftirlit með þeim.`` Þessi grein stendur eftir óbreytt þrátt fyrir þessa breytingu.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að ræða frekar um þetta mál. Mér gefst tækifæri til þess þegar rætt verður um frumvarpið um tekjustofnana. Ég
vil þó nefna hér í lokin að það kom fram viss ótti hjá sumum þingmanna sem hér töluðu að því er varðar uppgjörsmálin. Ég held að reynt hafi verið að sjá fyrir því eins og kostur er á þessu stigi málsins. Það liggur fyrir lausleg áætlun um skuldastöðu ríkissjóðs og er hún áætluð tæplega 1100 millj. kr. og síðan er lagt til að komið verði upp sérstakri úrskurðarnefnd til að skera úr ágreiningi sem upp kann að koma á milli ríkis og sveitarfélaga að því er varðar þessi uppgjör. Nefndin á að vera skipuð þrem mönnum, einum tilnefndum af menntmrh., einum af Sambandi ísl. sveitarfélaga og oddamanni tilnefndum af Hæstarétti.

Ég tel mjög mikilvægt að slíkt sé fyrir hendi ef ágreiningur kemur upp í þessum málum.
    Herra forseti. Ég þakka svo þær umræður sem hér hafa orðið og fagna þeirri samstöðu sem virðist vera í sjónmáli um að þetta mál verði að lögum á þessu þingi.