Tekjustofnar sveitarfélaga
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Þetta frv. sem hér er til umræðu, frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga, er vitaskuld hluti þeirrar heildar sem hér var fyrr á dagskránni, frv. til laga um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Ég ætla mér ekki við þessa umræðu að fara mjög náið út í þetta mál. Hins vegar finnst mér mestu skipta í þessu sambandi breytingin sem fyrirhuguð er með þessu frv. á Jöfnunarsjóðnum. Eins og segir í athugasemdum með frv. er greiðslum úr sjóðnum breytt þannig að almennu framlögin verða felld niður, en þau hafa verið megineinkenni þessa sjóðs frá upphafi vega og hafa numið um *y2/3*y hlutum af útgjöldum sjóðsins fram að þessu. Þau eiga að heyra sögunni til. Þess í stað verði útgjöldum sjóðsins skipt í þrennt. Í fyrsta lagi eru það bundin framlög, í annan stað sérstök framlög og í þriðja lagi jöfnunarframlög. Bundnu framlögin sem hér er um að ræða verða samkvæmt þessu röskur þriðjungur sjóðsins. Mynd á bls. 17 í fskj. II. með frv. gefur eiginlega gleggsta mynd af þessu. Þar er sett upp dæmi sem sýnir að gert er ráð fyrir að tekjur sjóðsins verði á árinu 1988 um 1100 millj. kr. Röskur þriðjungur, eða 32,2%, eiga að fara í bundin framlög. Til Sambands ísl. sveitarfélaga fara 1,75%, til landshlutasamtaka sveitarfélaga 2%, til Lánasjóðs sveitarfélaga 6,1%. Þetta er nú tiltölulega lítið af þessum röska þriðjungi, en það vekur sérstaka athygli að Innheimtustofnun sveitarfélaga á í þessu dæmi að fá um 220 millj. kr. af þessum 354. Það held ég að sé út af fyrir sig nokkurt áhyggjuefni hversu drjúgur hluti fer til þess hluta.
    Gert er ráð fyrir að sérstöku framlögin verði um þriðjungur þessa verkefnis Jöfnunarsjóðs, eða 32,1%. Þessi sérstöku framlög eru vegna sameiningar sveitarfélaga, vegna 90. gr. sveitarstjórnarlaga, en ekki er raunar gerð frekari grein fyrir því í þessu dæmi, til kostnaðarsamra stofnframkvæmda um 8% og síðan vegna verkaskiptanna annars vegar 15,5% í fyrri hluta sérstakra framlaga og síðan 7,3%. Þá er eftir röskur þriðjungur af verkefni Jöfnunarsjóðs, eða 35,6%, og það eru jöfnunarframlögin. Þau framlög samsvara í rauninni því sem áður voru kölluð aukaframlög Jöfnunarsjóðs og voru framlög vegna þeirra sveitarfélaga sérstaklega sem báru skarðan hlut frá borði hverju sinni, höfðu lægri meðaltekjur en sambærileg sveitarfélög á hverjum tíma. Mér finnst þetta vera meginefni þessa máls, þ.e. breytingin á Jöfnunarsjóðnum.
    Ég vildi aðeins í þessari stuttu ræðu minni fjalla um einn þátt þessa máls, en það er 17. gr. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að afloknum sveitarstjórnarkosningum skipar félmrh. fimm manna ráðgjafarnefnd til fjögurra ára sem gera skal tillögur til ráðherra um framlög skv. c-, d- og e-lið 13. gr. og skv. 14. gr. Fjórir nefndarmenn skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga en einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti.``

    Hvert á nú að vera hlutverk þessarar stjórnskipuðu nefndar sem skipuð er eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar? Meginhlutverk nefndarinnar er ráðgjöf til ráðherra um útdeilingu þess fjár sem hér er um að ræða sem að því er mér sýnist virðist vera um það bil *y2/3*y hlutar Jöfnunarsjóðsins og rösklega það, þ.e. sérstöku framlögin og jöfnunarframlögin. Þessi stjórnskipaða nefnd á að fjalla um það hér suður í Reykjavík og útdeila þessu fé og vitaskuld á grundvelli reglugerðar á ári hverju.
    Nú er það svo að útdeiling Jöfnunarsjóðs hefur auðvitað verið héðan í Reykjavík, annars vegar samkvæmt höfðatölureglunni og hins vegar aukaframlögin. Ég held að það væri mjög til bóta ef frv. nær fram að ganga, sem ég í rauninni efast ekkert orðið um, ef þessari 17. gr. yrði breytt og þetta skiptingarvald yrði flutt frá ráðuneytinu til landshlutanna að einhverju leyti. Ég vildi kynna hér hugmynd að brtt. hvort sem hún kæmi fram í félmn. Nd. eða á seinni stigum þessa máls. Jafnvel er hugsanlegt að hún gæti að langmestu leyti komið fram í reglugerð, en hugmyndina að breytingum vildi ég hér með kynna. Ég tel að það mætti orða þetta eitthvað á þessa lund:
    Framlög skv. c-, d- og e-lið 13. gr. og b-lið 14. gr. skiptist af félmrn. á milli kjördæma samkvæmt hlutfalli íbúa dreifbýlissveitarfélaga í hverju þeirra.
    Þarna væri um það að ræða að gróf skipting á þessu fé á hverju ári færi fram á milli kjördæma. Seinni hlutinn yrði síðan eitthvað í þessa veru: Stjórnir samtaka sveitarfélaga í viðkomandi kjördæmum eða dreifbýlisnefndir á vegum þeirra sjái síðan um nánari skiptingu á milli einstakra sveitarfélaga.
    Þeir sem nær eru vettvangi, þeir sem betur þekktu til á hverjum stað ættu þannig hér hlut að máli en ekki einungis fimm menn í Reykjavík sem ætluðu að grandskoða hjörtun og nýrun í þessu efni. Ég held að það væri slæmur kostur.
    Eins og ég sagði áðan þá kann vel að vera að hægt sé að koma þessari hugmynd betur fyrir í reglugerð og síðan í framkvæmd. Mér kæmi ekki á óvart ef það næði fram að ganga að það gæti þýtt það að samtök sveitarfélaga út um allt land fengju í sinn hlut vegna þessa starfs, sem yrði árlegt, um 2% hærra hlutfall í tekjum en hér er gert ráð fyrir.