Endurbætur forsetasetursins á Bessastöðum
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst fagna því að hæstv. ríkisstjórn skuli hér hafa flutt frv. til laga um endurbætur og framtíðaruppbyggingu á Bessastöðum. Það er orðið kunnugt að viðhald þeirra merku húsa hefur ekki farið fram um alllangan tíma með þeim hætti sem nauðsynlegt hefði verið. Bessastaðir sem forsetasetur og þjóðareign þurfa líka að taka uppbyggingu og aðlögun að nýjum aðstæðum og auknu hlutverki í ljósi breyttra tíma.
    Eins og fram kom hjá hæstv. forsrh. var að undangenginni athugun þessara mála skipuð sérstök nefnd í samráði við forseta Íslands til þess að gera tillögur um uppbyggingu Bessastaða og endurbætur. Hv. 1. þm. Reykn. hefur veitt þeirri nefnd forstöðu. Ég tel að það sé sérstakt fagnaðarefni fyrir Alþingi hversu mikla rækt forseti Íslands hefur lagt við Bessastaði og sögu þeirra og það sé skylda löggjafarsamkomunnar nú að taka myndarlega á málefnum Bessastaða varðandi þá nauðsynlegu uppbyggingu sem þar blasir nú við.
    Það er augljóst að þetta verkefni þarf að skilja frá almennum rekstri forsetaembættisins. Bessastaðir eru meira en bara forsetasetur. Þeir eru þjóðareign. Bessastaðastofa er þjóðarhús. Það er skynsamlegt að ákveða þessar framkvæmdir með sérstakri löggjöf. Það kostar auðvitað fjármuni en ég er þeirrar skoðunar að við höfum miklum skyldum að gegna við Bessastaði. Þeir eiga djúpar rætur í íslenskri sögu. Þeir eru tákn hins forna konungsveldis erlendra yfirráða um leið og þeir eru tákn hins unga íslenska lýðveldis. Þeir eru líka tákn merkilegra atburða í bókmenntum og menningarsögu Íslendinga og skólasögu Íslendinga. Við höfum þess vegna margs konar skyldur við Bessastaði og fyrir því tel ég brýnt og mikilvægt að þær ákvarðanir séu nú teknar sem hér eru gerðar tillögur um í frv. hæstv. ríkisstjórnar sem marka ramma um þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru. Mitt mat er það að í þær þurfi að ráðast af reisn og myndarskap, en ég treysti um leið þeim sem verkstjórn verður falin að gæta þeirrar hógværðar og þess látleysis sem um leið eiga að einkenna Bessastaði í ljósi sögunnar.