Umhverfismál
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Ég get verið sammála hæstv. forsrh. þegar hann segir að við séum hér að fjalla um eitt af þýðingarmestu málunum sem eru til umfjöllunar í dag. Ég get líka verið sammála honum um það að við séum hér að fjalla um eitt með viðkvæmari málum sem eru á dagskrá, ekki aðeins hér hjá okkur heldur úti í hinum stóra heimi. Þess vegna furða ég mig á því ef hæstv. forsrh. í raun og veru meinar það sem mér fannst koma fram í hans ræðu að hann ætlaði Alþingi Íslendinga að fjalla um þetta mál, komast að niðurstöðu og afgreiða það sem lög frá Alþingi á þeim stutta tíma sem eftir er af þinginu nú í vor.
    Það er rétt, sem fram kom hjá hæstv. forsrh., að þetta mál hefur verið á dagskrá ríkisstjórna á undanförnum árum og er kominn nú nærri hálfur annar áratugur frá því að málið var fyrst tekið upp af þáv. ríkisstjórn sem Geir Hallgrímsson veitti forsæti. Það hefur síðan verið til umfjöllunar en ekki hefur náðst samstaða um það með hvaða hætti og hvernig þessum hlutum skyldi fyrir komið.
    Á þessu þingi hafa verið til umfjöllunar fyrst till. til þál., 150. mál þingsins, um umhverfisráðuneyti, síðan frv. til l. um samræmda stjórn umhverfismála, 230. mál þingsins. Annars vegar er í tillögu á þskj. 159, 150. máli, gerð grein fyrir því með hvaða hætti flm. telja rétt að stofnað sé til umhverfisráðuneytis sérstaklega, sérstaks ráðuneytis, og hvernig skuli unnið að þeirri löggjöf, því frumvarpi sem fyrir þingið yrði lagt. Ég verð að segja að þegar sú tillaga er lesin, hvort sem menn eru henni sammála eða ekki, þá er undirbúningurinn og vinnan sem lögð hefur verið í þá tillögu með þeim hætti að það frumvarp sem hér er til umræðu stenst ekki samanburð.
    Ég vík þá að frv. á þskj. 431, 230. máli þingsins, sem nokkrir þingmenn Sjálfstfl. hafa flutt. Þáltill. er flutt af þingmönnum Kvennalistans. Það frv. er nokkuð breytt frv. sem unnið var af ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og lagt fram á síðustu dögum þings vorið 1988. Á því hafa verið gerðar nokkrar breytingar. Mín skoðun er sú að það frv. sem hæstv. forsrh. talar hér fyrir standist ekki samanburð við það frv., enda var undirbúningur þess frv. með þeim hætti að haft var samráð við fjölmarga aðila, við öll ráðuneyti, við fjölmargar og flestallar stofnanir sem þar höfðu að gæta atriða sem þýðingu hafa. Þannig var reynt að ná með því frv. eins víðtæku samkomulagi og mögulegt var um samræmda stjórn umhverfismála. Í því frv. er gert ráð fyrir að einu ákveðnu ráðuneyti sé breytt þannig að það taki til sín ákveðin atriði og verði umhverfisráðuneyti. Þar er gert ráð fyrir nánu samstarfi allra þeirra ráðuneyta sem með umhverfismálin fara, en öll stjórnum mála sett undir eina stjórn sem skipuð yrði fulltrúum allra þeirra ráðuneyta sem um þessi mál fjalla, en sá ráðherra sem hér er gert ráð fyrir, umhverfis- og samgönguráðherra eða samgöngu- og umhverfisráðherra, honum er ætlað að bera ábyrgð á þessum málaflokki og þegar um ágreining væri að ræða þá skæri hann úr.
    Hér er farin sú leið sem flestir þeirra aðila sem

fjölluðu um þessi mál töldu rétt að fara. Vissulega var það ekki ágreiningslaust það frv. sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar vann að af þriggja manna nefnd undir forustu Sigurðar M. Magnússonar, en á frv. voru gerðar breytingar sem einmitt tóku tillit til þess, þeirra atriða, þeirra ábendinga sem fram höfðu komið.
    Þegar um er að ræða frv. til l. um umhverfismál þá erum við að fjalla um þýðingarmikinn þátt í íslensku stjórnkerfi. Við erum að fjalla um hluta af Stjórnarráði Íslands. Og eins og öllum er ljóst er umhverfismálum í dag víða þannig fyrir komið að um er að ræða nokkuð miklar breytingar á stjórnlögum og þess vegna mjög þýðingarmikið að að þessu sé unnið með þeim hætti að ekki sé þar rasað um ráð fram. Það er ekki aðeins að verið sé að fjalla um stjórnkerfið, Stjórnarráðið, heldur er líka verið að ræða um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, hvernig annars vegar ríkið sinnir hlutunum og hins vegar hvernig sveitarfélögunum er ætlað að sinna sínum þáttum í stjórnkerfinu. Það hlaut því að verða nauðsynlegt fyrir hæstv. forsrh. og þann sem vann að samningu þessa frv., það hlaut að vera nauðsynlegt fyrir hann og ráðuneytið að gera sér grein fyrir með hvaða hætti litið væri á þær hugmyndir sem til umfjöllunar voru, hvort heldur það var í sjálfu Stjórnarráðinu eða að um var að ræða samskipti ríkis og sveitarstjórna.
    Það er ljóst af öllum þeim viðbrögðum sem átt hafa sér stað síðan þetta frv. var lagt fram að hvorugt hefur verið gert. Það er ljóst að í einstökum ráðuneytum, og einstakir ráðherrar hafa látið í umfjöllun hafa eftir sér þau orð, hefur þetta frv. ekki verið til umfjöllunar, annars vegar á milli forsrn. og einstakra ráðuneyta. Það er enn fremur ljóst af viðbrögðum sveitarstjórnaraðila að við samtök þeirra hefur ekki verið haft samband þannig að frv. er samið í forsrn. án þess að haft sé samband við þá aðila sem hér skipta máli.
    Ef frv. sem slíkt er virt fyrir sér þá verð ég að leyfa mér að segja að það er illa unnið og mér finnst ekki að það sé virðingu Alþingis samboðið að forsrn. leggi fram frumvarp --- forsrh. er ekki hér, er sagt. Hann hefur eitthvað brugðið sér frá og getur haft kannski ástæðu til þess að hafa þurft
að bregða sér frá. En ég vænti þess að forseti kanni hvort forsrh. sé langt undan. --- Ég tel að frv. sé þannig úr garði gert að það sé fyrir neðan virðingu Alþingis að það sé borið fram af ríkisstjórn og ætlast til þess að það nái hér fram að ganga.
    Ég hef aldrei séð í frv. aðra eins lagaupptalningu þar sem ætlað er að ,,fela einu ráðuneyti``, eins og það er orðað, ,,að stofna til samstarfs á milli stofnana`` og síðan talin upp nokkur kippa laga sem fjalla um hinar einstöku stofnanir.
    Hæstv. forsrh. vék hér að 9. gr. frv. og taldi upp þær stofnanir sem gert er ráð fyrir að samstarf verði á milli og hann vék að 7. gr. En allt er þetta með þeim hætti að hver sá sem les og virðir fyrir sér þessa hluti verður mjög hissa. Þó verður manni nú á að spyrja, og ég hefði gjarnan viljað geta spurt hæstv.

forsrh. að því þegar hann væri kominn hvar og hvernig stæði á þeim ákvæðum sem sérstaklega vikið er að í 5. gr. frv. ( Forseti: Það skal fram tekið að hæstv. forsrh. tjáði mér að hann þyrfti að bregða sér frá í fimm mínútur og ég hef þegar gert ráðstafanir til þess að fylgst verði með því að hann standi nokkurn veginn við það.)
    Á meðan við hinkrum eftir hæstv. forsrh. vil ég víkja að frv. sem slíku og gera samanburð og benda á að samræmið á milli 1. og 2. gr. þess er ekki fyrir hendi. Það sér hver sem les þessar greinar og nánast gefur þetta strax tilefni til að gera sér grein fyrir því að sá sem hefur samið frv. gerir sér ekki grein fyrir því hvar og með hvaða hætti þau málefni eru sem fjalla á um í frv. til laga um umhverfismál. Það virðist vera meginatriði frv. að sett sé á stofn umhverfisráðuneyti og það skiptir engu máli hvort menn hafa gert sér grein fyrir því með hvaða hætti eitt slíkt umhverfisráðuneyti skuli starfa, með hvaða hætti málefni skuli flutt úr einu ráðuneyti yfir til umhverfisráðuneytis, heldur, númer eitt, tvö og þrjú, verði stofnað umhverfisráðuneyti og einhver lög endurskoðuð, þessi lög jafnvel endurskoðuð innan tveggja ára, og ekki með nokkrum hætti hægt að átta sig á hvernig starfsskiptingin skuli verða.
    Hæstv. forsrh. tók hér áðan sem dæmi Hollustuvernd ríkisins. Það er gert ráð fyrir að hluti af henni heyri til umhverfisráðuneytinu og annar hluti ekki. Í dag fer Hollustuvernd með eftirlit varðandi mengunarmál og heilbrigðismál. Hér er gert ráð fyrir að þetta verði klofið upp.
    Þannig væri hægt að rekja fjölmörg atriði sem sýna fram á með hvaða hætti unnið er að frv., að þeir aðilar sem standa að því gera sér enga grein fyrir því hvernig framkvæmd þessara mála skuli vera. Það er m.a. ætlast til þess að þetta verði að lögum fyrir 1. sept. á þessu ári og það er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði frv. hvernig stöðuheimildum skuli deilt upp. Það segir í ákvæði til bráðabirgða, 2. tölul.:
    ,,Stöðuheimildir mengunarvarnadeildar Hollustuverndar ríkisins, mengunarvarnadeildar Siglingamálastofnunar, Náttúruverndarráðs og embættis veiðistjóra skulu frá gildistíma laganna heyra undir umhverfisráðuneyti.``
    Þarna er gert ráð fyrir því að ákveðnar stöður hjá ákveðnum stofnunum skuli heyra undir umhverfisráðuneyti en aðrar stöður skuli heyra undir þau ráðuneyti sem viðkomandi stofnanir heyra undir.
    Þannig er tekið fram í ákvæðum til bráðabirgða að umhverfisráðuneytið skuli í samráði við viðkomandi fagráðuneyti láta semja frumvörp til laga um eftirtalda málaflokka: Um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit er skilji að þau ákvæði laga nr. 81/1988 er sérstaklega varða mengun og umhverfisvernd og færi framkvæmd þeirra undir ráðuneytið. Um eiturefni og hættuleg efni er skilji að þau ákvæði og færi undir ráðuneytið. Um varnir gegn mengun sjávar er geri ráð fyrir að eftirlit með mengun sjávar færist undir ráðuneytið. Um landgræðslu er geri ráð fyrir að eftirlit með ástandi gróðurs færist undir ráðuneytið.

    Þannig er ljóst að frv. er ekki ætlað að samræma umhverfismálin. Miklu frekar er verið að gera frv. sem skapar að mínum dómi árekstra og erfiðleika í stað þess --- eins og fram kemur í því frv. sem ég gat um áðan á þskj. 431, þar sem samræmd er stjórn umhverfismála.
    Ég vék að því hér áðan, hæstv. forsrh., að ég hefði ekki séð frv. unnin fyrir Alþingi með þeim hætti sem þetta frv. er gert og þar sem upp eru talin fjölmörg lög og ætlast til þess að ráðuneytið, eftir að það hefur tekið til starfa, geri einn og annan hlut í sambandi við þetta. En ég ætlaði þó að víkja sérstaklega að 5. gr. frv. sem sýnir betur en nokkuð annað að þeir sem fjalla um þetta, hafa samið þetta, hafa ekki gert sér grein fyrir því um hvað þeir voru að fjalla. Í 5. gr. stendur:
    ,,Umhverfisráðuneyti fer með framkvæmd eftirfarandi sérlaga um varnir gegn mengun og meðferð hættulegra efna: Lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, er varða mengunarvarnir. Lög um varnir gegn mengun sjávar af olíu og hættulegum efnum, nr. 77/1966, nr. 20/1972, nr. 20/1973, nr. 53/1973, nr. 14/1979, nr. 67/1981 og nr. 14/1984.``
    Í lögum nr. 32 frá 5. maí 1986 eru öll þessi lög numin úr gildi.
Bráðabirgðaákvæði þeirra laga segir: ,,Með lögum þessum eru felld úr gildi lög nr. 77/1966 [og nú geta menn borið saman], lög nr. 20/1973, lög nr. 53/1973, lög nr. 67/1981 og lög nr. 14/1984.``
    Mér er ekki alveg ljóst hvernig ráðuneytinu er ætlað að stjórna þessum málum eftir lögum sem þegar hafa verið felld úr gildi.
    Í 9. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, og það er gott að hæstv. heilbrmrh. er kominn í salinn, að stofnað skuli til samstarfsnefndar umhverfisráðuneytis, iðnrn., sjútvrn., félmrn., landbrn. og samgrn. Það hvarflar ekkert að mönnum að heilbrmrn. þyrfti að vera í þessu samstarfi. Ég veit ekki hvort hæstv. heilbrmrh. hefur gert sér grein fyrir þessu en mér sýnist, a.m.k. ef Hollustuvernd ríkisins á að sinna þessum málum og að hluta til vera með eftirlit heilbrigðis og þá undir heilbrmrn. og að hluta til undir umhverfisráðuneytinu, að þá verði að sjálfsögðu fulltrúi heilbrmrn. að vera í þessu samstarfi.
    Mér sýnist af þessu að hér hafi verið ákaflega hroðvirknislega að málum staðið. Mér er hins vegar ljóst og ég veit að hæstv. forsrh. hefur áhuga á þessum málum. Ég hefði hins vegar talið miklu skynsamlegra ef hann hefði tekið upp samstarf við þá aðila sem hann áður hafði verið í samstarfi við og m.a., á ábyrgð hans flokks, unnu að frv. sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar lét vinna og ef menn töldu ástæðu til þess hefði verið reynt að ná fram einhverjum þeim breytingum sem menn töldu að þyrfti að ná fram til þess að þeir gætu sætt sig við það fyrirkomulag sem þar er gert ráð fyrir.
    Spurningin er svo: Hvernig hefur þessu frv. verið tekið og hvert er álit þeirra aðila sem fjalla um þessi mál? Það er ekki langt síðan að hér var til umræðu

till. til þál. um umhverfisráðuneyti og henni vísað til atvmn. Sþ. og hún send til umsagnar. Þær umsagnir sem þangað bárust um sérstakt ráðuneyti, grundvallað á þeim hugmyndum sem fram komu í grg. með tillögunni, voru neikvæðar og ég ætla með leyfi forseta að lesa úr bréfi frá Heilbrigðiseftirliti Eyjafjarðar. Það er framkvæmdastjóri þess, Valdimar Brynjólfsson, sem undir ritar en í bréfinu segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Nýlega hefur verið lögð mikil vinna í að koma á fót svæðisbundnu heilbrigðiseftirliti í landinu. Nokkrum erfiðleikum hefur valdið að sum svæði eru fámenn og dreifbýl og hefur reynst erfitt að koma eftirlitinu á vegna kostnaðar þó ekki sé um nema einn starfsmann að ræða.`` ( Forseti: Eins og hv. ræðumanni er kunnugt hefur þegar verið boðað að fram fari atkvæðagreiðsla tíu mínútur fyrir sjö og forseti hefur áhuga á að standa nokkurn veginn við það þó að hann hafi ekki einblínt það á klukkuna að hann hitti nákvæmlega á það, heldur er aðeins komið fram yfir þann tíma. Ég verð því að óska eftir því við ræðumann, ef hann getur ekki lokið af máli sínu á næstu mínútunni, að hann geri hlé á máli sínu og taki aftur til máls þegar fundi verður fram haldið klukkan hálfníu.) Ég mun þá fresta ræðu minni, herra forseti.
    Virðulegi forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni þar sem ég vildi vekja athygli á því hver væri afstaða ýmissa þeirra sem eiga að búa við þessa löggjöf og hvaða ábendingar þeir hafa gert. Það vill svo vel til að fyrr á þessu þingi hafði verið fjallað um tillögu um umhverfisráðuneyti sem þingmenn Kvennalistans fluttu og sú tillaga hafði verið send til umsagnar og mjög margir sem þetta mál snertir höfðu látið til sín heyra. Mér finnst að það sem fram kemur í þessum umsögnum, sem að verulegu leyti eru neikvæðar, hefði mátt verða til þess að leiðbeina forsrn. við samningu frv. En það er síður en svo að það hafi orðið af því sem sést í frv. til laga um umhverfismál.
    Ég vék að því sem framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Eyjafjarðar ritaði allshn. Sþ., en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Nýlega hefur verið lögð mikil vinna í að koma á fót svæðisbundnu heilbrigðiseftirliti í landinu. Nokkrum erfiðleikum hefur valdið að sum svæði eru fámenn og dreifbýl og hefur reynst erfitt að koma eftirlitinu á vegna kostnaðar þó að ekki sé nema um einn starfsmann að ræða. Stærstu þættir slíks eftirlits eru matvælaeftirlit og umhverfiseftirlit. Ef þessir málaflokkar væru aðskildir gæti orðið mjög erfitt að halda uppi svæðisbundnu eftirliti í hvorum flokknum um sig. Tengsl milli þessara málaflokka eru það mikil að ýmsir erfiðleikar sköpuðust ef þau tengsl væru rofin.`` --- Dæmi um tengslin eru rakin á fylgiblaði sem fylgdi þessari greinargerð. --- Hann heldur síðan áfram: ,,Ég beini þeirri áskorun til háttvirtrar þingnefndar að samþykkja ekki tillöguna um umhverfisráðuneyti nema öll þessi mál hafi verið krufin til mergjar og metið hvað vinnst og hvað tapast. Ekkert gagn er að breyta breytinganna vegna heldur verða þær að skila árangri í umhverfismálum.

Ekki má eingöngu líta á fallegt skipurit nýs umhverfismálaráðuneytis heldur verður að líta á skipurit umhverfismála í heild sinni og tengsl þeirra við aðra málaflokka.``
    Dæmi um tengslin eru rakin á fylgiblaði og þar er t.d. sérstaklega vikið að vatni, þ.e. hvernig matvælaeftirlitið kemur þar að og hvernig umhverfiseftirlitið kemur þar að. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Vatnið er notað til drykkjar, matvælaframleiðslu og hreingerninga og því afar
þýðingarmikið að það sé hreint og heilnæmt og eftirlit sé haft með því.`` Þetta er þáttur matvælaeftirlitsins en síðan kemur þáttur umhverfiseftirlitsins, þar segir: ,,Eftirlit er haft með umhverfi og frágangi vatnsbóla og veitukerfa til þess að tryggja að ekki berist í þau úr náttúrunni efni eða óhreinindi, þar með taldar heilsuspillandi örverur.`` Þannig er vikið að skolpi, þannig er vikið að sorpi, þannig er vikið að meindýrum og vargfuglum og þannig er vikið að hreinlæti og þrifnaði utan húss. Eins og segir í þessu bréfi: ,,Hér er verið að slíta í sundur í stað þess að samræma.``
    Í bréfi frá Hollustuvernd ríkisins, sem enn fremur barst allshn. Sþ. varðandi umrædda till., er vikið að hlutunum með nokkuð svipuðum hætti. Þar er sérstaklega bent á hvernig ætlunin sé að slíta í sundur og skilja að starfsemi sem í dag er hjá einum og sama aðilanum og með hvaða hætti þessi tengsl komi til með að verða ef af slíku yrði, þ.e. stofnun umhverfisráðuneytis. Þar er vikið nákvæmlega að sömu hlutum og bent á hvernig þessi dæmi komi til með að vera ljós og marki iðulega mörk sem eru á milli þessara eftirlitssviða og þau vandamál sem koma til með að rísa ef af þessu yrði.
    Eftir að frv. kom fram var haldinn aðalfundur Heilbrigðisfulltrúafélags Íslands. Þar var hæstv. heilbr.- og trmrh. viðstaddur, þar voru þessi mál til umfjöllunar og þar var gerð ályktun sem ég vildi mega lesa. Reyndar mun ég lesa allt bréfið sem sent var fulltrúum þingflokka í gær, með leyfi forseta:
    ,,Á aðalfundi Heilbrigðisfulltrúafélags Íslands, sem haldinn var þann 15. apríl sl., var rætt um frumvarp til laga um umhverfismál sem nýlega hefur verið lagt fyrir Alþingi, þ.e. á 111. löggjafarþingi 1988--1989.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, herra Guðmundur Bjarnason, flutti erindi á fundinum og kynnti hann þar m.a. frumvarpið. Að lokinni ítarlegri umræðu og umfjöllun um efni frumvarpsins, þar sem fram kom m.a. að fundarmenn teldu ekki ráðlegt að skipta upp núverandi starfsemi Hollustuverndar ríkisins milli tveggja ráðuneyta og óttuðust að nægjanlegs samhengis yrði ekki gætt í umhverfiseftirliti, var eftirfarandi samþykkt gerð:
    Aðalfundur Heilbrigðisfulltrúafélags Íslands, haldinn 15. apríl 1989, gerir eftirfarandi ályktun til Alþingis:
    Fundurinn fagnar hugmyndum um samræmingu stjórnar umhverfismála en varar við afgreiðslu frumvarps að lögum um umhverfismál á svo skömmum tíma sem er til þingloka. Nauðsynlegt er að lagabreytingar sem lúta að umhverfiseftirliti haldist í

hendur við slíkar breytingar og að jafntengdir málaflokkar og heilbrigðiseftirlit, umhverfiseftirlit og mengunarvarnaeftirlit séu undir yfirstjórn eins ráðuneytis. Virðingarfyllst, Guðmundur H. Einarsson formaður.``
    Það ber fyrst að vekja athygli á því að hæstv. heilbr.- og trmrh., einn ráðherra ríkisstjórnarinnar, situr þennan fund, gerir grein fyrir þessu frv. og niðurstaða fundarins er þessi samþykkt. Hvað segir þetta okkur? Segir þetta okkur að það hafi verið þannig unnið að þessu máli í upphafi að samstarf hafi verið haft við þau ráðuneyti sem fara með mjög þýðingarmikla þætti í umhverfismálum, í eftirliti heilbrigðis og í eftirliti mengunar? Ég segi nei.
    Í öðru lagi skal bent á að hér tala þeir aðilar, sem hafa unnið að þessum málum og haft með höndum heilbrigðiseftirlitið sem unnið er á vegum sveitarstjórna, vara við afgreiðslu þessa frv. Það liggur auðvitað í augum uppi að þeir fagna samræmingu á stjórn umhverfismála en þeir vekja einmitt athygli á því að frv. gengur þvert á samræmingu.
    Ef horft er á landgræðslumálin og þau skoðuð sérstaklega liggur ljóst fyrir að hér er verið að kljúfa þau mál í herðar niður. Þar kemur gróðurverndin til með að vera klofin frá Landgræðslunni þannig að þessi stofnun kemur til með að heyra undir tvö ráðuneyti. Við skulum gera okkur grein fyrir því að eins og frv. er samið gildir alls ekki það sama um meðferð auðlinda landsins og auðlinda hafsins. Það er farið sitt í hvora áttina. Hér er ekki um að ræða samræmingu, hér er ekki um það að ræða að ná saman og fá yfirstjórn þessara mála með þeim hætti að samstarf um umhverfismálin verði eins og við öll gjarnan viljum.
    Hæstv. forsrh. lýsti í sinni ræðu vilja sínum og framtíðarsýn um hvaða þýðingu við gætum haft sem þjóð sem getur skýrt frá ýmsu í sambandi við hreint loft og hreint vatn sem aðrar þjóðir geta ekki. Við ættum að hafa forustu í umhverfisvernd á ýmsum sviðum, þar á meðal því að tryggja hafið í kringum okkur. Hann vék að því að ekki væri úr vegi að við stæðum fyrir ráðstefnu um hafið og mengun þess, þ.e. hvaða leiðir væru til þess að forðast slíka mengun. Ég vil aðeins benda á að næstu nágrannar okkar hafa verið í samstarfi einmitt um þessa hluti og árið 1985, ef ég man rétt, var einmitt haldin ráðstefna hér og 1987 var framhald hennar í Færeyjum, en Færeyingar, Grænlendingar, Danir og Norðmenn eru og voru í þessu samstarfi. Ráðstefnan hér fór fram á vegum ríkisstjórnarinnar undir forustu þáv. iðnrh., Alberts Guðmundssonar, og fjölluðu umræðurnar um verndun hafsins, verndun fiskstofnanna og með hvaða hætti hægt væri að koma í veg fyrir þann skaða sem oft á sér stað undir einum eða öðrum kringumstæðum í sambandi við hafið.
    Þegar frv. er lesið og menn gera sér grein fyrir því hvernig að þessu máli
er staðið liggur ljóst fyrir að ríkisstjórnin er nánast að fálma út í loftið. Kannski er það til þess að beina athyglinni frá einhverju öðru sem við er að glíma,

einhverjum erfiðleikum sem hún á við að glíma. Ég sagði það áðan að ég teldi það fyrir neðan virðingu Alþingis að slíkt frv. væri lagt fyrir þingið og því ætlað að fjalla um þetta mál og ég tala nú ekki um að afgreiða það sem lög á þeim tíma sem eftir er af þinginu. Hér hefðum við getað haft nokkurn tíma fyrir umfjöllun í sambandi við þetta mál, þ.e. frv. um samræmda stjórn umhverfismála. Ég veit að að því máli hefur verið staðið í hv. samgn., sem því var vísað til, með þeim hætti sem þinglegt er og ef ríkisstjórnin kysi að ná fram einhverju í þessum efnum væri miklu skynsamlegra að mínum dómi að gerð yrði tilraun til þess að ná því frv. fram til samþykktar, jafnvel athuga það hvort samstaða næðist um einhverjar þær breytingar sem lagt væri til að gerðar yrðu.
    Mér er ljóst og ég þekki það að það eru athugasemdir við það frv. og þær hafa komið fram. Ég segi: Það væri miklu skynsamlegra ef ríkisstjórninni væri alvara í því að reyna að ná fram á þessu þingi lagasetningu um stjórn umhverfismála að menn sneru sér að því og gerðu þá hluti.
    Við skulum átta okkur á því að frv. er að vissu leyti að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á sama tíma og við erum hér í dag að ræða um frv. um breytta skipan verkaskiptingar á milli ríkis og sveitarfélaga. Eins og þetta frv. er hefur það ekki verið borið undir þau samtök sem svo mjög hafa fjallað um það mál. Það hefur ekki síður tekið langan tíma að ná fram samstöðu í þeim málum en í þessu máli sem hér er um að ræða því að eins og fram kom hér hjá hæstv. félmrh. í dag hefur litlu verið áorkað í þeim málum síðan árið 1975, en það er einmitt sama ár og upphafið var á því að fjallað var um umhverfismál í ríkisstjórn.
    Við leggjum á það áherslu að það sé náið samstarf við sveitarfélögin, að sjálfsögðu, og þau samtök sem eiga hagsmuna að gæta í þessum efnum. Það hefur verið gert. Reynt hefur verið að ná þeirri samstöðu eins og mögulegt hefur verið og það er sjálfsagt hægt að gera það enn þá betur og erum við sjálfstæðismenn sér í lagi fúsir til þess að standa að því.
    Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir sjónarmiðum varðandi frv. sem hér er til meðferðar. Það er skoðun mín að ríkisstjórnin hafi ekki lagt fram frv. sem er þess eðlis að það væri með einum eða öðrum hætti ávinningur að fá það samþykkt. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé æðimikið sem vantar á. Það hefur komið fram af hálfu þeirra sem við þessa löggjöf ættu að búa, ef hún yrði samþykkt. Þeirra sjónarmið hafa komið fram og eru þau flestöll í þá veru að hér sé farið inn á ranga braut, hér sé verið að kljúfa upp stofnanir í stað þess að reyna að ná samræmingu, ná skipulagi á umhverfismálin, þannig að öll ráðuneyti og allar stofnanir sem um þetta fjalla geti verið í samstarfi þar um. Bara það að hér er ekki ætlað að heilbrmrn. komi til samstarfs um umhverfismál, ráðuneytið sem fer með heilbrigðiseftirlit í landinu. Ég er svo furðu lostinn að svona skuli gera gerst, fyrir nú utan það sem ég benti á að hér er þessu nýja

ráðuneyti ætlað að starfa samkvæmt lögum sem eru löngu úr gildi felld. Það er ekki allra að muna hvað Alþingi hefur samþykkt en það má þá a.m.k. fletta því upp og átta sig á því þannig að svona hlutir séu ekki gerðir.
    Þessu máli verður að sjálfsögðu eftir þessa umræðu vísað til nefndar og ég mun a.m.k. beita mér fyrir því við þann formann sem þar situr að hann leiti álits þeirra mörgu aðila sem ég vil segja að þetta mál komi við til þess að fá þeirra skoðanir og þeirra sjónarmið og ég trúi því að þegar það verður allt saman komið til skila komist menn að þeirri niðurstöðu að það sé miklu betra að láta frv. daga hér uppi en að halda áfram. Það a.m.k. gerir ekki neinn skaða. Það er þá ekki annað en að það er skjalfast hvernig menn hugðust ætla að standa að hlutunum en það var þó komið í veg fyrir það.