Umhverfismál
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Verndun lífs, viðhald þess og efling gengur eins og rauður þráður í gegnum stefnuskrá Kvennalistans, hvaða málaflokka sem um er að ræða og það er því bæði eðlilegt og rökrétt að umhverfismál skipi veglegan sess í þeirri stefnuskrá. Við höfum reynt að sinna þessum málaflokki hér á Alþingi með fyrirspurnum og tillöguflutningi, og það hefur frá upphafi verið okkar stefna að nauðsynlegt væri að skipa umhverfismálum nýjan og verðugri sess í stjórnkerfinu, en skipan þeirra nú er í sem allra stystu máli algjör glundroði. Sérstakt ráðuneyti umhverfismála hefur því verið okkar krafa og við höfum reynt að ýta því máli áleiðis með ýmsum hætti, nú síðast með flutningi tillögu þar sem fram kemur hvernig við hugsum okkur skipan slíks ráðuneytis. Einnig höfum við flutt fjölmargar fyrirspurnir og tillögur sem ég ætla reyndar ekki að tíunda hér, en þær varða m.a. fræðslu um umhverfismál, umgengni um náttúru landsins, mengun, endurnýtingu o.fl. o.fl.
    Hæstv. núv. ríkisstjórn hefur nú á síðustu vikum fengið nafnbótina ,,óvinsælasta ríkisstjórn allra tíma``. Að mínum dómi á hún skilið harða gagnrýni fyrir verk sín sem í mörgu samrýmast ekki þeirri nafnbót sem hún sæmdi sig sjálf, þ.e. ,,ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju``. En hvað sem því líður má hún þó eiga það að hún hefur sýnt ögn meiri áhuga á umhverfismálum en fyrirrennarar hennar, en þá verður þess nú jafnframt að geta að það þurfti ekki fjarska mikið til að skara þar fram úr.
    Ég lét þess reyndar getið í umræðum um þáltill. okkar í febrúar sl. að núv. ríkisstjórn væri e.t.v. ögn líklegri til þess að gera eitthvað raunhæft í þessum málum, en átti nú reyndar ekki við annað en það að hver ný ríkisstjórn væri annarri líklegri til þess vegna vaxandi umræðu og áhuga og skilnings almennings sem skilar sér í miklum þrýstingi frá almenningi til þess að taka á þessum málum, en sem betur fer er hann nú æ meðvitaðri um nauðsyn þess að taka hraustlega á.
    Hér er nú til umræðu merkur áfangi í sögu umhverfismála að mínum dómi, stjfrv. um sérstakt ráðuneyti umhverfismála sem ég var satt að segja ekki svo bjartsýn að vonast eftir á þessu þingi. Svo mikilvægt finnst okkur kvennalistakonum þetta skref að það meira en hvarflaði að mér að segja nú aðeins amen og hallelúja og loka algjörlega augum, eyrum og munni fyrir agnúum sem óneitanlega eru á þessu þingmáli. Og þó er þetta í rauninni stutt skref.
    Það þarf auðvitað ekki að segja hv. alþm. sem fylgjast vel með hér á Alþingi og lesa öll þingmál frá upphafi til enda hvernig við kvennalistakonur hefðum viljað hafa þetta skref. Það kemur fram í þáltill. okkar á þskj. 159, um umhverfisráðuneyti, en umræður um þá tillögu fóru fram eins og ég sagði áðan í febrúar sl., 16. febr. ef ég man rétt. Í því þingmáli er að finna óskir okkar og tillögur um skipan umhverfismála og við leyfum okkur að álíta að þetta þingmál okkar hafi skilað a.m.k. þeim árangri að ýta þessu máli áfram inni í stjórnkerfinu. Við gerum okkur mætavel

grein fyrir því að það verður torsótt að koma á þeirri skipan sem við vildum helst sjá á þessum málum þar sem margir mundu telja með því gengið á sína hagsmuni og ég hygg að umsagnir sem borist hafa um það mál til nefndar, sem hefur þetta mál til umfjöllunar, sýni það og sanni. Við áttum ekki von á öðru.
    Við teljum t.d. nauðsynlegt í framtíðarskipulagi þessara mála að skilja að mat og eftirlit með auðlindum okkar annars vegar og hagnýtingu þeirra hins vegar. Hið síðarnefnda á heima í ráðuneyti eða ráðuneytum atvinnumála. Ég hygg raunar að best væri að það væri eitt ráðuneyti atvinnumála, um það eru víst ekki allir sammála, en matið og eftirlitið í sérstöku ráðuneyti umhverfismála og þessa skoðun höfum við sett fram hér áður. Ég ætla hins vegar ekki að eyða tímanum í það nú að ræða leið Kvennalistans. Hún fékk töluverða umfjöllun á sínum tíma og er til meðferðar í viðeigandi nefnd.
    Það sem hér er nú til umræðu er samkomulag núv. stjórnarflokka eftir vafalaust nokkra umfjöllun á stjórnarheimilinu og verður að álykta sem svo að ekki verði lengra komist að sinni, því miður. Og það skal strax fram tekið að kvennalistakonur hafa ákveðið að styðja frv., eindregið, og vilja gera sitt til þess að tryggja því framgang, helst nú fyrir þinglok, jafnvel þótt við þyrftum að bæta nokkrum vikum við áætlaðan þingtíma svo að hv. þm. gefist ráðrúm til þess að kynna sér málið sem best og sníða af því tæknilega agnúa, svo sem bent hefur verið á hér í umræðunum. Það var m.a. bent á hér í 5. gr. að þar væru talin upp lög sem öll væru úr gildi fallin sem er vitaskuld óþörf handvömm í frágangi frv. sem ég vænti að um hafi verið fjallað af lögfræðingum og fróðum embættismönnum.
    Ég rakst einnig á annað svipaðs eðlis í 9. gr. þar sem nefnd eru lög um skipulag ferðamála, nr. 60/1976. Ég get ekki meint annað en þarna sé átt við lög sem féllu úr gildi þegar við settum lög um ferðamál vorið 1985. Þetta eru vitaskuld tæknileg atriði en engin efnisatriði og við ættum að geta lagfært þetta án mikillar fyrirhafnar.
    Sömuleiðis tek ég undir það að rétt er að reyna að gera sér grein fyrir kostnaði við þetta frv. en ég hygg nú að hv. síðasti ræðumaður hafi gert of
mikið úr þeim kostnaði sem frv. hefði í för með sér þar sem ekki er verið að tala hér um neitt bákn, ég verð nú að segja það, og einungis tilflutning ákveðinna starfa og stofnana sem þegar eru fyrir hendi í stjórnkerfinu. Á þessu stigi tel ég því að verði um ákaflega lítinn kostnaðarauka að ræða. Og hvað þetta varðar held ég að við verðum að horfa á þetta mál frá fleiri hliðum. Ég hygg að við séum ekki aðeins hér að tala um kostnað, heldur erum við að tala um að byrgja brunninn ef svo má segja. Við verðum að fara að taka á þessum málum því að slys af því tagi sem hugsanlegt væri að hindra með meiri og betri stjórnun mundu kosta okkur margfalt meira en fyrirbyggjandi aðgerðir sem þetta ráðuneyti gæti tekið á.
    En við teljum þetta frv. sem sagt tvímælalaust til

framdráttar og stuðnings nauðsynlegri þróun í umhverfismálum. Þarna getur skapast hinn nauðsynlegi grunnur fræðslustarfsemi í þessum málaflokki t.d., og þarna er einnig lagður grunnur að samræmdu átaki í mengunarvörnum, svo og alhliða náttúruvernd.
    Virðulegi forseti. Nú sakna ég hæstv. forsrh. Ég hafði hugsað mér að bera þó ekki væri nema eina spurningu fram við hæstv. forsrh. sem mælti fyrir þessu frv. hér áðan. Hann var hér í þingsal áðan og ég varaði mig ekki á því að hann hefði ekki þrek til að sitja hér undir umræðunni og var einmitt komin þar í mínu máli að ég hafði hug á að spyrja hann spurningar. ( Forseti: Það hafa verið gerðar ráðstafanir til að gera hæstv. forsrh. viðvart.) Ef ég mætti þá bara bíða því að ég ætlaði ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta. ( Forseti: Já, velkomið.)
    Já, ég var komin þar máli mínu að ég lýsti því yfir að við teldum frv. tvímælalaust til framdráttar og stuðnings nauðsynlegri þróun í umhverfismálum þar sem hér væri lagður nauðsynlegur grunnur að fræðslustarfsemi og samræmdu átaki í mengunarvörnum og alhliða náttúruvernd. En aðrir þættir kunna að verða þyngri í vöfum þar sem mikilvægar stofnanir verða eftir í sínum gömlu ráðuneytum, eins og t.d. Skipulag ríkisins sem, eins og fleiri hafa reyndar minnst á hér í þessari umræðu, við söknum sárlega úr þessu frv. Ég hlýt líka að nefna Landvernd og Skógrækt, Orkustofnun og fleiri og fleiri stofnanir sem nefndar eru m.a. í okkar þingmáli sem ég drap á hér áðan. En við þessu er erfitt að segja á þessu stigi. Það varð, eins og ég sagði áðan, greinilega ekki komist lengra.
    Og nú er ég einmitt komin þar að í máli mínu að ég má til með að reyna að ná eyrum hæstv. forsrh. Það er a.m.k. eitt sem er afar bágt að skilja, hvers vegna ekki er ætlaður staður í því umhverfisráðuneyti sem hér er lagt til að stofnað verði. Það á svo augljóslega heima þar og ég hefði haldið að væri engin fyrirstaða með. Þar á ég við Náttúrufræðistofnun Íslands. Umhverfisráðuneyti á samkvæmt frv. að hafa m.a. mjög ákveðið rannsóknarhlutverk, svo sem m.a. kveðið er á um í III. kafla frv. sem að vísu er ekki ítarlegur. En þeir aðilar eða stofnanir sem flytja á undir sérstakt ráðuneyti umhverfismála eru allir frekar eftirlitsaðilar heldur en beinlínis frumkvæðisaðilar í rannsóknum. Slík stofnun er hins vegar Náttúrufræðistofnun og virðist einboðið að slík stofnun falli undir umhverfisráðuneyti og það virðist svo sjálfsagt að ég hlýt að spyrja hvers vegna það er ekki gert í þessu frv. Hvað stóð í vegi fyrir því að Náttúrufræðistofnun væri ætlaður staður í umhverfisráðuneyti? Ég tel alveg nauðsynlegt að fá svar við því frá hæstv. forsrh.
    Ég ætla að stilla mig um að orðlengja um aðrar stofnanir sem við hefðum viljað sjá þarna þó það sé vissulega freistandi því ég vil leggja áherslu á það jákvæða í þessu frv. og fer ég nú að halda að ég sé einna jákvæðust af öllum þeim sem hér hafa talað. En þetta er svo miklu betra heldur en annað það sem komist hefur svona langt eftir borðum

framkvæmdarvaldsins að það væri að mínu mati slys ef við bærum ekki gæfu til að stíga þetta skref núna.
    Umhverfismál eru langtímahagfræði --- ég bið menn að taka eftir því --- þau eru langtímahagfræði og framtíð okkar er beinlínis undir því komin að við göngum í lið með náttúrunni í stað þeirrar ofnýtingar auðlinda, gróðureyðingar, útrýmingar dýrategunda og mengunar sem nú ógna tilvist okkar. Við verðum að snúa vörn í markvissa og skipulega sókn og til þess þarf samræmt átak undir einni stjórn. Þess vegna styðjum við kvennalistakonur það skref sem hér á að stíga þótt við hefðum kosið að það væri stærra.