Umhverfismál
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Benedikt Bogason:
    Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að stytta mál mitt, þetta er það yfirgripsmikið mál, ekki bara á landsvísu heldur eitt af stærstu málum sem menn eru að takast á við núna hjá Sameinuðu þjóðunum og raunverulega allir eru sammála um að sé stórt og mikið. En varðandi orð síðasta ræðumanns langar mig bara til að segja að það er nú búið að vera að dunda við þetta síðan 4. mars 1975 og komin mörg frumvörp. Sum hefur dagað uppi og önnur hafa verið lögð fyrir þing og dagað þar uppi í þrasi. Ég held að það gæti verið ágætis dægradvöl svona eftir að þing hefst næsta haust að dunda við að ræða um umhverfismál fram undir 10. des. þegar öll stjfrv. fara að streyma inn. Þetta er svo umfangsmikið mál. Það væri sjálfsagt nóg að gera með það.
    En það sem ég vildi segja er að mér finnst þetta frv. eins og það horfir við mér afskaplega tímabært og í mínum augum í stórum dráttum mjög gott. Það er einfalt og það er skýrt og það býður raunverulega upp á að ganga til lausnar, finnst mér, taka til greina ýmislegt sem ræðumenn hafa sagt hér. Það er kveðið á um það í ákvæðum til bráðabirgða að lögin skuli endurskoðuð innan tveggja ára frá gildistöku. Við endurskoðun skal sérstaklega huga að frekari samræmingu einstakra þátta umhverfismála og stofnana er sinna verkefnum á þessu sviði. Það má segja að sumar athugasemdir í viðkvæmum málum sem fram hafa komið hér eru ættaðar beint úr hagsmunaholum ráðuneyta og stofnana sem aldrei vilja sleppa neinu og eru alltaf að bæta við sig. Það er ábyggilega hægt að samþykkja þetta frv. og draga þá úr einhverjum atriðum í því og láta bíða í tvö ár en taka þau þá síðar fyrir eftir nánari úrvinnslu. Einnig er hægt að bæta við einhverju sem gleymdist. Ég fyrir mitt leyti teldi ávinning að því ef svo vel tækist til að hægt væri að ná þessu í gegn og við borgaraflokksmenn erum fylgjandi þessu. Við höfum mikið rætt þessi mál á okkar fundum og vorum einmitt að endurflytja till. til þál. núna sem ekki er komin fram til umræðu en fékk ekki neina áheyrn eða afgreiðslu í fyrra. Þáltill. skírskotar einmitt til þess sem næst okkur stendur og er kannski stærsta hliðin á þessum mengunarmálum okkar. Sem betur fer erum við hér í miðju Atlantshafi þannig sett að af hinum risastóru vandamálum sem blasa við í þéttbyggðu iðnríkjunum og stórborgunum höfum við hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu aðeins smjörþefinn, en þó þefinn, og strendurnar hér í kring eru orðnar svo mengaðar að ekki er hægt að synda í hafinu. Menn hafa látið sig hafa það allt of lengi að demba skolpinu niður í fjöru. Þar safnast það upp og er beinlínis hættulegt en talið er að það eigi e.t.v. þátt í útbreiðslu inflúensu eða farsótta, þótt ég treysti mér ekki til þess að fullyrða um það. En okkar till. mundi falla að þessu. Það eru allir þm. Borgfl. plús Hreggviður Jónsson sem endurflytja þetta og ég ætla að leyfa mér að lesa þessa tillögu þó að hún sé ekki á dagskrá hérna, því að hún mundi falla svo greinilega inn í þessa umræðu.

    ,,Alþingi ályktar að fela félmrh. í samráði við Samtök ísl. sveitarfélaga og viðkomandi sveitarfélög að láta gera samræmda könnun á ástandi frárennslis- og sorpmála í öllum þéttbýlisstöðum á landinu, svo og þeim stöðum utan þéttbýlis þar sem atvinnustarfsemi eða annað getur leitt af sér mengun.``
    Þarna tel ég að sé stærsta áþreifanlega mengunin sem við þurfum að takast á við og ég tek undir þau orð forsrh., sem hann sagði hér fyrr í dag, það að við stuðlum að því að hér verði hreint og tært loft og hreint land ætti að vera þjóðarstolt okkar af því að við getum ráðið þessu. En í mínum augum hefur þetta miklu meiri þýðingu. Þetta er kannski lykillinn að þeim ,,gígantísku`` möguleikum sem við höfum í matvælaframleiðslu þegar á næstu árum. Mengunarvargurinn er orðinn svo gífurlega grimmur hérna allt í kringum okkur, bæði vestan hafs og austan, að í vaxandi mæli er almenningur farinn að skoða það hvaðan varan er og hvort hann geti búist við að hún sé frá svæðum sem ekki eru menguð.
    Eitt mitt fyrsta verkefni þegar ég kom frá námi var að fást við frárennslisvandamál einmitt á þéttbýlisstöðum úti á landi. Ég rak augun í frétt í DV í dag um ullarþvottastöðina í Hveragerði. Þar er búinn að vera vaxandi vandi síðan 1962 að smám saman hefur frárennslið frá Hveragerði steindrepið allan fisk í Varmá alltaf með jöfnu millibili og ofan í skolpið og heita vatnið kemur þessi efnamengun. Það er skýlaust reglugerðarbrot, svona iðnfyrirtæki eiga að ,,neutralisera`` efni áður en þau sleppa þeim frá sér.
    Það sem mér finnst skipta máli í þessu sambandi, og tekið er á í þessu frv., eru hinar geysilega mismunandi áherslur í sambandi við þessi mál. Það er stundum verið að gera úlfalda úr mýflugu, en að öðru leyti eins og ég hef komið inn á, eru stóralvarleg mál látin drasla. Ég man eftir því að verk hefur verið stöðvað og beðið með að brúa einhverja eyðivoga af því að einhverjir menn, frá Náttúruverndarráði sennilega, þurfa að rannsaka hvort þarna sé eitthvert lífríki, einhverjar marflær eða eitthvað slíkt sem gætu eitthvað truflast á geðheilsunni við hávaðann eða jafnvel orðið að flytjast um set. Þetta hefur verið gert í fúlustu alvöru.
    En á sama tíma skeður það, þegar tæknilega er verið að gera stórkostlega betrumbót á Stór-Reykjavíkursvæðinu í sambandi við að losna við sorp, að þá á
að demba öllu sorpi til pökkunar á einn stað 300--400 metra frá íbúðahverfi og viðkvæmum iðnaði. Fólkið sem býr þarna varð skelfingu lostið og eigendur fyrirtækja sömuleiðis. Þetta var tæknilega mjög sannfærandi mál, en það gleymdust ýmsir þættir aðrir en bara þessir hátæknilegu. Sem betur fer er þetta leyst þannig að þessu er komið fyrir á grófu iðnaðarsvæði í Hafnarfirði.
    Svo var það nýjasta. Við íbúar í Árbæ höfðum dálítið samráð við Kjalnesinga því að þar átti þá að urða þetta, urða það sem kæmi úr böggunarstöðinni. Þar fannst urðunarstaður í mýri í Álfsnesi sem í fljótu bragði gat tekið við heilmiklu. En þegar farið var að

skoða þetta nánar og horfa til framtíðar, þá á einmitt þjóðvegurinn í framtíðinni að liggja um Geldinganes og þarna fram hjá, þannig að þessi staður mundi blasa við, þessi starfsemi og Kjalarnesið, sem var metið sem nokkuð gott til þess að urða með tilliti til þess að það mundi ekki menga grunnvatn, var nálægt sjó og bratt niður, það var merkt inn á kort sem mjög hagstætt. En guð minn almáttugur! Þetta eru allt heimalönd. Hvaða bóndi vildi fá 10--20 stóra flutningabíla fulla af sorpi, að vísu bögguðu, rétt í hlaðvarpanum hjá sér? Enginn held ég. En hliðstæð vandamál blasa við víða. Við heyrðum t.d. um sorpbrennslustöðina frá Ísafjarðarsvæðinu sem öðru hverju blæs sínum reyk yfir fólkið og fiskiðnaðinn í Hnífsdal. Svona eru mörg, mörg dæmi þannig að það er mjög aðkallandi að þessi mál séu samræmd. Ég tala sérstaklega um þessa hlið málanna sem snúa kannski fyrst og fremst að sveitarfélögum vegna þess að ég er kunnugastur því. Þess vegna var minn hugur fyrir einu til tveimur árum þannig að það ætti að reyna að samræma þetta sem mest undir félmrn. En þá komu aftur kröfur frá heilbrmrn., einhverjir voru að láta sér detta í hug samgrn. og þá kom hugmynd um sjútvrn. Við höfum heyrt hérna um landbrn. og það snýr náttúrlega að gróðurverndinni og slíkum málum.
    Ég vil benda á að það er ekkert langt síðan það var bara eitt atvinnumálaráðuneyti. Nú eru þau þó þrjú. Og árið 1903 var bara eitt, Íslandsráðuneytið. Það er ósköp eðlilegt að það verði ákveðin þróun í þessum málum og við verðum aðeins að horfa á það hvernig þróunin er og hvað er heppilegt. En í stórum dráttum og miðað við þá umræðu sem ég hef heyrt hér í dag, þá tel ég að það ætti vel að vera hægt að afgreiða þetta frv. ef allir leggjast á eitt og, eins og hv. 10. þm. Reykn. benti á, eru með jákvæðum huga. Þessi mál eru þess eðlis að það hljóta allir að vera með jákvæðum huga þegar verið er að leita eftir framförum á þessum sviðum því að þetta er það sem skiptir öllu máli fyrir framtíðina.
    Ég ætla ekki að vera að orðlengja þetta. Ég vil bara endurtaka þá skoðun mína að það væri vel þess virði að menn legðu á sig að reyna að koma þessu frv., með einhverjum breytingum, í gegnum þingið núna fyrir vorið.