Umhverfismál
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur orðið um þessi mál og þakka ábendingar hv. sjálfstæðismanna. Það er sjálfsagt að taka það til greina og lagfæra svo að betur megi fara. Það er hárrétt að í 5. gr. eru talin upp lög sem hafa verið sameinuð að ég hygg í lögum nr. 32/1986 sem er einnig getið í þessari sömu grein. Þar hafði mönnum yfirsést að þessi lög voru numin úr gildi um leið, þó að vísu ekki öll eins og kom fram í upplestri hv. þingmanns. Einnig er sjálfsagt ef menn eiga erfitt með að skilja einstakar setningar í frv., sem ég fyrir mitt leyti tel auðskilið, að breyta því þannig að allir geti skilið það, jafnvel hv. þm. sem talaði hér áðan. Það er sjálfsagt að verða við því. Þetta eru hins vegar tæknileg atriði og er helst lýst með því að menn sjá auðveldar flísina í annarra auga en bjálkann í eigin.
    En ég vil heldur koma að efni þessa máls. Hér hafa allir lýst sig mjög hlynnta, það vantar ekki, umhverfisvernd. Hins vegar hefur sá stuðningur, eins og svo lengi áður, allan þann tíma sem ég hef kynnst þessum málum, bráðum í tvo áratugi, hjá sumum einkennst af því að menn segja sem svo: Jú, endilega hreint. Það ber að taka á þessum málaflokki af mikilli festu, en í guðanna bænum látið mig í friði. Ég skal sjá um gróðurverndina eins og ég hef gert í gegnum aldirnar, ég skal sjá um refina eins og ég hef gert o.s.frv. o.s.frv. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum að hverfa frá þessari hugsun. Ég efa það ekki að margir sem þannig flytja sitt mál meina vel. En staðreyndin er sú að það hafa í gegnum árin og aldir verið svo miklir hagsmunaárekstrar hjá þeim sem eiga að nýta auðlindir þessa lands og þeim sem vilja vernda eða telja nauðsynlegt að vernda meira en gert hefur verið. Og ég held að hjá því verði í raun aldrei komist, því miður. Við mennirnir erum nú einu sinni þannig að oft gætir meira kapps en forsjár. Hér hefur verið bent á það að gert er ráð fyrir að kljúfa í sundur vissar stofnanir og sannarlega orkar það tvímælis. Ég er fullkomlega til umræðu um það. Margir vilja flytja landgræðsluna alla yfir til umhverfisráðuneytis, enda þar um að ræða eitt hið allra mesta umhverfisvandamál þessarar þjóðar. Ég hygg að enginn neiti því sem vísindamenn hafa bent á með miklum rökum að hér hefur land eyðst svo ótrúlegt er, ekki aðeins skógar eyðst, heldur stór hluti af gróðurmold landsins fokið á sjó út. Og menn þurfa náttúrlega ekki að fara lengra en hér í nágrenni Reykjavíkur, ég tala nú ekki um upp í óbyggðir. Menn sem aka t.d. Kaldadal eða Uxahryggi, sem er alfaraleið, og horfa á moldarbörðin þar og suðféð standa þar undir hljóta að vakna til umhugsunar um að þar stangist á annars vegar landnýting og landvernd. Hér er sem sagt fylgt þeirri kenningu að betra sé að aðskilja þessa hluti og það er grundvallaratriði. Hve lengi má ekki halda áfram ef við segjum að vernd og framkvæmd verði að vera á einni hendi. Umhverfisráðuneyti er vissulega ætlað að gera athugasemdir við t.d. mengun frá verksmiðjum, jafnvel hafa heimild til að fresta byggingu slíkra

verksmiðja ef mengunarhætta er talin mikil. Er það þá hugsun þeirra sem þannig mæla að fella eigi undir umhverfisráðuneytið verkefni iðnaðarráðuneytis í þessu sambandi, t.d. í sambandi við ýmsar stórframkvæmdir á sviði iðnaðar? Enginn hefur að vísu nefnt það hér, en af hverju má ekki gera það eins og hvað snertir nýtingu gróðurs og annarra náttúruauðlinda?
    Ég skal viðurkenna að það var mjög til umhugsunar og athugunar hvort ekki ætti að færa Hollustuverndina alla og ég sagði í framsöguræðu minni að ég teldi vel koma til greina að færa Hollustuverndina alla. Hins vegar er umhverfisráðuneytið þá einnig með innra umhverfi á sínum höndum og ákveðið var að draga línuna þannig að þetta ráðuneyti, a.m.k. til að byrja með, þangað til menn hefðu fengið nokkra reynslu, fjallaði um ytra umhverfið. En þetta þarf ekki að vera ásteytingarsteinn. M.a. hefur hæstv. heilbrmrh. lýst því yfir að hann sé fús að færa Hollustuverndina alla til umhverfisráðuneytis ef það verður talið eðlilegra í meðförum Alþingis. Ég mun sannarlega ekki leggjast gegn því.
    Ég ætla ekki að fjalla um frv. þeirra sjálfstæðismanna. Ég lít á það þannig að það beri að taka viljann fyrir verkið. Ég er því hins vegar algerlega mótfallinn. Ég tel orka mjög tvímælis að fela í lögum þremur ráðuneytum að fara með yfirstjórn eins málaflokks og spyr hvort það stangist ekki á við það grundvallaratriði í íslensku stjórnarfari að sérhvert ráðuneyti fari með óskipt yfirráð síns málaflokks. Það þekkja allir að íslensk ríkisstjórn er ekki fjölskipað stjórnvald. Hér er í raun verið að stíga skref í þá átt með því að fela þremur ráðuneytum yfirstjórn þessa mikilvæga málaflokks.
    Annars ætla ég ekki að gera lítið úr því frv. Ég hef lesið það, las það strax og það kom fram, og gæti bent þar á mörg atriði sem ég er algerlega mótfallinn og kannski farið um svipuðum orðum og hv. síðasti ræðumaður fór um það frv. sem hér er.
    Mér þykir afar leitt að þeir menn sem telja sig líklega fremstu málsvara bænda hér á hinu háa Alþingi hafa snúist svo öndverðir gegn frv., hv. síðasti ræðumaður og hv. þm. Stefán Valgeirsson og Guðni Ágústsson. Því miður verð ég að segja að af margra ára afskiptum mínum af málefnum landbúnaðarins hefur það
æðioft einkennt málsvara þeirrar greinar að þeir hafa lagst gegn óhjákvæmilegum breytingum og með því móti að mínu mati iðulega skapað landbúnaðinum miklu meira tjón en gagn. Það hefur ekki verið þeirra ætlan, langt frá því, og ég met þeirra viðleitni. En vitanlega verður landbúnaðurinn eins og allar aðrar greinar í þessu þjóðfélagi að breytast með þeim breytingum sem verða á hans umhverfi og þá er ég að tala um umhverfi í mjög víðri merkingu, umhverfi sem markaðsmál, sem sölumöguleika, sem fjárhagsmál og fjölmargt fleira. Það væri afar leitt ef bændasamtökin í landinu hugsa sér að snúast gegn því að mikilvægasta umhverfismálið verði tekið undan þeirri samræmdu stjórn sem hér er leitast við að koma

á fót.
    Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir spurði um Náttúrufræðistofnun Íslands. Þetta var til umræðu og kemur vel til greina. En eins og um svo fjölmargt annað urðum við varir við vissa andstöðu á þessu stigi og var ákveðið að láta það bíða. Um Geislavarnir ríkisins gildir nokkuð svipuðu máli. Það var líka til umræðu. Hér var tekin sú stefna að taka sem allra minnst af þeim málum sem virtust mæta andstöðu á þessu stigi. En ég vil taka fram að það voru eftir því sem ég best veit allmargir sem töldu að Náttúrufræðistofnun Íslands ætti fyrr eða síðar að færast undir þetta ráðuneyti.
    Ég hef einnig á borðinu hjá mér tillögur frá jarðfræðingum sem gera ráð fyrir stofnun Jarðfræðistofnunar Íslands og leggja til að sú stofnun komi undir umhverfisráðuneyti. Það tel ég skynsamlega tillögu og hljóti að koma mjög til álita þegar skipan þessara mála er tekin til endurskoðunar eins og gert er ráð fyrir í frv. Hér er um að ræða tvær stofnanir, Náttúrufræðistofnun Íslands --- Jarðfræðistofnun er enn ekki til sem slík --- og Geislavarnir ríkisins sem sannarlega, ef samstaða er um, kemur til greina að færa strax undir umhverfisráðuneyti til viðbótar því sem ég hef sagt um Hollustuverndina í heild sinni. En menn verða þá um leið að gera sér grein fyrir því að þá er verið að útvíkka starfsemi þessa ráðuneytis í upphafi frá því sem hér er gert ráð fyrir og nær það þá til þess sem stundum er kallað innra umhverfi og til heilsu manna.
    Það er rétt að ég komi aðeins inn á umræðu um Hollustuverndina. Í fyrri athugun á þessum málum var innan Hollustuverndarinnar mjög rík andstaða gegn því að hún færðist til umhverfisráðuneytis. Mér hefur heyrst sú andstaða vera miklu minni nú. Hins vegar eru ýmsir sem telja að þá eigi hún að fara öll. Þar með hefði umhverfisráðuneytið t.d. með höndum að fylgjast með eiturefnum í matvælum sem flytjast til landsins og ýmsum sem um þetta fjölluðu, m.a. mér, fannst við vera komnir þá töluvert út fyrir þann ramma sem þessu ráðuneyti var settur í því upphafsskrefi sem hér er ætlað að stíga.
    Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessa umræðu mikið. Það voru bornar brigður á að hér væri um samkomulagsmál að ræða innan ríkisstjórnarinnar. Ég skal viðurkenna að sú andstaða sem kom fram, a.m.k. hjá hv. þm. í mínum flokki, kom mér á óvart því að skýrt er tekið fram í stjórnarsáttmála að skipa skuli þessum málum undir eitt ráðuneyti. Meira að segja segir í stjórnarsáttmála, með leyfi forseta, um verkefni slíks ráðuneytis að ,,gerð verði landnýtingaráætlun sem tekur til hvers konar notkunar lands. Jafnframt verði gert átak í gróðurvernd með svæðaskipulagi er miðar að endurheimt landgæða, m.a. með endurskoðun laga varðandi stjórnun beitar þannig að hún sé í samræmi við landgæði.`` Hér er beinlínis tekið fram í því samkomulagi sem við gerðum þegar ríkisstjórnin var mynduð að m.a. beitin eigi að falla undir þessa samræmdu stjórn. Því skal ég viðurkenna að sumt af því sem kom fram hér áðan hjá hv. þm. Guðna

Ágústssyni kom mér á óvart. Ég hafði fengið ábendingar frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni sem er kannski þarna líka við taflborðið, en ég sá mér ekki fært að taka þær til greina vegna þessa ákvæðis sem ég las m.a. úr stjórnarsáttmála.
    Menn hafa sagt að ég hafi lagt á það áherslu að málið verði afgreitt á þessu þingi. Ég teldi æskilegt að það væri afgreitt á þessu þingi, en ég hef ekki sett það sem eitthvert sérstakt áhersluatriði og því síður skilyrði af minni hálfu. Alþingi hefur fjallað um þessi mál töluvert í vetur og reyndar gert það iðulega áður og alþm. eru mjög vel kunnugir þessum málum þannig að ég teldi það enga ofætlan að afgreiða málið. Ég efast mjög um að þingi verði lokið fyrir 6. maí. Mér sýnist satt að segja þeir dagar sem fram undan eru allt of fáir til að ljúka þeim mörgu málum sem liggja fyrir og þætti mér ekki ólíklegt þó að þinghald drægist töluvert fram í maí. Ekki það að ég sé að gera tillögu um slíkt. Það fer bara eftir því hvað þingið telur sér fært að afkasta miklu. Við höfum svo iðulega setið hér fram í maí að ég trúi varla að nokkur geri við það athugasemd. Það væri að mínu mati verulegur kostur ef þá mætti afgreiða málið og nota sumarið til að undirbúa stofnun umhverfisráðuneytis á haustdögum.
    Aðeins að lokum. Hv. síðasti ræðumaður gerði réttilega athugasemd við það að ekki fylgir kostnaðaráætlun. Að vísu var um það rætt og voru mjög breytilegar tölur sem komu úr þeirri athugun. Það fer svo gífurlega mikið eftir því hvað menn ætla umfang þessa ráðuneytis mikið í upphafi. Mín hugmynd var þegar þessi hugmynd kom á blað, það voru mörg drög samin að þessu máli, að
umhverfisráðuneyti yrði sett á fót frá og með áramótum og þá lægi fyrir fyrir fjárlagagerð ítarleg áætlun um kostnað. Eins og fram kemur í frv. er fyrst og fremst um að ræða tilfærslur og að því leyti ekki fjölgun í starfsliði sem að þessu vinnur í hinum ýmsu stofnunum, en það er augljóst að starfsmenn ráðuneytisins verða einhverjir og þeim fylgir að sjálfsögðu kostnaður og má því segja að kostnaður við þetta sé bundinn við rekstur hinnar almennu skrifstofu umhverfisráðuneytis.