Umhverfismál
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. sagði að sér hefði komið mín afstaða á óvart. Ég hygg að hún hafi í sjálfu sér ekki þurft að koma mjög á óvart. Í fyrsta lagi velti ég upp ýmsum atriðum við þessa umræðu sem ég tel að sé í frv. lagt til að sé skipað með öðrum hætti en ég tel heppilegt. Í öðru lagi hygg ég að hann minnist þess að í þingflokknum efaðist ég um að væri heppilegt að leggja frv. fram á þessu þingi þar sem svo væri áliðið og væri kannski betra að nýta tímann til að ná samstöðu um málið eins og ég hef hér rakið.
    Hæstv. forsrh. minntist á stjórnarsáttmálann. Auðvitað stendur eitthvað í þessum stjórnarsáttmálum. Ég er ekki búinn að vera hér lengi en ýmislegt stóð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og eitthvað stendur í þessum sáttmála. Mér finnst ráðherrarnir oft gjarnir að grípa sáttmálann þegar þeim hentar en hirða lítt um það þó að við þingmenn minnum á ýmislegt sem í sáttmálanum stendur af þeim málum sem á okkur brenna.
    Forsrh. hefur hér sjálfur sagt að það gæti vel verið hægt að fallast á sum þau atriði sem ég hef minnst á, einnig t.d. um Hollustuverndina, að það væri heppilegra að hún færi þá öll til umhverfisráðuneytis. ( Forsrh.: Og landgræðslan öll.) Já, og landgræðslan öll. Hann hefur minnst á þessi atriði. Ég sagði í upphafi að ég fyndi vel að hann skildi kvikuna í þessu máli. Þess vegna fagna ég því en þetta er flókið og vandasamt til ákvörðunar. Ég gat þess að ég teldi mjög eðlilegt að þetta mál fengi þinglega meðferð í nefndum og jafnframt að ég teldi heppilegt að menn ræddu þetta mál af fullri hreinskilni við ýmsa aðila sem það varðar, við sveitarfélögin, við ýmsar stofnanir, við ýmsa áhugamannahópa. Það kann vel að vera að við höfum tíma til þess á þessu þingi. Ég ætla samt að efast um það.
    Hæstv. forsrh. Þetta er mín skoðun og hún hefur ekkert farið dult, hvorki í þingflokknum né annars staðar, þannig að í sjálfu sér þurfti það ekki að koma á óvart.