Umhverfismál
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Ég fæ ekki séð að í frv. því sem við flytjum nokkir sjálfstæðisþingmenn sé fyrirkomulag með þeim hætti að það fari ekki heim og saman við þau lög sem gilda um Stjórnarráð Íslands. Miklu frekar er að með ýmsu í því frv. sem hæstv. forsrh. hefur hér talað fyrir sé verið að koma hlutunum þannig fyrir að ein stofnun eigi að heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti og þar af leiðandi geti komið til þeirra árekstra sem ætlað er að fyrirbyggja með því að tryggja að ráðuneytin fari alfarið með stjórn ákveðinna stofnana.
    Að því vék forsrh. að hann gæti vel hugsað sér, og á það hefði verið bent hér áðan, að að Hollustuvernd færi alfarið til umhverfisráðuneytis og þá vék hann að landgræðslu, landvernd og landgræðslu. Ég spyr: Er þá ekki í samræmi við það að verndun hafsins, hvort heldur er vegna mengunar eða verndunar fiskistofna, fari alfarið undir það ráðuneyti sem hér er talað um til þess að það sé sambærilegt og samræmi í stjórn þessara mála?