Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Frv. þetta er að hluta fylgifrv. með því frv. sem hér hefur verið rætt í kvöld um umhverfismál. Þó eru í því nokkur atriði sem eru sérstök og varða ekki umhverfismálin.
    Ég vil geta þess í upphafi að í tíð ríkisstjórnarinnar 1983--1987 var unnið mjög ítarlega að endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands, enda margt orðið þar úrelt og þarfnast endurskoðunar. Frv. var samið og lagt fyrir Alþingi ásamt frv. um umboðsmann Alþingis m.a., en afgreiðsla náðist ekki. Þetta frv. hefur verið til endurskoðunar í tíð þessarar ríkisstjórnar og hafa unnið að því tilvaldir menn. Þeirri endurskoðun er alls ekki lokið. Hins vegar þótti ástæða til að taka út úr þeirri endurskoðun fáein atriði sem ég ætla að nefna nú.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að í upptalningu ráðuneyta bætist umhverfisráðuneyti. Þetta er nauðsynlegt ef frv. um umhverfismál verður samþykkt og þarfnast ekki frekari skýringa.
    Þá er ákveðið í 2. gr. að ráðherra sé heimilt að skipta ráðuneyti í skrifstofur og starfsdeildir eftir verksviðum, en í gildandi lögum er hins vegar þannig kveðið á að ráðherra sé heimilt að skipta ráðuneytum í starfsdeildir eingöngu, þ.e. ekki í skrifstofur og starfsdeildir heldur í starfsdeildir eingöngu. Staðreynd er hins vegar sú að með árunum hefur ráðuneytunum verið skipt í skrifstofur og eru nú í reynd margar skrifstofur í sumum ráðuneytum. Því er hér í raun um leiðréttingu á lögum að ræða eða verið að færa lög að því sem er. Vitanlega geta menn þá spurt: Var þá heimilt að skipta ráðuneytum í skrifstofur? Um þetta var rætt töluvert í ríkisstjórninni 1983--1987 og niðurstaða varð sú að í lögunum banni það út af fyrir sig ekkert og því talið heimilt að svo yrði gert.
    Í gildandi lögum segir að skrifstofustjóri skuli gegna störfum ráðuneytisstjóra í forföllum. Nú eru skrifstofustjórar í ýmsum ráðuneytum orðnir margir og því er í 3. gr. lagt til að ráðherra verði heimilt að skipa skrifstofustjóra eða deildarstjóra í viðkomandi ráðuneyti sem aðstoðarráðuneytisstjóra eða með öðrum orðum að gegna því starfi sem hinn eini skrifstofustjóri ráðuneytisins gegndi áður.
    Jafnframt er í þessu frv. afnumin forsetaskipun deildarstjóra og skrifstofustjóra. Nú er svo að stór hluti starfsmanna ráðuneyta er forsetaskipaður því deildarstjórum hefur fjölgað mjög. Þetta er óþarfi og í raun orkar mjög tvímælis. Hér er lagt til að forsetaskipaðir verði aðeins ráðuneytisstjóri og aðstoðarráðuneytisstjóri. Jafnframt er lagt til að slíkir menn verði skipaðir aðeins til sex ára í senn. Þar með er æviskipun afnumin og er þetta í samræmi við þær breytingar sem verið er að gera í flestum stjórnarstofnunum og ég hygg almennt viðurkennt.
    Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég held að þessar breytingar skýri sig prýðilega sjálfar. Ég tel mikilvægt að þetta mál fáist í gegn á þessu þingi. Ef umhverfismálin nást ekki í gegn má vitanlega samþykkja þetta frv. en fella út 1. gr. um umhverfisráðuneyti. Ég tel að hinar breytingarnar séu

mikilvægar vegna skipulagsbreytinga sem hafa verið gerðar og verið er að gera í stjórnarráðinu.
    Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.