Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Mér finnst undarlega staðið að málum í sambandi við þetta frv. Eins og forsrh. gat réttilega um var 1983, að mig minnir, skipuð sérstök nefnd til að endurskoða lögin um stjórnarráðið. Afrakstur þeirrar nefndar var m.a. tvö frv. sem náð hafa fram að ganga, hvort tveggja þjóðþrifamál, annað um umboðsmann Alþingis og hitt um tilfærslu Ríkisendurskoðunar frá fjmrn. undir Alþingi. Um skipulag stjórnarráðsins sjálfs voru hins vegar meiri deilur. Þó svo að þau lög sem samþykkt voru 1969 og tóku gildi 1. janúar 1970 hafi verið mjög merkur lagabálkur er ljóst að eitt og annað er úrelt orðið í þeim efnum og nauðsynlegt að laga æðstu stjórn landsins, Stjórnarráð Íslands, að breyttum aðstæðum á ýmsum sviðum.
    Forsrh. upplýsti í framsöguræðu sinni að sú endurskoðun sem hafin var 1983 stæði enn yfir að þessu leyti til og væru menn á hans vegum að vinna að henni. Hins vegar hefði borið brýna nauðsyn til að flytja sérstakt frv. um tvö atriði. Hið fyrra er um hið ráðgerða umhverfismálaráðuneyti og hið síðara er um að búa til sérstaka stöðu aðstoðarráðuneytisstjóra í ráðuneytunum.
    Varðandi fyrra atriðið vildi ég eingöngu taka undir með mínum félögum úr Sjálfstfl. sem hér hafa talað í kvöld um það mál. Ég tel að ef eitthvað er þá eigi að fækka ráðuneytunum en ekki að fjölga þeim og það sé röng stefna að taka eitt slíkt mál og búa til utan um það nýtt ráðuneyti án þess að því fylgi þá heildarendurskoðun alls stjórnarráðsins. Ég tel að rangt sé að taka þetta mál úr því skipulagslega samhengi sem stjórnarráðslögin eiga að vera í.
    Af því er varðar hinar greinar frv., sem snerta skrifstofustjóra og aðstoðarráðuneytisstjóra í ráðuneytunum, verð ég að segja að engin knýjandi nauðsyn er augljós fyrir því að taka það mál út úr þeirri endurskoðun sem hafin er og sem forsrh. hefur boðað að væntanlega muni ljúka --- ja, ég skildi hann þannig að það yrði á þessu ári og þá væntanlega flutt heildarlöggjöf um stjórnarráðið. Það er þannig að þó að í sumum ráðuneytunum séu fleiri en einn skrifstofustjóri er alveg ljóst hver þeirra það er sem er staðgengill ráðuneytisstjóra. Hann nýtur þess meira að segja sérstaklega í launum, ef ég man rétt, eftir því sem ég best þekki til frá minni veru í stjórnarráðinu. A.m.k. er enginn vafi á því hver skrifstofustjóranna er staðgengill ráðuneytisstjórans. Auðvitað er heldur enginn vafi á því að sú skipan sem upp var tekin hér á árinu 1984, ef ég man rétt, fyrst í menntmrn. og síðan annars staðar, að hafa fleiri en einn skrifstofustjóra, er lögleg. Hún var meira að segja heimiluð af sama forsrh. og nú situr. Á því getur ekki leikið neinn vafi þó svo að ég geti hiklaust tekið undir að það er eðlilegra að hafa um það skýr ákvæði í lögunum. En ég sé ekki að það kalli á sérstaka löggjöf í þeim önnum sem eru í þinginu á síðustu dögum fyrir sumarleyfi að drífa slíkt mál í gegn. Það vantar þá einhverjar haldbærari skýringar á því.
    Hitt er svo annað mál að efnisatriði frv. að öðru

leyti, eins og t.d. það að afnema forsetaskipun deildarstjóra og annarra aðila en ráðuneytisstjóra og hugsanlega aðstoðarráðuneytisstjóra, er til bóta. Það er alveg rétt, en það kallar heldur ekki á sérstakt frv. á þessum tíma. Mér finnst vanta haldbæra skýringu á nauðsyn þess að samþykkja frv. nú og það meira að segja svo mikilli nauðsyn að jafnvel þó að það mál sem er kynnt sem aðalatriði málsins, umhverfismálin, sem þetta er fylgifrv. við að hluta til, nái ekki fram að ganga þá skuli afgangurinn af þessu litla frv. eiga að ná fram að ganga.
    Mér þykir þetta heldur kyndugt og ekki góð vinnubrögð þegar verið er að fjalla um jafnmikilvægan lagabálk og stjórnarráðslögin. Slík lög á að sjálfsögðu að setja í heilu lagi en ekki að vera að kroppa í þau hingað og þangað eftir atvikum á hverjum tíma.