Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Vegna athugasemdar hv. þm. Hreggviðs Jónssonar vil ég segja að það er ekki sé ég unnt að setja beinlínis í lögin eins og mátti skilja af orðum hans að viðkomandi aðila skuli endurskipa. Hins vegar er ekkert í þessu sem bannar að þeir verði endurskipaðir og ég efa ekki að sú verður raunin ef um er að ræða menn sem hafa staðið sig vel í sínu starfi. Sem betur fer á það við langflesta sem til þessa starfa hafa ráðist.
    Hins vegar, eins og ég sagði áðan, er þróunin að æviskipa ekki menn, heldur ekki í stjórnarráði og stofnunum ríkisins, þannig að reka megi þessar stofnanir sem fyrirtæki þar sem menn eru ekki æviráðnir. Hér er lagt til að skipað verði í sex ár í senn, eitt og hálft venjulegt kjörtímabil, og er það nokkru lengri tími en yfirleitt hefur verið þar sem breytt hefur verið frá æviráðningu.
    Út af orðum hv. síðasta ræðumanns. Ég sé ekkert athugavert við að lagfæra einstaka hluta stjórnarráðslaganna. Ég sé alls ekki að það þurfi að vera skilyrði að flytja þau í heild sinni þegar um lagfæringar er að ræða sem hv. þm., að því að ég skildi hann, lýsti sig í raun samþykkan, eins og t.d. að hverfa frá forsetaskipun deildarstjóra. Staðreyndin er sú að deildarstjórum hefur fjölgað gífurlega í stjórnarráðinu. Ég held að því verði varla neitað að í mörgum tilfellum hafa menn verið skipaðir deildarstjórar af launaástæðum. Ég er því mótfallinn að deildarstjórar séu forsetaskipaðir og tel það í raun hreinsun á lagabálki sem er að mörgu leyti mjög mætur og mjög góður og þarf að vanda mjög til. Ég sé ekki að þessi breyting t.d. ein út af fyrir sig spilli neinu.
    Um það að augljóst sé hvaða skrifstofustjóri eigi að gegna störfum ráðuneytisstjóra. Það hefur ekki verið svo í öllum ráðuneytum og hafa reyndar komið ábendingar frá ráðuneytum um nauðsyn þess að taka þar af skarið. Ég er ekki að segja að þetta megi ekki gera og ég hef reyndar hugleitt það að þetta kunni að mega gera með reglugerð frá forsrh. Það er alls ekki útilokað mál. Hins vegar er þetta útvíkkað aðeins þannig að staðgengill geti verið hvort sem er skrifstofustjóri eða deildarstjóri því að þau tilfelli eru til að deildarstjóri kann að vera talinn hentugri að gegna slíku starfi. Ég tel því þessi mál mikilvæg þó að stjórnarráðið geti búið við það áfram að breyta jafnvel engu í stjórnarráðslögunum. Við reyndum það í fjögur ár og það eru enn þá mjög mörg atriði þar sem eru umdeild og ég er ekki búinn að sjá fyrir endann á og er ekkert viss um að ljúki á þessu ári. Þess vegna var talið eðlilegt að leita eftir þessum breytingum og athuga hvort þingið væri reiðubúið að gera þessar breytingar. Satt að segja taldi ég þetta óumdeild atriði og kom mér því á óvart að hv. þm. leggst gegn þeim.