Ríkisbókhald, ríkisreikningur og fjárlög
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég verð að taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá síðustu ræðumönnum, að það er gjörsamlega óviðeigandi að vera hér að mæla fyrir frumvörpum sem eiga erindi við ákveðna ráðherra á þessum tíma sólarhrings og að þeim fjarstöddum. Við höfum hins vegar fallist á, við þingmenn sem eigum mál á dagskrá, að ljúka þeim á þessum fundi með tilliti til þess hve dagskrá þingsins er orðin þröng núna á síðustu dögum fyrir þinglausnir. Hitt er annað mál að þessi málsmeðferð og þessi framkoma gagnvart stjórnarandstöðuþingmönnum skapar e.t.v. ákveðið fordæmi. Einhvern tímann kemur að því að hér verða stjórnarskipti, einhvern tímann kemur að því að aðrir menn ráða ferðinni í stjórn þingsins en nú er. Þá er ágætt fyrir núv. stjórnarandstöðu að vera búin að fá fordæmi um hvernig hæstv. núv. ráðamenn telja eðlilegt að skipa þessum málum.
    Herra forseti. Það frv. sem ég mæli fyrir, 323. mál þingsins, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 52/1966 um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga, með síðari breytingum, er í raun og veru eins konar fylgifrumvarp máls sem við hv. þm. Pálmi Jónsson höfum flutt og varðar meðferð greiðslna úr ríkissjóði umfram fjárlagaheimildir. Fyrir því frumvarpi mælti ég sl. föstudag, en þar er gert ráð fyrir að hið svokallaða aukafjárveitingavald fjmrh. verði verulega takmarkað og aðild Alþingis að slíkum greiðslum að sama skapi aukin.
    Það frv. sem hér er til meðferðar er ekki flókið mál og lætur ekki mikið yfir sér, en í því er hins vegar að finna ákvæði sem sömuleiðis horfa til hreingerningar í ríkisfjármálum og í meðferð þessara mála bæði hjá framkvæmdarvaldinu og hér á Alþingi.
    Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að endurskoðaðan ríkisreikning skuli leggja fyrir Alþingi svo fljótt sem verða megi á næsta ári eftir reikningsárið, þ.e. fjárlagaárið. Það þarf ekki að fara mörgum árum um það að á þessu ákvæði er brýn þörf, ekki síst í ljósi þess að við höfum hér á Alþingi í vetur verið að fjalla um margra ára gamla ríkisreikninga.
    2. gr. gerir ráð fyrir að í þau lög sem hér er lagt til að verði breytt komi ný grein um að frumvarp til fjáraukalaga skuli leggja fram á vorþingi eftir fjárlagaárið og skuli fjáraukalög afgreidd á Alþingi á almanaksárinu áður en ríkisreikningur er samþykktur.
    Í almennum lögum er ekki að finna nein ákvæði um fjáraukalög og reyndar eru einu ákvæðin um fjáraukalög sem er að finna í íslenskum lögum í stjórnarskránni. Þar er aðeins lauslega á þau minnst, en ekkert kveðið á um hvernig með þau skuli farið, hvort það komi til greina að afgreiða fleiri en ein fjáraukalög fyrir hvert fjárlagaár eða með hvaða hætti slík löggjöf komi til kasta Alþingis. Þar sem ekki er um að ræða ákvæði um fjáraukalög í þeim lögum sem hér er gert ráð fyrir að verði breytt, lögum nr. 52/1966, er í 3. gr. frv. lagt til að fyrirsögn þeirra laga orðist þannig að fjáraukalaga verði þar jafnframt getið auk ríkisbókhalds, ríkisreiknings og fjárlaga.
    Í 4. gr. frv., herra forseti, er lagt til að lögin taki

þegar gildi og gildi um afgreiðslu fjáraukalaga og ríkisreikning fyrir árið 1988.
    Það skal tekið fram að frumvarp þetta var lagt fram í þinginu 7. mars og þá var enn þá tími til þess að ljúka afgreiðslu fjáraukalaga og ríkisreiknings fyrir árið 1988 eins og lögin gera ráð fyrir, en ugglaust er það nú orðið of seint þannig að þessu ákvæði þyrfti væntanlega að breyta.
    Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna til athugasemda yfirskoðunarmanna ríkisreiknings fyrir árið 1987, en ræðumaður er einn í þeirra hópi. Í athugasemdum þessum, sem útbýtt var á Alþingi í desember sl., segir m.a. um þær tafir sem orðið hafa á framlagningu ríkisreiknings og fjáraukalaga á undanförnum árum og um nauðsyn þess að breyta þar til, með leyfi forseta:
    ,,Yfirskoðunarmenn telja jafnframt eðlilegt að þeirri reglu verði komið á að fjáraukalög liðins árs verði afgreidd á Alþingi samhliða fjárlögum komandi árs. Slík regla auðveldar allan samanburð milli ára, auk þess sem eldri ríkisreikningar og frumvörp til fjáraukalaga fyrir löngu liðin ár veita hvorki framkvæmdarvaldshöfum tilskilið aðhald né gera fjárveitingavaldinu nægilega vel kleift að fylgjast með afleiðingum ákvarðana sinna.``
    Síðar í sömu athugasemdum segir að einnig komi til álita að flýta framlagningu frumvarps til fjáraukalaga á ári hverju þannig að það verði jafnan lagt fram í upphafi hvers árs vegna þeirra umframútgjalda ársins á undan sem Alþingi hefði ekki sjálft heimilað. Endurskoðaður ríkisreikningur kæmi síðan til samþykktar Alþingis á haustþingi og hugsanlega önnur fjáraukalög ef endurskoðun leiddi í ljós að þeirra gerðist þörf.
    Frv. sem hér er til umræðu gerir ráð fyrir að farin verði seinni leiðin af þeim tveimur sem yfirskoðunarmenn hafa drepið á og fjáraukalög verði hér lögð fram í upphafi hvers árs fyrir nýliðið ár, enda er ekkert tæknilega því að vanbúnaði. Það er raunverulega hrein hneisa að þessari reglu skuli ekki hafa fyrir löngu verið komið á. Öðru máli gegnir hins vegar um ríkisreikninginn sjálfan því það er tímafrekara verk að endurskoða hann og ganga þannig frá
honum að hann sé hæfur til framlagningar. Þess vegna er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að hann komi fram á Alþingi ekki síðar en á haustþingi á árinu eftir reikningsárið. Bæði þessi skjöl verði síðan afgreidd á Alþingi og frá þeim gengið með formlegum hætti áður en fjárlög komandi árs hljóti afgreiðslu. Þetta mundi t.d. þýða að það yrði að afgreiða fjáraukalög fyrir árið 1988 og að samþykkja ríkisreikninginn fyrir árið 1988 hér á Alþingi áður en þingið gæti afgreitt fjárlög fyrir árið 1990.
    Herra forseti. Þó að þetta sé ekki efnismikið mál þá tel ég þetta sjálfsagt umbótamál í ljósi þeirrar óreglu sem tíðkast hefur í þessum efnum. Þetta veitir visst aðhald, bæði framkvæmdarvaldinu og þinginu sjálfu og er þar að auki tæknilega einfalt mál og auðunnið. Ég tel því, herra forseti, ólíklegt að það

fyrirfinnist á Alþingi einhver pólitísk andstaða við þetta mál. Hitt er annað hvort hæstv. fjmrh. þóknast að leggja blessun sína yfir frv. af þessu tagi. Ég hygg þó að vel færi á því að hann og stjórnarliðið í heild sinni gerðu það.
    Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta litla frv. Ég hafði satt að segja vænst þess þegar frv. til laga um meðferð greiðslna umfram fjárlagaheimildir var til umræðu að geta átt um það orðastað við fjmrh. sem þá var hér í salnum. Það lánaðist ekki því hann þurfti að yfirgefa fundinn og er ekki hér eins og öllum mun ljóst vera. Ég vænti þess að hv. fjh.- og viðskn. beiti sér fyrir því, með eða án samþykkis fjmrh., að frv. þetta nái fram að ganga.
    Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.