Flm. (Friðrik Sophusson):
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 600 frv. til laga um breytingu á lögum nr. 9/1984, um frádrátt af skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með síðari breytinum. Ásamt mér eru flm. hv. þm. Matthís Bjarnason, Geir H. Haarde, Birgir Ísl. Gunnarsson og Kristinn Pétursson.
    Frv. þetta er annars vegar flutt í tengslum við þáltill. sem er 330. mál þingsins og hins vegar við frv. um breytingu á sömu lögum og er 332. mál þingsins. Frv. er tiltölulega einfalt. Það gerir ráð fyrir því að hámarksfjárhæðir í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna hækki verulega, en samkvæmt lögunum eru framlög manna til atvinnurekstrar frádráttarbær frá skattskyldum tekjum innan þeirra marka og með þeim skilyrðum sem greinir í þeim lögum. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að í stað fjárhæðarinnar 45.900 kr. komi 250.000 kr. og í stað 91.800 kr. komi 500.000 kr. Hér er um að ræða frádrátt sem samkvæmt lögunum má nota sem nemur aukningu á fjárfestingu í atvinnurekstri. Þessi upphæð uppfærð er nú talin vera annars vegar 72.000 kr. og hins vegar 144.000 kr. og hærri upphæðin á þá við þegar um hjón er að ræða. Þessar fjárhæðir eru miðaðar við síðustu áramót.
    Í greinargerð með þessu frv. er sagt frá því að hve miklu leyti þessar heimildir hafa verið notaðar á undanförnum árum. Þar má einnig lesa að frádráttarákvæðin hafa veruleg áhrif á kaup manna á hlutabréfum samkvæmt lögunum. Þetta sést best á því að fjöldi þeirra sem nýttu sér frádráttarheimildina var talsverður þar til kom að árinu 1987, þ.e. framtalsárinu 1988, þegar um mikinn samdrátt var að ræða vegna þess að það ár var skattlaust í þeim skilningi sem öllum þingmönnum er kunnugt.
    Þar sem ég mun ekki flytja langa framsöguræðu um næsta mál á dagskrá, sem er flutt í tengslum við þetta, tel ég rétt við þessa umræðu að gera nokkra grein fyrir þeim tillögum sem fram hafa komið af hálfu flm. Vil ég benda á þann rökstuðning sem vísað er til í greinargerð frv. en sá rökstuðningur kemur fram á þskj. 599 í greinargerð með till. til þál. um að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði. Flm. þeirrar tillögu eru hinir sömu og þess frv. sem nú er til umræðu. Í þeirri tillögu er gert ráð fyrir því að Alþingi feli ríkisstjórninni að gera tillögur um ráðstafanir til að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði hér á landi og að þær tillögur verði tilbúnar fyrir næsta reglulegt Alþingi.
    Það er ljóst að tiltölulega háir raunvextir samhliða mikilli skuldsetningu fyrirtækja hafa í för með sér að atvinnulífið á erfitt með að mæta áföllum hér á landi. Við þessar aðstæður verður rekstrarvandi fyrirtækja ekki leystur með greiðslufresti eingöngu eða nýjum lántökum. Þar þarf að koma til aukið framtaksfé eða áhættufé, hlutafé í hlutafélögum.
    Þau lög sem hér er verið að leggja til að breytt verði voru samþykkt árið 1984 og var þeim ætlað að greiða götuna fyrir hlutafjárkaupum almennings. Þessi lög fólu í sér þrenns konar möguleika á frádrætti frá skattskyldum tekjum. Í fyrsta lagi var það með

innborgunum á stofnfjárreikninga fyrir þá sem síðan hugðust setja á fót eigin atvinnurekstur, í öðru lagi með kaupum á hlutabréfum í félögum sem fullnægja ákveðnum skilyrðum og að þessi kaup yrðu frádráttarbær frá skatti að ákveðnu marki og í þriðja lagi með því að kaup á hlutabréfum fjárfestingarfélaga, sem sérstaklega eru mynduð til fjárfestingar á áhættufé atvinnufyrirtækja, yrðu frádráttarbær á sama hátt. Árangurinn af þessari viðleitni hefur talsvert látið á sér standa og ýmsir halda því fram að lögin gangi of skammt. Þá hefur einnig reynst óhagkvæmara fyrir fyrirtækin að afla fjár með sölu hlutabréfa en að taka lán eða selja skuldabréf.
    Þessi sjónarmið, sem hér hefur verið lýst og fram koma m.a. í greinargerðinni með þáltill. sem vísað er til í grg. með frv., hafa fengið byr undir báða vængi í ýmsum nágrannalöndum okkar, svo sem í Frakklandi, Bretlandi, Belgíu og Ítalíu. Í lok greinargerðarinnar er síðan bent á ýmis atriði sem heppilegt væri að breyta í íslenskri löggjöf til þess að örva hlutabréfamarkað. Þar er í fyrsta lagi getið um það að fjárhæðir þær, sem nú eru frádráttarbærar frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, verði auknar verulega eins og kemur fram í þessu frv. Í öðru lagi að söluhagnaður af hlutabréfum verði skattfrjáls í þrepum eftir tiltekinn lágmarkseignarhaldstíma, t.d. þrjú ár. Í þriðja lagi að skattleysismörk vegna eignarskatts verði hækkuð og unnið að því að allar eignir verði meðhöndlaðar eins gagnvart eignarskatti. Í fjórða lagi að fyrirtæki verði hvött með skattalegum aðgerðum til að bjóða út hlutabréf til almennings. Í fimmta lagi að arður allt að 15% af heildar eigin fé fyrirtækis í árslok verði skattfrjáls hjá móttakanda en frádráttarbær án takmörkunar hjá greiðanda. Í sjötta lagi að reglugerðir lífeyrissjóða verði endurskoðaðar þannig að lífeyrissjóðum verði heimilt að kaupa hlutabréf eftir ákveðnum reglum, en þetta er að sjálfsögðu stórmál. Í áttunda lagi er bent á það í lok greinargerðarinnar með ályktunartillögunni að til þess að fyrirtæki skrái hlutabréf sín frekar en nú er gert á Verðbréfaþingi Íslands þurfi að breyta 74. gr. laga um tekjuskatt og
eignarskatt. Í lögunum segir að opinberlega skráð hlutabréf skuli metin til eignarskatts á síðast skráðu gengi í árslok. Til greina kemur að hafa skattfrádráttarreglur laganna nr. 9 frá 1984 rýmri fyrir fyrirtæki sem eru skráð á verðbréfaþinginu. Það er auðvitað afar nauðsynlegt að skráning á hlutabréfum og gengi bréfanna verði sem almennust því að það eykur að sjálfsögðu öryggið í viðskiptum með bréfin.
    Með tillögunni hef ég leyft mér að birta I. kafla úr skýrslu um þróun hlutabréfamarkaðar á Íslandi sem á sínum tíma var samin af Enskilda Securities, en það fyrirtæki hefur einstæða reynslu í norrænum hlutafélagarekstri og á hlutabréfamörkuðum og hefur verið ráðgjafi ýmissa fyrirtækja og hlutabréfamarkaða, einkum á Norðurlöndum.
    Það væri vissulega ástæða til að benda á mörg atriði sem koma fram í þessari skýrslu sem Seðlabanki

Íslands og Iðnþróunarsjóður áttu forgöngu á sínum tíma um að unnin yrði. Ég mun ekki gera það í þessari ræðu minni, til þess gefst varla tími. Þó vil ég benda á nokkur atriði sem koma fram í þessum I. kafla skýrslunnar til rökstuðnings við þau frumvörp sem ég hef leyft mér að flytja ásamt nokkrum öðrum og hér eru til umræðu.
    Það kemur fram í skýrslunni að mörg fyrirtæki skulda allt of mikið miðað við eiginfjárstöðu að áliti þeirra sem skýrsluna hafa samið vegna þess að þau hafa átt greiðan aðgang að lánsfé undanfarin ár.
    Fyrirtækið telur að hlutabréfamarkaðurinn mundi þannig opna nýja leið til að styrkja eiginfjárstöðu íslenskra fyrirtækja. Þá er enn fremur bent á að bein fjárfesting í atvinnulífinu gegnum hlutabréfamarkaði mundi verða til að veita atvinnulífinu meira aðhald og gera það hagkvæmara í rekstri, auk þess sem raunhæfari markaðsaga yrði beitt við val fjárfestingar.
    Enn fremur var bent á að setja þurfi lagaramma um núverandi markað. Þá verður hægt að sjá til þess að hann þróist og vaxi á heilbrigðan hátt en slíkur rammi ætti að fela í sér sanngjarnar reglur um viðskiptahætti til að tryggja hagsmuni fjárfestisins og annarra markaðsaðila. Virkur hlutabréfamarkaður mundi skapa vettvang þar sem fjárfestar gætu náð fram hagnaði eða tapi á fjárfestingum sínum. Með því að beina öllum viðskiptum með opinberlega skráð hlutabréf á einn markað mundi vera mögulegt að liðka markaðinn og auðvelda kaup og sölu hlutabréfa. Virkur innlendur markaður ásamt traustum reglum um hann mundi líklega hvetja til erlendra fjárfestinga í íslenskum fyrirtækjum þegar fram líða stundir og leiða til nýrrar fjármagnsuppsprettu.
    Það er bent rækilega á það í skýrslu fyrirtækisins um hlutabréfamarkað hér á landi að lífeyrissjóðirnir ráði u.þ.b. 50% af því fé sem fyrir hendi er til fjárfestingar í verðbréfum á Íslandi. Það ber að minna á að fyrir liggja tilbúin frumvarpsdrög um lífeyrissjóði. Í þeim frumvarpsdrögum sem ekki hafa verið lögð fram á yfirstandandi þingi í frumvarpsformi er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðum sé heimilt að fjárfesta allt að 5% af árlegu greiðsluflæði sínu í hlutabréfum. Þetta gæti þýtt á yfirstandandi ári að verulegar fjárhæðir gætu gengið til hlutabréfakaupa til þess að styrkja og efla atvinnulífið hér á landi.
    Í skýrslu Enskilda Securities er vikið mjög ítarlega að skattlagningarreglum. Ég mun ekki ræða það sérstaklega hér en bendi þó á að í tillögum fyrirtækisins er bent á að stimpilgjald sé mjög hátt vegna útgáfu nýrra hlutabréfa, eða 2%. Þetta geri það að verkum að fyrirtæki hiki við útgáfu nýrra hlutabréfa og færi ekki upp hlutafjáreign til núvirðis. Lagt er til í tillögum fyrirtækisins að þessi hlutfallstala lækki niður í 0,5%.
    Af þessu tilefni, virðulegur forseti, vil ég benda á að fyrir þessu þingi liggur frv. frá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni á þskj. 743, sem nákvæmlega fjallar um þetta atriði, þar sem lagt er til að fyrir stimplun hlutabréfa sem gefin eru út af félögum með takmarkaða ábyrgð skuli greiða *y1/2*y% af fjárhæð

bréfanna. Þetta er í stíl við tillögur fyrirtækisins og vil ég leyfa mér nú að taka undir þau sjónarmið sem komu fram í því frv. og fagna því að það skuli vera lagt fram af hálfu stjórnarþingmanns sem væntanlega ber að skilja svo að möguleiki sé á að koma því frv. fram á yfirstandandi þingi.
    Í lok I. kafla skýrslunnar sem birtist sem fskj. með þáltill. á þskj. 599 sem ég hef gert hér að umræðuefni til rökstuðnings við þau frv. sem hér eru til umræðu, segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Við teljum að brýnasta verkefnið á íslenska hlutabréfamarkaðinum sé að hvetja til aukinnar eftirspurnar. Tvö mikilvægustu atriðin í þessu sambandi eru annars vegar hin skattalega meðferð hlutabréfa og hins vegar afstaða lífeyrissjóða til fjárfestingar í hlutabréfum.``
    Það er einmitt þetta, virðulegur forseti, sem verið er að reyna að gera með því frv. sem hér liggur fyrir til umræðu, þ.e. að hvetja til aukinnar eftirspurnar og á það vil ég leggja áherslu.
    Það vekur auðvitað athygli að hæstv. núv. ríkisstjórn hefur ekki sýnt þessum málum neinn áhuga þrátt fyrir tilvist þeirrar skýrslu sem ég hef vitnað hér til. Það kemur ekki fram í stjórnarsáttmála ríkjandi stjórnar að hún hafi
áhuga eða skilning á þessu málefni andstætt því sem fyrrv. stjórn hafði en í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar var bent á þetta sem eitt af meginmálum til þess að koma til móts við þarfir atvinnulífsins.
    Einu tilburðir núv. ríkisstjórnar til að fjalla um hlutabréf eru þeir sem koma fram í hugmyndum ríkisstjórnarinnar en þær eru orðnar að lögum um Hlutafjársjóð Byggðastofnunar. Þar var tekin hugmynd frá stjórnarandstöðunni, reyndar frá Kvennalistanum, og þeirri hugmynd misþyrmt allverulega í meðferð meiri hlutans. Ég tel því miður að með slíkri misþyrmingu sé hætta á því að hlutafjárkaup og hlutafjársjóðir fái á sig slæmt orð því að með hugmyndinni um Hlutafjársjóð Byggðastofnunar er verið að þvinga fram hlutabréfakaup frá kröfuhöfum fyrirtækja í veikri stöðu með því að veita ríkisábyrgð á hlut þeirra kröfuhafa sem kaupa sér hlutdeildarbréf í Hlutafjársjóðnum og létta skuldum af fyrirtækjunum í staðinn.
    Núv. ríkisstjórn byggir stefnu sína í málefnum atvinnulífsins fyrst og fremst á millifærslum og auknum erlendum lántökum. Þetta er vitanlega gert til að falsa gengi íslensku krónunnar um tímabundið skeið og leiðir enda til óæskilegrar skekkju í efnahagslífinu.
    Það er athyglisvert, virðulegur forseti, að á hverjum degi eru teknar að láni erlendis 30--40 millj. ísl. kr. til þess að brúa bilið á milli gjalda og tekna í þjóðarbúskapnum. Þetta er órækasti vitnisburðurinn um þá stefnu sem hæstv. ríkisstjórn fylgir. Hún lætur undir höfuð leggjast að styrkja eiginfjárhlutfall fyrirtækjanna en ýtir undir nýjar lántökur, nýjar skuldbreytingar. Eins og allir vita er það skammgóður vermir ef ekki er á sama tíma séð fyrir öðrum þörfum, svo sem þeim að auka eiginfjárhlutfallið

annars vegar og að tryggja eðlilegan rekstrargrundvöll hins vegar.
    Það var athyglisvert sem kom fram hjá Helga Bergs, formanni stjórnar þessa nýja sjóðs, þegar hann var spurður að því hvað gerðist ef fyrirtækin lentu í vandræðum í framhaldi af aðgerðum Hlutafjársjóðsins. Hann sagðist ætla að þau vandamál gætu komið upp aftur síðar og þá yrði að grípa til nýrra ráðstafana. Þetta rifja ég upp hér til þess að benda á að jafnvel þeir, sem standa að aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar og eru í fótgönguliði hennar, hafa ekki meiri trú á aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar en svo að þeir telja að þessi vandamál komi upp innan tíðar aftur í atvinnulífinu.
    Það er nefnilega mikill munur á annars vegar lánsfé og hins vegar hlutafé. Fyrirtæki þurfa að greiða höfuðstól lánsfjárins til baka en hlutaféð verður áfram í fyrirtækinu þótt hlutabréfin skipti um eigendur.
    Markmiðið með auknum hlutabréfaviðskiptum er í fyrsta lagi, eins og margoft hefur komið fram í minni ræðu, að auka eiginfjármyndun og hvetja fyrirtæki til slíks í stað þess að taka sífellt ný lán. Það er kannski athyglisvert í þessu sambandi, ekki síst fyrir þá sem eru áhugasamir um stöðu iðnaðarins í landinu, að hlýða á að árið 1981 er talið að eiginfjárhlutfallið í iðnaði hafi verið 45%, árið 1986 hafi það fallið niður í 30% og á síðustu tveimur árum hefur enn hallað á ógæfuhliðina.
    Í öðru lagi er það markmiðið að dreifa hinu efnahagslegu valdi í hendur sem flestra og gera sem flesta að eignamönnum, gera einstaklingana fjárhagslega sjálfstæðari en þeir eru í dag.
    Í þriðja lagi mundi fjölgun hluthafa, einkum ef þeir kæmu úr röðum launþega, hafa í för með sér almennari og betri skilning á atvinnurekstri, en slíkt getur dregið úr árekstrum og tortryggni milli atvinnurekenda og launþega.
    Í fjórða lagi vil ég nefna að aukin hlutafjáreign myndar meira aðhald að stjórnendum. Gengisskráning og markaðsverð hlutabréfa er eins konar mælistika á árangur fyrirtækjanna.
    Í fimmta lagi vil ég nefna til sögunnar að hlutabréfaeign gæti orðið nýr sparnaðarkostur fyrir almenning. Með því að fjölga slíkum kostum er hægt að auka heildarsparnaðinn og þess ber að geta í þessu viðfangi að sums staðar mun u.þ.b. fjórðungur sparnaðar vera fólginn í hlutabréfaeign.
    Í sjötta lagi vil ég nefna að virkur hlutabréfamarkaður er ein af forsendum einkavæðingar opinberra fyrirtækja ef slík fyrirtæki eiga að seljast á almennum markaði en ekki einstökum einkaaðilum. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherslu því að hæstv. ríkisstjórn hefur nýlega lagt fram frv. um það að gera Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg að hlutafélagi í eigu ríkisins sem síðan í framtíðinni, og þá með samþykki Alþingis, væri hægt að selja öðrum. Ef hlutabréfamarkaður væri virkur á Íslandi, væri hægt að selja þetta fyrirtæki mörgum aðilum á gangverði en í dag er þess varla kostur, enda hefur ríkisvaldið oftast gripið til þess ráðs þegar um sölu á fyrirtækjum eða

hlutabréfum í fyrirtækjum er að ræða að selja það einstökum völdum aðilum, annaðhvort starfandi fyrirtækjum eða launþegum hjá viðkomandi fyrirtækjum.
    Í sjöunda lagi vil ég minna á, ekki síst vegna umræðna um innri markað Evrópubandalagsins, að frjáls hlutabréfaviðskipti mundu ýta undir sameiningu fyrirtækja, stækka rekstrareiningarnar og auka samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Þetta er æskilegur undirbúningur undir það frjálsa fjármagnsflæði sem mun eiga sér stað í Evrópu eftir 1992 og hlýtur að ná til Íslands fyrr eða
síðar. Byggi ég þá skoðun mína ekki eingöngu á hugmyndum sem uppi eru innan Evrópubandalagsins heldur ekki síður þeim hugmydnum sem samþykktar hafa verið á fundum norrænna ráðherra.
    Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á fjármagnsmarkaðnum. Stærsta breytingin er vitanlega sú að nú hafa lánastofnanir og aðrir aðilar sem stunda fjármagnsviðskipti frelsi til að ákveða vexti á almennum markaði. Þessi breyting hefur að ég tel óhikað orðið til góðs, einkum og sér í lagi vegna þess að þetta hefur minnkað hólfaskiptinguna á íslenskum fjármagnsmarkaði, samræmt vexti og svokallað okur eins og það var skilgreint áður í íslenskum lögum er horfið að mestu. Því miður hefur á undanförnum vikum og missirum þess gætt, einkum og sér í lagi hjá æðstu mönnum íslensku þjóðarinnar, að grípa þurfi til svokallaðra handaflsaðgerða, en þeim aðgerðum er ætlað að lækka vexti án tillits til þess hvernig markaðurinn er hverju sinni. Slíkar tilhneigingar eru að sjálfsögðu hættulegar og afturhvarf til grárrar forneskju.
    Ég minni á það að á undanförnum vikum hefur átt sér stað barátta á milli tveggja hæstv. ráðherra í þessu máli, annars vegar hæstv. forsrh., sem beita vill handafli enda maður sterkur og af kraftamönnum kominn, og hins vegar Jóns Sigurðssonar, hæstv. viðskrh., sem um árabil hefur kynnt sér íslensk efnahagsmál meira og betur en flestir aðrir. Hæstv. viðskrh. vill fara hægar í sakirnar og viðurkennir að tilvera markaðarins getur leitt til bættra lífskjara. Hæstv. forsrh. trúir hins vegar á mátt sinn og megin. Vonandi verða þær heimildir sem hæstv. ríkisstjórn hefur leitað eftir í þessu sambandi ekki notaðar og treysti ég á að hæstv. viðskrh. muni ekki beita þeim.
    Nú er nýbúið að setja lög til að tryggja starfsgrundvöll verðbréfasjóða og verðbréfafyrirtækja. Ég fagna þeirri löggjöf. Jafnframt ég fagna því að lög um kaupleigu hafa verið sett. Ég tel það af hinu góða. Hins vegar harma ég að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki enn hafa snúið sér að því að setja eðlileg lög og eðlilegan hvata í lög til þess að koma á hlutabréfamarkaði. Það er nauðsynlegt að örva, ekki eingöngu eftirspurnina eins og gert er ráð fyrir í þessu litla frv. sem ég er hér að mæla fyrir, heldur einnig framboð á hlutabréfum.
    Ég minni á í lokin að þeir aðilar sem langmestu fjármunina hafa á milli handanna eru lífeyrissjóðirnir. Þeir eiga fæstir þess kost að kaupa hlutabréf vegna

hindrana í lögum og reglum eins og svo glögglega kom fram í umræðum um Atvinnutryggingarsjóð og Hlutafjársjóð Byggðastofnunar. Mér sýnist þess vegna vera full ástæða til þess að hæstv. fjmrh. dusti rykið af þeim frumvarpsdrögum sem fyrir liggja í skúffu fjmrn. um lífeyrissjóðina en einmitt í því frv. er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir geti varið 5% af því fjármagni sem þeir hafa til ráðstöfunar á ári hverju til hlutafjárkaupa.
    Árið 1987 var talið að þessir fjármunir, sem lífeyrissjóðirnir með þessum hætti hefðu yfir að ráða, væru 50 millj. og gera má ráð fyrir því að sú upphæð sé nú talsvert hærri. Þannig fengist verulegt fé til hlutafjárkaupa. Ég held að það væri mjög gott ef lífeyrissjóðirnir, sem standa eiga undir lífskjörum hinna öldruðu í framtíðinni, tækju að sér nauðsynlega áhættu í atvinnulífinu, því atvinnulífi sem í framtíðinni er ætlað að standa undir bættum lífskjörum þeirra sem eiga að vinna fyrir iðgjöldum þeirra sem þá eru komnir að ævikvöldi.
    Þessi frv. sem ég hef leyft mér að leggja fram á hinu háa Alþingi fjalla fyrst og fremst um eftirspurnarhliðina. Mér er ljóst að þau eru ekki víðtæk en lögfesting þeirra mundi þó þegar hafa sín áhrif að áliti þeirra sem best þekkja til þessara mála.
    Að svo mæltu, virðulegur forseti, vil ég leyfa mér að fara fram á að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.