Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Batnandi konum er best að lifa. Það er ánægjulegt að Kvennalistinn, sem hefur ekki verið þekktur fyrir mjög öfluga andstöðu við eignarskatta, skuli hafa tekið þetta mál sem hér er til umræðu upp á sína arma.
    Hér í þinginu liggur reyndar fyrir annað frv., sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hefur flutt ásamt mér og fleiri þingmönnum, sama efnis og 2. gr. þess frv. sem hér er til umræðu. Auðvitað er það staðreynd að eignarskattsákvæði þess frv., sem hér var samþykkt fyrir jólin, var hneyksli þá, er hneyksli núna og verður enn þá meira hneyksli þegar það rennur upp fyrir fólki í sumar hvað hér raunverulega skeði, þegar fólk fær skattseðlana í hendur því að eignarskattsálagningin hefur ekki farið fram og það er fjöldi manns sem gerir sér enga grein fyrir því hvað í þessum lögum felst.
    Eitt af þeim nýmælum sem tekið var upp í sambandi við skattlagningu á eignir hér fyrir jólin var þetta sérstaka stóreignaþrep sem svo var kallað. Við sjálfstæðismenn og reyndar ýmsir fleiri mótmæltum því mjög harðlega. Kvennalistinn gerði það hins vegar ekki og mér heyrðist á máli hv. flm. að álitamálið sem hún teldi vera í þessu sambandi væri það hvort þessi mörk ættu ekki að vera eitthvað hærri. Ég man það vel að við sameinuðumst um það hér í hv. fjh.- og viðskn. fyrir jólin að þrýsta á um að fá þessi mörk hækkuð með þeim árangri að þau voru hækkuð úr 6 millj. í 7 fyrir einstaklinga. Þegar útreikningar voru reknir framan í stjórnarliðið til þess að sýna þeim fram á það svart á hvítu hvers konar gríðarlegar hækkanir hér væru á ferðinni, þá féllust þeir á að hækka þetta um 1 millj. Hins vegar er það svo að tiltekinn hópur fólks, ekklar og ekkjur, fer alveg sérstaklega illa út úr þessu dæmi og reyndar verr en allir voru búnir að átta sig á þegar frv. var hér til meðferðar.
    Ég skrifaði grein í Morgunblaðið í janúar og benti m.a. á þetta og mig minnir að dæmið sem ég hafi tekið hafi verið um hjón sem áttu 10 millj. kr. eign. Af þessari eign þurftu þessi hjón að borga 64 þús. kr. á að giska í eignarskatta áður en þessar lagabreytingar náðu fram að ganga. Eftir að annar aðilinn fellur frá þarf sá sem eftir lifir að borga 150 þús. kr. af sömu eign. Meira en tvöfalt hærri skatt. Þetta er vegna þess að fríeignarmark annars aðilans fellur niður og það þarf að borga fullan skatt af 2,5 millj. sem ekki var áður meðan þær voru í eign þess aðila sem fallinn er frá og þar að auki fara nú 3 millj. af þessum 10 í hið sérstaka stóreignaþrep, en ekkert fór í það þrep áður á meðan hér var um að ræða tvo aðila með 5 millj. kr. eign hvor fyrir sig.
    Auðvitað er þetta ekkert annað en hrein svívirða og hreint hneyksli að svona mál skuli fara hér í gegnum þingið. Ég er ekkert undrandi á því að kvennalistakonum, sem hafa ekkert sérstaklega verið andvígar eignarskattinum, skuli ofbjóða. En ef að líkum lætur mun fjmrh. og hans fylgisveinar hér í þinginu láta sér fátt um finnast.

    Ég tel að það séu afar litlar líkur á því að hægt sé að ýta stjórnarliðinu til þess að gera hér einhverja bragarbót þannig að hér verður fjöldi fólks í sumar sem mun vakna upp við vondan draum. Kannski vakna einhverjir úr stjórnarliðinu upp við vondan draum þegar þeim verður ljós ábyrgðin á því sem þeir hafa samþykkt í þessum lögum sem afgreidd voru fyrir jólin.
    Ég gat um það, herra forseti, að Ragnhildur Helgadóttir ásamt þremur öðrum þingmönnum Sjálfstfl. hefði flutt frv. sama efnis og 2. gr. þess frv. sem nú er til meðferðar. Þar er að vísu eilítið önnur útfærsla tæknilega. Brtt. þar er við 81. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt en ekki 83. gr. Um þetta má sjálfsagt ræða en ég tel víst að þarna sé hægt að finna samkomulagsgrundvöll vegna þess að það sem fyrir flm. beggja frumvarpanna vakir er það sama, þ.e. að koma í veg fyrir það að með eignarsköttum sé sérstaklega níðst á fólki sem missir maka sinn á þeim tíma þegar það gerist, þegar fólk býr í óskiptu búi og á sér einskis ills von af hálfu yfirvalda. Ég tel því að það megi auðveldlega sameina þessi frv. í hv. fjh.- og viðskn. ef vilji er fyrir því á annað borð hjá stjórnarliðinu. En eins og ég segi þá efast ég mjög um að svo sé.
    Hinn þátturinn í þessu frv. sem mælt hefur verið fyrir snýr að ónotuðum persónuafslætti barna einstæðra foreldra. Eins og mörgum er kunnugt er hér um að ræða vandamál, ekki síst hjá þeim sem hafa unglinga á framfæri sem ekki vinna nægilega mikið til þess að eyða öllum sínum persónuafslætti. En unglingar eru gjarnan mun frekari til framfærslu en minni börn og því er hér um að ræða oft og tíðum mikla framfærslubyrði sem ekkert er komið til móts við í sköttum eins og þó er gert við minni börnin t.d. í sambandi við barnabætur.
    Ég vil vekja athygli á því að á síðasta þingi flutti María E. Ingvadóttir, sem þá sat á þingi sem varamaður, frv. sem var efnislega á svipaða lund, þar sem gert var ráð fyrir að heimilt yrði fyrir framteljanda að nýta óráðstafaðan skattafslátt barna sinna eldri en 16 ára sem lögheimili ættu hjá framteljanda. Í því frv. sem nú er til umræðu er hins vegar gert ráð fyrir því að einstæðum foreldrum einum verði heimilt að nýta ónýttan persónuafslátt barna sinna og ekki tekið fram að þau skuli vera yfir 16 ára að aldri. Mig minnir reyndar að
börn undir þessum aldri hafi ekki sérstaklega mikið af persónuafslætti til ráðstöfunar, en það er annað mál og mun þá koma fram í nefndinni ef þarna er tæknilegur galli.
    En hitt finnst mér kannski ekki síður merkileg stefnubreyting hjá Kvennalistanum sem hér kom fram í framsöguræðu og eins í grg., að sérsköttunarhugmyndin er víkjandi, a.m.k. að sinni, og Kvennalistinn treystir sér til þess að flytja tillögur sem ganga út á áframhaldandi samsköttun að þessu leyti til.
    Í því sambandi vildi ég vekja athygli á því að einn af varaþm. Sjálfstfl., Sólveig Pétursdóttir, hefur flutt

frv. í Ed. um að hækka það hlutfall persónuafsláttar sem unnt er að flytja á milli hjóna, en það er nú eins og kunnugt er 80% persónuafsláttar þess maka sem ekki nýtir sinn afslátt. Hins vegar er ljóst að bæði er slík breyting, úr 80% í 100%, kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð og eins er það náttúrlega matsatriði hvar eigi að draga þessi mörk vegna þess að óneitanlega fylgir því ákveðið hagræði og ákveðinn sparnaður ef annar maki er heimavinnandi. Það fylgir því ýmis kostnaður þegar bæði hjón vinna utan heimilis sem kannski er ástæða til þess að taka tillit til í þessu viðfangi. Það er því margt sem þarf að huga að þegar þessi mál eru skoðuð og réttilega er persónuafsláttur barna eða unglinga sem ekki nýtist eitt af því eins og fram kemur í því frv. sem hérna er til umræðu.
    Nú þurfa menn ef vilji er fyrir því að koma til móts við eitthvað af þessu að gera það upp við sig hvað skiptir mestu máli. Ég tel náttúrlega alveg tvímælalaust að það komi ekkert annað til greina en að fella niður þessi fráleitu eignarskattsákvæði sem samþykkt voru hér í vetur. Þau eru með slíkum endemum að þau fá ekki staðist og raunar á það við um hið nýja stóreignaskattsþrep líka að mínum dómi, ekki bara áhrifin varðandi ekkjur og ekkla, og margt, margt annað í þessum lögum sem þingið glaptist til þess að samþykkja hér fyrir jólin.
    En þegar kemur hins vegar að spurningunni um að verja fjármunum til þess að hækka persónuafslátt, þá verða menn að setjast niður og gera það upp við sig hvernig þeim peningum er best varið. Er hægt að hugsa sér einhver aldursmörk í því efni miðað við t.d. 16--18 ár? Eða á að ganga lengra í átt til þess að minnka þann mun sem kemur fram í 80%-reglunni sem ég gat um áðan og sem Sólveig Pétursdóttir hefur gert tillögu um að fella niður og fara með í 100%? Mér finnst það kannski ekki aðalatriði á þessu stigi hvaða afstöðu menn taka til þess.
    Mér finnst mikilvægt að hér skuli vera frv. um þetta atriði og að það skuli komin upp umræða á þessum grundvelli og ég tel alveg sérstaklega mikilvægt og jákvætt að það skuli vera Kvennalistinn sem fitjar upp á því.
    Hitt er náttúrlega orðin venja að þegar óbreyttir þingmenn leyfa sér að flytja frv. um þessi efni og dirfast að fara fram á umræður um það, þá sjá náttúrlega ráðherrar, eða sá ráðherra sem er ábyrgðarmaður þessara mála, hæstv. fjmrh., ekki neina sérstaka ástæðu til þess að vera viðstaddir, enda lúrir hæstv. fjmrh. eflaust á sínu græna eyra nú þegar klukkan er að verða hálfþrjú.
    Ég skal ekki, herra forseti, lengja þetta mál umfram það sem orðið er. Ég teldi mjög brýnt og þarft ef hægt væri í fjh.- og viðskn. að sameina þessi tvö frv., 429. mál og 444. mál, sem Ragnhildur Helgadóttir og fleiri hafa flutt að því er varðar skattlagningu á ekkjum og ekklum. Ég teldi það mikið framfaramál. Ég er jafnframt mjög hlynntur því að þetta sem snýr að einstæðum foreldrum og skattafslætti barna eða unglinga verði sérstaklega skoðað. En ég geri mér grein fyrir því að það er

væntanlega mun kostnaðarsamara fyrirtæki og þar að auki ekki hlutur sem beinlínis er hægt að kenna núverandi ríkisstjórn um því að þetta er ekki eitt af því sem hún kom inn í lögin um tekjuskatt og eignarskatt. Hins vegar er full ástæða til þess að ræða það mál og kanna með hvaða hætti er unnt að koma til móts við þá aðila sem þarna er um að ræða sem vissulega búa oft við mjög erfiða og þunga framfærslubyrði án þess að nokkuð sé komið til móts við þá að því er varðar skatta.
    Ég vil síðan leyfa mér að vona, herra forseti, að hv. fjh.- og viðskn., þó hún sé nú önnum kafin um þessar mundir, gefi sér tóm til að taka afstöðu til þessara mála því að hér er hreyft málum sem vissulega eiga fullan rétt á sér og stjórnarliðið, fjmrh. og fylgismenn hans og stuðningsmenn hér á þinginu, yrðu menn að meiri ef þeir tækju þau til greina, ekki síst það atriði er varðar skattlagningu á ekkjur og ekkla og þau mistök og það hneyksli sem hér varð í því sambandi fyrir jólin.