Vaxtalög
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar um frv. til l. um breytingu á vaxtalögum sem hingað er komið eftir umfjöllun í Nd. Nál. er á þskj. 848 og undir það ritar sá sem þetta mælir auk Valgerðar Sverrisdóttur og Jóhanns Einvarðssonar, en Margrét Frímannsdóttir var fjarverandi við lokaafgreiðslu málsins.
    Til viðræðna við nefndina komu m.a. þeir Bjarni Bragi Jónsson og Yngvi Örn Kristinsson frá Seðlabanka Íslands, Stefán Pálsson frá Sambandi viðskiptabanka, Sigurður Hafstein frá Sambandi ísl. sparisjóða og Pétur Blöndal frá Kaupþingi.
    Ég sé, herra forseti, að í nál. 2. minni hl. sem hér hefur verið dreift fjölrituðu er sagt að fram hafi komið að erfitt kynni að vera að túlka ýmis ákvæði frv. Ég minnist þess raunar ekki sérstaklega að lögð væri þung áhersla á það atriði hjá þeim gestum sem komu á fund nefndarinnar. Það var raunar bent á ýmis atriði í frumvarpsgreinunum sem mætti túlka með fleiri en einum hætti, en það voru sumt af því reyndar ákvæði sem lengi hafa staðið í vaxtalögum og eru ekki ný af nálinni.
    Það kom líka fram hjá ýmsum þeirra sem nefndin kallaði til fundar við sig að þeir höfðu í rauninni ekki athugasemdir að gera við málið eftir að tekið hafði verið tillit til ýmissa ábendinga sem þeir höfðu látið fram koma við umfjöllun málsins hjá fjh.- og viðskn. Nd.
    Tilgangurinn með þeim breytingum sem hér er verið að gera er einkum og sér í lagi að gera orðalag greinilegra og taka af tvímæli, orða nákvæmar en verið hefur t.d. ákvæði um töku dráttarvaxta. Svo eru breytingar samkvæmt ábendingum stjórnar Lögmannafélagsins og nýr kafli um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta mörg orð. Það varð samkomulag um það í nefndinni að gera eina brtt., þ.e. við 7. gr. laganna eins og þau nú eru eftir umfjöllun í Nd., og sú breyting er í rauninni viðaminni en þskj. gæti gefið tilefni til að halda. En brtt. er að finna á þskj. 849 og hún er við svokallaða misneytingargrein, en upphaf hennar hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hagnýtir sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjanda síns eða aðstöðumun þeirra að öðru leyti til þess að áskilja sér vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu`` o.s.frv. Sú breyting sem hér er lagt til að gerð verði er að bæta inn aðeins þremur orðum sem þarna voru, þ.e. orðunum ,,á óréttmætan hátt``.
    Ég tel óhjákvæmilegt og ég held að það sé skoðun allrar nefndarinnar að þessi orð ,,á óréttmætan hátt`` standi í þessari grein vegna þess að auðvitað má með nokkrum sanni segja að þegar skuldari í greiðsluþröng er að semja við skuldareiganda sé skuldareigandi að hagnýta sér fjárþröng viðsemjandans með samningum. Þess vegna er alveg óhjákvæmilegt og nauðsynlegt vegna efnis og inntaks þessarar greinar að þarna komi

inn orðin ,,á óréttmætan hátt`` til þess að taka af öll tvímæli. Raunar finnst mér að að þessum orðum slepptum sé hæpið að greinin fái staðist frá sjónarmiði og þess sem kalla mætti almenna skynsemi.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð, en 1. minni hl. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt með brtt. sem er að finna á þskj. 849.