Vaxtalög
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Þetta frv. til l. um breytingu á vaxtalögum er eitt fjölmargra frumvarpa, sem hafa verið lögð fram hér á hinu háa Alþingi eftir áramótin, sem virðast hafa það hlutverk að reyna að ná niður raunvöxtum í þjóðfélaginu, ná því markmiði að við getum séð fram á að hér yrðu hóflegir vextir, bæði hjá banka- og peningastofnunum svo og á verðbréfamarkaði.
    Við þingmenn Borgfl. höfum margoft lýst efasemdum okkar um að þessum markmiðum verði náð. Bæði er um það að ræða að oft á tíðum er verið að gera smávægilegar orðalagsbreytingar á ýmsum greinum í gildandi lögum sem við sjáum ekki í reynd að muni skipta miklu máli. Oft og tíðum er um meinlausar breytingar að ræða þannig að þær eru út af fyrir sig ekki þess eðlis að það sé ástæða til að vera á móti þeim eða leggjast gegn þeim breytingum sem hafa verið gerðar bæði á bankalögum, lögum um Seðlabanka Íslands og hér nú á vaxtalögum.
    Hins vegar mundi ég vilja undirstrika hér og leggja á það áherslu að það er löngu orðið tímabært að endurskoða alla fjármálastefnu og banka- og peningakerfi þjóðarinnar. Blandast margir fleiri þættir inn í það dæmi. M.a. höfum við oft rætt um sjálfa lánskjaravísitöluna og verðtryggingu fjárskuldbindinga. Ég hef ekkert farið dult með að ég tel að við séum þar á rangri braut, þ.e. með hvaða hætti við höfum ákveðið að reyna að tryggja að skuldir brenni ekki upp á verðbólgubáli, en það var hugmyndin með lánskjaravísitölunni á sínum tíma að koma í veg fyrir það.
    Ég hef alla tíð verið mjög andvígur því að binda hluti við vísitölur vegna þess að ég held að það leysi í sjálfu sér ekki eitt eða neitt. Ég man vel eftir því á 8. áratugnum þegar laun voru vísitölubundin og hækkuðu alltaf í takt við allar verðlagshækkanir sem voru reiknaðar út þá reglulega. Það má vel vera að það hafi verið gott mál að launþegar fengu alltaf bætur þegar verðlag hækkaði, en eins og öllum er kunnugt átti það sinn þátt í því að viðhalda verðbólgubálinu. Það var nákvæmlega sem væri ausið olíu á verðbólgueldinn. Alveg á sama hátt virkar lánskjaravísitalan að mínum dómi. Hún verkar sem olía á verðbólgueldinn.
    Ég hef talið að mun skynsamlegra væri að fara þá leið að taka upp gengisviðmiðun bæði á útlánum og innlánum. Þá gætu aðilar sem t.d. leituðu eftir útlánum í bönkum fengið að velja þá gjaldeyristegund sem þeir vildu binda útlánið við. Síðan gætu menn íhugað að vaxtastigið á slíku útláni fylgdi í stórum dráttum þeim vaxtakjörum sem eru í því landi sem væri ákveðið að miða við. Ef t.d. útlán fylgdi breskum pundum eða dönskum krónum yrði tekið mið af því vaxtastigi sem er í viðkomandi löndum. Þetta gæti verið fyrsta skrefið í á átt að heimila frjáls erlend bankaviðskipti sem ég tel að sé orðin brýn nauðsyn til að brjóta upp það úrelta og forstokkaða bankakerfi sem við búum við. Það virðist því miður ekki geta sinnt því hlutverki að vera sá bakhjarl sem

atvinnulífið verður að geta treyst á til þess að hér þróist og dafni eðlilegt atvinnulíf og fyrirtækin hafi aðgang að þeirri aðstoð og þeirri hjálp sem bankakerfi í hverju einasta landi hlýtur að eiga að veita. Þess vegna munum við ekki í sjálfu sér leggjast gegn þessu frv. eins og reyndar kemur fram í nál., en ég ritaði undir það án nokkurs fyrirvara, en ég vil ítreka það, sem ég hef hér verið að segja, að við teljum ekki að þetta muni leysa eitt eða eitt í sjálfu sér. Þetta eru meinlausar breytingar, að sumu leyti kannski óþarfar. Það er miklu meira sem þyrfti að gera hér til að fá einhvern botn í okkar kolröngu peninga- og fjármálastefnu.