Veiting ríkisborgararéttar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. um frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar.
    Nefndin hefur rætt frv. og farið yfir mikinn fjölda umsókna sem bárust nefndinni til viðbótar við þau nöfn sem stóðu á frv. á þskj. 693. Niðurstaðan í störfum nefndarinnar varð sú að leggja til brtt. á þskj. 875 um að 34 nýjum nöfnum verði bætt við frv.
    Það má segja að þeir aðilar skiptast í nokkurn veginn tvo jafna hópa. Í fyrsta lagi er það fólk frá Víetnam sem flust hefur hingað í boði ríkisstjórnarinnar. Það eru ættingjar þess fólks sem komið var hingað áður á sama hátt og hafði fest hér rætur og var veittur ríkisborgararéttur fyrir nokkrum árum eftir að það hafði dvalið fimm ár hér á landi. Sömu reglu var nú beitt við þessa ættingja, sem höfðu flestir verið hér í full fimm ár, að leggja til að þeim verði veittur ríkisborgararéttur. Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri hefur verið sérstakur trúnaðarmaður þessa fólks og hann gefur því hin bestu meðmæli.
    Hinir einstaklingarnir eru víða að komnir, en öll uppfylla þau þær reglur sem allshn. og Alþingi hefur notað við veitingu ríkisborgararéttar. Þó eru þarna nokkrir aðilar sem ekki uppfylla þau skilyrði fyrr en síðar á árinu, en þó allir fyrir þann tíma sem væntanlega nýtt frv. verður lagt fram á næsta þingi.
    Eftir að nefndin hafði afgreitt brtt. og fjallað um málið bárust henni nöfn þriggja nýrra einstaklinga sem virðast geta verið í þessum hópi og mun nefndin leggja fram brtt. við 3. umr. um að taka þau þá inn. En nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri brtt. sem fram er borin á þskj. 875.
    Guðmundur Ágústsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.