Áfengislög
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir frv. sem ég flyt ásamt fimm öðrum þingmönnum úr öllum flokkum að undanskildum hinum nýstofnaða þingflokki. ( VS: Hann á ekki fulltrúa í deildinni.) --- Já, sem á ekki reyndar fulltrúa hér í deildinni þannig að það er sjálfgert. En þetta frv. er um breytingu á áfengislögum, nánar tiltekið á 13. gr. laganna. Til að skýra nú frá því hvernig það er tilkomið, þá vaknaði umræða um það fljótlega eftir að ákveðið var að leyfa hér á landi sölu á áfengu öli að rétt væri að prenta á umbúðir ölsins, hvort sem það væru dósir eða flöskur, aðvörun þess efnis að neysla áfengis og akstur fari ekki saman. Ýmsir aðilar höfðu uppi viðleitni til að ná þessu fram, en við athugun málsins kom m.a. í ljós að talið var að á skorti um það að fyrir væri ótvíræð heimild um að koma slíkum merkingum á með tilliti til gildandi áfengislaga, þ.e. að í lögunum væri ekki ótvíræð heimild til að gera það.
    Þetta frv. er flutt til að taka af tvímæli um það og frv. gerir raunar ráð fyrir því að allar áfengisumbúðir skuli merktar með þessum hætti og þó að það segi ekki í frv. geri ég það að tillögu minni hér að þegar þetta mál kemur til meðferðar í nefnd verði þessu breytt á þann veg að hér verði um víðtækari aðvörun að ræða, þ.e. að það komi einnig fram að þunguðum konum verði ráðlagt að neyta ekki áfengis þar sem það geti valdið fósturskemmdum.
    Nú er þess skemmst að minnast að það eru ekki mjög mörg ár síðan umræða fór fram hér á hinu háa Alþingi um merkingar á sígarettupökkum og tóbaksumbúðum. Þá var því fundið flest til foráttu, það væri erfitt og dýrt og ekki hægt að fá hina erlendu framleiðendur til að sinna sérkröfum svo lítils markaðar sem Ísland er. Allt reyndist þetta rangt. Þessar merkingar eru fyrir hendi. Menn greinir svo hins vegar á um hvort þær hafi áhrif eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að þær hafi tvímælalaust áhrif þó þau séu kannski illmælanleg eða merkjanleg.
    Allar sömu röksemdir verða vafalaust hafðar uppi um að merkja áfengi með þessum hætti, það muni kosta mikið og sé erfitt í framkvæmd. En ég segi sem svo: Auðvitað kostar þetta eitthvað, en það er þá allt í lagi að bæta því við verð hverrar áfengisflösku sem seld er. Það er ekkert á móti því. Ekki nokkur skapaður hlutur.
    Eftir að ég hafði samið frv. og fengið á það meðflm. bárust mér í hendur mjög athyglisverðar upplýsingar frá Bandaríkjunum þar sem er löggjöf sem tekur raunar til eiturlyfja af ýmsu tagi, frá árinu 1988. Í þessari eiturlyfjalöggjöf er sérstakur kafli um áfengi. Þar er ráð fyrir því gert að í Bandaríkjunum verði frá og með 18. nóv. á þessu herrans ári 1989 sett aðvörun frá stjórnvöldum á hverja einustu áfengisflösku og hverja einustu bjórdós eða bjórflösku sem seld er í Bandaríkjunum. Þeir ganga svo langt, Bandaríkjamenn, samkvæmt því sem ég les þessi lög að það er farið niður í allt að 0,5% áfengisinnihald miðað við rúmtak. Slíkir drykkir sem innihalda meira en 0,5% af alkóhóli miðað við rúmtak eru taldir

áfengi og skulu merktir samkvæmt þessu. Eftir 18. nóv. verður því aðvörun á öllum áfengisumbúðum í Bandaríkjunum sem í lauslegri þýðingu hljóðar svo:
    Aðvörun frá stjórnvöldum. Landlæknir Bandaríkjanna segir að konur ættu ekki að neyta áfengis á meðgöngutíma vegna hættu á fósturskemmdum. Og í öðru lagi: Áfengisneysla skerðir hæfileikann til að aka bíl, stjórna vélum og kann að valda heilsutjóni. --- Svo mörg eru þau orð.
    Nú er rétt að geta þess að eftir að þetta frv. var lagt fram var annað frv. til breytinga á áfengislögum til meðferðar hjá hv. allshn. þessarar hv. deildar. Á fund nefndarinnar kom Höskuldur Jónsson, forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Óhjákvæmilega barst efni þessa frv. í tal við hann. Hann hafði margt um það að segja. Hann taldi í fyrsta lagi ekki alveg ljóst hvort lagabreytingu þyrfti til að koma slíkum merkingum við. Í öðru lagi lýsti hann nokkrum efasemdum um gildi slíkra merkinga. Hann benti þá í þriðja lagi á að þetta kostaði talsvert mikla peninga sem e.t.v. og kannski örugglega væri betur varið á annan hátt. Hann rakti einnig ýmis önnur atriði í mjög greinargóðri og skilmerkilegri frásögn á þessu máli og varð það niðurstaðan að hann sem forstjóri áfengiseinkasölu ríkisins mundi senda allshn. Ed. greinargerð um málið.
    Hvað sem menn segja um ágæti slíkra merkinga er ég sannfærður um að þær hafa áhrif og ég hef ekki heyrt þau rök sem sannfæra mig um að þetta sé svo dýrt að það sé nánast óframkvæmanlegt. Ég held að alveg eins og Alþingi Íslendinga hefur samþykkt að vara við því heilsutjóni sem tóbaksneysla hefur í för með sér eigi að gera það sama varðandi áfengið. Kemur mér þá í hug að á þessum sama fundi hv. allshn. var Ólafur Ólafsson landlæknir og hann skýrði nefndarmönnum einmitt frá nýjum niðurstöðum rannsókna þess efnis að aðeins lítil áfengismagn gæti valdið fósturskemmdum og kannski mætti segja greindarskerðingu hins ófædda, aðeins mjög lítið áfengismagn snemma á meðgöngutímanum gæti haft þetta í för með sér, miklu minna áfengismagn en læknar hefðu áður talið. Hann taldi að nú væri orsakasambandið milli
áfengisneyslu snemma á meðgöngutíma og fæðingargalla eða fósturskemmda sannað í nýjum rannsóknum svo óyggjandi væri. Þannig skildi ég a.m.k. hans orð.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð, en legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.