Kvöld- og næturfundir
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hef setið á nokkuð mörgum þingum vegna þess að áður en ég hóf hér fasta þingsetu þá droppaði ég alloft inn sem varamaður. Ég minnist þess að í umræðu um rétt þingmanna stóð Lúðvík Jósepsson mjög fastur á því sem stjórnarandstæðingur á sínum tíma að stjórnarandstaðan léti ekki bjóða sér tvo kvöldfundi í röð og hafði það fyrir fasta reglu að hafa þann ófrið ef mönnum datt það í hug að menn viku undan. Ég kannast ekki við það að hafa nokkurn tíma sýnt málefni frá stjórnarandstöðuþingmanni óvirðingu, hvorki þegar það hefur verið unnið í nefndum eða hér á þinginu og tek ekki slíkum athugasemdum. En mér finnst að það sé orðin mjög skaplaus stjórnarandstaða sem lætur bjóða sér það að tala fyrir málum sínum um miðjar nætur og að hafa hér kvöldfundi, kvöld eftir kvöld.