Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Það háttar nokkuð mismunandi til um einstök tilvik sem þetta frv. snertir. Hér hefur verið fylgt þeirri venju sem skapast hefur og á sér alllangt fordæmi í sambandi við undantekningar frá hinni almennu reglu um bann við innflutningi skipa eldri en tólf ára. Í lögunum um eftirlit með skipum eru ekki neinar undanþáguheimildir og því hefur yfirleitt verið farin sú leið að safna saman nokkrum tilvikum þar sem réttlætanlegt hefur þótt að heimila frávik frá hinni almennu reglu og flytja síðan, þegar nokkur slík tilvik væru komin til, sérstakt frv. um lagaheimild til varanlegrar skráningar skipanna hér. Þegar Siglingamálastofnun hefur viðurkennt að skipin standist í einu og öllu íslenskar kröfur hefur bráðabirgðainnflutningur skipanna verið heimilaður og þau gjarnan verið komin til landsins þegar lagaheimildar hefur verið aflað og þau síðan með varanlegum hætti skráð hér.
    Í einu tilvikinu háttar svo til að útgerðaraðilinn, þ.e. Íslenska úthafsútgerðarfélagið, þarf að taka ákvörðun innan fárra sólarhringa um hvort það nýti sér hagstætt kauptilboð sem því hefur borist og að sjálfsögðu mundi það auðvelda fyrirtækinu að taka þá ákvörðun ef fyrir lægi að lagaheimild væri þegar komin til skráningar þessa sérhæfða skips hér á landi.