Frumvarp til stjórnarskipunarlaga
Miðvikudaginn 19. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. 1. flm. frv. til breytinga á stjórnarskipunarlögum hefur upplýst að það sé ekki ætlan flm. að fá frv. samþykkt á þessu þingi. Þetta vekur mikla athygli. Í fyrsta lagi í ljósi þess að hér er verið að taka mál úr höndum nefndar sem þingflokkarnir allir hafa staðið að og hefði maður ætlað að það hefði því einungis gerst að flm. teldu nauðsynlegt að flýta afgreiðslu málsins.
    Í annan stað vek ég athygli á því að fyrir þinginu liggur fjöldi mála sem ég hygg að ríkisstjórnin, jafnvel að því er varðar stjfrv., hefði áhuga á að yrðu samþykkt. Það liggur hér fyrir fjöldi mála sem þingmenn telja nauðsynlegt að Alþingi afgreiði og fái samþykkt og verið er að halda fundi næturlangt til að ræða slík mál. Hér hefur verið upplýst að hæstv. ríkisstjórn hefur enn ekki gert upp við sig eða komið sér saman um hvaða mál hún ætlar að leggja fram sem forgangsmál eða óska eftir að Alþingi samþykki. Forseti Sþ. hefur lýst því yfir að því fari víðs fjarri að öll mál hæstv. ríkisstjórnar nái fram. Hæstv. forsrh. hefur í dag í umræðum um þingsköp lýst því yfir að það komi ekki til greina að ríkisstjórnin ákveði hvaða stjfrv. nái fram að ganga, þar verði stjórnarandstaðan að hafa jafnmikið eða kannski meira um að segja.
    En aðalatriðið er að það er skammur tími til stefnu og mörg mál sem bæði hæstv. ríkisstjórn og þingmenn vilja fá afgreidd á þessu þingi. Það kallar á langa fundi í deildum þingsins og mikil störf í þingnefndum. En þá er tekinn tími til umræðna um mál sem flm. lýsa yfir að eigi ekki að afgreiða. Ég mótmæli stjórn á þinginu að þessu leyti til og óska eftir því að hæstv. ríkisstjórn, sem á að hafa verkstjórn hér á hendi, komi fram og geri grein fyrir því hvaða mál það eru af hennar hálfu sem hún vill fá afgreidd og það sé reynt að haga þingstörfum á þann veg að þau mál séu tekin til umræðu sem flm. telja eðlilegt að verði afgreidd.
    Þessi sjónarmið vil ég að komi fram og enn á ný óska eftir því að ríkisstjórnin hæstv. reyni að koma sér saman um þetta efni.
    Ég vil svo inna hv. 1. flm. eftir því hvort það sé svo mikill vilji flm. að koma í veg fyrir að frv. verði samþykkt að þeir muni til þess að koma í veg fyrir þingrof greiða atkvæði gegn því verði það borið undir atkvæði í hv. deild til þess að koma í veg fyrir þingrof.