Frumvarp til stjórnarskipunarlaga
Miðvikudaginn 19. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það var ástæðulaust að gera athugasemdir við að þetta mál væri tekið á dagskrá fyrr en í ljós kom að 1. flm. lýsti því yfir að það væri ekki ætlan flm. að það yrði samþykkt á þinginu og fyrir liggur að hér er mikill málafjöldi sem þingdeildin þarf að fjalla um þar sem um er að ræða mál sem bæði hæstv. ríkisstjórn og viðkomandi flm. leggja áherslu á að verði afgreidd og þingið er komið í tímaþröng. Það er einungis í þessu ljósi sem ég geri athugasemdir og tel að þau mál sem ætlunin er að afgreiða á þessu þingi hljóti að hafa forgang, bæði í umræðum og í störfum nefnda.