Frumvarp til stjórnarskipunarlaga
Miðvikudaginn 19. apríl 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Ég hlýt að taka undir með hv. 1. þm. Suðurl. um flest það sem hann hefur hér sagt. Ég er meðflm. þessa frv. og ég held að þetta mál sé öllum hv. þm. allvel kunnugt og þarfnist ekki mikillar skýringar á þessu stigi málsins. Það kom mér þess vegna nokkuð á óvart þegar virðulegur forseti þessarar deildar minntist á að æskilegt væri að einn þingmaður frá hverjum flokki talaði í 1. umr. um málið. Ég óska eftir, úr því það mun vera fyrirætlan, að vera þar með. En það verður að segjast eins og er að ég bað hv. 1. þm. Norðurl. v., þegar ég heyrði að til stæði að mæla fyrir þessu máli í dag, að fresta því fram yfir helgi þar sem ég hefði ekki haft þann tíma sem ég þá vildi hafa til að undirbúa ræðu mína. Það kemur mér því enn á óvart að hér eigi nú að tala fyrir málinu án þess að ég hafi verið látin um það vita. Ég vildi til málamiðlunar fara fram á það við hv. 1. flm. og hæstv. forseta að þessari umræðu verði þá frestað a.m.k. til næsta reglulegs fundar og vona að það skaði ekki málið á nokkurn hátt.