Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði
Miðvikudaginn 19. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 768 um breytingu á lögum nr. 18 frá 11. maí 1977, sbr. lög nr. 45 frá 11. maí 1982 og lög nr. 95 frá 28. maí 1984, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, eins og þetta frv. kemur frá hv. Ed.
    Þetta frv. er flutt til þess að heimila Íslenska járnblendifélaginu að taka þátt í öðrum atvinnurekstri en bræðslu á kísiljárni. Frv. byggir m.a. á hugmyndum sem hafa verið ræddar í stjórn félagsins og sem framkvæmdastjóri þess hefur rætt við aðra hluthafa og þeir hafa fyrir sitt leyti fallist á. Það er kjarni þessa máls að lagt er til að hlutafélaginu Íslenska járnblendifélaginu hf. verði heimilað að tryggja vöxt fyrirtækisins með arðvænlegum fjárfestingum í öðrum greinum atvinnurekstrar, annaðhvort með þátttöku í öðrum félögum eða með stofnun dótturfyrirtækja.
    Í lögum nr. 18/1977 er tekið fram að verksmiðjan skuli reist og rekin til að framleiða kísiljárn og til að hafa með höndum þá framleiðslu og tengdan atvinnurekstur. Í samræmi við þetta var tilgangur hlutafélagsins skilgreindur í 3. gr. samþykktar þess á þennan hátt, og með leyfi hæstv. forseta vitna ég til samþykktarinnar: ,,að byggja, eiga og reka verksmiðju á Íslandi til framleiðslu á kísiljárni og að hafa um hönd alla starfsemi eða viðskipti sem atvinnurekstur þessi þarfnast eða honum fylgir.``
    Frá því ákvarðanir um byggingu kísiljárnverksmiðjunnar voru fyrst teknar hafa ýmsar forsendur þessa iðnaðar breyst mikið, bæði að því er varðar framboð á kísiljárni á heimsmarkaði og eftirspurn eftir því. Eins og nú standa sakir er ekki talið tímabært eða ráðlegt að ráðast í stækkun verksmiðjunnar með viðbótarofni eða ofnum. Afkoma félagsins er hins vegar mjög góð um þessar mundir og því þykir eðlilegt að leggja til að verksvið félagsins verði rýmkað og að þeir fjárhags-, tækni- og stjórnunarburðir sem fyrirtækið hefur yfir að ráða og eru miklir verði nýttir á fleiri sviðum en þeim sem í upphafi var ætlast til. Á þennan hátt gæti Járnblendifélagið orðið virkur þátttakandi að atvinnurekstri í landinu, ekki síst í sínu heimahéraði, bæði í nýiðnaði og rekstri sem þar er fyrir. Meðal nýiðnaðarverkefna sem notið gætu góðs af þekkingu og fjármagni í félaginu eru t.d. þróunarverkefni á sviði efnistækni, málmbræðslu og endurvinnslu málmúrgangs þar sem fyrirtækið hefur góðar forsendur til að verða að liði og getur komið upp nýrri og arðvænlegri framleiðslu. Ég nefni þetta eingöngu sem dæmi því ég tel alls ekki að félagið eigi að vera bundið af því að fjárfesta eingöngu í iðnaðarfyrirtækjum.
    Þetta frv. á sér í reynd mjög ánægjulegt tilefni sem er það að þarna hefur myndast svo mikill rekstrarafgangur bæði í fyrra og sýnilega á þessu ári að það er vandasamt viðfangsefni hjá félaginu að festa þennan arð í nýjum fjárfestingum sem geti skilað félaginu, fyrirtækinu og öllum landsmönnum góðum arði.

    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál en legg áherslu á að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi og legg til að málinu verði vísað til hv. iðnn. og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.