Úrbætur í atvinnumálum kvenna
Mánudaginn 24. apríl 1989

     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 903 er að finna nál. frá félmn. um till. til þál. um úrbætur í atvinnumálum kvenna. Nefndarálitið er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna á mörgum fundum og sendi hana til umsagnar. Svör bárust frá eftirtöldum: Iðntæknistofnun Íslands, Jafnréttisráði, Landssambandi iðnverkafólks og Stéttarsambandi bænda. Þessir aðilar taka jákvætt undir efni tillögunnar og geta ábendinga um efni hennar. Jafnréttisráð telur æskilegt að menntmrn. eigi fulltrúa í þeirri nefnd sem tillagan gerir ráð fyrir vegna náms- og starfsráðgjafar. Landssamband iðnverkafólks telur æskilegt að í nefndinni eigi sæti fulltrúar frá samtökum launþega.
    Vegna ákvæða í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar þess efnis að ,,sérstakt átak verði gert til að auka fjölbreytni í atvinnu kvenna á landsbyggðinni`` leitaði nefndin upplýsinga hjá forsrn. um vinnu að þessu máli á vegum stjórnvalda. Svar ráðuneytisins er dagsett 12. apríl 1989 og fylgdi því minnisblað frá félmrn. sem haft hefur málið með höndum. Þar kemur fram að 10. febrúar sl. kvaddi ráðuneytið til fundar ýmsa aðila, þar á meðal fulltrúa landb.- og iðnrn., til að fjalla um nefnt ákvæði í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Á þessum fundi voru menn sammála um að rétt væri að ráða starfsmann til nokkurra mánaða til að safna saman upplýsingum og framkomnum hugmyndum um úrbætur, svo og að athuga hugsanlega fjármögnun aðgerða. Að lokinni slíkri undirbúningsvinnu verði tekin ákvörðun um næstu skref og er minnst á nefndarskipan í því sambandi. Þrjú ráðuneyti hafa lýst sig reiðubúin til þátttöku í starfi í samræmi við fram komnar ábendingar á fundinum.
    Nefndin tekur undir ábendingar í þingsályktunartillögunni og telur brýnt að til sérstakra aðgerða verði gripið nú þegar til að ná fram úrbótum í atvinnumálum kvenna, ekki síst á landsbyggðinni. Í því sambandi vísar nefndin til þess að nú er hlutfallslega meira atvinnuleysi hjá konum en körlum í flestum kjördæmum og fer vaxandi. Þá sýna tölur úr manntali á síðustu árum að konur eru orðnar til muna færri en karlar í flestum landsbyggðarkjördæmum. Fábreytni í atvinnumöguleikum veldur án efa nokkru um þessa þróun.
    Um leið og nefndin hvetur til átaks til úrbóta í atvinnumálum kvenna og með vísan til aðgerða sem í undirbúningi eru hjá stjórnvöldum, m.a. með ráðningu starfsmanns og nefndarskipun, er lagt til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Þetta er gert á Alþingi 19. apríl 1989 og að þessu standa allir fulltrúar í félmn. Sþ.