Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil geta þess vegna orða síðasta ræðumanns að í ljós hefur komið að það krefst mjög ítarlegrar fræðilegrar vinnu að veita svör við þeim spurningum sem hún bar fram á sínum tíma. Ég hef ítrekað óskað eftir því við Þjóðhagsstofnun að sú vinna verði unnin, en ég hef jafnframt fengið greinargerðir frá Þjóðhagsstofnun um að það taki mjög langan tíma og krefjist töluverðs hluta af starfskröftum stofnunarinnar að veita svör við þeim fyrirspurnum. Það er hins vegar ætlun okkar að leggja fram fyrir þinglok ákveðna greinargerð og svar þar sem annars vegar verða veitt svör þau sem liggja fyrir, en að öðru leyti gerð grein fyrir þeirri umfangsmiklu vinnu sem þarf því miður að reiða af hendi til að veita svör af þessu tagi. Það er þess vegna ekki um að ræða að ráðuneytið sé vísvitandi að draga hv. þm. á svörum heldur þvert á móti að fsp. er því miður það veigamikil og gögnin liggja ekki fyrir í þeirri mynd að hægt sé að svara henni á skömmum tíma. Þannig er það með sumt af því sem óskað er eftir svörum við hér á hv. Alþingi.