Utanríkismál
Mánudaginn 24. apríl 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Skýrsla utanrrh. um utanríkismál þjónar einkum þríþættum tilgangi. Hún er grundvöllur almennra umræðna á hinu háa Alþingi um stefnuna í utanríkismálum og framkvæmd hennar. Hún á að vera almennt yfirlit um framkvæmd utanríkisstefnunnar. Loks er hún handhæg heimild fyrir þá sem vilja kynna sér nánar málsmeðferð og framkvæmd einstakra mála.
    Skýrslan er að þessu sinni talsvert ítarlegri en oftast áður og henni fylgja fleiri fylgiskjöl til þess að auka heimildargildi hennar. Fremst í skýrslunni er að þessu sinni útdráttur þar sem dregin eru saman grundvallaratriði utanríkisstefnunnar og gerð grein fyrir aðalatriðum sem nánar er fjallað um í köflum þar á eftir.
    Vert er að vekja athygli á því að í skýrslunni er fjallað um gang mála allt frá því að seinasta skýrsla var lögð fram og rædd á Alþingi 25. febr. á sl. ári eða á starfstíma tveggja utanrrh.
    Í þessari ræðu mun ég alls ekki fjalla um öll efnisatriði skýrslunnar heldur takmarka mál mitt við meginatriði, en vísa að öðru leyti til ítarlegri upplýsinga sem er að finna í skýrslunni. Það sem ég geri hér að umtalsefni er eftirfarandi: Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar um utanríkismál. Bætt samskipti austurs og vesturs. Lokaskjal Vínarfundar ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu. Afvopnunarmál, sérstaklega spurningar varðandi samninga um takmörkun vígbúnaðar, eftirlit og traustvekjandi aðgerðir á höfunum. Sameinuðu þjóðirnar og lausn svæðisbundinna deilumála. Öryggis- og varnarmál. Utanríkisviðskipti. Hafréttarmálefni. Og áformaðar breytingar á skipulagi og starfsháttum utanríkisþjónustunnar.
    Í málefnasamningi núv. ríkisstjórnar er fjallað um stefnu stjórnarinnar í utanríkismálum svofelldum orðum: ,,Markmið utanríkisstefnu Íslendinga er að treysta sjálfstæði landsins og hagsmuni þjóðarinnar í alþjóðlegum samskiptum. Að því verður unnið með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.``
    Hér er vísað til aðildar Íslendinga að alþjóðasamtökum eins og Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu, Fríverslunarsamtökum Evrópu, Norðurlandaráði og fleiri fjölþjóðasamtökum, en aðild þjóðarinnar að þessum samtökum og ýmsum öðrum setur samskiptum okkar við aðrar þjóðir hina ytri umgjörð. Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar er leiðunum að þessu markmiði lýst með eftirfarandi hætti:
    ,,Með aukinni aðstoð og samvinnu við þróunarríki. Með stuðningi við baráttu fyrir mannréttindum hvar sem hún er háð. Með því að stuðla að friðsamlegri og bættri sambúð þjóða. Með virkri þátttöku í umræðum um mannréttindamál og kjarnavopnalaus svæði í okkar heimshluta. Áhersla verður lögð á að auka þekkingu Íslendinga á vígbúnaðarmálum, sérstaklega á hernaðarumsvifum á Norður-Atlantshafi til þess að leggja óháð mat á öryggismálefni landsins og nálægra svæða. Með því að hvetja til og taka þátt í alþjóðlegu

samstarfi um umhverfismál, sérstaklega um mengunarvarnir á Norður-Atlantshafi. Með því að búa íslenskt atvinnulíf undir þær breytingar sem verða á viðskiptaháttum og efnahagsstjórn í Evrópubandalaginu á næstu árum. Sérstaklega verður unnið að því að laga íslenskt efnahagslíf að hinum nýju aðstæðum og tryggja viðskiptastöðu íslenskrar atvinnustarfsemi án aðildar að bandalaginu.
    Ríkisstjórnin áréttar áður yfirlýsta stefnu Alþingis að hér á landi skuli ekki vera kjarnavopn. Ríkisstjórnin mun ekki gera nýja samninga um meiri háttar hernaðarframkvæmdir og skipti Íslendinga við varnarliðið verða endurskipulögð.``
    Þó þessi orð séu fá lýsa þau í raun og veru risavöxnum verkefnum í alþjóðasamstarfi. Þeirri stefnu sem fram kemur í þessum knapporða málefnasamningi hef ég leitast við að framfylgja þann tíma sem ég hef verið utanrrh. Stefnan byggir á sömu grundvallaratriðum í öryggis- og varnarmálum og aðrar ríkisstjórnir hafa í reynd fylgt sl. 40 ár, þ.e. með skuldbindingum sínum, með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamingnum við Bandaríkin. Hins vegar má merkja breyttar áherslur í veigamiklum málum í ljósi gerbreyttra ytri aðstæðna.
    Það sem yfirgnæfir allt annað í mati manna á samskiptum þjóða þessi missirin eru þær breytingar sem nú eru á byrjunarskeiði í Sovétríkjunum og annars staðar í Mið- og Austur-Evrópu og kenndar eru við perestrojku og glasnost, kerfisbreytingu, opnun, endurnýjun.
    ,,Við erum nú vitni að sögulegu fráhvarfi frá hugmyndaarfi rússnesku byltingarinnar og upplausn þess stjórnkerfis sem þjóðir Sovétríkjanna hafa búið við í meira en 70 ár. Þetta eru endalok rússnesku byltingarinnar. Þetta er punkturinn aftan við þann kafla Evrópusögunnar og veraldarsögunnar sem seinni heimsstyrjöldin ól af sér. Hvaða ástæður sem áður voru fyrir því að líta á Sovétríkin sem ógnvekjandi hernaðarandstæðing, þá eru þær ástæður nú að líða undir lok.``
    Þessi orð eru tilfærð orðrétt eftir George Kennan, en hann lét þau falla í vitnaleiðslum utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings í umræðum um framtíð samskipta Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Þessi orð hins aldna
diplómats lýsa hinum miklu sögulegu þáttaskilum í hnotskurn. Þau eru ekki síst merkileg fyrir það að höfundurinn hefur af samtíðarmönnum verið útnefndur höfuðsmiður eða arkitekt bandarískrar utanríkisstefnu eftir stríð.
    Það þjóðfélagskerfi sem þróaðist í Sovétríkjunum eftir byltingu og byggði á hugmyndaarfi Lenins og síðar Stalíns einkenndist af einokun alls valds, efnahagslegs, hernaðarlegs og pólitísks í höndum forustusveitar eins flokks og að lokum eins manns. Að lokum umhverfðist þetta þjóðfélag í lögregluríki sem var haldið saman með miskunnarlausri valdbeitingu ríkisvalds og kostaði að lokum tugi milljóna mannslífa. Þetta kerfi fól í sér afnám mannréttinda fyrir þjóðir Sovétríkjanna og Mið- og Austur-Evrópu.

Lýðræðisríkjum Vesturlanda birtist þetta þjóðfélagskerfi sem háskaleg hernaðarógnun við lýðræði, mannréttindi og pólitískt sjálfsforræði þjóða.
    Atlantshafsbandalagið, varnarbandalag lýðræðisríkjanna, var andsvar þeirra við þessari hernaðarógnun. Átökin milli austurs og vesturs á tímum kaldastríðs voru því sprottin af hugmyndafræðilegum rótum. Vestræn ríki töldu sig nauðbeygð að efla samtakamátt sinn með hliðsjón af dapurlegri reynslu á millistríðsárunum, að efla samtakamátt sinn til varnar helstu gildum vestrænnar siðmenningar, til varnar mannréttindum, lýðræði og frelsi.
    Það sem við nú upplifum er að þetta tröllaukna alræðiskerfi er að hruni komið innan frá. Fram er kominn á sjónarsviðið nýr leiðtogi í Sovétríkjunum sem hefur haft andlega djörfung og dug til að viðurkenna efnahagslegt og siðferðilegt gjaldþrot hins stalíníska valdbeitingarkerfis. 70 árum eftir rússnesku byltinguna eru Sovétríkin risi á brauðfótum í efnahagslegu tilliti. Þetta hernaðarlega stórveldi getur naumast brauðfætt þegna sína, langvarandi skortur á neysluvarningi virðist óleysanlegur, iðnaður er í mörgum greinum úreltur, framleiðni er mjög lág og tæknileg stöðnun blasir við.
    Allt er þetta hispurslaust viðurkennt af hinum nýju leiðtogum Sovétríkjanna og forustumönnum kommúnistaflokka í löndum eins og Ungverjalandi og Póllandi. Boðaðar eru nýjar hugmyndir sem fela í sér algert fráhvarf frá hugmyndaarfi sovétkommmúnismans. Þær fela í sér nálgun við hugmyndir vesturlandabúa um valddreifingu í efnahagslífi, fjölræði í stjórnmálum, aukna virðingu fyrir mannréttindum og frjálsræði í mannlegum samskiptum. Nái þessar hugmyndir að festa rætur þýða þær einfaldlega að kalda stríðinu er lokið, að hinn hugmyndafræðilegi ágreiningur sem varð undirrót kalda stríðsins heyri brátt sögunni til. Það táknar söguleg þáttaskil.
    Sú tvískipting Evrópu sem seinni heimsstyrjöldin ól af sér er á undanhaldi. Forsendur vígbúnaðarkapphlaupsins allt frá stríðslokum, þ.e. ótti og gagnkvæm tortryggni, eru að bresta. Vonir hinna bestu manna beggja vegna hins gamla járntjalds snúast um það að á næstunni takist traustir samningar sem tákna ekki einasta stöðvun vígbúnaðarkapphlaupsins heldur stórtæka afvopnun á flestum sviðum.
    Hinn nýi leiðtogi Sovétríkjanna, Mikhail Gorbatsjov, á flestum öðrum mönnum fremur heiður skilinn fyrir að hafa skapað pólitískar forsendur fyrir stöðvun vígbúnaðarkapphlaups, nýjum áföngum í afvopnunarmálum og vonum um friðsamlega sambúð þjóða. Enginn leiðtogi á Vesturlöndum hefur kveðið upp úr um það með jafnafdráttarlausum hætti og forsætisráðherra Breta, leiðtogi breskra íhaldsmanna, frú Margaret Thatcher. Hún hefur hvergi dulið hrifningu sína á djarfmannlegum hugmyndum og pólitískum kjarki sovétleiðtogans. Sá sem hér stendur er sammála forsætisráðherra Breta í þessu mati hennar á þessum sögulegu umskiptum.

    Breytingarnar í átt til mannúðlegra stjórnarfars í Sovétríkjunum og bandalagsríkjum þeirra eru meginástæðan fyrir því að nú horfir friðvænlegar í heiminum en nokkru sinni eftir seinni heimsstyrjöld. Hugmyndafræðilegur ágreiningur hefur ekki lengur sama vægi í samskiptum ríkja og áður. Fyrirhugaður leiðtogafundur Sovétmanna og Kínverja í næsta mánuði er t.d. til marks um þetta. Sá fundur gæti ráðið miklu um framvindu mála í Asíu, fjölmennustu álfu heims, á næstu árum.
    En við skulum ekki gleyma því að sá árangur sem náðst hefur á síðustu fjórum árum í samskiptum austurs og vesturs á ekki síður rót sína að rekja til pólitískrar samstöðu aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins sl. fjóra áratugi. Innan bandalagsins hefur ríkt fullur einhugur um grundvallarstefnu þess sem byggir annars vegar á festu og árvekni á sviði varnarmála og hins vegar á vilja til að leysa ágreiningsmál og draga úr tortryggni með pólitískum samningum. Áþreifanlegasti ávöxtur þessarar stefnu á undanförnum árum tel ég að hafi verið samningurinn frá því í desember 1987 um að útrýma heilum flokki kjarnaflauga, en framkvæmd þess samnings er þegar vel á veg komin.
    Atburðir innan Sovétríkjanna á síðasta ári benda til þess að Gorbatsjov hafi treyst sig í sessi innan sovéska valdakerfisins og aflað hugmyndum sínum traustara fylgis. En þrátt fyrir að stöðu leiðtogans virðist ekki ógnað ríkir enn veruleg óvissa um framkvæmd umbótastefnunnar. Aukið frjálsræði á sviði upplýsinga og mennta samfara auknum borgaralegum réttindum virðist hafa leyst úr læðingi öfl sem lengi hefur verið haldið í skefjum og ekki verður séð fyrir
endann á hvar þau láti staðar numið. Þjóðernisátök í Ngorno Karabach, kröfur um sjálfstæði þjóðanna við Eystrasalt, óeirðir í Georgíu, þetta og margt fleira vekur upp áleitnar spurningar um þanþol sovéska stjórnkerfisins. Í efnahagsmálum blæs ekki byrlega. Tilraunir til að losa um hömlur hafa til þessa lítinn árangur borið. Framleiðni er enn í lágmarki, framleiðsla hátæknivöru og neysluvarnings af skornum skammti, halli er verulegur og vaxandi á fjárlögum, erlend skuldasöfnun fer vaxandi.
    Ástæða þess að ég legg sérstaka áherslu á þróunina innan Sovétríkjanna er einfaldlega sú að árangurinn af umbótaviðleitni sovétleiðtogans innan lands ræður úrslitum um það hvort sá aukni sveigjanleiki sem einkennt hefur sovéska utanríkisstefnu að undanförnu verður viðvarandi eða ekki. Engum blandast hugur um að setja má samasemmerki milli perestrojku innan Sovétríkjanna og þess frumkvæðis sem leiðtogi Sovétríkjanna hefur tekið á ýmsum sviðum afvopnunarmála, sbr. hina merku ræðu hans á allsherjarþinginu hinn 7. des. sl. Til þess að ná félagslegum og efnahagslegum markmiðum sínum heima fyrir þurfa Sovétmenn vafalítið að draga mjög úr hernaðarútgjöldum og tryggja aukinn stöðugleika í alþjóðamálum. Það sem sérfróðir menn á Vesturlöndum fyrst og fremst óttast er að perestrojkan hafi þegar vakið mun meiri væntingar um bætt lífskjör

meðal alls almennings í Sovétríkjunum en hún geti staðið við í verki á næstu árum. Vonbrigði af því tagi gætu leitt til afturhvarfs til fyrri stjórnarhátta. Það er þó mat flestra sérfræðinga að það þyki ólíklegt. Flestum leiðtogum Vesturlanda er það yfirvættis ljóst að það er þjóðum Vesturlanda augljóslega í hag að umbætur sovétleiðtogans skili árangri.
    Ég bendi á það í skýrslu minni að áhrifanna af umbótaviðleitni Gorbatsjovs hafi gætt mjög greinilega í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, ekki síst í Ungverjalandi og Póllandi. Í Ungverjalandi hefur átt sér stað nokkuð stöðug þróun í átt til markaðsbúskapar í efnahagsmálum. Ungverjar hafa jafnvel sýnt áhuga á aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu. Í opinberri heimsókn minni til Póllands í desember á sl. ári varð ég þess mjög áþreifanlega var að stjórnvöld líta svo á að byltingarkenndir straumar leiki nú um ríki Mið- og Austur-Evrópu og þau muni eftirleiðis í sívaxandi mæli ráða málum sínum sjálf. Formleg viðurkenning yfirvalda í Póllandi á lögmæti verkalýðssamtakanna Samstöðu í sl. viku er sérstakt ánægjuefni sem væntanlega mun leiða til þess að vestræn ríki aðstoði Pólland í auknum mæli. Þingkosningar í Póllandi í júní nk. marka annan merkan áfanga á braut til aukins lýðræðis.
    En viðbrögð Austur-Evrópuríkja við perestrojku hafa þó engan veginn verið einhlít. Bæði Tékkar og Austur-Þjóðverjar hafa lýst því yfir að þeir muni fara sínar eigin leiðir. Í Tékkóslóvakíu er það vitanlega kaldhæðni örlaganna að Sovétmenn skuli hafa knúið þar á um breytingar sem núverandi stjórnvöld voru sett til með vopnavaldi að kæfa í vöggunni fyrir liðlega 20 árum.
    Í Rúmeníu hefur orðið um afturför að ræða. Þar eru frumstæðustu mannréttindi gróflega fótum troðin. Ég hef tvisvar á þessu ári séð tilefni til að vekja athygli á erlendum vettvangi á ítrekuðum mannréttindabrotum Rúmena og Tékka, annars vegar við lok Vínarfundar ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu 17. jan. sl. og hins vegar við upphaf viðræðna um niðurskurð hefðbundinna vopna og traustvekjandi aðgerðir sem hófust í Vín þann 9. mars sl.
    Ég hef litið svo á að Ísland ásamt öðrum vestrænum lýðræðisríkjum eigi að leggja höfuðáherslu á það sjónarmið að ekki beri að aðskilja öryggismál og aðra þætti í samskiptum austurs og vesturs, einkum og sér í lagi mannréttindi. M.ö.o.: ríki Austur-Evrópu geta ekki vænst þess að vestræn ríki gangi til samninga við þau um verulegan niðurskurð vígbúnaðar án þess að jafnframt verði fullt tillit tekið til þess hvort samningsbundin grundvallarmannréttindi eru í heiðri höfð eða ekki.
    Margt hefur áunnist. Í skýrslu minni kemur eigi að síður fram að ég tel ástæðu til hóflegrar bjartsýni og áframhaldandi varfærni af hálfu vestrænna ríkja um sinn. Óvissuþættirnir eru enn margir. Vert er að hafa hugfast að grundvallarvandinn í samskiptum austurs og vesturs er enn óleystur. Þrátt fyrir glasnost býr meiri hluti íbúa Mið- og Austur-Evrópu við viðvarandi

afleiðingar harðstjórnar og ófrelsis. Yfirlýsingar Sovétmanna um að í framtíðinni muni vígbúnaður þeirra einungis miðast við varnarþarfir og að dregið verði úr útgjöldum til hermála eru vissulega mikið fagnaðarefni, en efndirnar eru enn langt undan. Yfirburðir Sovétmanna á sviði hefðbundinna vopna í Evrópu eru gífurlegir. Á sviði skammdrægra kjarnavopna eru yfirburðir þeirra jafnvel margfalt meiri. Uppbygging sovéska norðurflotans hefur haldið áfram óhindrað enn sem komið er og enn bendir ekkert til að Sovétmenn hafi dregið úr framleiðslu langdrægra kjarnavopna eða stýriflauga á lofti eða í sjó.
    Tilgangur minn með þessum viðvörunarorðum er ekki sá að gera lítið úr friðarvilja sovétleiðtogans. Það sem fyrir mér vakir er einungis að árétta það sjónarmið að svara þarf ýmsum mikilvægum spurningum áður en komist verður að endanlegri niðurstöðu um markmið þeirra og áætlanir. Við þær aðstæður sem ég nú hef lýst tel ég að mat okkar á varnarþörf Vesturlanda eigi ekki að byggjast á óskhyggju fyrst og fremst heldur á raunsæju mati á þeim hættum og þeim
tækifærum sem við okkur blasa.
    Stefna varnarbandalags vestrænna lýðræðisríkja hefur í fjóra áratugi stuðlað að friði og stöðugleika í okkar heimshluta. Ég teldi afar óskynsamlegt í sama mund og árangur þrautseigju þessara ríkja er fyrst að koma í ljós að hvika frá þeirri stefnu í grundvallaratriðum nú.
    Lokaskjal þriðja framhaldsfundar ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, sem á íslensku er skammstafað RÖSE, lauk í Vínarborg 19. janúar. Þetta skjal er tvímælalaust hið mikilvægasta sem frá þeim samskiptaferli hefur komið eftir að Helsinki-samkomulagið var samþykkt. Það er ekki einungis efnismikið heldur er í því að finna jafnvægi í umfjöllun um þau mörgu svið sem tekin eru fyrir á framhaldsfundum ráðstefnunnar og ber að leggja áherslu á að þessi mismunandi svið eru ekki sjálfstæð heldur mynda þau eina órjúfanlega heild. Frá sjónarmiði Íslendinga skipta mannréttindi höfuðmáli. Í lokasamþykkt Helsinki-ráðstefnunnar 1975 var gert ráð fyrir því að þátttökuríkin gætu ekki blómstrað án þess að hverjum einstaklingi verði gert kleift að þroskast óhindraður og frjáls.
    Í Vínarskjalinu er að finna skýr og skilmerkileg ákvæði á mannlega sviðinu þar sem m.a. er fjallað um rétt hvers einstaklings til þess að ráða ferðum sínum, rétt hans til þess að veita og fá fræðslu í trúarbrögðum, aðgang að upplýsingum, sameiningu fjölskyldna, bein persónuleg samskipti milli trúaðra og trúfélaga, frelsi frá gerræðislegum handtökum, fangelsunum og útlegð og að fyrir hendi séu ákveðnar lausnir fyrir einstaklinga sem telja að réttindi þeirra hafi verið brotin og réttindi minnihlutahópa, svo að fátt eitt sé nefnt. Þessi sáttmáli hefur reyndar verið kallaður hinn nýi mannréttindasáttmáli Austur-Evrópu.
    Við fögnum meginatriðum í kaflanum um mannréttindin í Vínarskjalinu, í fyrsta lagi fundunum

þremur um mannlega þáttinn innan ráðstefnunnar um öryggi og samstarf Evrópubúa og í öðru lagi hvernig staðið skuli að upplýsingaskiptum og leyst skulu vandamál varðandi mannréttindi, undirstöðuatriði frelsis og mannlegra samskipta. Með þessu eru sett á laggirnar eins konar eftirlitskerfi með mannréttindum og ekki veitir af eins og dæmin sanna því miður.
    Í ræðu minni á lokafundi Vínarfundarins gagnrýndi ég harðlega meðferð á friðsamlegum mótmælendum í Prag. Ríkisstjórnin mótmælti handtöku Vacslav Havels og fleiri friðsamlegra mótmælenda og í ræðu Íslands við upphaf tveggja öryggisfunda í Vín 6. mars var dómum yfir Havel og félögum hans enn mótmælt. Þá hafa fulltrúar Íslands harðlega gagnrýnt framferði Rúmeníu gagnvart minnihlutahópum þar í landi, einkum af ungverskum uppruna.
    Textar sem samþykktir eru á fundum RÖSE hafa ekki lagagildi, en þeir hafa pólitískt og siðferðislegt gildi. Við munum því gera okkar til þess að veita það aðhald í þessum efnum sem dugir. Meginmunurinn er sá að mannréttindi eru ekki lengur innanríkismál hvers ríkis eða ríkisstjórnar þannig að ríkisstjórnir, almannasamtök og einstaklingar í öðrum ríkjum geta lagt fram kærur vegna mannréttindabrota og gert það í fullum rétti og krafist þannig réttar síns.
    Það ber að fagna þeirri jákvæðu þróun sem átt hefur sér stað á vettvangi mannréttindamála innan Ráðstjórnarríkjanna, í Póllandi og Ungverjalandi, en betur má ef duga skal eins og dæmin frá Rúmeníu og Tékkóslóvakíu sanna.
    Meðal þess sem ákveðið var í lokaskjali Vínarfundarins eru tvennar viðræður sem hófust í Vín 6. mars, annars vegar um traustvekjandi aðgerðir á hernaðarsviðinu, en í þeim taka þátt 35 ríki, þ.e. ríki Atlantshafsbandalagsins, Varsjárbandalagsins og hin hlutlausu ríki Evrópu. Hins vegar fóru af stað viðræður ríkja Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins um jafnvægi á sviði hefðbundins herafla í Evrópu. Fyrsta lota beggja viðræðna stóð yfir fram að páskum og einkenndist af mjög jákvæðu andrúmslofti. Eru ástæðurnar m.a. þær að að því er varðar hinar traustvekjandi aðgerðir ríkir ánægja með framkvæmd Stokkhólmsskjalsins og í afvopnunarviðræðunum hafa tilkynningar Austur-Evrópuríkja um einhliða niðurskurð hefðbundins herafla haft mjög jákvæð áhrif. Austur og vestur lögðu fram ítarlegar tillögur á fyrstu dögum viðræðnanna beggja. Hefur þeim verið dreift til allra þingmanna í utanrmn. Síðan fór fyrsta lota umræðnanna á báðum þessum samræðuferlum fyrst og fremst í útskýringar á þeim tillögum.
    Í erindisbréfi viðræðnanna um niðurskurð hefðbundinna herja er mjög skýrt tekið fram að þar eigi ekki að fjalla um kjarnavopn, sjóheri og efnavopn. Vonast er til að hægt verði að semja um niðurskurð ákveðinna tegunda vopna. Einkum er um að ræða vopn sem eru til þess gerð að gera skyndiárásir, hernema og halda landsvæði.
    Tillögur Atlantshafsbandalagsríkja hafa að geyma útfærðar hugmyndir um róttæka fækkun skriðdreka,

stórskotaliða og brynvarinna farartækja, en á þeim sviðum hafa ríki Varsjárbandalagsins mikla yfirburði. Í tillögum Varsjárbandalagsríkjanna sjö er bætt við orustuþotum í fremstu víglínu og orustuþyrlum. Í lok fyrsta tímabils samkvæmt þeim tillögum yrði þessi vígbúnaður bandalaganna tveggja 10--15% undir núverandi mörkum
Atlantshafsbandalagsins. Í lok annars tímabils yrði enn skorið niður um 25% og á þriðja tímabilinu, 1997--2000, yrði enn frekari niðurskurður. Jafnframt yrði þá eingöngu um varnarmátt herja í Evrópu að ræða. Búið væri m.ö.o. að útrýma árásar- og hernámsgetunni.
    NATO-ríkin vilja ræða um orustuflugvélar og þyrlur síðar en leggja fyrst áherslu á fækkun skriðdreka, stórskotavopna og brynvarinna farartækja sem nota má til liðsflutninga, en á þeim sviðum hefur Varsjárbandalagið mikla yfirburði eins og áður sagði. Lagt er til af Atlantshafsbandalagsríkjunum að skriðdrekum verði fækkað um 50% og verði þeir 40 þús. í Evrópu, 20 þús. í eigu Atlanthafsbandalagsins og sami fjöldi í eigu Varsjárbandalagsríkja. Ekkert eitt land mætti eiga meira en 12 þúsund skriðdreka. Enn fremur mætti ekkert ríki hafa meira en 3.200 skriðdreka utan landamæra sinna.
    Þrátt fyrir allt er töluvert margt sameiginlegt eða tiltölulega líkt í tillögum bandalaganna tveggja og lofar það góðu í þessum viðræðum sem leystu af hólmi svonefndar MBFR-viðræður, en þær höfðu staðið samfellt með litlum árangri í 15 ár. Engin tímamörk eru gefin fyrir fram varðandi lok þessara afvopnunarviðræðna í Vín.
    Ráðstefna ríkjanna 35 í Vín um traustvekjandi aðgerðir er oft kölluð Stokkhólmur II, enda á hún samkvæmt Vínarskjalinu frá því í janúar sl. að byggja á og víkka út þann árangur sem náðist í Stokkhólmsskjalinu frá því í september 1986. Fyrstu tillögur bera þess auðvitað merki. Stefnt er að því að ráðstefnunni í Vín um traustvekjandi aðgerðir ljúki fyrir 4. framhaldsfund RÖSE sem hefst í Helsinki 24. mars árið 1992.
    Á fyrsta degi samningaviðræðnanna um traustvekjandi aðgerðir 9. mars sl. lögðu ríki Atlantshafsbandalagsins og ríki Varsjárbandalagsins fram tillögur sínar um nýjar traustvekjandi aðgerðir. Traustvekjandi aðgerðir á hernaðarsviðinu voru samþykktar í lokasamþykktinni í september 1975, t.d. varðandi tilkynningarskyldu vegna fjölmennra heræfinga. Í Madrid-skjalinu frá 1983, en enn meira í Stokkhólmsskjalinu frá því í september 1986 voru stigin stór skref varðandi traustvekjandi aðgerðir til þess að minnka tortryggni og þar af leiðandi hættu á ófriði. Þetta var gert með auknu upplýsingaflæði og gagnsæi svokölluðu, transparency, tilkynningarskyldu vegna fámennari heræfinga og herflutninga en áður, ákvæðum um eftirlitsmenn og síðast en ekki síst skyndieftirliti svo að fátt sé nefnt. Á þessu skal byggja áfram í Vín.
    Ef frá eru talin atriði í tillögum Varsjárbandalagsríkjanna um traustvekjandi aðgerðir að

því er varðar sjó- og flugheri er margt sameiginlegt í tillögum austurs og vesturs. Í Stokkhólmsskjalinu var tilkynningarskyldan vegna landgönguæfinga samþykkt og miðast hún við 3000 hermenn. Jafnframt var þar stigið fyrsta skrefið varðandi traustvekjandi aðgerðir á höfunum því samþykkt var að flotaæfingar sem tengjast heræfingum á landi í Evrópu skuli tilkynna --- lítið skref en þýðingarmikið þó. Sameiginlegt með tillögum austurs og vesturs er m.a. mikil áhersla á gegnsæi á hernaðarsviðinu, hvort sem það er kallað transparency í því fyrrnefnda eða glasnost í því síðarnefnda, upplýsingaskipti, betri aðstöðu eftirlitsmanna, beinar viðræður yfirmanna herja, enn lægri tölur varðandi tilkynningarskyldu um heræfingar og margt fleira.
    Virðulegi forseti. Í skýrslu minni kemur fram að vel hefur miðað á öðrum sviðum afvopnunar. Framkvæmd fyrsta afvopnunarsamningsins á sviði kjarnavopna, samningsins um útrýmingu meðaldrægra kjarnavopna, miðar samkvæmt áætlun. Árangur hefur náðst í viðræðum um helmingsfækkun langdrægra kjarnavopna. Unnið er að allsherjarbanni við efnavopnum og vonir við það bundnar að samningar frá miðjum áttunda áratugnum um takmarkað bann við tilraunum með kjarnavopn taki gildi innan tíðar. Það kemur glöggt fram í skýrslu minni að ég tel að hinir ótvíræðu yfirburðir Sovétmanna á sviði hefðbundinna árásarvopna, þar með talið skriðdreka- og stórskotaliðs, séu ein höfuðorsökin fyrir því að ekki hefur enn tekist að eyða tortryggni í samskiptum austurs og vesturs hingað til á tímabilinu eftir stríð. Þess vegna tókst um það fullt samkomulag milli Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins að í þeim afvopnunarviðræðum sem nú standa yfir í Vín skuli samningar um jafnvægi á sviði hefðbundinna herja hafa forgang. Um það ríkir því ekki ágreiningur í samskiptum austurs og vesturs að forgangsröð afvopnunarviðræðna skuli nú vera þessi: Meiri háttar niðurskurður herja og hefðbundinna vopna á meginlandi Evrópu, jafnhliða samningar um helmings niðurskurð á langdrægum kjarnavopnum og jafnframt allsherjarbann við framleiðslu, geymslu og notkun eiturefnavopna.
    Á sama hátt og tortryggni og fjandskapur getur leitt til vígbúnaðarkapphlaups þjóða í milli er gagnkvæmt traust ein af forsendum þess að afvopnunarsamningar beri tilætlaðan árangur. Af þessum sökum er aldrei raunhæft að aðskilja afvopnunarmál og aðra þætti alþjóðamála í heild sinni. Við gerð afvopnunarsamninga er því nauðsynlegt að taka mið af því pólitíska andrúmslofti sem ríkjandi er hverju sinni. Einnig verður að gæta þess að tilraunir til að bæta sambúð ríkja með afvopnunarsamningum verði ekki á kostnað réttmætra öryggishagsmuna. Í skýrslu minni vek ég einmitt athygli á
því að innan Atlantshafsbandalagsins er nú unnið að því að móta verkefnaskrá í afvopnunarmálum með sérstöku tilliti til varnarþarfa bandalagsríkjanna í heild.
    Slysið á Vestur-Barentshafi 7. apríl sl. er eldur kviknaði í kjarnorkuknúnum sovéskum árásarkafbáti

og hann sökk er Íslendingum áminning um þá hættu sem lífríki sjávarins kringum landið getur stafað af aukinni umferð kjarnorkukafbáta. Hinn 13. apríl sl. gerði ég Alþingi ítarlega grein fyrir afskiptum íslenskra stjórnvalda af kafbátsmálinu. Slysið hefur orðið kveikja að umræðum um vígbúnaðareftirlit á höfunum umhverfis Ísland, bæði hér á landi og í grannlöndum okkar. Hér er um að ræða hvort tveggja í senn vistfræðilega hagsmuni og öryggishagsmuni íslensku þjóðarinnar. Íslendingum er það augljóst lífshagsmunamál að vernda lífríki hafsins sem þjóðin byggir afkomu sína á. Mengun þekkir engin landamæri. Baráttan gegn mengun hafsins krefst þess vegna náins samstarfs við grannþjóðir okkar sem svipaðra hagsmuna eiga að gæta. Við þurfum að leita alþjóðlegs samstarfs um aðgerðir til að koma í veg fyrir losun úrgangs- og eiturefna í hafið. Það eru einnig lífshagsmunir okkar Íslendinga að samkomulag náist um aðgerðir til að koma í veg fyrir vistfræðileg slys sem svipt gætu í einu vetfangi stoðunum undan íslensku efnahagslífi. Gagnkvæmir samningar um fækkun eða útrýmingu ákveðinna tegunda kjarnorkuknúinna kafbáta og kjarnorkuvopna á og í höfunum mundi stuðla að þessu markmiði.
    Eitt meginhlutverk varnarstöðvar Atlantshafsbandalagsins hér á landi er einmitt að hafa eftirlit með ferðum kjarnorkuknúinna kafbáta á Norður-Atlantshafi, þar á meðal árásarkafbáta af því tagi sem um var að ræða 7. apríl sl., þrátt fyrir að óhappið hafi átt sér stað utan íslenska eftirlitssvæðisins.
    Á hinn bóginn er einnig brýnt að menn hafi hugfast að varnir Íslands eru að verulegu leyti undir því komnar að unnt sé að vernda siglingaleiðir yfir Norður-Atlantshaf á hættu- og ófriðartímum. Hömlur við starfsemi sem ætlað er að þjóna þessu markmiði mundu stríða gegn íslenskum öryggishagsmunum. Að þessu leyti má segja að örlög Íslendinga séu samofin örlögum bandamanna þeirra í Vestur-Evrópu. Án þeirrar samstöðu sem Ísland leggur af mörkum í varnarsamstarfi vestrænna lýðræðisríkja væri Evrópa lítt verjanleg ef til ófriðar kæmi. Sömuleiðis má færa fyrir því rök að ef ekki tækist að tryggja liðs- og birgðaflutninga til meginlands Evrópu á ófriðartímum yrði þess skammt að bíða að öryggi Íslands yrði alvarlega ógnað.
    Það leiðir m.a. af legu Íslands við nyrðri jaðar þessarar lífæðar Atlantshafsbandalagsins að Íslendingar hljóta að móta hugmyndir sínar um vígbúnaðareftirlit á og í höfunum í samráði við bandalagsþjóðir sínar í Atlantshafsbandalaginu. Án slíks samráðs og án fulltingis þeirra ríkja sem eiga og stýra ferðum kjarnorkuknúinna skipa og kafbáta er borin von að tillögur um efnið beri árangur. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að Íslendingar eigi nú að taka frumkvæði að því ásamt grannþjóðum sínum og bandalagsþjóðum að hefja undirbúning að næsta áfanga afvopnunarmála sem ætti að stefna að gagnkvæmum samningum um stöðvun vígbúnaðarkapphlaups á höfunum, fækkun

kjarnorkuknúinna skipa og takmörkun á umferð með kjarnavopn á höfunum, traust eftirlit með vígbúnaði og traustvekjandi aðgerðir í líkingu við þær sem þegar hefur náðst samkomulag um í Vínarviðræðunum.
    Ljóst er að við Íslendingar höfum tvenns konar hagsmuna að gæta þar sem vígbúnaður á höfunum er annars vegar, umhverfishagsmuna og öryggishagsmuna. Til áréttingar þeirri skoðun minni að þessir hagsmunir þurfi ekki að rekast á vil ég geta þess að innan vébanda Atlantshafsbandalagsins er ýmislegt á döfinni eða hefur þegar verið gert sem stuðlað gæti að því að draga úr þeirri ógn sem lífríkinu kann að stafa af vígbúnaði á og í höfunum.
    Í fyrsta lagi er nú unnið að samningi um 50% niðurskurð langdrægra kjarnavopna í START-viðræðunum svonefndu en slíkur samningur mundi hafa í för með sér verulega fækkun kjarnorkukafbáta á norðurhöfum að öllum líkindum. Sökum þess hve sjóherir eru hreyfanlegir mundi ekki vera raunhæft að semja um svæðisbundinn niðurskurð. Fækkun á norðurhöfum verður því að eiga sér stað innan ramma allsherjarsamnings um afvopnun á höfunum, en talið er að um 30% þeirra 50 þús. kjarnavopna sem til eru séu á skipum og í kafbátum. Í skýrslu minni vek ég máls á því að það sé sérstakt hagsmunamál Íslendinga að START-viðræðurnar beri ávöxt. Ekki er síst mikilvægt að START-samningarnir verði til þess að skorður verði reistar við langdrægum stýriflaugum sem flutt geta kjarnavopn, en Sovétmenn eru um þessar mundir að þróa nýja gerð þessara flauga.
    Á sviði sjóherja hefur fjölmargt verið gert nú þegar til að draga úr spennu og efla traust. Má t.d. nefna árlegar tilkynningar Atlantshafsbandalagsins og einstakra aðildarríkja um æfingar, samningsbundnar viðvaranir til sjó- og flugliða vegna umsvifa sem stafað gæti hætta af, alþjóðlegan fjarskiptabúnað og sérstaka miðstöð stórveldanna frá 1987 sem ætlað er að draga úr hættunni á átökum með kjarnavopnum. Árið 1972 gerðu Bandaríkjamenn og Sovétmenn einnig samning um aðgerðir til að koma í veg fyrir slys á höfunum, en hann skuldbindur samningsaðila til að forðast athæfi sem talist gæti ögrandi og
kveður á um reglur sem gera eiga samningsaðilum kleift að athafna sig án árekstra. Bretar, Frakkar og Vestur-Þjóðverjar hafa þegar gert hliðstæða samninga við Sovétmenn og í undirbúningi eru samningar Sovétmanna og Norðmanna.
    Þrátt fyrir að vígbúnaðareftirliti á og í höfunum hafi þannig verið sinnt með ýmsum hætti fer því víðs fjarri að nóg hafi verið að gert. Sú hætta blasir við að umtalsverður árangur í samningsbundinni afvopnun á meginlandi Evrópu geti freistað stórveldanna til að auka vígbúnað sinn á sjó og í höfunum í staðinn. Ég er því þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi í samstarfi við nánustu bandalagsþjóðir sínar að taka sérstakt frumkvæði í þessum málum. Um leið munum við hafa hugfast að öryggi íslensku þjóðarinnar á hættu- eða ófriðartímum er því háð að unnt sé að vernda siglingaleiðir yfir Norður-Atlantshafið, hvort heldur er

til aðfanga eða útflutnings þjóðarinnar.
    Vitað er að á vegum varnarmálaráðuneyta einstakra ríkja Atlantshafsbandalagsins hefur þegar verið unnið talsvert starf við að meta hugmyndir og tillögur um aðgerðir til að draga úr hættu á vígbúnaði á og í höfunum og auka gagnkvæmt traust í samskiptum ríkja. Meðal slíkra hugmynda má nefna takmarkanir á flotaæfingum, bann við ákveðnum tegundum vopna um borð í kafbátum og takmarkanir á fjölda annarra vopna, lokun svæða fyrir umferð kjarnorkuknúinna skipa, tilkynningarskyldu vaðandi umferð slíkra skipa, gagnkvæmir eftirlitsaðilar verði við æfingar, samið verði um gagnkvæmar samskiptareglur, gagnkvæmar reglur um öryggisútbúnað, gagnkvæmar viðræður um búnað, aðferðir og hegðunarmynstur.
    Sérfróðum aðilum ber saman um að framkvæmd og eftirlit afvopnunar á og í höfunum sé eðli málsins samkvæmt einn flóknasti og vandmeðfarnasti þáttur afvopnunarviðræðna. Engum stendur þó nær en þeim þjóðum sem beinlínis byggja afkomu sína á lífríki hafsins að knýja á um að slíkar samningaviðræður verði undirbúnar og að þær hefjist. Það er m.a. tilgangur nýbirtra tillagna um endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar að fela sérstökum starfsmönnum þjónustunnar frumkvæði og ábyrgð á slíku undirbúningsstarfi, bæði að því er varðar alþjóðasamstarf að vörnum gegn mengun hafsins sem og að þessum þætti afvopnunarmála. Það er gert með vísan til þeirrar yfirlýstu stefnu að íslenska ríkið hafi í þjónustu sinni sérfróða aðila til að leggja sjálfstætt mat á öryggishagsmuni þjóðarinnar út frá bæði tæknilegum og pólitískum forsendum.
    Í framhaldi af þessu vek ég athygli á því að í fyrirlestri í Kanada þann 19. mars sl. hefur varnarmálaráðherra Noregs, Johan Jörgen Holst, látið í ljós þá skoðun að tími sé til kominn að taka afstöðu til tillagna um verulega fækkun og jafnvel algert bann við umferð kjarnorkuknúinna árásarkafbáta í höfunum. Í umræddum fyrirlestri lýsir norski varnarmálaráðherrann þeirri skoðun sinni að sovéskir kafbátar séu sérstök ógnun við verndun siglingaleiða yfir Atlantshafið milli Bandaríkjanna og Evrópu. Verndun þessara siglingaleiða verði enn þá mikilvægari eftir að samkomulag hafði tekist um niðurskurð hefðbundins herafla í Evrópu. Bann við umferð kjarnorkuknúinna árásarkafbáta eða fækkun þeirra muni draga úr ógninni við að halda þessum siglingaleiðum opnum og stuðli þannig að auknu öryggi bandalagsþjóða. Varnarmálaráðherrann heldur því fram að það hljóti að vera báðum bandalögunum í hag að ná fram gagnkvæmum heildarsamningum um minni vígbúnað á og í höfunum og eftirlit með honum, ekki með svæðisbundnum samningum heldur heildarsamningum sem falli inn í afvopnunarviðræðurnar í heild. Undir þessi orð varnarmálaráðherra Norðmanna tek ég mjög eindregið.
    Burt séð frá ráðstöfunum sem gerðar hafa verið til að hafa áhrif á uppbyggingu sjóherja og starfsemi þeirra hefur kafbátsslysið við Bjarnarey orðið til að vekja spurningar um öryggisbúnað kjarnorkukafbáta og

hugsanleg áhrif af völdum geislavirkni ef slys verða. Ég tel afar mikilvægt að Íslendingar séu í aðstöðu til að meta slíka hættu sjálfir og geti fjallað um þessi mál af yfirveguðu raunsæi.
    Í greinargerð með þáltill. um kjarnorkuafvopnun á norðurhöfum, sem fram kom á Alþingi nýlega, var fullyrt að talið væri að á árunum 1965--1977 hefðu orðið 380 slys og hættuleg atvik sem tengdust kjarnavopnum bandaríska sjóhersins. Mér er ókunnugt um hvaðan flm. tillögunnar höfðu þessar upplýsingar, enda er heimilda ekki getið. Samkvæmt heimildum bandaríska sjóhersins sem utanrrn. hefur aflað sér hafa orðið mun fleiri atvik, ,,incidents``, eða 628 talsins á tímabilinu 1965--1986. Það sem flm. hefur hins vegar láðst að gera grein fyrir er skilgreining sjóhersins á hugtakinu ,,atvik`` eða ,,incident``. Þegar sjóherinn talar um atvik á hann við ósamræmi, galla eða frávik sem ekki skapar hættu og krefst þess ekki að yfirmenn hafi afskipti af. Slík atvik eða ,,incidents`` geta átt sér stað þar sem raunveruleg kjarnavopn eiga í hlut en þau geta einnig átt við um eftirlíkingar eða tilraunabúnað þar sem engin kjarnavopn koma nærri. Dæmi um atvik í hópi þeirra 628 atvika sem ég nefndi hér á undan eru rispa á málningu æfingaskotbúnaðar, sprunginn hjólbarði flutningatækis eða þegar vélflauta gefur ástæðulausa viðvörun og sjálfvirkur eldslökkvibúnaður fer af stað af litlu tilefni.
    Óhætt er því að fullyrða að þær upplýsingar sem fram koma í greinargerð flm.
umræddrar tillögu gefa óraunhæfa og ýkta mynd af kjarnorkuóhöppum sem átt hafa sér stað hjá bandaríska sjóhernum. Ekki er vitað um nein óhöpp með kjarnavopn hjá bandaríska sjóhernum sem ógnað hafa óbreyttum borgurum eða náttúrlegu umhverfi. Bæta má því við að samkvæmt greinargerð sem yfirmaður flotastjórnar Atlantshafsbandalagsins lét utanrrn. í té að ósk utanrrn. í febrúar sl. og nýlega hefur verið dreift til íslenskra fjölmiðla í íslenskri þýðingu, þá hefur aldrei átt sér stað kjarnorkuslys á þeim 35 árum sem kjarnorkuknúin skip hafa verið í notkun. Frá árinu 1955 hafa kjarnorkuknúin skip bandaríska flotans siglt 78 millj. sjómílur og hefur notkun þeirra á kjarnaofnum verið metin sem 3500 svokölluð kjarnaofnaár.
    Í samtali mínu við sendiherra Sovétríkjanna á Íslandi fyrr í mánuðinum óskaði ég eindregið eftir því að Sovétmenn létu okkur í té hliðstæða greinargerð að því er varðar öryggi og slysatíðni sovéska kjarnorkukafbátaflotans, en því miður hefur sú greinargerð ekki borist.
    Ég vil einnig nota tækifærið og koma því á framfæri að samkvæmt upplýsingum sem sendiráð Íslands í Osló hefur eftir norska varnarmálaráðuneytinu hyggjast Norðmenn á næstunni birta leynilega skýrslu frá árinu 1986 um hugsanlegar afleiðingar af slysum á kjarnorkukafbátum. Í skýrslunni er fjallað um öryggisbúnað, hvort tveggja kjarnaofna og kjarnaeldflaugar, um borð í kafbátum og komist að þeirri niðurstöðu að möguleikarnir af geislavirkni frá sokknum kafbáti á hafsbotni séu eins

og þar segir ,,óverulegir``.
    Ástæða þess að ég vek svo rækilega athygli á þessum staðreyndum er ekki sú, alls ekki sú að ég vilji gera lítið úr þeirri hættu sem lífríki hafsins kann að stafa af kjarnorkuslysi á norðurhöfum, þvert á móti. Ég tel að Íslendingar eigi að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr hugsanlegum vistfræðilegum slysum af völdum kjarnorkuknúinna kafbáta á hafsvæðunum kringum landið. Ég lít á það sem skyldu íslenskra stjórnvalda að gera allt sem í þeirra valdi stendur á alþjóðavettvangi til þess að veitt verði það aðhald sem dugir í þessum efnum.
    Ég hef einnig beitt mér fyrir því að skipulagsmál sem lúta að viðbrögðum við slíkum slysum verði endurskoðuð hér innan lands. Að frumkvæði utanrrn. hefur þegar verið efnt til funda ráðuneytisins með fulltrúum dómsmrn., lögreglustjórnar, Landhelgisgæslu, Almannavörnum og Geislavörnum til þess að gera úrbætur á boðleiðum innan stjórnkerfisins.
    Ég leyfi mér að minna á að alþjóðasamningar um umhverfisvernd hafa litla þýðingu ef framkvæmdina skortir. Mikilvægt er því að tryggja að gerðir samningar séu virtir í hvívetna. Vegna atviksins á Vestur-Barentshafi 7. apríl sl. vil ég benda á að samningur Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, sem Sovétríkin eru aðili að, kveður á um skyldu ríkja til að tilkynna um sérhvert slys þar sem geislavirk efni berast út eða eru talin geta borist út yfir landamærin til annarra ríkja. Sovétmenn töldu sig hins vegar ekki bundna þessu ákvæði þar eð þeir töldu sjálfir útilokað að hætta af völdum geislavirkni væri á ferðinni. Atvikið sýnir því að einstök ríki kunna að líta svo á að þeim sé í rauninni í sjálfsvald sett að meta hættuna af slíkum slysum. Til þess að úr þessu verði bætt hef ég litið svo á að frekari umræður ættu að eiga sér stað á alþjóðavettvangi um hugsanlegar afleiðingar kjarnorkuslysa. Ég tel eðlilegt að málið verði t.d. tekið upp í umhverfismálanefnd Atlantshafsbandalagsins sem ég vík stuttlega að í skýrslu minni. Ég vil einnig benda á að í ráði er að halda sérstaka ráðstefnu um umhverfismál á höfunum á vegum þessarar nefndar í Osló síðar á þessu ári.
    Dæmi um alþjóðlegt samstarf á vettvangi umhverfismála sem miklar vonir eru bundnar við í framkvæmd er Vínarsamningurinn um verndun ósonlagsins. Alþingi hefur nú til umfjöllunar þáltill. um staðfestingu Vínarsamningsins um verndun ósonlagsins og Montreal-bókun um efni sem valda rýrnun á ósonlaginu. Ósonþynningin hækkar hitastig í lofthjúpi jarðar. Menn eru almennt sammála um að áhrif þess verði þegar til lengdar lætur síst minni en þau áhrif sem verða vegna aukinnar geislunar.
    Norðurlöndin hafa látið sig varða eyðingu ósonlagsins. T.d. samþykkti norræna ráðherranefndin áætlun um aðgerðir til að draga úr notkun efna sem eyða ósonlaginu á fundi sínum í Stokkhólmi 7. okt. 1987. Aukaþing Norðurlandaráðs samþykkti í Danmörku 16. nóv. 1988 áætlun sem leggur til að gengið verði hraðar fram í að draga úr notkun ósoneyðandi efna en gert er ráð fyrir í áætlun

ráðherranefndarinnar. Það er yfirlýstur vilji núv. ríkisstjórnar að taka umhverfismálin fastari tökum en verið hefur hingað til. Stjórnarfrumvarp um sérstakt umhverfismálaráðuneyti er til marks um það sem og önnur mál, um svæðisbundna gróðurvernd, fjarlægingu einnota umbúða, endurvinnslu brotamálma o.fl.
    Virðulegi forseti. Áhrifanna af batnandi sambúð stórveldanna hefur gætt ekki síst þar sem unnið hefur verið að lausn ýmissa langvarandi svæðisbundinna deilumála. Samkomulagið um brottflutning sovésks herliðs frá Afganistan, sem undirritað var í Genf í apríl í fyrra, hlýtur að teljast til stórviðburða ársins. Brottflutningurinn hófst 15. maí og lauk fyrir tilsettan tíma.
Fullyrða má að endalok hersetu Sovétmanna í landinu hafi orðið til að bæta andrúmsloftið í alþjóðamálum verulega, en það spilltist mjög við innrás Sovétmanna í Afganistan 1979.
    Endir hefur hins vegar ekki verið bundinn á borgarastyrjöldina í landinu. Leppstjórn Sovétmanna í Kabúl stendur mjög höllum fæti og er talið líklegt að hersveitum Muhajeddins takist áður en langt um líður að steypa henni af stóli. Höfuðverkefnið í Afganistan er nú hins vegar fyrst og fremst að reisa landið úr rústum styrjaldarinnar. Talið er að sovéski herinn hafi skilið eftir sig ótölulegan fjölda jarðsprengja í landinu. Enn fremur er brýnt að finna lausn á vanda afganskra flóttamanna. Þeir eru nú meira en 5 millj. manna, þar af meiri hlutinn búsettur í Pakistan. Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að leggja fram sitt fjárframlag til að styrkja hjálparstarfið í Afganistan á árinu.
    Hinn 18. ágúst sl. gerðust þau stórtíðindi í styrjöld Írana og Íraka að íranska stjórnin tilkynnti að hún hefði fallist án skilyrða á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 598 20. júlí 1987 um vopnahlé í Persaflóastríðinu. Fram að þeim tíma höfðu friðarumleitanir engan árangur borið vegna þess að Íranir settu alltaf það skilyrði fyrir friðarviðræðum að Írakar yrðu fordæmdir og þeim refsað fyrir að eiga upptök að stríðinu. Talið er að samtals um 1,5 millj. manna hafi farist í þessari átta ára tilgangslausu styrjöld og að kostnaður beggja ríkja af stríðinu hafi verið um það bil 200 milljarðar bandaríkjadala.
    Farið er að hilla undir lausn Namibíumálsins, en þáttaskil urðu í því máli hinn 28. desember á sl. ári þegar þríhliða samningur var undirritaður af Angóla, Suður-Afríku og Kúbu annars vegar og tvíhliða samningur milli Angóla og Kúbu hins vegar. Samningsaðilar féllust á að framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 435 skyldi hefjast þann 1. apríl sl. Ályktunin felur í sér áætlun um frjálsar kosningar í Namibíu undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna og að landið verði sjálfstætt með friðsamlegum hætti. Einnig sömdu ríkin um brottflutning kúbanskra hermanna frá Angóla. Sameinuðu þjóðirnar voru ekki aðilar að samningunum tveimur þar sem þær hafa ekki viðurkennt þá kröfu Suður-Afríku að brottflutningur kúbanskra hermanna frá Angóla sé skilyrði fyrir sjálfstæði Namibíu.
    Þegar þinghlé var gert á 43. allsherjarþingi

Sameinuðu þjóðanna 22. des. sl. var ákveðið að Palestínumálið yrði áfram á dagskrá 43. allsherjarþingsins. Málið kom að nýju á dagskrá er kosningar fóru fram um dómara í alþjóðadómstólinn í Haag þann 18. þ.m. er Saudi-Arabía fór fram á að Palestínumálið yrði tekið fyrir að nýju á þinginu. 26 lönd fluttu ályktunartillögu um málið sem fól í sér fordæmingu á aðgerðum Ísraela vegna atburða er urðu í bænum Nahali þann 13. apríl sl. er óbreyttir borgarar létust og særðust í átökum við ísraelska herinn.
    Ég taldi nauðsynlegt að taka undir fram komnar óskir um að ísraelsk stjórnvöld haldi herliði sínu svo í skefjum að það valdi ekki manndrápum á varnarlausum borgurum sem aftur hafi neikvæð áhrif á möguleikann á friðsamlegri lausn á þessu erfiða deilumáli. Ég fól því fastanefnd okkar hjá Sameinuðu þjóðunum að greiða þessari tillögu atkvæði en flytja jafnframt viðaukatillögu við ályktunina þar sem báðir deiluaðilar voru hvattir til að forðast ofbeldisverk sem gætu stofnað tilraunum til að ná varanlegum friði í hættu. Tillagan var í svipuðum dúr og anda og t.d. ályktanir Evrópuráðsins um sama málefni fyrr. Nauðsyn bæri til að báðir aðilar virtu grundvallarréttindi hvors annars, þar á meðal tilverurétt Ísraels og réttinn til að búa innan öruggra og viðurkenndra landamæra og hins vegar afdráttarlaus viðurkenning á sjálfsákvörðunarrétti Palestínumanna og sá réttur yrði virtur. Varafastafulltrúi Íslands hvatti og til þess að alþjóðleg friðarráðstefna um Mið-Austurlönd yrði kölluð saman með beinni þátttöku allra hlutaðeigandi aðila. Þessari viðaukatillögu Íslands var vísað frá og lýsir það best þeirri hörku og óbilgirni sem einkennir þessi átök. Tillaga Íslands hlaut hins vegar stuðning 23 ríkja vesturlandahópsins svokallaða, þar á meðal stuðning allra Norðurlandaþjóðanna.
    Við þau atriði er fram koma í skýrslu minni um Mið-Austurlönd hef ég því að bæta að íslensk stjórnvöld hafa fylgt þeirri reglu að viðurkenna aðeins ríki en ekki ríkisstjórnir sérstaklega. Það ríki sem palestínska þjóðarráðið lýsti yfir hefur ekki hlotið þjóðréttarhæfi og alþjóðlega viðurkenningu. Það uppfyllir ekki sett skilyrði fyrir viðurkenningu samkvæmt viðteknum alþjóðalögum.
    Við Íslendingar höfum stutt hugmyndina um að alþjóðleg friðarráðstefna verði haldin til að koma á varanlegum friði í Mið-Austurlöndum. Þar verði ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 242 og 338 lagðar til grundvallar lausn til friðar. Í þeim felst viðurkenning á lögmæti og rétti allra ríkja á svæðinu til að lifa innan öruggra landamæra. Aðeins friður getur tryggt öryggi. Virða verður tilverurétt Ísraelsríkis jafnt og rétt Palestínumanna til að búa í friði og öryggi og rétt þeirra til sjálfsákvörðunar.
    Til að forðast misskilning um afstöðu Perezar, formanns verkamannaflokksins
í Ísrael, eins og henni er lýst neðst á bls. 31 í skýrslu minni vil ég taka fram að Perez hefur ekki sagt beint að hann vilji viðræður við PLO-samtökin. Hann hefur

hvatt til viðræðna við Palestínuaraba, en liggur þó sjálfsagt í augum uppi að það er það sem hann á við. Á undanförnum dögum hafa reyndar borist út fréttir um beinar viðræður Ísraelsmanna og PLO í Kaíró.
    Á undanförnum árum hefur oft verið haft á orði að Sameinuðu þjóðunum hafi mistekist að uppfylla þær vonir sem við þær voru bundnar í upphafi. Víst er að sú framtíðarsýn um alþjóðaöryggi sem birtist í stofnskrá samtakanna hefur enn ekki orðið að veruleika. En viðhorf manna til Sameinuðu þjóðanna virðast smám saman vera að breytast. Árangur sá sem orðið hefur nýlega á vettvangi svæðisbundinna deilumála hefur aukið trú manna á hlutverk samtakanna og glætt þau nýju lífi. Ánægju vekur að friðargæslusveitum Sameinuðu þjóðanna skuli á síðasta ári hafa verið veitt friðarverðlaun Nóbels.
    Virðulegi forseti. Stefna Íslendinga í öryggis- og varnarmálum, sem er grundvallaratriði en byggist á aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og á varnarsamningum við Bandaríkin, hefur reynst farsæl í framkvæmd. Frelsi okkar, fullveldi og sjálfsákvörðunarréttur hefur verið tryggt og við höfum notum friðar í okkar heimshluta í bráðum hálfa öld. Í skýrslu minni er ítarlega greint frá starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og starfsemi íslenskra stofnana þar. Samskiptin við varnarliðið hafa verið með eðlilegum hætti, en þau samskipti eru og hljóta ávallt að vera pólitískt viðkvæm og krefjast sífelldrar árvekni. Engum stendur það nær en sjálfum okkur að fylgjast með og tryggja að varnaráætlanir varnarliðsins séu í samræmi við þarfir okkar á hverjum tíma. Við verðum að geta lagt á það sjálfstætt mat. Einnig tel ég sjálfsagt að halda áfram að byggja upp þekkingu Íslendinga sjálfra á tæknisviðum þannig að við getum sjálfir annast ýmsa þá starfsemi tengda vörnum landsins sem Bandaríkjamenn hafa annast til þessa. Að þessu er nú unnið á vegum Ratsjárstofnunar. Einnig er í burðarliðnum að undirbúa Íslendinga til ábyrgðarstarfa við þróun og rekstur hugbúnaðar fyrir hið nýja ratsjárkerfi sem verið er að setja upp. Um það efni vísa ég til skýrslu minnar þar sem fjallað er ítarlega um alla þætti varnarsamstarfsins.
    Varðandi framkvæmd varnarsamningsins þykir mér rétt að vekja athygli á tveimur málum. Nú er lokið viðamiklum rannsóknum á mengun vatnsbóla á Suðurnesjum, en rannsóknir þessar hófust í framhaldi af olíumengunarslysi frá árinu 1987 í Ytri-Njarðvík. Á grundvelli niðurstaðna þessarar rannsóknar var efnt til viðræðna við fulltrúa bandarískra stjórnvalda um byggingu nýrrar vatnsveitu á Suðurnesjum. Þeim viðræðum er nú lokið og fyrir liggja samningsdrög um framkvæmdina og fjármögnun hennar, en samningsdrögin bíða endanlegrar staðfestingar stjórnvalda. Framkvæmdir munu hefjast þegar á þessu vori og að því er stefnt að þeim verði lokið á yfirstandandi ári.
    Þá skal þess getið að endanlegar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi áform um fyrirhugaðar æfingar varaliðs bandaríska landhersins hér á landi á sumri

komanda. Umrædd áform urðu sem kunnugt er tilefni langra og ítarlegra umræðna hér á hv. Alþingi fyrr í þessum mánuði. Að lokinni rækilegri athugun á forsögu málsins, á markmiðum æfinganna og fyrirkomulagi hefur utanrrh. ákveðið að heimila að æfingarnar fari fram, en jafnframt tilkynnt bandarískum stjórnvöldum um breytingar á framkvæmdinni sem hér segir:
    Varaliðið mun ekki koma til landsins fyrr en 20. júní. Jafnframt hefur þátttakendum í æfingunni verið fækkað um sem svarar þriðjungi þannig að fjöldi þátttakenda er nú minni en verið hefur í ýmsum æfingum sem áður hafa farið fram á varnarsvæðunum. Þá hefur verið ákveðið að fram fari sérstök prófun á samhæfingu fjarskiptakerfa almannavarna og varnarliðsins. Loks hefur það verið tilskilið að allar upplýsingar og áætlanir um slíkar æfingar í framtíðinni verði tilkynntar strax á byrjunarstigi til utanrrn. þannig að ráðuneytið geti í tæka tíð lagt sjálfstætt mat á markmið og framkvæmd slíkra æfinga og tekið endanlegar ákvarðanir um hvort þær verði og þá hvar í samræmi við íslenska öryggishagsmuni. Þess skal getið að þessi ákvörðun hefur verið tilkynnt og rædd við formenn samstarfsflokkanna í ríkisstjórn.
    Meginatriði málsins er að nauðsynlegt er, ef nokkurt vit á að vera í þjálfun þessa liðs sem eingöngu miðar að undirbúningi þess að það geti varið landið á hættutímum, að liðið fái tækifæri til að kynnast staðháttum hér á landi. Um er að ræða venjubundna æfingu sem fram fer innan varnarsvæðanna sjálfra og á engan hátt er ögrandi og langt innan við þau mörk hvað mannafla varðar að tilkynna þurfi æfinguna samkvæmt Stokkhólmssamkomulagi RÖSE-ríkjanna.
    Til þess að efla öryggi lands og þjóðar á hættutímum er áfram unnið að gerð varnaráætlana sem taka mið af íslenskum hagsmunum og staðháttum. Í vinnslu er úttekt á þeim stöðum á Íslandi sem nauðsynlegt er að vernda á hættutímum. Það er hlutverk íslenskra stjórnvalda að móta áætlanir um hvernig varnarliðið og varalið þess, sem staðsett mun verða hér á landi, verði nýtt ef á þarf að halda. Unnið er að gerð samstarfssamnings milli Landhelgisgæslu og varnarliðs þannig að tryggt sé að Landhelgisgæslunni nýtist sem best vinna og framlag varnarliðsins á slíkum hættutímum. Á þetta við m.a. um björgunaraðgerðir,
björgunaræfingar, upplýsingar um ferðir skipa, tundurduflavarnir eða neyðarráðstafanir. Einnig er unnið að undirbúningi á samræmingu neyðaráætlana lögreglunnar við áætlanir varnarliðsins til að hindra að þær muni geta rekist á og til að aðgreina og samhæfa starfssvið hvors aðila um sig. Eitt brýnasta verkefnið er þó samræming neyðaráætlana Almannavarna og varnarliðsins og er það mál nú til nákvæmrar athugunar bæði hjá Almannavörnum og varnarmálaskrifstofu. Undir það fellur notkun sjúkrahúsa, fjarskiptatækja, vega- og flutningatækja og skipti á upplýsingum. Við gerð þessara varnar- og neyðaráætlana er tekið mið af því hvernig slíkum

neyðaráætlunum er háttað í grannríkjum okkar, annars staðar á Norðurlöndum og innan annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins.
    Í samningum við bandarísk stjórnvöld um endurnýjun ratsjárkerfisins sem nú stendur yfir hefur verið lögð mikil áhersla á að Íslendingar tækju sjálfir yfir sem mest af störfum á sviði tækniþjónustu við ratsjárkerfið. Sem kunnugt er hafa íslenskir tæknimenn nú tekið yfir rekstur og viðhald ratsjárstöðvanna á Stokksnesi og Miðnesheiði og munu þessir íslensku tæknimenn vera undir það búnir að annast algerlega rekstur og viðhald hinna fjögurra nýju ratsjárstöðva sem nú eru í byggingu og leysa af hólmi eldri tvær stöðvarnar á næstu tveimur árum. Nýja ratsjárkerfið verður af fullkomnustu gerð sem til er í heiminum og er kjarninn í því viðamikið tölvukerfi, hið fyrsta sinnar tegundar. Ákveðið er að Íslendingar annist hugbúnaðarþjónustu fyrir þetta tölvukerfi.
    Í desember sl. var stofnað sérstakt fyrirtæki, Kögun hf., sem mun sem undirverktaki Ratsjárstofnunar annast þessa hugbúnaðarþjónustu. Stofnun þessa fyrirtækis, Kögunar hf., átti sér nokkurn aðdraganda. Leitað var samstarfs og samvinnu við Félag ísl. iðnrekenda og Þróunarfélag Íslands til að laða saman öll þau íslensk fyrirtæki sem að hugbúnaðarmálum vinna til að búa svo um hnúta að sú þekking sem íslenskir sérfræðingar munu öðlast við störf að hugbúnaði ratsjárkerfisins nýtist sem best á öllum sviðum íslensks atvinnulífs. 37 hugbúnaðarfyrirtæki mættu til stofnfundar Kögunar hf. og mun hluthöfum hafa farið ört fjölgandi. Hugbúnaður ratsjárkerfisins verður unninn í svokölluðu ADA-forritunarmáli og er mér tjáð að þegar íslenskir sérfræðingar hafa tekið þátt í þróun hugbúnaðar fyrir ratsjárkerfið og tekið við rekstri þess megi gera ráð fyrir að Íslendingar verði komnir í fremstu röð á þessu sviði hugbúnaðar í heiminum. Fullvíst má telja að þessi þekking muni nýtast á ýmsum sviðum íslensks atvinnulífs og að þessi þekking verði sjálf síðar verðmæt útflutningsvara. Höfð hefur verið samvinna við Háskóla Íslands um nauðsynlega undirbúningsmenntun verk- og tölvufræðinga og er stefnt að því að kennslu í ADA-forritunarmáli verði hleypt af stokkunum í Háskóla Íslands á næsta ári.
    Eins og fram kemur í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar verða samskipti Íslendinga við varnarliðið endurskipulögð. Ég hef þegar á þessu þingi svarað fyrirspurn frá hv. þm. Geir Haarde um hvað felst í þessari endurskipulagningu. Eitt af þeim atriðum var að halda áfram athugunum fyrrv. utanrrh. á því með hvaða hætti verktöku fyrir varnarliðið verði best fyrir komið. Ég hef margsinnis í ræðu og riti bent á að núverandi fyrirkomulag þarfnist endurskoðunar og í utanrrn. hafa þau mál verið til ítarlegrar umfjöllunar.
    Eftir viðræður við eignaraðila Aðalverktaka hefur náðst samkomulag sem markað getur viss tímamót í sögu varnarliðsframkvæmda. Á aðalfundi Aðalverktaka sem haldið var nú nýlega var staðfest breyting á samþykktum félagsins sem m.a. felur í sér að fjölga

verður í stjórn um einn þannig að fulltrúar ríkisins verða þar framvegis tveir. Ríkisvaldið hefur eftir þessar breytingar tvo af fimm stjórnarmönnum og er annar þeirra stjórnarformaður. Jafnframt var bókuð á sama fundi viljayfirlýsing um að teknar verði upp viðræður um breytingar á eignaraðild að fyrirtækinu. Með þessari samþykkt hafa áhrif ríkisvaldsins á stjórn varnarliðsframkvæmda verið aukin verulega sem er í alla staði eðlilegt þar sem Aðalverktakar njóta einokunaraðstöðu í skjóli ríkisvalds. Í framhaldi af þessu verða teknar upp viðræður um hugsanlegar breytingar á eignaraðild og eignarhlutföllum og er það von mín og vissa að um þau atriði geti tekist viðunandi samkomulag.
    Virðulegi forseti. Utanríkisviðskipti öðlast stöðugt meiri hlutdeild í utanríkisstefnu Íslands. Íslendingar hafa eins og allir vita mjög einhæft hagkerfi þar sem afkoma okkar er mjög háð fiskveiðum og sölu sjávarafurða og það því mjög viðkvæmt fyrir sveiflum bæði á sjávarafla og á útflutningsmörkuðum. Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar er vikið sérstaklega að því markmiði að búa íslenskt atvinnulíf undir þær breytingar sem verða á viðskiptaháttum og efnahagsstjórn í Evrópubandalaginu á næstu árum. Sérstaklega verður unnið að því að laga íslenskt atvinnulíf að hinum nýju aðstæðum og tryggja viðskiptaaðstöðu íslenskrar atvinnustarfsemi án aðildar að bandalaginu eins og þar segir.
    Hvað varðar önnur viðskiptasvæði okkar hefur því verið hreyft við Bandaríkjamenn að taka upp viðræður um fríverslunarsamning milli landanna. Enn fremur er mikill áhugi á að efla viðskipti við Austurlönd fjær, einkum Japan sem nú þegar er orðið þýðingarmikill útflutningsmarkaður. Lögð verður áhersla
á að fylgjast sem best með breytingum sem boðaðar hafa verið á viðskiptaháttum í ýmsum Austur-Evrópuríkjum sem kunna að hafa veruleg áhrif á utanríkisverslun þeirra, en eins og kunnugt er hefur verslun við nokkur ríki Austur-Evrópu verið mikilvægur þáttur í utanríkisviðskiptum okkar.
    Það hefur ekki farið fram hjá neinum að síðan Lúxemborgaryfirlýsing ráðherra EFTA-ríkja og utanríkisráðherra Efnahagsbandalagslandanna og framkvæmdastjórnar þess var gefin út árið 1984 hefur EFTA og hinn fyrirhugaði innri markaður Evrópubandalagsins verið sívaxandi þáttur í utanríkisstefnu okkar. Í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir nokkuð auknum fjármunum vegna sívaxandi starfs í sambandi við samninga ríkja EFTA og Evrópubandalagsins. Gera má ráð fyrir því að samningsgerð og samskipti við Evrópubandalagið verði þýðingarmikið atriði í utanríkisstefnu Íslendinga þar til áætluninni um að koma á sameiginlegum innri markaði þess lýkur í árslok árið 1992.
    Í júní á sl. ári í tíð forvera míns var efnt til ráðherrafundar EFTA í Tampere í Finnlandi. Á fundi ráðherranna með Willy de Clercq, þeim fulltrúa í framkvæmdastjórn EB sem sá um utanríkismál bandalagsins á þeim tíma, var ítrekaður vilji til aukins samstarfs milli þessara tveggja viðskiptaheilda í

Evrópu. Þá voru ákveðin ný forgangsverkefni samstarfsins. Með þessum nýju forgangsverkefnum nálguðust formleg samstarfsverkefni EFTA og Efnahagsbandalagsins þriðja tug talsins og í dag eru þau þessi: Endurbætur og einföldun upprunareglna. Gagnkvæm viðurkenning á prófunum og vottun gæðakerfa. Höfundarréttur á sviði hugbúnaðar og iðnaðar. Afnám viðskiptatruflandi ríkisstyrkja. Útboð opinberra innkaupa. Afnám útflutningstakmarkana. Jöfnunargjald á iðnaðarvörur sem í eru landbúnaðarhráefni og falla undir fríverslunarsamninga. Auðveldari viðskipti með tilkomu aukinnar tölvuvæðingar. Verndun höfundarréttar á hálfleiðurum, tölvukubbum. Lögsaga og fullnusta dóma. Vöruábyrgð. Ólögmætar eftirlíkingar vöru. Fjármagnsþjónusta. Fjármagnshreyfingar. Umflutningsreglur, þ.e. svokallað transit. Umhverfismál. Menntun og starfsþjálfun. Rannsóknir og þróun. Skattlagning einstaklinga og óbeinir skattar. Neytendamál. Ný tækni og þjónusta. Fyrirtækjalöggjöf. Fjarskiptamál. Heilbrigðisreglugerðir vegna dýra og plantna. Samgöngur, einkum flugsamgöngur og sjóflutningar. Eftirlit með flutningi fólks milli landa og einföldun landamæraeftirlits.
    Á Tampere-fundinum var enn einu sinni til umræðu alger fríverslun með fisk og sjávarafurðir innan EFTA. Á fundinum var ákveðið að koma á fót nefnd hátt settra embættismanna til að undirbúa tillögur um slíka fríverslun og á nefndin að skila lokaskýrslu á ráðherrafundi EFTA Í Kristianssand í Noregi í júní nk. Nefndin hefur haldið nokkra fundi og á fundi hennar í marsbyrjun hafði náðst samstaða um flest atriði málsins nema þá kröfu Finna að lax og Eystrasaltssíld kæmi ekki undir fríverslun. Þessar fisktegundir eru veigamesti þáttur þeirra veiða. Þetta var óaðgengilegt vegna þess að það hefði haft í för með sér kröfur annarra ríkja um hliðstæð frávik frá fríverslun með fisk og aðrar sjávarafurðir.
    Á leiðtogafundi EFTA í Osló 14.--15. mars sl. voru þessi deilumál tekin fyrir og útkljáð. Samkomulag náðist um að tryggja að fríverslun með fisk og aðrar sjávarafurðir verði komið á og komi til framkvæmda 1. júlí árið 1990 með fáeinum tímabundnum undantekningum.
    Í janúar sl. flutti Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, ræðu á Evrópuþinginu þar sem hann vék að hugmyndum sínum um enn frekara samstarf EFTA og Efnahagsbandalagsins þar sem hann taldi að um tvo kosti væri að ræða, annars vegar að halda sig við núverandi samskiptahætti, þ.e. tvíhliða samskipti Efnahagsbandalagsins við hvert EFTA-ríkjanna út af fyrir sig, hins vegar að ganga til mun víðtækara samstarfs en áður var talið koma til greina. Í því efni verði lögð áhersla á hinn pólitíska þátt á sviði efnahagsmála, félagsmála, fjármála og menningarmála eða á sem flestum sviðum nema í öryggismálum og stjórnmálum.
    Á sl. ári höfðu Norðmenn boðað til leiðtogafundar EFTA-ríkjanna í mars 1989 til að ræða framtíðarsamstarf EFTA-ríkjanna og samskipti þeirra

við Evrópubandalagið. Viljayfirlýsing leiðtogafundar Evrópubandalagsríkjanna á Rhodos í desember árið 1988 um nánara samstarf við EFTA og fyrrnefnd ræða Delors urðu til þess að leiðtogafundur EFTA-ríkjanna fjallaði ítarlegar um eflingu innviða EFTA og framhald samskipta samtakanna við Evrópubandalagið. Í viljayfirlýsingu fundarins kom fram að EFTA-ríkin væru reiðubúin að efna til könnunarviðræðna við Efnahagsbandalagið um alla þætti innri markaðar bandalagsins, þ.e. óhindruð vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjármagnsþjónustu og flutning fólks milli landa að því marki sem unnt væri.
    Í ræðu sinni á leiðtogafundinum undirstrikaði hæstv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, að Íslendingar væru reiðubúnir til samninga um fullt frelsi í vöruviðskiptum, en hefðu ýmsa fyrirvara um hin atriðin þrjú vegna einhæfs efnahagslífs og fámennis þjóðarinnar. Hins vegar væru þeir reiðubúnir til fullrar þátttöku í ýmsum öðrum málaflokkum þar sem stefnt væri að nánari
samvinnu, m.a. á sviði vísinda, menntunar og umhverfismála.
    Utanríkisráðherrar EFTA-ríkjanna og ríkja Efnahagsbandalagsins héldu síðan fund í Brussel 20. mars sl. Þar kom fram almennur vilji til að efla samstarfið og hefja könnunarviðræður sem fyrst. Jafnframt var ákveðið að efna á ný til ráðherrafundar fyrir árslok til að fylgja þeim málum eftir. Á þessum fundi tók ég fram í ræðu minni að með fullu frelsi í viðskiptum milli EFTA og Efnahagsbandalagsins ættu Íslendingar að sjálfsögðu við að slíkt frelsi næði einnig til allra sjávarafurða.
    Fimmtudaginn 20. apríl sl. átti ég viðræður við Frans Andriessen, meðlim framkvæmdastjórnar Efnahagsbandalagsins sem fer með utanríkismál. Umræðurnar snerust einkum um hvað tæki við í samskiptum EFTA og EB í framhaldi af Oslóaryfirlýsingu leiðtoga EFTA-ríkjanna og utanríkisráðherrafundi EFTA og EB í Brussel í sl. mánuði. EFTA-ráðið hefur nú með formlegum hætti tilkynnt að það sé tilbúið að hefja óskuldbindandi viðræður á grundvelli Oslóaryfirlýsingarinnar. Næstkomandi föstudag verður sett á laggirnar sérstök nefnd æðstu embættismanna beggja aðila til að kortleggja og skipuleggja þessar viðræður til loka ársins. Stefnt er að því að setja á laggirnar fjóra starfshópa embættismanna og sérfræðinga til að fjalla um ,,frelsin fjögur``, þ.e. vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjármagnsmarkað og vinnumarkað. Tveir til þrír starfshópar verði síðan settir á laggirnar til að fjalla um ný samstarfsverkefni, t.d. vísindarannsóknir, æðri menntun, mengunarvarnir o.fl. Þessir starfshópar hafa fyrst og fremst þau verkefni á sinni könnu að skilgreina viðfangsefnin og lýsa tillögum um lausnir, þar með talið um lagaleg atriði, skipulagsmál, eftirlit með framkvæmd og aðferðir við úrskurð ágreiningsefna. Að því er stefnt að þessu undirbúningsstarfi verði lokið fyrir októberlok og niðurstöðurnar verði þá lagðar fyrir sameiginlegan utanríkisráðherrafund EFTA og

Efnahagsbandalagslandanna í seinni hluta nóvembermánaðar á þessu ári. Þessi skjótu viðbrögð af hálfu Efnahagsbandalagsins við Oslóaryfirlýsingunni þýða að miklar kröfur verða gerðar til forustu Íslendinga fyrir ráðherranefnd EFTA-ráðsins á seinni hluta þessa árs.
    Á árinu var sett á fót samstarfsnefnd allra ráðuneyta undir forustu utanrrn. til að mæta stöðugt vaxandi fjölda verkefna sem tengjast samstarfi EFTA-ríkjanna við Efnahagsbandalagið. Hlutverk samstarfsnefndarinnar er að tryggja að verkefnunum sé sinnt eins og þörf er á. Í þessu sambandi hefur útflutningsráð tekið að sér að vera tengiliður við atvinnulífið. Á árinu var enn fremur stofnuð nefnd þingmanna til að gera tillögur til Alþingis um stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum EFTA og Evrópubandalagsins. Hefur hún sent frá sér nokkrar greinargerðir um ýmsa þætti þessara mála og gert er ráð fyrir lokaskýrslu nú í vor.
    Á árinu 1988 miðuðu Uruguay-viðræður GATT, Alþjóðatollamálasamkomulagsins, fyrst og fremst að því að leggja grunn að samningagerð aðildarríkjanna sem vonast er til að hefjist síðari hluta yfirstandandi árs og ljúki fyrir árslok 1990. Í þessum viðræðum bíða mörg mál úrlausnar, en eins og fram kom á ráðherrafundi GATT í Montreal í desember sl. eru það einkum landbúnaðarmál sem hafa reynst erfið viðfangs. Í Montreal var m.a. rætt um þrjár leiðir til að draga úr viðskiptahindrunum með landbúnaðarafurðir.
    1. Skammtímaaðgerðir sem miða að því að frysta og jafnvel lækka styrki til landbúnaðar.
    2. Langtímaaðgerðir sem miða að því að fella niður innan ákveðins tíma alla beina styrki til landbúnaðar.
    3. Að samræma heilbrigðisreglugerðir til að koma í veg fyrir að þær verði notaðar sem dulbúin viðskiptahindrun.
    Samkomulag náðist ekki um þessi atriði í Montreal, en í Genf 5.--9. apríl sl. náðist samkomulag sem felur m.a. í sér:
    1. Skammtímaaðgerðir grundvallist á tímabundnum ráðstöfunum sem gildi þar til þessum viðræðum lýkur í árslok 1990 og á þeim tíma verði styrkir til landbúnaðar ekki auknir frá því sem verið hefur.
    2. Samkomulag um það langtímamarkmið að semja um að draga úr styrkjum og vernd landbúnaðar í áföngum.
    3. Samkomulag varð um að aðildarríkin setji sér það langtímamarkmið að samræma heilbrigðislöggjöf í landbúnaði.
    Þegar litið er á þróun viðskipta á árinu 1988 kemur í ljós að vöruskiptajöfnuður var óhagstæður um hálfan milljarð kr., en var óhagstæður um 2 milljarða kr. á árinu 1987. Þessi halli varð þrátt fyrir að aukning yrði á útflutningi um 1,8% og innflutningur drægist saman um 1% reiknað á föstu gengi. Heildarverðmæti vöruútflutnings nam 61,7 milljörðum kr. en vöruinnflutningur 62,2 milljörðum. Vaxtajöfnuður varð neikvæður hins vegar um 8,2 milljarða kr. og halli á þjónustuviðskiptum í heild um 9 milljarðar kr. Í árslok

er áætlað að heildarviðskiptajöfnuður sem tekur til vöru og þjónustu hefði verið neikvæður um 9,5 milljarða kr. eða um það bil 3,7% á landsframleiðslu, en var 3,5% árið 1987.
    Nokkur samdráttur varð í útflutningi sjávarafurða og landbúnaðarafurða árið 1988, en hins vegar varð talsverð aukning á útflutningi iðnaðarvara sem aðallega stafar af mikilvægi framleiðslu áls og kísiljárns samhliða verulegri verðhækkun þessara vara. Talsverð verðhækkun varð á mjöli og lýsi frá árinu á undan, en heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða lækkaði lítillega á árinu. Á undanförnum árum hefur hlutdeild í útflutningi til Evrópubandalagsins og Japan aukist til verulegra muna, en jafnframt hefur hlutdeild Bandaríkjanna og Austur-Evrópulanda farið minnkandi og hlutdeild EFTA-landanna verið nokkuð stöðug. Þannig jókst hlutdeild Evrópubandalagsins frá árinu 1985, og eru þá Portúgal og Spánn meðtalin, en þau gerðust aðilar að Efnahagsbandalaginu 1. janúar 1986, úr 48,9% í 58,9% árið 1988. Jafnframt jókst hlutfall Japans í útflutningi Íslendinga á þessum tíma úr 4,9% árið 1985 í 7,6% 1988. Á sama tímabili minnkaði hlutur Bandaríkja Norður-Ameríku úr 27% í 13,6% og landa Austur-Evrópu úr 7,8% 1985 í 5,5% 1988. Vegna hagstæðrar gengisþróunar og verulegra verðhækkana á ýmsum sjávarafurðum hefur útflutningur til Japans aukist til muna á undanförnum árum. Þróun gengismála í Bandaríkjunum hefur allt frá árinu 1985 verið hins vegar óhagstæð á sama tíma sem þróun helstu mynta Evrópu hefur verið hagstæð. Þar að auki lækkaði verð á frystum flökum í Bandaríkjunum verulega á árinu 1988 sem leiddi til aukins útflutnings á Evrópumarkað.
    Þetta eru meginskýringar á þeim breytingum sem orðið hafa á undanförnum fjórum árum í hlutdeild einstakra viðskiptasvæða í útflutningi Íslendinga. Þessi þróun sýnir augljóslega hversu þýðingarmikið er að hafa í huga hagsmuni okkar á öllum þessum viðskiptasvæðum.
    Virðulegi forseti. Hvalamálið hefur sem fyrr verið í brennidepli, einkum vegna þeirra söluerfiðleika sem skapast hafa á Þýskalandsmarkaði fyrir lagmeti vegna áróðursherferðar grænfriðunga á hendur okkur og þrýstingi sem þau samtök hafa beitt stjórnendur ýmissa fyrirtækja sem átt hafa viðskipti við okkur. Þótt ýmsum hafi þótt teflt á tvær hættur í þessu máli af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur ekki verið hvikað frá þeirri stefnu að lokið skuli við vísindaáætlun okkar á þessu ári. Þannig verður unnt á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins á næsta ári að taka afstöðu til veiðibanns þess er gildir um hvalveiðar í atvinnuskyni grundvallað á vísindalegum upplýsingum á ástandi hvalastofna.
    Mikil vinna hefur verið leyst af hendi í samvinnu utanrrn. og sjútvrn. þessu máli tengt. Þannig sátu í síðustu viku fulltrúar þessara ráðuneyta ásamt sjútvrh. ráðstefnu um sjávarspendýr í Þórshöfn í Færeyjum. Ráðstefna þessi tengist þeirri ráðstefnu sem haldin var hér í Reykjavík í byrjun sl. árs. Á ráðstefnunni var ákveðið að efla samvinnu landa við Norður-Atlantshaf

um verndun og skynsamlega nýtingu sjávarspendýra.
    Um hvalamálið vil ég að lokum aðeins segja að merkt samkomulag náðist við Bandaríkjamenn í júní sl., en með því var tryggt að bandarísk stjórnvöld mundu ekki gefa út staðfestingarákæru á grundvelli svonefndra Pelly-viðaukalaga. Stefnt er að því í samræmi við þetta samkomulag að halda samráðsfund með bandarískum vísindamönnum til að fara yfir niðurstöður af rannsóknarstarfi okkar á síðustu vertíð.
    Ég vek einnig athygli þingheims á því tímamótasamkomulagi sem tókst um skiptingu loðnustofnsins milli okkar, Grænlendinga og Norðmanna, en því samkomulagi fagna ég sérstaklega.
    Virðulegi forseti. Að undanförnu hefur verið unnið á vegum utanrrn. að undirbúningi breytinga á skipulagi og starfsmannahaldi utanríkisþjónustunnar. Markmiðið með fyrirhuguðum breytingum er að aðlaga starfsemi utanrrn. með markvissari hætti þeim breytingum sem orðnar eru á verksviði ráðuneytisins og aðsteðjandi utanaðkomandi breytingum. Þessar áætlanir hafa verið kynntar í ríkisstjórn og á fundi utanrmn.
    Fjölþjóðasamvinna eykst ár frá ári. Mörg af fyrirsjáanlegum vandamálum nánustu framtíðar eru þess eðlis að þau verða ekki leyst nema með alþjóðlegu samstarfi. Af þeim verkefnum sem aðkallandi er að Íslendingar sinni betur ber hæst verndun lífríkis Atlantshafsins og í nánum tengslum við það undirbúning samninga um afvopnun á og í höfunum og eftirlit með framkvæmd slíkra samninga. Miðað við þá tiltölulega litlu fjármuni sem Íslendingar veita til utanríkisþjónustu er unnt að fullyrða að vel hafi verið unnið á hennar vegum að því að gæta hagsmuna Íslands í veigamestu þáttum alþjóðlegs samstarfs. Ytri kringumstæður valda því að beina verður nú auknum fjármunum og mannafla til að vinna að forgangsverkefnunum eins og t.d. samstarfinu innan EFTA og EB, afvopnunarmálum og alþjóðlegu samstarfi gegn umhverfismengun. Þess vegna er nauðsynlegt að styrkja þá þætti í starfsemi ráðuneytisins sem varða langtímastefnumörkun og vinnu að lausn forgangsverkefna í alþjóðlegu samstarfi. Innan ráðuneytisins hefur því verið unnið að ýmsum breytingum og skipulegum starfsháttum til að aðlaga störf að nýjum viðhorfum og verkefnum og endurmeta eldri störf þannig að forgangsröð verkefna nýti sem best takmörkuð fjárframlag til utanríkisþjónustunnar.
    Innan íslenska stjórnkerfisins hafa utanríkisþjónustunni verið falin ný viðamikil verkefni með þeirri ákvörðun að fela utanrrn. framkvæmd utanríkisverslunar. Þetta endurmat lýsir sér í því að aukin áhersla verður framvegis lögð á eftirfarandi starfsþætti: Utanríkisviðskipti hafa flust til utanrrn. með formlegum hætti. Samskiptin við EFTA og Efnahagsbandalagið kalla á eflingu viðskiptaskrifstofu. Að óbreyttum lögum ber utanrrn. ábyrgð á veitingu útflutningsleyfa. Áform eru uppi um að breyta þessu. Það gerir hins vegar meiri kröfur til viðskiptaskrifstofu um stefnumótun í útflutnings- og markaðsmálum og

nánari samvinnu við aðra innlenda aðila á því sviði, t.d. sjútvrn. varðandi fiskvinnslustefnu. Nauðsyn samstarfs útflutningsaðila og ráðuneytis um markaðsöflun, viðskiptaþjónustu og kynningarstarf kallar á eflingu viðskiptaskrifstofu og fjölgun viðskiptafulltrúa við sendiráð á helstu markaðssvæðum. Aukin sérhæfing er æskileg innan alþjóðaskrifstofu, bæði til að leggja aukna áherslu á samskipti við einstök ríki og alþjóðastofnanir og einnig til að vinna kerfisbundið að stefnumótandi langtímaverkefnum. Hér ber hæst aukna áherslu á afvopnunarmál og baráttuna gegn umhverfismengun. Leggja þarf aukna áherslu á fjármálastjórn og kostnaðareftirlit í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnar í ríkisfjármálum. Leggja þarf aukna áherslu á upplýsinga-, fræðslu- og kynningarstarf, t.d. um hvalamál, en þó ekki síður meðal almennings innanlands að því er varðar mikilvæg mál, svo sem eins og Efnahagsbandalags- og EFTA-mál, öryggis- og varnarmál og afvopnunarmál. Leggja ber aukna áherslu á virka starfsmannastjórn, auk þess sem nauðsyn ber til að móta grundvallarreglur um starfstíma sendimanna erlendis og endurnýjun á starfsreynslu þeirra heima í ráðuneyti.
    Æskilegt er að styrkja hlutverk aðalráðuneytis við stefnumótun og stýringu sendiráða erlendis þannig að starfsmönnum þyki ekki síður fengur að starfsreynslu í ráðuneytum en í sendiráðum og eins vegna þeirrar samtvinnunar pólitískra og viðskiptatengdra starfa sem sendiráðin í auknum mæli verða að sinna. Til að þjóna þessum markmiðum er óhjákvæmilegt að draga saman seglin varðandi starfsemi sumra sendiráða en leggja aukna áherslu á starfsemi annarra. Á næstunni verða gerðar ýmsar breytingar á mönnun starfa í utanríkisþjónustunni sem renna stoðum undir þær breyttu áherslur sem hér hefur verið lýst.
    Virðulegi forseti. Ég vona að mér hafi tekist að draga fram meginatriði skýrslunnar og þýðingarmestu viðfangsefni utanríkisþjónustunnar þessi missirin. Mér er ljóst að í skýrslunni er að finna fjölmargt annað sem þarft væri að ræða. Ég vona að hv. þm. taki þau mál eins og þeim þykir nauðsynlegt til umræðu. Ég mun leitast við að svara spurningum af fremsta megni sem fram kunna að koma.
    Að lokum læt ég í ljós þá ósk að þessir tveir dagar verði mikilvægir fyrir utanríkisstarfsemina sjálfa, að héðan komi ýmsar mikilvægar ábendingar sem komið gætu að gagni í starfi utanríkisþjónustunnar á næstu missirum.