Utanríkismál
Mánudaginn 24. apríl 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Með nokkrum orðum fylgi ég úr hlaði ársskýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf 1988--1989, þ.e. máli nr. 478.
    Íslandsdeild hefur sl. átta ár lagt fram á Alþingi ársskýrslur sem að jafnaði hefur verið fjallað um með skýrslu utanrrh. Í fyrra lagði svo Matthías Á. Mathiesen, þáv. samstarfsráðherra Norðurlanda, í fyrsta sinn fram ársskýrslu um störf ráðherranefndar Norðurlanda, en þar sem þá var skammt til þinglausna var hún ekki tekin á dagskrá. Ég vil því fagna því sérstaklega að ársskýrsla Jóns Sigurðssonar samstarfsráðherra skuli vera tekin á dagskrá og til umræðu nú. Það hefur lengi verið ósk Íslandsdeildar að á Alþingi verði árlega sérstök umræða um störf Norðurlandaráðs. Bæði teljum við fulltrúar í Norðurlandaráði skyldu okkar að lýsa fyrir Alþingi störfum okkar á norrænum vettvangi og eins að bjóða þeim þingmönnum sem ekki sitja í Norðurlandaráði til umræðna og skoðanaskipta. Eins er það mikilvæg ástæða að störf Norðurlandaráðs tengjast í auknum mæli störfum þjóðþinga og ráðuneyta Norðurlanda þannig að markmiðunum verður ekki náð nema með atbeina þeirra gegnum löggjöf og markvisst samstarf.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs skipa nú auk mín hv. þm. Páll Pétursson, Eiður Guðnason, Þorsteinn Pálsson, Hjörleifur Guttormsson, Óli Þ. Guðbjartsson og Valgerður Sverrisdóttir. Auk þeirra áttu þar sæti á starfsárinu þau Guðrún Helgadóttir fram til 16. des. sl., en þá tók Hjörleifur Guttormsson þar sæti, og Sverrir Hermannsson sem lét af þingmennsku sl. vor og þá um leið af störfum í Norðurlandaráði. Við störfum Sverris í Norðurlandaráði tók þá Friðjón Þórðarson til 16. des. þegar Þorsteinn Pálsson tók við.
    Deildin skipti þannig með sér verkum að við Páll Pétursson sitjum í forsætisnefnd ráðsins og hann auk þess í félags- og umhverfismálanefnd og ég í fjárlaga- og eftirlitsnefnd. Eiður Guðnason situr í laganefnd og gegnir þar formennsku og situr einnig í fjárlaga- og eftirlitsnefnd. Þorsteinn Pálsson og Hjörleifur Guttormsson sitja í efnahagsmálanefnd og Hjörleifur auk þess í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk kontakt. Valgerður Sverrisdóttir situr í menningarmálanefnd og gegnir þar varaformennsku og Óli Þ. Guðbjartsson í ssamgöngumálanefnd og ritstjórnarnefnd Nordisk kontakt.
    Íslandsdeild hélt á starfsárinu 15 reglulega fundi. Jón Sigurðsson samstarfsráðherra bauð deildinni til eins fundar til kynningar á starfi ráðherranefndarinnar og deildin hélt þrjá fréttamannafundi. Í tilefni samstarfsáætlunar ráðherranefndarinnar um umhverfismál og varnir gegn mengun sjávar boðaði Íslandsdeild til fundar með íslenskum sérfræðingum um mengunarmál, sjávarlíffræði o.fl. Um fundahöld Íslandsdeildar að öðru leyti vísa ég til skýrslunnar sjálfrar.
    Í Norðurlandaráði starfa sex fastanefndir.
    Laganefnd, sem Eiður Guðnason er formaður fyrir, fjallar um lagasamræmingu og norrænt samstarf um löggjafarmál, starfsreglur ráðsins og fundarsköp,

jafnréttismál, mál sem varða flóttamenn og neytendamál. Samkvæmt tilmælum laganefndar, sem samþykkt voru á þingi Norðurlandaráðs 1987, var kvennaráðstefnan Nordisk forum haldin í Osló á liðnu sumri með 10 þús. þátttakendum og samtímis henni opinber jafnréttisráðstefna. Á starfsárinu afgreiddi nefndin sjö þingmannatillögur, m.a. um málefni flóttamanna, eftirlit með viðskiptabanni á Suður-Afríku, takmörkun útflutnings hættulegs varnings sem ekki er leyfð sala á á Norðurlöndum og jafnréttismál á alþjóðavettvangi. Eiður Guðnason er 1. flm. tveggja þeirra síðast nefndu. Nefndin afgreiddi og frá sér þrjár ráðherranefndartillögur sem voru samþykktar.
    Menningarmálanefnd, þar sem Valgerður Sverrisdóttir er varaformaður, hefur lagt ríka áherslu á framkvæmd norrænu samstarfsáætlunarinnar um menningarmál, en nokkuð hefur þótt skorta á um fjárveitingar til að ná markmiðum áætlunarinnar. Hefur mörgum þótt samstarfið um menningarmál hafa undanfarið fallið í skuggann fyrir samstarfinu um efnahagsmál nú þegar þörfin væri hvað mest að standa vörð um norræna menningu og samstarf á sviði vísinda og menntamála. Auk þess leggur nefndin mikla áherslu á samstarf við Evrópubandalagið á sviði vísinda og menntamála. Um það samstarf var fjallað á námsstefnu sem nefndin hélt í Sönderborg á Jótlandi á liðnu hausti. Nefndin samþykkti á starfsárinu tilmæli um að Nordjob yrði tryggður starfsgrundvöllur, en erfiðlega hefur gengið að tryggja því mikilvæga verkefni starfsgrundvöll. Norræna félagið hefur sinnt þessu verkefni með prýði, en framtíð þessa starfs er auðvitað undir því komin að áframhaldandi fjárframlög fáist.
    Ég stikla á stóru um störf nefndanna, en helstu mál félags- og umhverfismálanefndar voru tillögur um varnir gegn mengun sjávar og umhverfismál sem komið höfðu frá ráðherranefnd og þingmönnum.
    Í ljósi aðsteðjandi alvarlegra mengunarvandamála var kallað saman aukaþing Norðurlandaráðs í nóvember til að afgreiða tillögur þessar í stað þess að bíða til aðalþingsins um mánaðamót febrúar--mars. Á aukaþinginu urðu allsnarpar deilur um hvort samþykkja ætti tillögur ráðherranefndar um samstarfsáætlun
gegn mengun sjávar. Sumum þótti, þar á meðal meiri hl. félags- og umhverfismálanefndar, tillagan ganga það skammt að skynsamlegra væri að samþykkja hana ekki á aukaþinginu heldur beina þeim tilmælum til ráðherranefndarinnar að leggja fram endurbætta tillögu á aðalþinginu. En tillaga ráðherranefndarinnar var þó samþykkt. Hingað til hefur það verið nánast óþekkt að tillögur séu afgreiddar án þess að um þær sé nánast alger samstaða. Þetta er þó að breytast og er afleiðing þess að störf í Norðurlandaráði eru að verða pólitískari. Menn setja markið hærra og af því leiðir að ekki er alltaf mögulegt að sætta sjónarmið allra.
    Af málum samgöngumálanefndar nefni ég sérstaklega tillögu um norræna gagnabanka, tillögu sem flutt var af Óla Þ. Guðbjartssyni og Guðrúnu

Helgadóttur og samþykkt á 37. þingi ráðsins. Auk þess fjallaði nefndin um tillögur um norrænt ferðakort fyrir ungt fólk og um ferðamál almennt, um norrænan ökukennaraskóla o.fl.
    Efnahagsmálanefnd hafði m.a. til umfjöllunar tillögur um samstarf stéttarfélaga í fjölþjóðlegum fyrirtækjum og um norrænt samstarf um alþjóðleg málefni. Auk þess fjallaði nefndin um samstarfsáætlanir ráðherranefndarinnar um orkumál, sjávarútvegsmál og efnahagsmál sem allar voru svo samþykktar á þingi ráðsins. Það var tillagan um efnahagsmál sem hæst bar, enda er sú tillaga afar víðfeðm. Hún er samstarfsáætlun um efnahagssamstarf norrænu ríkjanna fyrir árin 1989--1992. Fjárveitingar til starfsemi samkvæmt áætluninni verða 250 millj. danskra króna, en stór hluti þeirra aðgerða sem framkvæma á samkvæmt áætluninni verður þó ekki verðsettur, t.d. fyrirhugaðar breytingar á fjármagnsmarkaði ríkjanna. Segja má að áætlunin sé stærsta átakið til þessa sem stefnir að því að gera ríki Norðurlanda hæfari til að mæta þróuninni innan Evrópubandalagsins. Það er því mikilvægt að áætluninni sé fylgt af festu af stjórnvöldum hérlendis.
    Fjárlaga- og eftirlitsnefnd fjallaði á starfsárinu um tvær tillögur frá ráðherranefnd Norðurlanda, fjárlögin og ársskýrslu ráðherranefndar. Ráðherranefnd reiknar með 3% árlegri aukningu norrænu fjárlaganna og er fjárlaga- og eftirlitsnefnd sátt við þá aukningu að því tilskildu að vikið verði frá henni ef á daginn kemur að mikilvæg verkefni verði ekki fjármögnuð innan þess ramma. Á aukaþingi ráðsins í haust var tekin afstaða til fjárlaga ársins 1989. Þau verða 611 millj. danskra króna. Af öðrum verkefnum má nefna að gerð var úttekt á starfsemi Norræna hússins í Reykjavík og gerðar margar tillögur til úrbóta.
    Umræður á 37. þingi ráðsins mörkuðust annars vegar af þeirri umræðu sem á sér stað alls staðar á Norðurlöndum um þróunina í Evrópubandalaginu og aðgerðir á norrænum grundvelli til undirbúnings þeim breytingum og hins vegar af þeim viðamiklu tillögum sem lágu fyrir þinginu, bæði frá ráðherranefndum og þingmönnum. Samstarfsráðherra gerði hér grein fyrir ýmsum mikilvægum ráðherranefndartillögum sem þingið samþykkti og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því sem hæstv. ráðherra þar sagði. En það er kannski vert að geta þess að þrjár þeirra tillagna sem þar voru nefndar eru til komnar fyrir frumkvæði íslenskra fulltrúa, þ.e. samkomulagið um þjóðskrá og samstarfsáætlanir gegn krabbameini og um sjávarútvegsmál. Ýmsar mikilvægar þingmannatilögur voru og samþykktar á þessu þingi, en ég vil ekki tefja tímann á að telja þær upp hér og nú.
    Umræður í Norðurlandaráði hafa á undanförnum missirum snúist mjög um alþjóðamál, þ.e. ýmis mál utan Norðurlanda en sem áhrif hafa á Norðurlönd. Þann 9. des. 1987 skipaði forsætisnefnd Norðurlandaráðs sérstaka alþjóðamálanefnd eða samvinnunefnd um alþjóðamál. Umboð nefndarinnar var mjög víðtækt og í stærstu dráttum þetta: Nefndin skyldi meta þörfina á samræmdu norrænu framlagi til

alþjóðasamvinnu á sviði umhverfismála, þróunarmála, menningarmála og jafnréttismála, einnig í sambandi við fíkniefnamál. Nefndin skyldi og leggja mat á samráð fulltrúa Norðurlanda í alþjóðastofnunum. Hún skyldi huga sérstaklega að norrænu efnahagssamstarfi á alþjóðavettvangi innan OECD og innan GATT. Hún skyldi kanna sérstaklega hvaða þýðingu mismunandi afstaða landanna hefur á norrænt samstarf, til Evrópubandalagsins, EFTA og annarra evrópskra samstarfssamtaka og hún skyldi kanna hvernig norrænt samstarf fer fram á áður nefndum sviðum og leggja fram tillögur um aðgerðir. Þessi nefnd var skipuð tíu fulltrúum, tveim frá hverju Norðurlandaríkjanna. Af okkar hálfu sátum við Páll Pétursson í þessari nefnd. Nefndin skilaði ítarlegri skýrslu til forsætisnefndar Norðurlandaráðs þann 2. des. 1988 og átti þar með starfi hennar í raun að vera lokið. Umboð nefndarinnar var hins vegar framlengt til næsta hausts og skyldi hún á þessu tímabili sérstaklega fjalla um og ganga frá lokaskýrslu um Norðurlönd í Evrópu 1989--1992. Hún skyldi leggja mat á hverjar breytingar þróunin í Evrópubandalaginu hefur á hið norræna samstarf og norræn sjónarmið varðandi samvinnu við Evrópubandalagið og hvað Norðurlönd geta lagt af mörkum til að hafa áhrif á þessa þróun.
    Í skýrslu sinni lagði nefndin m.a. til að stofnuð yrði sérstök ráðherranefnd utanríkisviðskiptaráðherra Norðurlanda og ný fastanefnd til að fjalla um
utanríkismál. Það varð ekki samstaða um þá tillögu og hún kom ekki til afgreiðslu á þinginu í Stokkhólmi í byrjun marsmánaðar sl.
    Alþjóðanefndin lagði höfuðáherslu á mál er vörðuðu þróunina í Evrópu. Það er álit hennar að samræming á sem flestum sviðum á Norðurlöndum styrki þau í samskiptum við aðrar þjóðir í Vestur-Evrópu. Nefndin leggur höfuðáherslu á að Norðurlandaríkin búi sig undir að geta hafið samstarf við Evrópubandalagið um afmörkuð málefni þegar forsendur eru fyrir hendi. Sem dæmi um slík málefni nefnir hún í lokaskýrslu sinni samstarfsáætlun Evrópubandalagsins um rannsóknir, nemenda- og kennaraskiptaáætlunina og stöðlunarstarf Evrópubandalagsins auk starfs þess á sviði neytendamála. Nefndin gerði víðtæka könnun á norrænu samstarfi í alþjóðastofnunum. Þar kom fram að samstarf norrænna fulltrúa í alþjóðastofnunum er lengst á veg komið í GATT og UNESCO. Nefndin um alþjóðamál lagði til að staða samstarfsráðherra Norðurlanda og staðgengla þeirra yrði styrkt til muna.
    Það er alveg ljóst að þær miklu breytingar sem nú eiga sér stað í Evrópu með innra markaði Evrópubandalagsins 1992 hafa mikil áhrif á Norðurlönd. Jafnljóst er að Norðurlönd með sínar 23 milljónir íbúa geta í sameiningu haft meiri áhrif út á við en hvert eitt landanna út af fyrir sig getur. Hér er því enn einn þátturinn í hinu norræna samstarfi sem ástæða er til að rækta.
    Fyrirhugað er að halda í nóvember nk. eins dags aukaþing í tengslum við haustfundi ráðsins til að fjalla um tillögur alþjóðanefndarinnar og væntanlega

ráðherranefndartillögu um Norðurlönd á alþjóðavettvangi. Það gaf góða raun í fyrra að taka mengunarmálin til ítarlegrar umræðu á aukaþingi og eigi er síður þörf nú að bregðast skjótt við ef ná á norrænni samstöðu um það á hvaða sviðum beita á kröftum sameiginlega til áhrifa, samstarfs eða samræmingar við Evrópubandalagið. Um þetta eru flestir fulltrúar í Norðurlandaráði sammála. Jafnvel þótt svo geti farið að fleiri norræn ríki sæki um aðild að Evrópubandalaginu eru hagsmunir ríkjanna þeir að komast sameiginlega nokkuð áleiðis. Það er einnig yfirlýst stefna norrænu ríkjanna allra að samskipti þeirra við Evrópubandalagið fari í fyrsta lagi fram á vettvangi EFTA, í öðru lagi skulu Norðurlandaríkin koma fram sameiginlega gagnvart Evrópubandalaginu og í þriðja lagi komi til tvíhliða samninga. Það er mín skoðun að þegar til kastanna komi til samninga verði þeir a.m.k. hvað Íslendinga varðar tvíhliða. Það rýrir þó ekki gildi þess að hafa samflot með öðrum norrænum þjóðum um samræmingu og undirbúningsvinnu.
    Næsta þing Norðurlandaráðs verður haldið hér í Reykjavík dagana 26. febrúar til 2. mars 1990. Það liggur mikil vinna á bak við skipulagningu og framkvæmd 1000 manna fundar sem stendur yfir í 5--6 daga. Þessi vinna er þegar hafin af okkar hálfu. Norðurlandaráðsþingin hafa verið haldin til þessa í Þjóðleikhúsinu auk þess sem fundaraðstaða hefur verið víðar um borgina, í Alþingishúsinu og Borgartúni 7.
    Vegna þeirra endurbóta sem fram eiga að fara á Þjóðleikhúsinu getur það ekki orðið fundarstaður á næsta þingi Norðurlandaráðs. Viðræður standa nú yfir við borgarstjórann í Reykjavík annars vegar um leigu á hinu nýja Borgarleikhúsi og hins vegar við forstjóra Háskólabíós um Háskólabíóið sem mögulegan fundarstað. Bæði þessi hús koma til greina en athugun stendur enn yfir á því hvort húsið er hagkvæmara og síðan kemur að því að ræða um leiguskilmála.
    Hæstv. forseti. Eins og kunnugt er sitja sjö alþingismenn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs, kjörnir til eins árs í senn í sameinuðu Alþingi. Við höfum um margt ólíkar pólitískar skoðanir. Við höfum hins vegar átt mjög gott samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs, unnið í sameiningu að framgangi mála. Ég þykist vita að fulltrúar Alþingis í Norðurlandaráði séu mér sammála þegar ég segi að samstarfið hefur verið svo sem best varð á kosið. Sem formaður Íslandsdeildar ráðsins þakka ég fyrir þetta samstarf og læt máli mínu lokið um skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf 1988--1989.