Utanríkismál
Mánudaginn 24. apríl 1989

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Ég fagna því með sama hætti og síðasti ræðumaður að nú skuli gefið færi á því í umræðum á Alþingi að ræða alþjóðleg samskipti sem þingmenn eru aðilar að og að hér skuli teknar til umræðu skýrslur sem nú liggja fyrir um það efni. Ég tel að það sé sjálfsögð skylda þeirra alþingismanna sem þátt taka í alþjóðlegu samstarfi í nafni Alþingis að þeir geri grein fyrir ferðum sínum og þeim fjármunum sem til slíks samstarfs er varið. Það er sömuleiðis einnig mikilvægt að sá ávinningur sem af slíku samstarfi kann að vera renni ekki óskiptur til þeirra einstaklinga sem þátt taka í þessu samstarfi heldur einnig til Alþingis sem stofnunar í hvers umboði þingmenn sækja fundi og ráðstefnur erlendis.
    Á vegum Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins liggja fyrir tvö þingskjöl, 139 og 911 sem hér var dreift í dag.
    Ég hyggst ekki, virðulegi forseti, gera mikla efnisgrein fyrir því starfi sem unnið hefur verið á vegum Íslandsdeildarinnar, enda kemur það allt glöggt fram í þessum tveimur þingskjölum. Það er aftur á móti mikilvægt að þeir þingmenn sem óska þess að gera athugasemdir eða koma með ábendingar um það starf sem hér hefur verið unnið hafi til þess grundvöll og hann liggur nú fyrir í þessum skjölum.
    Alþjóðaþingmannasambandið verður 100 ára á þessu ári. Það var stofnað 1889 af þingmönnum frá níu ríkjum og í þeirra hópi voru bæði þingmenn frá Ungverjalandi og Bretlandi, en það er einmitt í þessum tveimur ríkjum sem hefðbundin þing samtakanna eru haldin á þessu ári. Sambandið hefur frá upphafi mjög beitt sér í alþjóðlegri friðarviðleitni og átti á sínum tíma þátt í stofnun Alþjóðadómstólsins í Haag. Í lögum sambandsins segir að markmið þess sé að stuðla að persónulegum tengslum milli fulltrúa hinna ýmsu þjóðdeilda og þjóðþinga og sameina þá í átaki til að efla og treysta fulltrúalýðræði í aðildarríkjum sambandsins. Þingmannasambandið hefur sérstaklega beitt sér til verndar mannréttindum til verndar einstakra þingmanna og starfar sérstök nefnd á vegum þess að því málefni. Hún hefur það verkefni að fylgjast með brotum gegn þingmönnum og reyna að fá þingmenn leysta úr haldi hafi þeir verið fangelsaðir án dóms og laga.
    Nú starfa 112 þjóðdeildir innan vébanda Alþjóðaþingmannasambandsins, en það er ástæða til að nefna það að einungis hluti þeirra er lýðræðislega kjörinn með þeim hætti sem við þekkjum hér á Íslandi, en þó svo sé hefur sambandið reynst vettvangur fyrir formleg og óformleg skoðanaskipti um hin ýmsu alþjóðamál óháð því með hvaða hætti þingmenn eru kjörnir til starfa á sínu heimaþingi. Venjulega eru haldin tvö aðalþing á ári hverju eins og kemur fram í þeim skýrslum sem lagðar hafa verið fram. Þar eru tekin fyrir tvö fyrir fram ákveðin umræðuefni og síðan eitt sem ákveðið er á þinginu sjálfu og skal ég ekki rekja þau að því er varðar þau þing sem haldin hafa verið frá því að síðast fóru fram kosningar og ný Íslandsdeild var skipuð.

    Þeir sem starfa í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins um þessar mundir eru hv. þm. Geir Gunnarsson, Júlíus Sólnes, Kristín Einarsdóttir, Ólafur Þ. Þórðarson og Sighvatur Björgvinsson, auk þess sem hér talar. Ritari deildarinnar er Ólafur Ólafsson deildarstjóri.
    Við höfum talið að nauðsynlegt væri að eiga samstarf við ýmsar aðrar þjóðdeildir innan sambandsins og Íslandsdeildin hefur verið aðili bæði að norrænu samstarfi og samstarfi annarra Vesturlanda. Þannig er um þing Alþjóðaþingmannasambandsins að þeim svipar í ríkum mæli, eins og ýmsir þingmenn hér inni þekkja sem sótt hafa þessi þing, til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna að því leyti til að þarna eru á annað hundrað ríki sem eiga sína fulltrúa og samskiptum deilda og samstarfi svipar mjög til þess sem gerist á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þannig starfar íslenska þjóðdeildin mjög náið með vestrænum þjóðum sem eiga með sér ákveðinn samráðsvettvang, 26 talsins, auk þess sem þingmenn úr hinum norrænu deildum hittast reglulega og ráða ráðum sínum.
    Á síðasta þingi, sem haldið var í Búdapest í síðasta mánuði, var sérstaklega fjallað um réttindi barna og fyrirhugaðan sáttmála Sameinuðu þjóðanna um það málefni, auk þess sem rætt var um kynþáttaaðskilnaðarstefnuna og málefni minnihlutahópa í einstökum ríkjum. Þar var sérstaklega vikið að því vandamáli sem upp er komið í Rúmeníu og sem hæstv. ráðherra vék að og einnig síðasti ræðumaður. Þannig stendur á að þingmenn vestrænna ríkja hafa neitað að mæta til fundar í Rúmeníu til þess að eiga þar orðastað við þingmenn annarra ríkja sem aðild eiga að ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE-ráðstefnunni svokölluðu. Þetta er nánar rakið í skýrslunni sem og það frumkvæði norrænu deildanna að senda ríkisstjórnum sex ríkja bréf sem gerst hafa ber að mannréttindabrotum gegn þingmönnum og krefjast þess að á þeim málum verði ráðin bót.
    Þess má geta einnig að á síðasta þingi, sem haldið var í Búdapest, tóku vestrænir þingmenn sérstaklega upp hótanir íranskra stjórnvalda í garð breska rithöfundarins Salomons Rushdie, fordæmdu þær hótanir og lögðu að þeim
fulltrúum íranska þingsins sem mættir voru á þinginu að beita sér fyrir afturköllun þessaara hótana. Þessum tilmælum var hins vegar svarað þannig að hér væri um réttmætar ,,hótanir`` að ræða því að hér væri um að ræða það að viðkomandi aðili hefði brotið islömsk lög sem við lægi dauðarefsing og hér væri því verið að fullnægja ákvæðum í islömskum refsirétti.
    Þannig koma fram á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins ýmis mál sem uppi eru í heimsmálum á hverjum tíma og það hefur reynst ágætur vettvangur til þess að skiptast á skoðunum um málefni sem á dagskrá eru þó svo þær samþykktir sem gerðar eru séu að sjálfsögðu ekki bindandi fyrir ríkin sem þarna eiga aðild, eða einstaka þingmenn.
    Ég nefni sem dæmi að fyrir nokkrum missirum var

á dagskrá þingsins umfjöllun um stríðið milli Írana og Íraka. Þar náðist samkomulag um ályktun sem ég er ekki í nokkrum vafa um að hafði mjög jákvæð áhrif í þá átt að leiða þessi lönd að samningaborði sem og varð nokkrum mánuðum síðar.
    Ég vil að lokum geta þess, virðulegi forseti, að í undirbúningi hafa verið starfsreglur fyrir Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins. Ég tel eðlilegt að þingið setji deild sem þessari ákveðnar reglur til að vinna eftir, enda er það í samræmi við lög sambandsins. Það er auðvitað skilyrði fyrir því að samfella sé í starfi sem þessu að starfað sé eftir ákveðnum reglum sem Alþingi hefur sett og vænti ég þess að um slíkar reglur geti náðst samkomulag annaðhvort á þessu þingi eða þegar í upphafi næsta þings.
    Ég mun ljúka máli mínu nú, virðulegi forseti, og fagna því að þessi mál skulu tekin á dagskrá. Það er ekki þar með sagt að það þurfi að eyða miklum tíma í að ræða þessar skýrslur. Aðalatriðið er að þær liggi frammi þannig að áhugamenn um þessi mál geti kynnt sér hvað gert hefur verið í nafni Alþingis á erlendum vettvangi í þessu samstarfi.