Stimpilgjald
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 743 um breytingu á lögum um stimpilgjald nr. 36/1978. Frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,1. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna orðist svo:
    Fyrir stimplun hlutabréfa, sem gefin eru út af félögum með takmarkaða ábyrgð, skal greiða 1 / 2 % af fjárhæð bréfanna.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Um þetta frv. þarf ekki að fara mörgum orðum. Með því er lagt til að stimpilgjald hlutabréfa lækki úr 2% af fjárhæð bréfanna sem nú er í 1 / 2 %.
    Einmitt um þessar mundir hafa miklar umræður verið í þjóðfélaginu um nauðsyn þess að auka eigið fé fyrirtækja. Fyrir þinginu liggur þáltill. um að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði og þar er vísað til skýrslu sem Iðnþróunarsjóður og Seðlabanki Íslands létu vinna um úttekt á málefnum hlutabréfamarkaðar, skýrslu sem unnin er af Enskilda Securities Ltd. í London. Það liggja því fyrir þinginu veigamikil rök ásamt með frv. um breytingar á skattameðferð hlutafjár þannig að ekki er ástæða við þessa umræðu að tefja umræðu eða fara frekar út í málalengingar vegna þeirra mála. Ég vil þó sérstaklega benda á eitt atriði í viðbót við þau sem fram koma í nefndum skjölum, en það er einmitt þegar skattameðferð hlutafjár er borin saman við aðra skattameðferð að til að mynda er tap á sölu hlutabréfa ekki frádráttarbært við skattuppgjör eins og tap á sölu eigna.
    Einmitt nú þegar eigið fé atvinnuveganna hefur rýrnað mjög, ekki síst útflutningsatvinnugreina og samkeppnisgreina, er mjög nauðsynlegt að hvetja menn til að auka eigið fé sinna fyrirtækja. Lánsfé er dýrt, vextir eru háir og allt ber að sama brunni. En auk annarra atriða er mjög dýrt að auka eigið féð, auka hlutaféð einmitt vegna stimpilgjalda. Fyrirtæki sem eykur hlutafé sitt um 50 millj. greiðir 1 millj. kr. í ríkisstjóð í stimpilgjöld af hlutabréfunum.
    Aðeins til skýringar vil ég taka eitt dæmi úr raunveruleikanum. Fyrirtæki sem tekur 25 millj. kr. lán greiðir af því láni áður en það fær það í hendur ef um er að ræða erlent lán um 10% eða 2,5 millj. til ríkisins í formi lántökugjalds, stimpilgjalds og lántökuskatts af erlendu láni eða um 2,5 millj. af 25 millj. í beina skatta til ríkisins. Þar að auki, ef sú leið er valin að verja þessum 25 millj. til aukningar á eigin fé fyrirtækisins, verður fyrirtækið að greiða 500 þús. af þessari upphæð í stimpilgjöld til ríkisins sem þýðir að skattheimtan við þessa öflun lánsfjár til eigenda til þess að auka eigið fé í fyrirtækinu nemur um 3 millj. kr.
    Ég hygg að einmitt nú við þær aðstæður sem ríkja í þjóðfélaginu sé sérstök ástæða til að hvetja fyrirtækin til að auka hlutafé. Því er lagt til með þessum frumvarpsflutningi að stimpilgjald verði lækkað í *y1/2*y%.
    Herra forseti. Ég legg til að loknum umræðum að þessu máli verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.