Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að færa forseta þakkir fyrir þá ákvörðun sem hér var tekin um skipan þessarar umræðu um skýrslu utanrrh. sem hófst hér í sameinuðu þingi í gær.
    Sú skýrsla sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram er að flestu leyti með hefðbundnu sniði. Þó ber hún þess merki að hæstv. ráðherra hefur lagt á það sérstaka áherslu að þessu sinni að hafa skýrsluna nokkru meiri að vöxtum en venja er til. Nú er það ekki alltaf svo að samhengi sé á milli magns og gæða en það verður heldur ekki sagt í þessu tilviki að skýrslan sé efnisrýrari en jafnan áður.
    Ef fyrst er vikið að hinni almennu stefnumörkun og grundvallaratriðum utanríkisstefnunnar, þá er fyrst að líta á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, stjórnarsáttmálann, þann kafla sem fjallar um utanríkismál og hæstv. ráðherra birtir í upphafi skýrslunnar. Þar segir að markmið utanríkisstefnu Íslendinga séu að treysta sjálfstæði landsins og gæta hagsmuna þjóðarinnar í alþjóðlegum samskiptum. Síðan er talið upp í nokkrum málsliðum með hvaða hætti hæstv. ríkisstjórn ætlar að vinna að þessum markmiðum. Það vekur athygli að í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar kemur hvergi fram með hvaða hætti hún ætlar að vinna að þeim grundvallaratriðum sem legið hafa að baki utanríkisstefnu Íslendinga í fjóra áratugi. Til að mynda er í þessari upptalningu ekki vikið einu orði að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og ekki vikið einu orði að varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Óhætt er að fullyrða að engin ríkisstjórn hefur verið mynduð á síðari tímum þar sem jafnótraustur málefnalegur grundvöllur liggur að baki utanríkisstefnunnar. Það hlýtur að vekja athygli bandamanna okkar og samherja að mynduð skuli ríkisstjórn á Íslandi þar sem fram kemur að hæstv. ríkisstjórn þorir ekki eða getur ekki sett á blað tilvísanir í grundvallaratriði utanríkisstefnunnar. Allt vekur þetta upp ýmsar spurningar, gerir stjórnarstefnuna ótraustari og er til þess fallið að rýra álit okkar út á við. En það skiptir auðvitað meginmáli að við sýnum stefnufestu og öryggi í málflutningi gagnvart öðrum þjóðum. Sennilega á þetta við um allar þjóðir en ekki síst fámennar þjóðir eins og við Íslendingar erum.
    Þó að þannig standi á um málefnasáttmála hæstv. ríkisstjórnar þá verður að taka það fram að hæstv. utanrrh. hefur í störfum sínum og þar á meðal í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir freistað þess í flestum efnum að fylgja eftir þeirri grundvallarstefnu sem mörkuð hefur verið og víðtæk samstaða er um meðal Íslendinga að fylgja. Hann hefur einnig í flestum atriðum, að því er grundvallarstefnuna varðar, aðlagast hinum breyttu tímum og nýju viðhorfum í alþjóðasamskiptum, meiri þíðu, vilja til gagnkvæmrar afvopnunar á grundvelli gagnkvæmra samninga og í samræmi við skuldbindingar okkar við bandalagsþjóðirnar. Þannig eru á vissan hátt mótsagnir í ótraustri yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar þar sem bæði Framsfl. og Alþfl. hafa verið að kaupa Alþb. til

samstarfs með málamiðlunum í yfirlýsingum um utanríkismál. En ég ítreka að mér sýnist að í flestum grundvallaratriðum hafi hæstv. utanrrh. staðið við markmið okkar og að því er varðar framkvæmdir á utanríkisstefnunni í flestum efnum fylgt þar eðlilegri stefnu í samræmi við það sem á undan er gengið, þó að í nokkrum atriðum, og það nokkuð alvarlegum að því er varðar framkvæmd utanríkisstefnunnar, hafi orðið misbrestur á sem ástæða er til að víkja hér að síðar.
    Það vekur einnig athygli að hæstv. utanrrh. gerir ekki í skýrslu sinni og gerði ekki í framsöguræðu sinni hér í gær fyrir þessari skýrslu neina grein fyrir þeim mikla ágreiningi sem er innan ríkisstjórnarinnar og hefur komið fram opinberlega milli stjórnarflokkanna um afstöðuna í utanríkismálum og afstöðu til einstakra framkvæmdaatriða. Hér er ekki einasta um að ræða ágreining sem hefur komið fram hér innan lands heldur hafa ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar dregið þennan ágreining fram á alþjóðavettvangi. Allt veikir þetta þá festu sem nauðsynleg er að baki utanríkisstefnu fámennrar þjóðar og rýrir um leið álit okkar á alþjóðavettvangi.
    Það er býsna kynlegt að í málefnasamningi skuli ekki vísað til aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfsins við Bandaríkin. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu felur í sjálfu sér grundvallaratriði utanríkisstefnunnar. Þegar hún var ákveðin þá stigum við ný skref í afstöðu okkar til annarra þjóða. Framan af eftir að fullveldi fékkst fylgdu Íslendingar hlutleysisstefnu. Í styrjöldinni og kjölfar hennar stóðu menn frammi fyrir breyttum aðstæðum og þegar útþenslustefna Sovétríkjanna varð ljós tóku Íslendingar ákvörðun um að tengjast bandalagi lýðræðisþjóðanna til þess að tryggja varnir landsins og til þess að taka sameiginlega þátt í sókn og vörn lýðræðisþjóðanna fyrir frelsi og mannréttindum.
    Við tökum þannig afstöðu á alþjóðavettvangi. Um leið og við gætum sjálfstæðis og fullveldis Íslendinga og öryggishagsmuna okkar, þá tökum við afstöðu á alþjóðavettvangi með þeim þjóðum sem standa vörð um frelsi, lýðræði og mannréttindi og það höfum við gert með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu.
Starf Atlantshafsbandalagsins hefur borið mikinn árangur í 40 ár og óhætt er að fullyrða að óskir og vonir þeirra sem að stofnun þess stóðu hafa í flestum atriðum ræst og það sem mestu máli skiptir er það að staðfesta Atlantshafsbandalagsins hefur tryggt frið í álfunni í 40 ár.
    Þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir og þrátt fyrir það að tveir af þremur stjórnarflokkanna styðji aðild að Atlantshafsbandalaginu hefur ekki tekist að fá tilvísun til þessa grundvallarþáttar utanríkisstefnunnar inn í málefnasáttmála hæstv. ríkisstjórnar.
    Hæstv. utanrrh. hefur eigi að síður í störfum sínum og með þeirri skýrslu sem hér er lögð fram sýnt að hann hefur í engu hvikað frá þeim grundvallaratriðum sem fylgt hefur verið og það er auðvitað mikilvæg staðreynd í þessari umræðu þrátt fyrir þann veikleika

sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
    Það fer ekkert á milli mála að það er fyrst og fremst staðfesta Atlantshafsbandalagsríkjanna sem ráðið hefur úrslitum um þá gleðilegu þróun sem átt hefur sér stað á alþjóðavettvangi undanfarin ár. Við Íslendingar hljótum að fagna því enn að rekja má upphaf þeirrar þróunar til fundar forseta Bandaríkjanna og leiðtoga kommúnistaflokks Sovétríkjanna sem haldinn var hér í Reykjavík. Þar reyndi verulega á lýðræðisríkin í Atlantshafsbandalaginu þegar háværar kröfur komu fram um einhliða afvopnun og svæðabundna afvopnun sem bornar voru fram af svokölluðum friðarhreyfingum. En sú stefna Atlantshafsbandalagsins að semja af styrkleika hefur borið árangur, að treysta varnirnar en vera um leið tilbúið til þess að semja hefur skilað árangri.
    Ef við víkjum svo að einstökum atriðum að því er varðar framkvæmd utanríkisstefnunnar og utanríkismálanna og þeirra verkefna sem nú falla undir utanrrn. sem eru orðin býsna viðamikil og einstökum ágreiningsatriðum á milli stjórnarflokkanna, þá vil ég fyrst koma að þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um svonefndar skipulagsbreytingar í utanrrn.
    Hæstv. ráðherra hefur í umræðu að undanförnu gert allmikið úr skipulagsbreytingum í ráðuneytinu þó að takmarkaðar upplýsingar hafi enn verið gefnar um þau efni. Svo virðist sem hér sé fyrst og fremst um að ræða mannabreytingar. Það fer auðvitað ekki hjá því að þær hljóta, eins og að þessum málum hefur verið staðið, að tengjast mjög innanbúðarmálum Alþfl. Hér á ég sérstaklega við þær breytingar sem gerðar hafa verið í tengslum við skipan nýs fastafulltrúa Íslands hjá Fríverslunarsamtökunum.
    Fyrir tveimur árum eða svo tók nýr fastafulltrúi við því starfi, einmitt í þeim tilgangi að undirbúa forustu Íslands í Fríverslunarsamtökunum en að því kemur nú á miðju þessu ári. Nú hefur einn af forustumönnum Alþfl., fyrrv. formaður flokksins, einn af fáum forustumönnum Alþfl. sem enn er fulltrúi frjálslyndra viðhorfa, verið skipaður til þess að taka við þessu starfi. Ég ætla ekki að gagnrýna þá skipan vegna þess manns sem í hlut á. Ég tel að hv. þm. Kjartan Jóhannsson sé hinn hæfasti maður til þess að takast á við það verkefni. Hitt vil ég gagnrýna hvernig hæstv. ráðherra stendur að þessum breytingum og hvaða tíma hann velur til að gera breytingar á þessu veigamikla embætti þegar við erum að taka við forustu í Fríverslunarsamtökunum um nokkurra mánaða skeið. Það hefði ekki verið gagnrýniefni ef þetta hefði gerst fyrir nokkrum mánuðum síðan eða ári síðan eða í lok þess tíma þegar forustu Íslands í samtökunum lýkur. En það er líklegt að þetta veiki stöðu Íslands og sýni hringlandahátt þegar við erum að takast á við viðamikið verkefni. Og það er vandasamt verkefni fyrir fámenna þjóð eins og okkur að takast á við þetta forustustarf, ekki síst þegar fyrir dyrum standa umfangsmiklar viðræður Fríverslunarsamtakanna við Evrópubandalagið. Það er þessi þáttur málsins sem ég tel vera gagnrýniverðan, að gera hér á breytingar aðeins nokkrum vikum áður en þessi forusta fellur í

okkar hlut. Ég tel það bera vott um hringlandahátt og það kunni að rýra traust okkar út á við þó að ég vilji endurtaka að ég ber fyllsta traust til hv. þm. Kjartans Jóhannssonar sem bráðlega tekur við þessu mikilvæga starfi, en hjá því verður auðvitað ekki litið að þessar breytingar á þessum tíma hljóta að tengjast meir hagsmunum Alþfl. en hagsmunum utanríkisþjónustunnar.
    Hæstv. núv. utanrrh. gerði það að tillögu sinni meðan hann var fjmrh. í síðustu ríkisstjórn að sendiráð á Norðurlöndunum yrðu lögð niður og jafnvel einnig sendiráðið í París. Nú er það svo að það er ekki alveg óþekkt að ábyrgðarlitlir fjármálaráðherrar hendi fram sparnaðartillögum af ýmsu tagi í vissu þess og kannski öllu fremur í trausti þess að viðkomandi fagráðherrar stöðvi framgang þeirra. Þeir koma svo gjarnan eftir á og segja sem svo: Sjáið, ég hafði sparnaðartillögur fram að færa en það voru hinir vondu eyðsluseggir sem komu í veg fyrir þetta.
    Nú stendur svo á að hæstv. ráðherra varð utanrrh. aðeins örfáum vikum eftir að þessar tillögur um sparnað og skipulagsbreytingar í utanríkisþjónustunni voru lagðar fram af honum sem fjmrh. En á þeim tíma sem hann hefur gegnt stöðu utanrrh. hafa engar tillögur verið gerðar um skipulagsbreytingar í þessu efni og sýnir það auðvitað fyrst og fremst að hér var um að ræða af hans hálfu
marklausar yfirlýsingar. Á hinn bóginn er það mín skoðun að margt bendi til þess að það megi hagræða í utanríkisþjónustunni og skipa málum á þann veg að við getum nýtt fjármuni með öðrum hætti. Samstarf Norðurlandaþjóðanna hefur verið að þróast á undanförnum árum og áratugum og tekið miklum breytingum. Ég hygg að varla sé unnt að finna dæmi um jafnnáið samstarf þjóða í milli eins og hér á sér stað. Þetta samstarf má segja að sé grasrótarsamstarf, það eru varla til þau samtök fólks á Norðurlöndum sem hafa ekki með sér norrænt samstarf af einu eða öðru tagi og samskipti stjórnvalda hafa þróast á þann veg, auk starfa Norðurlandaráðs sem þingmannasamkomu, að samskipti stjórnvalda milli ríkisstjórna landanna fara að mestu leyti fram beint á milli ráðuneyta og í gegnum ráðherranefndir Norðurlandaráðs.
    Þessi þróun er ánægjuleg. Hún hlýtur hins vegar að vekja upp spurningar um það hvort við getum þá ekki hagrætt á öðrum sviðum þessa samstarfs. Með öðrum orðum sýnist mér að við höfum náð það langt í Norðurlandasamstarfinu að það megi nú endurskoða hina gömlu og hefðbundnu samskiptaleið ríkisstjórna þar sem ríkisstjórnarerindi og stjórnvaldserindi á milli landa fara í gegnum sendiráðin. Þess vegna teldi ég að það kæmi fyllilega til álita nú, ekki að Ísland stígi einhliða skref af því tagi sem hæstv. utanrrh. lagði til meðan hann var fjmrh., heldur að við tækjum það upp við Norðurlandaþjóðirnar, samstarfsþjóðir okkar innan Norðurlandaráðs, að þær legðu allar niður sendiráðin hver hjá annarri. Í þess stað væri unnt að setja upp sameiginlegar skrifstofur, litlar þjónustuskrifstofur við

einstaklinga í hverju ríki þar sem Norðurlandaþjóðirnar sameinuðust um eina skrifstofu í höfuðborgunum til þjónustu við einstaklingana. En stjórnvaldserindum og málefnum ríkisstjórna yrði í þeim mæli sem verið hefur fram til þess og í auknum mæli beint í gegnum viðkomandi ráðuneyti.
    Þetta mundi sýna styrk Norðurlandasamstarfsins. Þetta mundi sýna hversu langt við hefðum náð í samstarfi þessara þjóða. Þetta mundi sýna hversu gott og traust þetta samstarf er en um leið mundi þetta svara eðlilegum kröfum um að fyllstu hagræðingar sé gætt og aðgæslu að því er varðar kostnað í svo umfangsmiklu starfi á milli þjóða. Með þessum hætti væri svo unnt að skapa svigrúm til annarra átaka sem brýn eru í utanríkisþjónustunni, ekki síst eftir að utanrrn. hefur fengið það verkefni að hafa utanríkisviðskipti með höndum.
    Ég hygg að þessir hagsmunir séu líka mjög brýnir hjá hinum Norðurlandaþjóðunum sem allar eru að sækja fram í viðskiptum við aðrar þjóðir og þurfa að skapa fjárhagslegt svigrúm, eins og við, til þess að treysta viðskiptastöðu okkar á nýjum mörkuðum. Með þessu gætum við skapað svigrúm, að mínu mati, til þess að koma upp sendiráðum á þeim svæðum þar sem við teljum að við getum haslað okkur völl í viðskiptum og fundið nýja markaði til þess að treysta útflutning Íslendinga.
    Hæstv. ráðherra gerir allgóða grein í skýrslunni fyrir þeim störfum sem unnin hafa verið varðandi aðlögun okkar að hinum nýja Evrópumarkaði. Í flestum efnum sýnist mér að þau mál séu í góðum farvegi. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum að nýjar aðstæður skapast í Evrópu með innri markaði Evrópubandalagsins 1992. Það er fullljóst að það skiptir Íslendinga miklu máli að fylgjast með í þeirri þróun, verða ekki að hornrekum í þeirri miklu þróun til nánari samvinnu og meiri samskipta á milli þjóða. Lífskjör Íslendinga eru undir því komin að við tökum þátt í þessu samstarfi. Það skiptir hins vegar miklu máli hvernig við aðlögum okkur að þessum nýju aðstæðum og hver staða okkar verður þar á endanum.
    Mér sýnist eðlilegt að við fylgjum fríverslunarþjóðunum svo langt sem komast má í viðræðum við Evrópubandalagið. Við gerðum á sínum tíma mjög hagstæðan samning við bandalagið. Nú hafa aðstæður breyst. Nýjar þjóðir eru komnar inn í Evrópubandalagið, mikilvægar viðskiptaþjóðir Íslendinga. Við þurfum líka að auka samráð okkar og samskipti við Evrópuþjóðirnar á öðrum sviðum, svo sem á sviði vísinda, mennta og umhverfismála.
    Í meginatriðum sýnist mér því að hér hafi verið farið af stað með eðlilegum hætti. Það er mikilvægt að við tökum upp viðræður við Evrópubandalagið, skýrum okkar afstöðu og freistum þess með öllum ráðum að ná sem hagstæðustum samningum fyrir okkur þegar þar að kemur, þó að ég um leið taki undir það að aðild að bandalaginu er ekki á dagskrá. Hitt vekur hins vegar upp spurningar hvernig samstarfi hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarflokkanna hefur verið varið að því er þennan undirbúning varðar.

    Það má segja að núv. ríkisstjórn reki svokallaða fyrirvarapólitík að því er varðar mikilvæg samskipti okkar við aðrar þjóðir. Þetta á bæði við um stefnumörkun Norðurlandaráðs að því er varðar efnahagssamvinnu þeirra og hina nýju stefnumörkun sem leiðtogar EFTA-ríkjanna ákváðu á fundi sínum í Osló fyrir ekki löngu síðan. Þessi fyrirvarapólitík hefur hins vegar valdið deilum innan ríkisstjórnar Íslands og hlýtur að vekja upp nokkrar spurningar um stöðu okkar í þeim viðræðum sem fram fara og stöðu Íslands sem forusturíkis á næstu mánuðum í fríverslunarsamtökunum, í viðræðum þeirra við Evrópubandalagið.
    Hæstv. utanrrh. tók það fram eftir fundinn í Osló að sú samþykkt sem þar var
gerð hefði verið einróma og Íslendingar ætluðu að taka fullan þátt í umræðum um þau atriði sem þar bæri hæst, svo sem frjálsræði fyrir fjármagn, þjónustu, vinnuafl og vörur. Hæstv. utanrrh. tók sem sagt fram af sinni hálfu eðlilega að Ísland stæði að þeirri stefnumörkun sem fram kæmi í yfirlýsingunni þó að öllum sé auðvitað ljóst að Fríverslunarsamtökin eru ekki yfirríkjabandalag þar sem meiri hluti getur bundið minni hluta. Hæstv. viðskrh. ítrekaði þetta svo í kjölfar fundarins á fundi iðnrekenda. Það er athyglivert að Alþfl. hefur þannig ítrekað viðhorf sín, frjálslynd viðhorf sín í efnahags- og viðskiptamálum að því er varðar samstarf við aðrar þjóðir, en hefur svo á hinn bóginn gengið hér erinda Alþb. í að hneppa íslenskt efnahagslíf í meiri fjötra og meiri miðstýringu. En það sýnist nú vera innanbúðarmál Alþfl. en snerta ekki beint umræður um afstöðu okkar til utanríkismála og utanríkisviðskipta.
    Hæstv. forsrh. hefur síðan margítrekað að ríkisstjórn hans hafi fyrirvara um öll þau atriði til aukins frjálsræðis sem hæstv. utanrrh. hefur sagt að Ísland standi að. Nú er það svo að það er í sjálfu sér ekki einkamál okkar Íslendinga hvernig hæstv. ríkisstjórn stendur að þessu málum, ekki síst í ljósi þess að forustan í Fríverslunarsamtökunum er að koma í okkar hlut innan fárra vikna.
    Það hlýtur að rýra álit okkar út á við og vekja upp spurningar bandalagsþjóða okkar um traust Íslendinga og trúverðugleika þegar hæstv. ríkisstjórn talar með þessum hætti, einn ráðherra í austur og hinn í vestur. Og það hlýtur að veikja forustu hæstv. utanrrh. í Fríverslunarsamtökunum þegar forsrh. hans hæstv. lýsir annarri afstöðu til þeirra viðræðna og til þeirra markmiða með viðræðunum sem hæstv. utanrrh. á að leiða í samtölunum við Evrópubandalagið. Þetta er gagnrýnivert. Það skiptir með öðrum orðum mjög miklu máli, bæði vegna hagsmuna okkar í því að ná sem bestum samningum við Evrópubandalagið og eins með tilliti til álits okkar út á við, að ríkisstjórn Íslands á hverjum tíma komi fram heilsteypt í svo mikilvægum málum þannig að ekki síst forusta okkar í slíkum samtökum verði ótvíræð og óumdeild. En sýnt þykir að við þetta þurfum við að búa meðan núv. hæstv. ríkisstjórn situr.
    Annað atriði sem ágreiningur hefur komið upp um

innan þessarar hæstv. ríkisstjórnar lýtur að afvopnun og hugmyndum um fækkun kjarnorkuvopna og þeim umræðum sem fram hafa farið um kjarnorkuvopnalaus svæði. Það er ekki svo lítið atriði varðandi heilsteypta stefnu Íslendinga í þessu efni, öryggishagsmuni okkar og skuldbindingar við bandalagsþjóðir, að fá megi heilsteypta stefnu frá hæstv. ríkisstjórn.
    Nú vil ég ítreka enn á ný að mér sýnist að hæstv. utanrrh. hafi af sinni hálfu fylgt fram stefnu í fullu samræmi við það sem áður hefur gerst, í fullu samræmi við breytta tíma, þíðu og vilja til afvopnunar, í fullu samræmi við þá nýju strauma sem eru að skapast í samskiptum þjóða um leið og hann ítrekar og einmitt með því að ítreka þá stefnu sem Atlantshafsbandalagið hefur fylgt.
    Í skýrslunni segir hæstv. utanrrh.:
    ,,Viðræður eru nýlega hafnar, annars vegar um niðurskurð hefðbundinna herja á svæðinu frá Atlantshafi til Úralfjalla og hins vegar um frekari traustvekjandi aðgerðir. Fyrri viðræðurnar verða öðru fremur prófsteinninn á raunverulegan friðarvilja Sovétmanna í næstu framtíð, en allt frá stríðslokum hefur ójafnvægi á sviði hefðbundinna herja í Evrópu verið Sovétmönnum í vil, verið ein helsta undirrót erfiðleika í samskiptum austurs og vesturs. Ég hef áður lýst áhuga á því að gengið verði til samninga um afvopnun á höfunum þegar viðræður um niðurskurð hefðbundinna herja og traustvekjandi aðgerða á landi hafa borið tilætlaðan árangur.``
    Á öðrum stað segir hæstv. utanrrh.:
    ,,Ég vil ítreka í ljósi þeirra umræðna sem átt hafa sér stað hérlendis um hættuna af kjarnavopnum á og í höfunum að START-viðræðurnar taka einnig til stýriflauga á og í höfunum sem flutt geta kjarnavopn. Það er því sérstakt hagsmunamál Íslendinga að viðræður þessar beri ávöxt.``
    Og í kaflanum um kjarnavopnalaus svæði tekur hæstv. utanrrh. skýrt fram að sá vinnuhópur embættismanna, sem nú starfar á vegum ríkisstjórna Norðurlandanna, taki þar til skoðunar grundvallarskuldbinding þeirra ríkja sem eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu og stefnu þeirra ríkja sem hlutlaus eru.
    Hér tekur hæstv. utanrrh. alveg skýrt og greinilega á málum og ég er í einu og öllu sammála þeirri stefnumörkun sem þar kemur fram. Það fer ekkert á milli mála að sá árangur sem náðst hefur á þessu sviði er vegna þessarar staðfestu Atlantshafsbandalagsins sem hér hefur verið lýst. Við eigum auðvitað mikilla hagsmuna að gæta Íslendingar, að fækkun kjarnorkuvopna taki einnig til hafsvæðanna. Þar kemur til sú staða að lífsafkoma okkar er byggð á fiskveiðum og við viljum gæta þess svo sem frekast er kostur að kjarnavopn leiði ekki til umhverfisslysa á mikilvægum fiskimiðum. Þetta höfum við jafnan lagt ríka áherslu á. Ég gerði það á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins fyrir rúmu ári síðan og aftur á afvopnunarþingi Sameinuðu þjóðanna sl. sumar, og núv. hæstv. utanrrh. hefur ítrekað þessa stefnu og undir hana vil ég taka.

    En nú bregður svo við að fyrir ekki alllöngu fór hæstv. fjmrh. í ferð til Moskvu. Í fréttatilkynningu var sérstaklega tekið fram að þar hefði hann rætt
viðskiptamál við sovésk stjórnvöld. Ýmsir hljóta að spyrja: Hvers vegna fer hæstv. fjmrh. til Moskvu til þess að ræða um viðskiptamál sem heyra undir hæstv. viðskrh. og hæstv. utanrrh.? Varla hefur það stafað af öðru en því að honum hefur fundist sem þessir tveir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Íslands stæðu ekki að viðskiptaviðræðum við sovésk stjórnvöld svo sem Alþb. líkaði og því hefur hæstv. fjmrh. þótt nauðsynlegt að taka fram fyrir hendur þessara tveggja ráðherra og hefja sérstakar viðræður að eigin frumkvæði og eigin hálfu við sovésk stjórnvöld.
    En í beinu framhaldi af ferð sinni til Moskvu heldur hæstv. fjmrh. ræðu á sérstökum fundi í Osló þar sem hann varpar fram hugmyndum um afvopnunarviðræður sem ganga að ýmsu leyti þvert á stefnu hæstv. utanrrh. og stefnu bandalagsþjóða Íslendinga.
    Sovétstjórnin sá ástæðu til þess að fagna sérstaklega þessu frumkvæði Ólafs Ragnars Grímssonar fjmrh., þessu frumkvæði Íslendinga og tók sérstaklega fram að þessar síðustu yfirlýsingar Íslendinga á sviði utanríkismála væru í samræmi við ræðu Mikhaíls Gorbatsjovs í Múrmansk í október 1987 er hann bauð norrænum ríkjum að ræða löngu tímabærar spurningar á sviði öryggismála, eins og þar segir.
    Nú er það svo að engin Norðurlandaþjóðanna hljóp inn á þetta viðræðutilboð Gorbatsjovs á sínum tíma. Og fyrstu jákvæðu viðbrögðin koma þá frá fjmrh. Íslands og þau eru greinilega á þann veg flutt að Sovétstjórnin hefur talið sig geta túlkað þau sem yfirlýsingu íslensku ríkisstjórnarinnar. Í fregnum norskra fjölmiðla frá þessari ráðstefnu er gjarnan vísað til tillögu Íslands og talað um íslenskt frumkvæði.
    Viðbrögð á þessari ráðstefnu við frumkvæði hæstv. fjmrh. um mótun nýrrar utanríkisstefnu fyrir Íslendinga voru að vísu misjöfn og Johan Jörgen Holst, varnarmálaráðherra Noregs, tók þeim fálega og vísaði til þess að Atlantshafsbandalagið er flotabandalag, en Varsjárbandalagið landveldi og Atlantshafsbandalagið hefur m.a. af þeim sökum lagt áherslu á að stuðla beri að jafnvægi landherja í Mið-Evrópu.
    Hér er komið upp enn eitt málið þar sem ágreiningur er á milli stjórnarflokkanna sem fer ekki einungis fram hér innan lands heldur er færður á erlendan vettvang. Og nú er það spurning mín til hæstv. utanrrh.: Er hann sáttur við þetta frumkvæði hæstv. fjmrh. sem gengur þvert á þá stefnu sem hann sjálfur hefur lýst og eðlilegt er að Ísland fylgi í samræmi við stefnu sína og skuldbindingar við bandamenn? Ef hann er ekki sáttur við að hæstv. fjmrh. móti þannig sérstaka utanríkisstefnu fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar, hefur hann þá gert ráðstafanir til þess á erlendum vettvangi að gera öðrum ríkisstjórnum grein fyrir því að hæstv. fjmrh. talar ekki fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar og það sem hann gefur til kynna að sé sérstakt frumkvæði

Íslendinga og Sovétstjórnin hefur fagnað sé ekki stefna íslensku ríkisstjórnarinnar? Eða hefur hæstv. ráðherra gert ráðstafanir til þess að eyða þeirri óvissu sem með þessu hefur verið sköpuð og treysta um leið ásjónu Íslands í samfélagi þjóðanna? Því að auðvitað er þetta enn eitt dæmið um það hvernig álit Íslands er rýrt út á við þegar utanríkisstefna þjóðarinnar er kynnt með svo ólíkum hætti af ráðherrum í hæstv. ríkisstjórn.
    Ég ætla ekki hér að fara mörgum orðum um hvalveiðimálið sem hefur verið býsna viðkvæmt og erfitt mál. Á sínum tíma tók Alþingi þá ákvörðun að mótmæla ekki hvalveiðibanninu en hefja vísindalegar rannsóknir á hvölum og í fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mótuð stefna um vísindaveiðar og þeirri vísindaáætlun á að ljúka á þessu sumri.
    Ég er þeirrar skoðunar að þessari vísindaáætlun sem mótuð var á sínum tíma og fyrri ríkisstjórn fylgdi eigi að ljúka. Veiðunum hefur verið hagrætt eftir aðstæðum og í kjölfar samninga við aðrar þjóðir, sérstaklega við Bandaríkjamenn þannig að við höfum fylgt sveigjanlegri framkvæmd á þessari stefnu. En hæstv. samgrh. hefur gert athugasemdir við þessa stefnu og í viðtali við Þjóðviljann segir hann svo, með leyfi forseta:
    ,,Ég lít svo á að stefna þessarar ríkisstjórnar í hvalveiðimálum sé ekki útrætt mál. Það hefur verið rætt á nokkrum fundum í stjórninni, m.a. að minni ósk, því ég vil meina að þessi ríkisstjórn eigi enn eftir að gera upp sína afstöðu í raun til þess hvernig haldið verði á þessum málum í framtíðinni. Það er ekki sjálfgefið að stefna fyrri ríkisstjórnar verði óbreytt stefna þessarar ríkisstjórnar.``
    Nú vil ég inna hæstv. utanrrh. eftir því hvort hæstv. samgrh. hafi fylgt þessu máli eftir, hvort hæstv. ríkisstjórn hafi fjallað um þessa stefnu sem hæstv. samgrh. mælir hér fyrir að því er ég skil af hálfu Alþb. í ríkisstjórninni og hvort vænta megi nýrra átaka á milli stjórnarflokkanna um þetta efni.
    Um hvalveiðimálið vil ég svo aðeins segja það til viðbótar að hæstv. ráðherra gerði býsna mikið mál úr því á dögunum að sérfræðingur Bandaríkjastjórnar, dr. Evans, hefði komið í bakið á Íslendingum í viðræðum sínum við japönsk stjórnvöld. Björn Bjarnason ritstjóri hefur með viðræðum við
Evans og starfsmenn viðskrn. í Bandaríkjunum sýnt fram á í blaðagrein að upphlaup hæstv. ráðherra um þetta efni virðist hafa verið á hæpnum forsendum byggt og þess vegna hefði kannski verið ástæðulaust af hálfu hæstv. ráðherra að fjalla um það með þeim hætti sem gert er í skýrslunni á bls. 61 og taka fremur tillit til nýrra upplýsinga í málinu.
    Það er svo að ekki síst fámenn þjóð þarf oft að taka upp og gæta hagsmuna sinna af býsna miklum krafti og það gagnvart bandamönnum okkar ekkert síður en öðrum. Það höfum við gert í samskiptum okkar við Bandaríkin. Það gerðum við þegar deilan stóð um flutningana til varnarliðsins. Það gerðum við þegar deilurnar stóðu vegna hugsanlegrar staðfestingarkæru Bandaríkjanna. En það getur rýrt

okkar stöðu ef við hrópum úlfur, úlfur þegar ekki er raunverulegt tilefni til. Og því geri ég þessa athugasemd við þessa grein í skýrslunni. Að öðru leyti vænti ég þess svo sem fram hefur komið að núverandi vísindaáætlun verði lokið, en brýnt er að Íslendingar gefi út skýra stefnu um það hvað við skuli taka. Ég teldi ekki, og hef lagt á það áherslu áður, að það væri eðlilegt að Alþingi fjallaði um það mál og mótaði þá stefnu.
    Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að svokölluðu varaflugvallarmáli. Um það fóru fram miklar umræður hér í þinginu að frumkvæði hv. 1. þm. Norðurl. v. og ætla ég ekki að endurtaka þær umræður hér og nú, aðeins að draga fram nokkur höfuðatriði í þessu máli.
    Það lá fyrir í ágústmánuði á sl. sumri að yfirvöld Bandaríkjahers voru tilbúin til þess að fallast á öll skilyrði Íslendinga um þennan flugvöll, með hvaða hætti hann yrði rekinn, að þar yrði ekki vopnaviðbúnaður né hermenn á friðartímum. Þessi atriði komu öll fram í viðræðum við bandarísk yfirvöld á sl. sumri. Hæstv. utanrrh. fékk þau svo staðfest í vetur sem leið í bréfi frá aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Hæstv. ráðherra hefur lýst vilja sínum til þess að sú forkönnun á hugsanlegum varaflugvelli verði gerð. Þetta hefur sætt andmælum af hálfu Alþb. fyrst og fremst.
    Fyrir ekki alllöngu greindi Þjóðviljinn frá því að fyrirætlanir hæstv. utanrrh. í þessum efnum hefðu verið brotnar með öllu á bak aftur. Í tvígang hygg ég að hæstv. ráðherra hafi verið inntur eftir því í umræðum hér á Alþingi hvort þessi staðhæfing sé rétt, að Alþb. hafi brotið fyrirætlanir hans í þessum efnum á bak aftur. Hæstv. ráðherra hefur látið hjá líða að svara þessum spurningum. Ég vil því ítreka þá spurningu hvort þessi fullyrðing er rétt. Ef svo er ekki, þá vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann sé reiðubúinn að standa að samþykkt þáltill. hér á þessu þingi um það að Alþingi sé því samþykkt að hæstv. utanrrh. heimili þessa forkönnun.
    Svo virðist sem hæstv. utanrrh. sé að láta undan þrýstingi Alþb. að því er varðar þetta mál. Þó að fram hafi komið að hæstv. ráðherra hafi í meginefnum fylgt grundvallarstefnu Íslendinga og tekið þátt í aðlögun hennar að nýjum og breyttum tímum, þá hefur það verið í huga margra að svo kynni að fara að Alþb. mundi nota stöðu Alþfl. til þess að knýja hæstv. utanrrh. til undanhalds í ýmsum efnum varðandi framkvæmd þessarar stefnu og varðandi framkvæmd þeirra áforma sem hann hefur lýst. Og grunsemdir eru uppi um það að hæstv. ráðherra muni ekki treysta sér til þess vegna andstöðu Alþb. og forneskjulegra hugmynda þeirra í varnarmálum, sem eru að daga uppi í nútímaþróun í alþjóðlegum samskiptum, að framkvæma stefnu sína. Þess vegna eru þessar spurningar ítrekaðar.
    Hæstv. ráðherra vék hér að heræfingum sem einnig hafa verið til umræðu hér á Alþingi og fyrirhugaðar eru á sumri komanda. Hann greindi frá því að hann hefði tekið ákvörðun um að fækka þátttakendum um

þriðjung. Augljóst er af þessu að hæstv. ráðherra er að byrja að bogna fyrir hótunum Alþb. Í skýrslu hæstv. ráðherra kemur ekki annað fram en hann telur þessar æfingar eins og þær hafa verið kynntar eðlilegar og sjálfsagðar og það er því augljóst að hér hefur átt sér stað breyting, skyndileg breyting á afstöðu hæstv. ráðherra. Það er augljóst að hann er að láta undan þrýstingi Alþb.
    Nú sýnist mér málið snúa á þann veg að einu gildi fyrir Alþb. hvort þátttakendur í þessum æfingum verða tvöfalt fleiri en síðast eða þrefalt fleiri. Auðvitað hefði Alþb. ekkert farið að hlaupa úr ríkisstjórn þó að æfingarnar hefðu farið fram með þrefalt fleiri þátttakendum í staðinn fyrir tvöfalt fleiri en síðast. Auðvitað hefði Alþb. setið sem fastast. Einstaka þingmenn Alþb. hafa verið að gefa til kynna að það kunni að hafa áhrif á afstöðu þeirra til hæstv. ríkisstjórnar ef þessar heræfingar verða leyfðar. Öllum má vera ljóst að hér er um að ræða marklausar hótanir. Öllum má vera ljóst að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem hefur gefið þetta til kynna, heldur áfram stuðningi sínum við hæstv. ríkisstjórn hvort sem hæstv. ráðherra leyfir tvöfalt fleiri þátttakendur eða þrefalt fleiri þátttakendur í þessum heræfingum. Hæstv. ráðherra var þess vegna alveg óhætt stólsins vegna að leyfa þessar heræfingar með þeim hætti sem hann hafði áður lýst að væru eðlilegar og sjálfsagðar. En staðreyndirnar tala hér skýru máli. Hæstv. ráðherra er að byrja að gefast upp fyrir hótunum Alþb. og það er ástæða til þess að hafa nokkrar áhyggjur af framvindu utanríkismálanna og framkvæmd
utanríkisstefnunnar ef þessar hótanir halda áfram og ef hæstv. ráðherra heldur áfram að bogna fyrir þeim.
    Þá komum við aftur að upphafinu, sem sagt því að í málefnasamningi þessarar ríkisstjórnar er mjög ótraustur grundvöllur fyrir utanríkisstefnunni eins og hún hefur verið framkvæmd um áratugi og það kann að veikja stöðu hæstv. ráðherra þegar fram í sækir ef fram heldur sem horfir.
    Hæstv. ráðherra gerði svo nokkra grein fyrir fyrirhuguðum breytingum á stjórn og hugsanlega eignaraðild að Aðalverktökum. Hann tók fram að nú ætti að auka þátt ríkisins í þessu fyrirtæki sem haft hefur einkarétt að mestu á framkvæmdum á vegum varnarliðsins og nú þegar hafa Aðalverktakar samþykkt að fjölga ríkisfulltrúum um einn. Stjórnarformaður, að ég hygg, frekar en forstjóri fyrirtækisins, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að þetta breyti ákaflega litlu og skipti ekki sköpum. En hæstv. ráðherra talaði einnig um að til stæði að breyta eignaraðildinni. Af því sem hann sagði má helst ráða að hann sjái það helst til ráða að auka hlutverk og þátttöku ríkisins í þessu fyrirtæki.
    Það fer eftir öðru að helstu lausnir sem Alþfl. sér um þessar mundir er að auka þátttöku og umsvif ríkisins í atvinnurekstri. Miklu nær hefði verið að mínu mati að hugsa þetta mál að nýju og koma framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli í þann farveg að þær fari fram á grundvelli almennra útboða með frjálsum aðgangi íslenskra verktakafyrirtækja.

    Ég hygg að það hafi verið eðlilegt á sínum tíma að standa að málum með þessum hætti þegar verktakaiðnaður á Íslandi var veikburða og tryggja þurfti varnarliðinu að það gæti átt samskipti við traust fyrirtæki. Nú hefur íslenskum verktakafyrirtækjum vaxið fiskur um hrygg, þau eru fyllilega fær um að takast á við hin vandasömustu og mestu verkefni. Þess vegna hefði ég talið að það væri kominn tími til þess að endurskoða fyrirkomulag varnarliðsframkvæmda í því ljósi að þær gætu farið fram á grundvelli almennra útboða sem er hin almenna stefna sem íslenska ríkið rekur að því er varðar eigin framkvæmdir.
    Nú segja ýmsir sem svo: Ja, þá töpum við nokkrum spóni úr aski okkar, þá þurfa íslensk fyrirtæki að keppa um þessi verkefni og hagnaðurinn verður þar af leiðandi minni. Mín skoðun er sú að það verði að tryggja sérhverju fyrirtæki eðlilegan ágóðahlut. Ekkert vel rekið fyrirtæki tekur að sér verkefni á grundvelli útboðs nema það telji sig hafa af því nokkurn ágóða. Það er hin eina rétta og eðlilega viðmiðun í þessu efni. Öll önnur sjónarmið um ágóða af slíkum framkvæmdum eru óeðlileg að mínu mati. Þess vegna hefði átt að vera kominn tími til að huga að frekari breytingum í þessu efni. Það er auðvitað ljóst að um þetta er ágreiningur í flestum stjórnmálaflokkum, bæði í Sjálfstfl. og ég vænti einnig í Alþfl. og Framsfl. En að mínu áliti er kominn tími til að hugsa um þessi mál frá nýjum sjónarhóli og ástæða til þess að inna hæstv. utanrrh. eftir því frekar hvaða áform hann hafi uppi í þessu efni.
    Frú forseti. Niðurstaða mín er sú að það sé enn á ný staðfest í þessari umræðu að starfsgrundvöllur hæstv. ríkisstjórnar að því er varðar utanríkismál eins og fleiri þættir er ótraustur og til þess fallinn að veikja utanríkisstefnu Íslands. Hæstv. ráðherra hefur á hinn bóginn staðið eðlilega að framkvæmd utanríkisstefnunnar í flestum atriðum að því er varðar grundvallarþætti, en alvarlegir þættir hafa komið upp varðandi einstök framkvæmdaatriði og ég hef hér vikið að nokkrum þeirra. Og ástæða er til þess að hafa áhyggur af framhaldinu ef hæstv. ráðherra ætlar í fleiri atriðum að beygja sig fyrir vilja Alþb.