Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið fjallað um hið stóra samhengi vítt og breitt og ég tel mjög nauðsynlegt að við fáum til þess tíma að fjalla um svo mikilvægan málaflokk sem utanríkismálin eru í sínu víðasta samhengi, en þar eð hv. 12. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir hefur fjallað hér nokkuð um skýrslu utanrrh. og gert grein fyrir og minnt á stefnu Kvennalistans í utanríkismálum hef ég valið að takmarka mál mitt við samskipti við þau lönd sem standa okkur næst í landfræðilegu og menningarlegu tilliti þar sem skýrsla um Norðurlandasamstarf og reyndar ýmsar fleiri skýrslur eru einnig til umræðu á dagskránni.
    Í fyrra var í fyrsta skipti lögð fram hér á Alþingi skýrsla um Norðurlandasamstarfið og með henni skýrsla Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sem til þess tíma hafði verið hluti af skýrslu utanrrh. Á síðasta þingi vannst ekki tími til að ræða þær skýrslur, en markmiðið með því að leggja fram sérstakar skýrslur um þetta samstarf var að árlega yrði efnt til umræðna um norrænt samstarf hér á Alþingi. Þetta árið ætlaði það greinilega ekki að takast og því eru Norðurlandaskýrslurnar og ýmsar fleiri nú til umræðu samhliða skýrslu utanrrh.
    Umfang Norðurlandasamstarfsins hefur aukist með ári hverju og hefði að mínu áliti verið heppilegra ef tekist hefði að ná því markmiði að ræða skýrslurnar um það sérstaklega og vona ég að það takist á næsta þingi.
    Það kom fram í máli hæstv. viðskrh., sem nú gegnir stöðu samstarfsráðherra um störf norrænu ráðherranefndarinnar, að eitt af meginverkefnum norræna samstarfsins sé að löndin styrki innviði sína og innbyrðis tengsl á hinum ýmsu sviðum, ekki síst efnahagslega, vegna þeirrar þróunar sem nú er í Evrópu og einnig á sviði umhverfismála. Ég tel nauðsynlegt að sú heild sem Norðurlöndin mynda stilli saman strengi sína og þau reyni sameinuð að hafa áhrif á þróun mála í Evrópu um leið og þau styrkja sig innbyrðis.
    Nú er það svo að ekki eiga allir þingflokkar á Alþingi fulltrúa í Norðurlandaráði þannig að þingmenn eiga þess ekki allir kost að taka beinan þátt í því mikilvæga og fjölbreytilega starfi sem þar fer fram. Sú skýrsla sem við höfum til umfjöllunar vakti að vissu leyti forvitni mína. Þó ég telji mig fylgjast nokkuð vel með og fjölmiðla gera Norðurlandasamstarfi ágætis skil vakna upp margar spurningar og maður kemst að raun um að þarna fer fram mjög mikið starf. Mér taldist til að flestar nefndir haldi 8--9 fundi á ári sem þýðir að þær hittast nánast mánaðarlega. Það hefði verið mjög gott að við hefðum getað tekið langan eftirmiðdag í að ræða þessi mál og fá svarað ýmsum spurningum.
    Ég ætla að afmarka mál mitt enn frekar við einn anga af Norðurlandasamstarfinu, vestnorræna þingmannaráðið, sem var stofnað árið 1985 í Nuuk á Grænlandi. Á þeim vettvangi fer fram mikilvægt norrænt samstarf með þátttöku fulltrúa frá öllum

þingflokkum. Í vestnorrænum löndum búa fámennar þjóðir sem eiga margt sameiginlegt og þá e.t.v. fyrst og fremst það hversu einhæft efnahagslíf þær búa við og hversu háðar þær eru þeim auðlindum sem hafið hefur að geyma.
    Á árlegum fundum vestnorræna þingmannaráðsins er mikil áhersla lögð á umhverfismálin og vil ég í því sambandi minna á tillögur sem samþykktar voru á síðasta fundi ráðsins á Grænlandi sl. sumar og nú munu vera til umfjöllunar í hv. utanrmn. Er það von mín að þær verði afgreiddar fyrir þinglok þannig að við þurfum ekki að taka þær upp að nýju á fundinum sem fyrirhugaður er hér á landi í sumar.
    Þar eð tillögur ráðsins hafa hingað til ekki verið bornar sérstaklega upp á þjóðþingum landanna hefur framkvæmd þeirra ekki verið vandkvæðalaus og mun hafa slæm áhrif á framtíð ráðsins og starfsemi þess ef ekki verður úr bætt. Vil ég því nota þetta tækifæri, reyndar fyrir allt að því tómum þingsal, til að skora á hæstv. ríkisstjórn að gera átak til að hrinda ályktunum þessum í framkvæmd.
    Í máli hæstv. viðskrh. kom fram að á næsta Norðurlandaráðsþingi væri ætlunin að endurskoða norræna áætlun um varnir gegn mengun sjávar. Því fagna ég að sjálfsögðu og get í því sambandi ekki látið hjá líða að minna á eina af ályktunum vestnorræna þingmannaráðsins frá síðasta ári sem fjallar einmitt um aukið samstarf og samræmingu þessa starfs meðal þjóðanna hér í útnorðri.
    Hæstv. viðskrh. talaði líka um efnahagsmálin og þá þróun sem við stöndum nú frammi fyrir og nauðsyn þess að Norðurlöndin styrktu sig innbyrðis til að standa sameinuð gagnvart þeirri sterku heild sem innri markaðurinn verður. Í tilefni af þeim orðum hans vil ég reyndar minna á enn aðra tillögu vestnorræna þingmannaráðsins sem gerir ráð fyrir nánara samstarfi þjóðanna í markaðs- og útflutningsmálum.
    Það væri vissulega hægt og mjög áhugavert að minnast á marga fleiri þætti norræns samstarfs en hér hafa komið fram en við vitum öll að tíminn er ekki ótakmarkaður og ætla ég aðeins að minnast á einn þátt til viðbótar áður en ég lýk máli mínu.
    Það veldur a.m.k. okkur konum og trúlega mörgum körlum líka áhyggjum hversu hægt gengur að ná raunverulegu jafnrétti kynjanna. Í skýrslu samstarfsráðherrans er kafli um framkvæmdaáætlun um norrænt samstarf á sviði jafnréttismála. Í honum kemur fram að formlegt samstarf á sviði jafnréttismála hófst árið 1974. Síðan hefur verið gerð jafnréttisáætlun og hún endurskoðuð árið 1982 og nú liggur fyrir sérstök framkvæmdaáætlun um norrænt samstarf á sviði jafnréttismála fyrir árin 1989--1993. Ég get verið sammála meginviðfangsefni áætlunarinnar, þ.e. hlutverk kvenna í efnahagsþróuninni eins og þar segir, með leyfi forseta, og leiðir til að auðvelda konum og körlum með fjölskylduábyrgð að taka þátt í atvinnulífinu. Ekki virðist nú reyndar körlum með fjölskylduábyrgð hafa reynst erfitt að taka þátt í atvinnulífinu. Það sýna allar þær kannanir sem hafa verið gerðar hér á landi. Það væri e.t.v. frekar ástæða

til að hvetja karla og auðvelda þeim að taka á sig raunverulega fjölskylduábyrgð. Samkvæmt framkvæmdaáætluninni er ráðgert að stofna til afmarkaðra rannsóknaverkefna þar sem sérstök áhersla verður lögð á athuganir á kjörum kvenna og karla á vinnumarkaðnum og leita leiða til að draga úr launamisrétti. Ég tel vart þörf á að við Íslendingar leggjum miklu meiri vinnu í kjararannsóknir en nú þegar hefur verið gert. Við eigum miklar upplýsingar sem allar staðfesta það eitt að ekkert er eftir nema það að leiðrétta kjör kvenna. Vona ég að jafnréttis- og félagshyggjuríkisstjórnin leggist ekki undir feld heldur grípi til raunhæfra aðgerða hvort sem er hér heima eða á norrænum samstarfsvettvangi.
    Að lokum, virðulegi forseti, sé ég ástæðu til þess að minnast aðeins á norrænu kvennaráðstefnuna og jafnréttisráðstefnuna sem haldnar voru fyrir tilmæli norrænu ráðherranefndarinnar sl. sumar. Þetta tel ég að hafi verið mjög jákvætt framtak. Ráðstefnurnar gáfu konum í þessum löndum tækifæri til að fræðast og skiptast á skoðunum, skiptast á reynslu og hafa vafalítið orðið til þess að styrkja konur sem áttu þess kost að taka þátt og efla þannig samstöðu sína.
    Ég minni samt á að ef fullkomið jafnrétti á að ríkja á slíkri ráðstefnu verður að sjá til þess að allir sem hana sækja geti tjáð sig og skilji það sem fram fer. Fram kemur í skýrslu um Norðurlandasamstarfið að innan Norðurlandaráðs sé nú um það rætt hvort ekki sé rétt að koma á laggirnar túlkaþjónustu þannig að Íslendingar geti talað sitt móðurmál eins og hinar þjóðirnar. Vona ég að niðurstaða fáist sem fyrst úr þeirri umræðu. Það er mín skoðun að ef við ætlum að gefa fólki frekari tækifæri til samstarfs verði alla vega að hafa þann möguleika opinn að fólk geti sótt námskeið og ráðstefnur á vegum Norðurlandaráðs og þeim sem þess þurfa standi til boða túlkaþjónusta.