Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil eins og fyrri ræðumenn þakka hæstv. utanrrh. fyrir mjög greinargóða skýrslu um utanríkismál sem hann hefur lagt fyrir Alþingi. Eins og fram kemur í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar, sem fjallar um stefnu stjórnarinnar í utanríkismálum, er markmið utanríkisstefnu Íslendinga að treysta sjálfstæði landsins og gæta hagsmuna þjóðarinnar í aðþjóðlegum samskiptum. Að því verður unnið með virkari þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.
    Þessum markmiðum verður m.a. náð með aukinni aðstoð og samvinnu við þróunarríki, með aðstoð við baráttu fyrir mannréttindum hvar sem hún er háð, með því að stuðla að friðsamlegri og bættri sambúð þjóða með virkari þátttöku í umræðum um afvopnunarmál og kjarnorkuvopnalaus svæði í okkar heimshluta, áhersla verður lögð á að auka þekkingu Íslendinga á vígbúnaðarmálum, sérstaklega á hernaðarumsvifum á Norður-Atlantshafi, til að leggja óháð mat á öryggismál landsins og nálægra svæða, með því að hvetja til og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um umhverfismál, sérstaklega um mengunarvarnir á Norður-Atlantshafi, með því að búa íslenskt atvinnulíf undir þær breytingar sem verða á viðskiptaháttum og efnahagsstjórn í Evrópubandalaginu á næstu árum. Sérstaklega verði unnið að því að laga íslenskt efnahagslíf að hinum nýju aðstæðum og tryggja viðskiptastöðu íslenskrar atvinnustarfsemi án aðildar að bandalaginu.
    Ríkisstjórnin áréttar áður yfirlýsta stefnu Alþingis, að hér á landi skuli ekki vera kjarnorkuvopn. Ríkisstjórnin mun ekki gera nýja samninga um meiri háttar hernaðarframkvæmdir og skipti Íslendinga við varnarliðið verða endurskipulögð.
    Í skýrslu hæstv. utanrrh. er komið inn á flest svið utanríkismála og málefni utanríkisviðskipta.
    Hæstv. forseti. Ég mun ekki í ræðu minni koma inn á nema nokkur þeirra atriða enda hefur hæstv. utanrrh. gert þeim góð skil í ræðu sinni en á nokkur mun ég drepa.
    Aukið traust í samskiptum ríkja Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins hefur þegar borið ávöxt í afvopnunarmálum. Framkvæmd fyrsta afvopnunarsamningsins á sviði kjarnavopna, samningsins um meðaldræg kjarnavopn, miðar samkvæmt áætlun. Árangur hefur náðst í viðræðum um helmingsfækkun langdrægra kjarnavopna og unnið er að allsherjarbanni við efnavopnum. Þá eru og nýlega hafnar viðræður annars vegar um niðurskurð hefðbundinna herja á svæðinu frá Atlantshafi til Úralfjalla og hins vegar um frekari traustvekjandi aðgerðir. Þegar þessum árangri hefur verið náð þarf að halda áfram og ganga til samninga um afvopnun á höfunum strax og viðræður um niðurskurð hefðbundinna herja og traustvekjandi aðgerðir á landi hafa borið tilætlaðan árangur. Ég held að þetta sé mjög brýnt verkefni, ekki síst með tilliti til þess slyss sem varð norður af Bjarnarey þegar sovéskur árásarkafbátur af MIKE-gerð sökk þar, en hann var

útbúinn bæði kjarnaofni og kjarnorkuvopnum. Það hlýtur að vera brýn nauðsyn fyrir okkur Íslendinga sem byggjum allt okkar líf á auðlindum hafsins að gengið verði til samninga um gagnkvæma afvopnun á höfunum og ekki síður að allar varnir sem mögulegar eru verði viðhafðar til að forða mengun í höfunum.
    Íslendingar ættu að hafa frumkvæði að því að kalla til fundar þá aðila sem búa hér við norðanvert Atlantshafið og reyna að ná samkomulagi um að þegar í stað þegar slík óhöpp eiga sér stað séu þau tilkynnt milliliðalaust til allra þeirra aðila sem máli skipta og björgunaraðgerðir verði þegar í stað hafnar til þess að ná upp þeim hlutum sem falla til botns og gætu hugsanlega valdið mengun.
    Á þriðja framhaldsfundi ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, sem haldinn var í Vín, var samþykkt ítarlegt lokaskjal. Í því voru m.a. áréttaðar ýmsar grundvallarreglur mannréttinda og kveðið á um sérfræðingafundi fram að næsta framhaldsfundi sem hefst í Helsinki 1992. Á Vínarfundinum var einnig lagður grundvöllur að traustvekjandi aðgerðum og niðurskurði hefðbundinna vopna. Eins og fram kom í ræðu hæstv. utanrrh. þekkir mengun engin landamæri og barátta gegn umhverfisspjöllum útheimtir alþjóðasamstarf sem Íslendingar eiga að fara í fararbroddi fyrir. Allt okkar efnahagslíf og möguleikar til áframhaldandi búsetu á landinu byggist á því að tryggt sé svo vel sem kostur er að mengun verði ekki hér í Norður-Atlantshafinu. Þess vegna legg ég ríka áherslu á að Ísland hafi forgöngu um allar þær aðgerðir sem mögulegar eru til þess að koma í veg fyrir slíkt.
    Hvalamálið hefur verið í brennidepli hér á landi í mörg ár. Við höfum þurft að berjast við fjársterk samtök sem hafa beitt sér með efnahagsþvingunum gegn okkur, en sem betur fer höfum við verið nokkuð einhuga í þessu máli og höfum staðið af okkur marga byljina. Ég er sannfærður um að forusta hæstv. sjútvrh. hefur ekki síst verið þess valdandi að staða okkar í þessu erfiða máli, sem bæði varðar nýtingu sjávarspendýra og baráttuna gegn efnahagsþvingunum, hefur borið árangur. Sýnist mér að árangur sé nú að koma í ljós og mál séu að snúast okkur frekar í hag en lengi leit út fyrir að verða mundi. Það er nauðsynlegt
að geta lokið þeirri vísindaáætlun sem við höfum gert í samráði við Alþjóðahvalveiðiráðið, þannig að unnt verði að leggja niðurstöður þeirra rannsókna fyrir fund hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu sem stefnt er að að halda á næsta ári.
    Á undanförnum árum hefur að forgöngu íslenskra utanríkisráðherra hlutdeild Íslendinga aukist í þróun áætlana um varnir landsins, m.a. með yfirtöku okkar á rekstri ratsjár- og fjarskiptastöðva, og um leið höfum við leitast við að verða virkari aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Í mínum huga er það ljóst að við höfum ekki getað tekið þann þátt í þessu starfi sem þurft hefði. Nú sér þó fram á að menn eru hér á landi að öðlast þá þekkingu og menntun sem er nauðsynleg til þess að gerast þarna virkir aðilar.

    Ég tel brýna nauðsyn til þess að meðan við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu og höfum gert samning við Bandaríkjamenn um að vera með varnarlið hér á landi séum við virkir aðilar í skipulagi þess starfs sem þar er unnið og eigum að leitast við að taka að okkur sem mest af þeim störfum sem ekki eru talin hernaðarleg og er þegar kominn góður vísir að því með yfirtöku ratsjár- og fjarskiptastöðvanna sem nú er stefnt að að verði reknar eingöngu af íslenskum starfsmönnum. Og hugbúnaður sá sem þær munu nota er hannaður af íslenskum hugvitsmönnum sem sýnir hvers við erum megnugir. Það er e.t.v. á fleiri sviðum sem við getum tekið að okkur slík verkefni.
    Hæstv. forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. að hann hefur gefið leyfi sitt til þess að æfing sú sem fyrirhuguð hafði verið hér í júnímánuði nk. á vegum varaliðs Bandaríkjahers hér á varnarsvæðunum hefur verið ákveðin. Ég held að ráðherra hafi náð þar lausn sem allir ættu að geta unað við, þ.e. um þriðjungs fækkun í því liði sem hingað kemur og að fresta um nokkra daga hvenær hún á að hefjast. Miðað við þessa niðurstöðu hæstv. utanrrh. virðist æfingin eiga að vera af svipaðri stærðargráðu og fyrri æfingar sem hér hafa verið.
    Ég ítreka það sem ég hef áður sagt í þessum stól, að meðan samningur við Bandaríkjamenn um að annast varnir landsins er í gildi er nauðsyn til þess að það varalið sem hugsanlega þyrfti að kalla til á tímum spennu eða stríðsástands sé kunnugt staðháttum hér á landi þó svo að að sjálfsögðu sé rétt að hafa þær æfingar í sem mestu lágmarki en þó þannig að þær komi að fullu gagni.
    Það hefur verið í athugun að gera breytingar á tilhögun verktöku fyrir varnarliðið. Það er sjálfsagt að endurskoða allt fyrirkomulag á nokkurra ára fresti en ég vara við miklum breytingum á því fyrirkomulagi sem verið hefur í gildi. Það hefur að ýmsu leyti gefið góða raun. Íslenskir aðalverktakar eru sterkt fyrirtæki sem hefur verið fært um að annast allar nýframkvæmdir á vegum varnarliðsins og vara ég við því að þessi markaður verði opnaður að fullu, m.a. með heimild til Bandaríkjamanna að bjóða beint út öll verk. Ég er hræddur um að slík tilhögun mundi valda undirboðum milli verktaka í von um aukna verkaðild. Þá má ekki gleyma þeim hundruðum manna sem starfa á vegum Íslenskra aðalverktaka og öðrum íslenskum verktökum á varnarsvæðinu. Öll óvissa í verkefnum þessara fyrirtækja veldur hugarangri hjá starfsfólkinu. Það traust sem það hefur haft til þeirra verktakafyrirtækja sem nú starfa hefur gert það að verkum að margt af þessu starfsfólki hefur unnið hjá þeim í áravís, jafnvel áratugi. Þá þarf einnig að hafa í huga að varnarsvæðið og öll Suðurnes eru í reynd eitt atvinnusvæði og fullt frelsi til útboða mundi valda því að hugsanlega færu stórir hlutar af þessum verkum til stórra verktaka sem flyttu starfsfólk að til einstakra verkþátta og síðan burt og það öryggi sem starfsfólkið hefur haft og getað treyst á verður ekki fyrir hendi. En hafa ber í huga við heimildir til varnarliðsins til

nýverka að ekki séu miklar sveiflur á milli ára.
    Vegna þeirra mengunarslysa sem orðið hafa á varnarsvæðunum, m.a. mengun vatnsbóla af olíuleka eða öðrum ástæðum, verður að herða allt mengunareftirlit á þeim svæðum og nauðsynlegt er að hraða uppbyggingu nýrra vatnsbóla sem annað geti Keflavík, Njarðvík og flugvallarsvæðinu og e.t.v. öðrum stöðum á Suðurnesjum þar sem mengun sú sem fundist hefur getur skaðað allt vatnslagnakerfi á þessu svæði sem og torveldað og jafnvel sett í rúst ýmsan atvinnurekstur á Suðurnesjum og þá á ég ekki síst við fiskeldi og fiskiðnað.
    Hæstv. forseti. Miklar umræður hafa verið um varaflugvöll vegna óska Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins til þess að láta fara fram forkönnun á hugsanlegri staðsetningu varaflugvallar á Íslandi. Slíkur varaflugvöllur mundi líka gagnast fyrir allt millilandaflug sem fram fer frá Keflavíkurflugvelli. Sú forkönnun er nauðsynleg til þess að bera saman þá valkosti sem eru með hagsmuni Íslendinga að leiðarljósi. Í því sambandi má benda á að varaflugvöllur þarf að vera staðsettur á öðru veðursvæði en á Keflavíkurflugvelli. Varaflugvöllur þarf og að geta annað stærstu farþega- og fraktflugvélum sem þekktar eru í dag og hann þarf einnig að geta verið nauðsynlegur varaflugvöllur fyrir vélar varnarliðsins þannig að ef veður breytast skjótt þá eigi þær, sem og íslenskar flugvélar, möguleika á öðrum
flugvelli við slíkar aðstæður. Slíkur flugvöllur þarf, eins og ég sagði áðan, að vera staðsettur á öðru veðursvæði en á Keflavíkurflugvelli og hann þarf að geta annað allri innlendri og erlendri flugumferð. Hann þarf að vera útbúinn öllum þeim öryggisatriðum sem nauðsynleg eru á slíkum stað, bæði slökkviliði, flugumsjón, varaeldsneyti og öðru slíku. Það er nauðsynlegt að þessi könnun fari fram svo valkostirnir séu ljósir. Þó ekki séu nú fyrirhuguð kaup íslenskra flugfélaga á vélum af stærstu gerð, hvorki til farþega- eða fraktflutninga má minna á að flug Flying Tiger flugfélagsins sem flytur fiskafurðir til fjarlægra markaða hefur gefið góða raun og mun aukast, enda krafa flestra fiskmarkaða, ekki síst í fjarlægari Austurlöndum um ferskleika afurðanna. Svo mikil aukning hefur orðið á síðustu árum á fiskeldi og útflutningi ferskra fiskafurða að þetta flug hlýtur að aukast mjög mikið, vonandi bæði á vegum þess og innlendra flugfélaga.
    Hæstv. forseti. Með því að heimila slíka forkönnun mundi það styrkja rétt og hagkvæmt mat á staðarvali fyrir varaflugvöll hér á landi og þá er ég ekki síst með hagsmuni Íslendinga í huga.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að aukin verði aðstoð og samvinna við þróunarríkin. Undir það tek ég heils hugar. Ég tel að það sé ekki vansalaust að velferðarríki eins og Ísland skuli ekki taka á myndarlegan hátt þátt í aðstoð við þróunarríkin eins og t.d. hin Norðurlöndin. Tímabundnir efnahagsörðugleikar hér á landi eru þar engin afsökun.
    Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar er sérstaklega

vikið að því markmiði að búa íslenskt atvinnulíf undir þær breytingar sem verða á viðskiptaháttum og efnahagsstjórn í Evrópubandalaginu á næstu árum. Sérstaklega verður unnið að því að laga íslenskt atvinnulíf að hinum nýju aðstæðum og tryggja viðskiptastöðu íslenskrar atvinnustarfsemi án aðildar að bandalaginu. Á vegum Alþingis hefur verið starfandi svokölluð EB-nefnd til að gera úttekt á þeim möguleikum og breytingum sem nauðsynlegar kunna að verða á íslensku atvinnu- og efnahagslífi við þær breytingar sem augljóslega verða þegar innri markaður EB verður fullmótaður í árslok 1992. Skýrsla þessarar nefndar er væntanleg innan fárra vikna og er ljóst að hún verður góður grundvöllur fyrir þá vinnu sem mun verða viðamikill þáttur í utanríkisstefnu Íslendinga og mikið verður rædd hér á hinu háa Alþingi þegar þar að kemur. Jafnframt er verið að vinna að því að efla mjög viðskiptatengsl við þjóðir utan Evrópubandalagsins. Vegna væntanlegrar formennsku Íslands hjá EFTA á síðari hluta þessa árs er ljóst að Ísland verður leiðandi afl innan EFTA-ríkjanna gangvart þeim samningum sem fram undan eru gagnvart Efnahagsbandalaginu. Og að sjálfsögðu erum við reiðubúin að taka þátt í þeim samningum með óbundnar hendur en opnum huga gagnvart öllum atriðum.
    Rétt er að árétta orð Steingríms Hermannssonar forsrh. þegar hann lýsti því yfir að Íslendingar væru reiðubúnir að semja um fullt frelsi í vöruviðskiptum en hann hefði ýmsa fyrirvara um hin atriðin þrjú, þ.e. þjónustuviðskiptin, fjármagnsflutninga og flutninga fólks milli landa, m.a. vegna einhæfs efnahagslífs og fámennis þjóðarinnar. Hins vegar værum við reiðubúin til fullrar þátttöku í ýmsum öðrum málaflokkum sem stefnt er að nánari samvinnu um, m.a. á sviði vísinda, mennta- og umhverfismála.
    Hæstv. forseti. Utanrrh. hefur nú nýverið kynnt hugmyndir sínar um endurskipulagningu á starfsemi utanrrn. Endurskipulagning á skipulagi ráðuneytisins er mjög brýn, ekki síst eftir að utanríkisviðskiptin voru flutt úr viðskrn. yfir í utanrrn. en ljóst er að mjög aukin áhersla verður á næstu mánuðum og árum lögð á viðskiptastörf í sendiráðum Íslands erlendis.
    Hæstv. forseti. Samstarf okkar við erlendar þjóðir einkennist fyrst og fremst af þátttöku í nokkrum alþjóðlegum stofnunum. Í fyrsta lagi þátttöku okkar hjá Sameinuðu þjóðunum, í öðru lagi í Norðurlandasamvinnunni og í þriðja lagi í samstarfi innan Atlantshafsbandalagsins auk Evrópuráðsins. Ég er sannfærður um að nauðsyn beri til þess að styrkja aðild okkar að þessum alþjóðasamtökum og efla okkar starf á þeim vettvangi og gera okkur gildari þar en við höfum verið.
    Við eigum að taka meiri þátt í alþjóðlegu samstarfi en við höfum gert. Það er ljóst, og ekki síst eftir leiðtogafund þeirra Reagans og Gorbatjovs sem haldinn var hér í Reykjavík, að það er hlustað á okkur Íslendinga þó þetta sé lítið eyríki í Norður-Atlantshafinu. Allt slíkt starf krefst mikils mannafla og kostar mikið fé og auðvitað verður að

reyna að gæta hófs í því sem öðru. En ég er sannfærður um að við getum haft áhrif til góðs, þjóð sem alin er upp við lýðræði lengur en nokkrar aðrar þjóðir í veröldinni og höfum aldrei farið með ófrið gegn annarri þjóð. Allt slíkt starf mun styrkja stöðu okkar í alþjóðlegum viðskiptum.
    Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til hæstv. utanrrh. fyrir ítarlega og greinargóða skýrslu um utanríkismálefni sem hann hefur lagt hér fyrir Alþingi og er hér til umræðu og læt máli mínu lokið.