Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Ég sé ástæðu til þess að fagna hæstv. utanrrh. sérstaklega og dáist að röskleika hans að vera kominn á milli staða svo skjótt sem raun ber vitni og sýnir það þá ánægjulegu staðreynd að hæstv. ráðherrum er það annt um málaflokka sína að þeir séu viðstaddir þegar um þá er fjallað og þá vafalaust reiðubúnir til að svara fyrirspurnum okkar.
    Mig langar til þess að fara aðeins örfáum almennum orðum um skýrsluna sem fyrir liggur, þakka fyrir hana og lýsa yfir ánægju með það að hún hefur mikið heimildagildi. Hún lýsir mjög ákveðið að því er mér virðist afstöðu hæstv. ráðherra til mikilvægs þáttar utanríkismála, þ.e. hins vestræna samstarfs sem hér hefur raunar verið vikið að af öðrum ástæðum. En einmitt það atriði setur mjög svip sinn á þessa skýrslu eins og það atriði hefur sett svip á íslenska utanríkisstefnu sl. 40 ár. Þetta vekur aftur á móti hugleiðingar um samstarfsandann í hæstv. ríkisstjórn. Það er ljóst að visst orðalag í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar byggist á því að ríkisstjórnin er ekki samstíga um þetta mikilvæga efni. Það sýna dæmin næstum því daglega nú um þessar mundir. Það er ljóst að þeir sem eru lengst frá hæstv. utanrrh. í afstöðu sinni til hins vestræna samstarfs samt þeir sem ráða ferðinni í ríkisstjórninni og það eru þeir sem halda ríkisstjórninni saman með því að þeir geta sett ýmiss konar kosti sem gengið er að, annaðhvort í raun og veru eða þá að svo lítur út sem gengið hafi verið að þeim. Þeir sem eru lengst frá hæstv. ráðherra í sjónarmiðum að þessu leyti, alþýðubandalagsráðherrarnir, þeir geta með nokkrum hætti sagt að hér sé hæstv. utanrrh. að stíga skref í rétta átt, þeir séu sem sé að draga hann til sín með einhverjum hætti. Ljótt er ef satt er, en ég held að það sé ekki einu sinni misskilningur hjá þeim. Þetta er látið í veðri vaka vegna áhuga þess flokks á því að sitja í ríkisstjórninni hvernig sem hún er og hvaða stefnu sem hún hefur þrátt fyrir allt í afstöðunni til vestrænnar samvinnu.
    Mér kemur í hug saga sem oft er sögð börnum eða var a.m.k. sögð börnum þegar ég var lítil stúlka, og það er sagan um Loðinbarða. Það var verulegur hrollur farinn að fara um mann þegar komið var þar í sögunni er Loðinbarði sagði: Hvort viltu að ég beri þig eða dragi? Það var sem sé enginn kostur góður og það er heldur ekki í þessari ríkisstjórn. Alþýðubandalagsmennirnir geta þess vegna verið í hlutverki Loðinbarða. Hinir flokkarnir í ríkisstjórninni eru á valdi þeirra, hvort sem þeim líkar betur eða verr, hvort sem þeir eru bornir eða dregnir í því samstarfi.
    Þetta hljómar kannski eins og langt sótt líking en svo er ekki t.d. ef við bara lítum á fregnir í blöðunum í dag. Hér fór fram fyrir skömmu síðan umræða um heræfingar Atlantshafsbandalagsins, varnarliðsins og varaliðsins og þá féllu þung orð í ræðum hæstv. ráðherra Alþb. Ég var að lesa ræðu hæstv. samgrh. í þeim umræðum. Hann fullyrðir að það minnsta sem unnt sé að bjóða Íslendingum sé að segja það skýrt

og skorinort við Bandaríkjamenn að við þessar heræfingar verði hætt. Sami hæstv. ráðherra birtist á sjónvarpsskermi í gærkvöldi, brosti feimnislega og sagði: Ja, það væri náttúrlega best ef þessar æfingar færu ekki fram, en eins og málin horfa nú, þá má segja að það sé stigið skref í rétta átt. Svo mörg voru þau orð. Í þessa veru talaði hæstv. ráðherra. Það var svo sem ekki lengur alveg fráleitt að þessar æfingar færu fram af því að nú hafði hæstv. utanrrh. fækkað þátttakendum með einhverjum hætti sem enn hefur ekki verið útskýrður. Það var eitt þeirra atriða sem ég ætlaði að leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra um: Hvert er hið raunverulega umfang þessara æfinga? Hvort er hér um að ræða fækkun úr 1200 niður í 800 eða fækkun úr 1000 niður í 666 eða fækkun úr 1800 niður í 1200? Eða hvaða fjöldi er það sem um er verið að tala?
    Nú er það ekki svo að ég spyrji vegna þess að það breyti í raun og veru afstöðu minni til þess hvort þessar æfingar fara fram eða ekki, heldur skiptir það máli eins og það sem olli umræðunni hér um daginn um heræfingarnar, en það var þetta: að ríkisstjórn Íslands væri trúverðug í umfjöllun sinni um þetta mál, að menn ekki einungis segðu það sama heldur einnig meintu það sama. Alþingi á kröfu á því að þetta mál sé útskýrt því að við viljum taka þátt í þessu samstarfi með fullri reisn og fullri ábyrgð. Við vitum það að ábyrgðin felur í sér skuldbindingar, felur í sér það raunsæi að við viljum sjálf leggja eitthvað af mörkum til þess að það starf, sem unnið er til þess að stuðla að öryggi í vörnum landsins, beri árangur. Það þarf ekki að fara um það fleiri orðum. Það atriði var ítarlega rætt um daginn. En merking þessa, sem hæstv. ráðherra hefur sagt, er ekki ljós. Það kom fram í máli fleiri þingmanna hér í dag, m.a. þess hv. þm. sem nú gengur hér um gólfið, hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Þessi hv. þm., sem er helsti talsmaður Alþb. í utanríkismálum, en Alþb. veitir meginstuðninginn við ríkisstjórnina. Talsmaður þess flokks í utanríkismálum veit ekki hvað þetta þýðir. Það kom fram í ræðunni í dag. Okkur hinum, stjórnarandstæðingum, er jafnmikil nauðsyn á því að vita um hvað raunverulega er verið að tala í þessu sambandi. Og jafnglögglega og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir þessum málum um daginn --- og það skal honum þakkað
hve greinargóðar upplýsingar hann gaf þá í einstökum atriðum um einstaka þætti, dagsetningar, tölur, fjölda, eftir því sem við getum búist við að vopnlausar manneskjur hafi yfirleitt þekkingu á að skýra. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi skýrt þetta ákaflega vel um daginn. Þess vegna tel ég mig mega vænta þess að við fáum jafngóðar skýringar nú.
    En eins og málið lítur út núna, þá er ekki annað að sjá en að hæstv. ráðherra hafi slegið verulega af hinni ákveðnu stefnu sem hann hafði hér á dögunum þegar utandagskrárumræðurnar fóru fram og mun það væntanlega vera fyrir áhrif hv. 2. þm. Austurl. og hans flokkssystkina. Tæplega getur annað verið. Einhver sinnaskipti hafa þarna orðið. Ég verð að segja

það að jafnmikið traust og ég ber almennt til hæstv. utanrrh. þegar vestræn samvinna er annars vegar, og ég hafði haldið að hann hefði kjark til að fylgja þeirri stefnu fram í einu og öllu, þá sýnist mér að þarna hafi komið upp það sama og ég reyndar hef séð í öðrum vissum þáttum í þessu stjórnarsamstarfi, m.a. í því hvernig til stjórnarinnar var stofnað, að veruleg frávik hafa verið frá þessari festu. Ég tel það miklu varða að við getum treyst stefnufestu og sá meiri hluti þjóðarinnar sem ég tel vera fyrir því að traustlega sé á þessum málum haldið eigi á því kröfu að hér sé alveg ljóst og greinilega talað um hlutina af hálfu hæstv. ráðherra.
    Við vitum það að ríkisstjórnin hefur verið í verulegri hættu og er það alltaf öðru hvoru, og hvernig á annað að vera um ríkisstjórn sem er í þeirri aðstöðu að það hrynur af henni fylgið meðal almennings. Þá skilur maður að það þarf að grípa til ýmiss konar ráðstafana til að hrista einhvern veginn saman þá fáu sem fylgja henni enn þá. En það verður þó að vera með þeim hætti að skiljanlegt sé um hvað er verið að tala þegar mikilvægir hagsmunir eins og varnarhagsmunir landsins eru til umræðu og að ráðherra leggi það skýrt fyrir um hvað nýtt hefur verið samið eða hvað hefur nýtt verið ákveðið í því sambandi.
    Ég nefndi þetta strax því að þetta var dæmi um það hvar ríkisstjórnin var innbyrðis mjög ósammála. Það er vitanlega svo um fleiri atriði í utanríkismálum, eða svo lítur út, en það er á vissum sviðum í afstöðunni til Evrópusamstarfsins, til þess hvernig hugsað er að víkka út samstarfið milli Evrópubandalagsins og EFTA eða hvaða stefna verður tekin í þeim málum. Þar er auðvitað mikill ágreiningur milli stjórnarflokkanna.
    Ég vona, eins og skilja má af þessum hugleiðingum mínum, að enginn bilbugur verði á hæstv. utanrrh. eða ríkisstjórninni í heild í afstöðunni til hins vestræna samstarfs og aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu og að varnarsamstarfinu. Rökin fyrir hinu vestræna samstarfi hafa verið rétt. Það hefur hið 40 ára gamla starf Atlantshafsbandalagsins sýnt. Það væri mjög illa farið að sá hlekkur í þeirri keðju sem Ísland er, yrði á einhvern hátt veikari því að þar má telja víst að okkar litla land skipti meira máli en ætla mætti af stærð þess og valdi í veröldinni.
    Í skýrslu hæstv. utanrrh. ítrekar hann það sem segir í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar um stefnu stjórnarinnar í utanríkismálum með þessum orðum sem þar eru skráð, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Markmið utanríkisstefnu Íslendinga eru að treysta sjálfstæði landsins og gæta hagsmuna þjóðarinnar í alþjóðlegum samskiptum. Að því verður unnið með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.`` Síðan eru talin upp hin einstöku atriði en ekki áréttað í þessu sambandi hvernig samstarfinu við Atlantshafsbandalagið eigi að vera háttað.
    Vissulega erum við öll sammála um það að markmiðið sé að treysta sjálfstæði landsins og gæta hagsmuna þjóðarinnar í alþjóðlegum samskiptum. Einn

af þeim þáttum sem hljóta að teljast til þess starfs að gæta hagsmuna í alþjóðlegum samskiptum og að gæta sjálfstæðis landsins hlýtur að vera sá að gæta varna landsins og öryggis ef út af ber í annars friðsamlegri sambúð ríkja hér á þessu svæði heimsins. Þess vegna er það að ég vil undirstrika einu sinni enn að aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið er liður í því starfi sem fram fer til að treysta sjálfstæði landsins. Og það væri mikið ábyrgðarleysi að ætla sér að varðveita sjálfstæði landsins án þess að taka þátt í samstarfi með öðrum ríkjum til þess að treysta varnir landsins.
    Í því sambandi skiptir líka máli að þá erum við ekki einungis að hugsa um okkur sjálf. Við skulum segja það alveg feimnislaust að í samstarfi við önnur ríki erum við að tala um sameiginlega hagsmuni. Það eru ekki einkahagsmunir okkar, til þess getum við aldrei ætlast, heldur fara okkar hagsmunir saman með hagsmunum annarra þjóða og það er sómi fyrir Íslendinga að taka þátt í samstarfi sem fram fer til þess að varðveita frið og samstöðu meðal lýðræðisríkja eins og gert hefur verið með starfi Atlantshafsbandalagsins. Þetta held ég að við eigum að hafa í huga og minnast þessa þegar nátttröllin rísa upp öðru hvoru og telja hina mestu ófriðarhættu felast í samstarfinu innan Atlantshafsbandalagsins. Slíkt er auðvitað fráleitt og fæstir hlusta á slíkt lengur nema af gömlum vana eins og svo sem þegar maður hlustar á í útvarpinu eitthvert lag sem maður er orðinn svolítið leiður á, en maður
slekkur ekki á því. Það er svona huggulegt að heyra þennan klið stundum og gerir ekkert til á meðan þorri þjóðarinnar heldur sönsum að þessu leyti og sýnir því skilning hver nauðsyn er að sinna þeim störfum og sinna því samstarfi, sem við höfum tekið hér þátt í, af fullri ábyrgð og fullri reisn.
    Ég hef farið hér nokkrum orðum um Atlantshafsbandalagið. Það er kunnara en frá þurfi að segja að stundum hafa komið upp á Bandaríkjaþingi raddir um að draga beri úr fjárframlögum til sameiginlegra varna Bandaríkjanna og Evrópu og þá einkanlega til Evrópu. Það hafa stundum komið gagnrýnisraddir í þá átt. Við vitum auðvitað ekki hver þróunin í þessu verður á næstu árum. Þess vegna er það að ég vil ítreka hugmynd sem ég setti fram hér í gær í sambandi við skýrsluna um Evrópuráðið, að ég er þeirrar skoðunar að íslenska ríkisstjórnin ætti að æskja áheyrnaraðildar fyrir Ísland að Vestur-Evrópubandalaginu. Það er lítill vafi á því að þýðing Vestur-Evrópubandalagsins fer vaxandi með nánari samvinnu Evrópuríkja. Vestur-Evrópubandalagið var, eins og ég sagði í gær, stofnað á sínum tíma til þess að hafa umræðuvettvang fyrir Evrópuríkin um varnarmál en varnarmálaþátturinn er ekki á verkefnaskrá Evrópuráðsins. Þess vegna eru þessi mál rædd í Vestur-Evrópubandalaginu. Menn spyrja kannski: Hví hefur heyrst svo lítið um þetta bandalag? Það var stofnað á sínum tíma, á undan Atlantshafsbandalaginu. Síðan lagðist starfsemi þess að mestu niður þegar Atlantshafsbandalagið tók við

þessum verkefnum, en það var endurvakið nú fyrir nokkrum árum. Ég tel að þar fari fram mjög mikilvægar pólitískar umræður sem snerta sameiginleg varnarmál Vestur-Evrópuríkjanna og því er það að ég tel skipta máli fyrir Íslendinga að geta fylgst þarna með. Hér var um að ræða samstarf milli Breta og nokkurra ríkja á meginlandinu. Norðmenn fengu áheyrnaraðild að þessu bandalagi í fyrra. Þetta er atriði sem þarf að kanna og ég vonast til þess að utanrrh. beiti sér fyrir því að ráðuneytið geri athugun á þessu sérstaklega og hvort við ættum ekki þarna að feta í fótspor Norðmanna og gerast áheyrnaraðilar til að kynna okkur þetta starf betur. Það er ljóst að Vestur-Evrópubandalagið virðist hafa meiri og meiri þýðingu í stefnumörkun í varnarmálum Evrópu.
    Þá langar mig til að víkja að spurningu um annað efni og hún er þessi: Hver eru rökin fyrir endurskipulagningunni í utanríkisþjónustunni eins og ætlað er að hún verði? Og í öðru lagi um það efni: Fór fram sérfræðileg úttekt á rekstri ráðuneytisins? Í þriðja lagi: Fór fram sérfræðileg úttekt á rekstri utanríkisþjónustunnar? Ef svo var, er þá hugmyndin um endurskipulagningu í samræmi við niðurstöðu þeirrar úttektar? Og enn: Hver var sá galli í núverandi fyrirkomulagi sem leiddi til niðurstöðunnar um endurskipulagningu? Ástæðan til þess að ég spyr er sú, hreinskilnislega sagt, að ég kem ekki auga á rökin ef þau eru þá augljós og allt lítur þetta svo út í mínum augum sem þarna hafi verið hrært rækilega í og við það látið sitja. Það kann vel að vera að slík aðgerð, það einungis að hræra í og breyta til, hafi tilgang í sjálfu sér, en ég sé hann ekki.
    Þá langar mig til að víkja að hinum breyttu viðhorfum vegna hraðrar þróunar í samstarfi Evrópuríkja, einkanlega á vettvangi Evrópubandalagsins og í því sambandi að samstarfinu milli EFTA-ríkjanna og aðild EFTA að viðræðum við Evrópubandalagið. Ég verð að segja það eins og er að mér þykir með ólíkindum hve ræða sú sem Jacques Delors hélt í janúarmánuði um hugsanlegt nánara samstarf við EFTA-ríkin hefur fljótt farið að velta ýmsum boltum á undan sér sem fara sístækkandi að því er virðist. Ég er ekki laus við þann grun að Jacques Delors hafi ekki sjálfur gert sér afskaplega nákvæma grein fyrir því hvernig hann vildi haga ýmsum þáttum í samstarfi EFTA og Evrópubandalagsins þegar hann setti fram sínar hugmyndir þar að lútandi í janúarmánuði. Ég er heldur ekki viss um það að hann hafi gert sér svo nákvæma grein fyrir því hvað var meiningin að láta felast í því sem stundum er kallað hin félagslega vídd, eða ,,social dimension`` eins og þeir segja í þessu samstarfi, enda kom það í ljós nú á dögunum þegar íslenska Evrópustefnunefndin heimsótti m.a. Evrópubandalagið og ræddi við nokkra embættismenn þess að við gátum ómögulega fengið svar við þeirri spurningu hvað menn hugsuðu sér að fælist raunverulega í þessari margumræddu félagslegu vídd. Og mér er nær að halda að þeir viti það ekki enn. Ég held að þarna hafi menn dottið ofan á nokkrar

hugmyndir sem hafi hljómað nokkuð vel. Það átti að ná samstarfi á ýmsum áhugaverðum sviðum mannlífsins, í félagsmálum, hinni þjóðfélagslegu velferð, í mennta- og menningarmálum, vinnumarkaðsmálum, umhverfismálum o.s.frv.
    Mér líður ekki úr minni að ég spurði á fundi um það hvernig menn hygðust ná samstarfi um þessa félagslegu vídd, hvað fælist í þessu. Og þá fékk ég þau hreinskilnislegu svör að það væri ekki ljóst. Það í fyrsta lagi segir okkur það að það er ekki tímabært að rjúka neitt ekki upp til handa og fóta út af því. Í öðru lagi kom það fram að það væri hugmyndin, það leiddi af sjálfu sér að nánara samstarf á efnahagssviðinu, sameiginlegur markaður hlyti að leiða til þess að margar reglur sem kæmu til greina í samskiptum manna þyrfti að samræma, svo sem eitt og annað á tryggingasviði, á sviði vinnumarkaðar og fleira. Það var þó óljóst hvort þetta ætti að gera með því að búa til nýja
sérstaka samninga, búa til einn nýjan sérstakan samning um félagslegt öryggi fyrir Evrópubandalagið eða þá einfaldlega að taka upp Evrópuráðssamninginn um félagslegt öryggi sem er búinn að vera til árum saman. Það er nýlega búið að ganga frá breytingum á þeim samningi. Það kom nú kannski þrátt fyrir allt til greina að nýta þann samning og allt það geysilega starf sem að baki honum liggur. Og það fer fram samstarf núna um þessar mundir. Það var fyrir nokkrum dögum fundur um þetta efni í Hollandi. Hann sátu þeir sem þátt tóku í félagsmálanefnd Evrópuráðsins og nokkrir sérfræðingar sem og samsvarandi nefnd frá Evrópubandalaginu.
    Ég segi frá þessu hér til þess að sýna hve óralangt frá raunverulegri framkvæmd þessi mál eru, hvílíkt óhemjustarf á eftir að vinna til þess að við getum talað um að þarna sé raunverulega eitthvert samræmingarstarf í gangi á þessu sviði. Sama má segja um fleiri þætti. Okkur er tíðrætt um samstarfið í menntamálum. Nú vil ég taka fram áður en ég held lengra að ég tel það mjög æskilegt og af hinu góða fyrir okkur og öll þessi lönd að það samstarf sem þegar er orðið á grundvelli sáttmála, t.d. um félagslegt öryggi Evrópuríkja, allra Evrópuríkjanna sem taka þátt í Evrópuráðinu, sé tekið upp og innleitt með enn rækilegri hætti í Evrópubandalaginu og sé þá opið fyrir þá sem vilja taka þátt í því og sömuleiðis tel ég mjög æskilega og til góðs samvinnuna um menntamál, þó að því tilskildu að hún verði ekki til þess að loka fyrir þeim sem utan bandalagsins standa. Það er ekkert nýtt, upp fundið í Brussel, að koma á samstarfi milli Evrópuríkja um aðgang að háskólum eða viðurkenningu prófskírteina eða sérþekkingar. Þetta er starf sem er búið að kosta margra ára vinnu í flestum Evrópulöndum. Þetta er e.t.v. lengst komið innbyrðis milli Norðurlanda, en svo langt er þetta samt frá því að verða veruleiki milli Evrópulandanna og hlýtur að vera jafnvel innbyrðis milli Evrópubandalagslandanna, sem þó eru komin verulega áleiðis með Erasmus-áætlun sína sem er um samstarfið á háskólasviðinu, að því fer svo fjarri að slík

framkvæmd nái einu sinni til heilla ríkja innan bandalagsins. T.d. í Þýskalandi, við þekkjum það sem eitthvað höfum komið nálægt menntmrn. eða samstarfi Háskóla Íslands við önnur lönd, að það er t.d. svo að það hefur hvað eftir annað komið í ljós gagnvart íslenskum stúdentum að próf héðan í vissum greinum eru ekki viðurkennd nema við tiltekna háskóla í Þýskalandi. Háskólinn í Munchen viðurkennir alls ekki það sama og háskólinn í Karlsruhe og innbyrðis milli ýmissa skóla í Þýskalandi ganga skírteinin ekki. Sama er að segja um fleiri lönd svo að menn sjá af þessu hve langt er í land með það að menn séu að tala um raunverulega samræmingu.
    Hver er þá niðurstaða mín af þessum bollaleggingum? Er tilgangurinn að vera neikvæð út í þetta samstarf? Sá er ekki tilgangurinn. Tilgangurinn er sá að undirstrika það að efnahagssamstarfið sé bundið við efnahagssamstarfið, það fari ekki inn á öll möguleg svið þjóðlífsins, að menn séu ekki að reyna að gleypa sólina, það er of erfitt í einum bita. Menn séu ekki að reyna að leysa öll vandamál mannlegs lífs á einu bretti. Það er miklu skynsamlegra að snúa sér að þeim þáttum sem við raunverulega getum haft yfirsýn yfir og sem skipta máli til þess að ná skynsamlegri niðurstöðu í beinhörðum viðskiptum landanna. Hinir þættirnir eru þegar í vinnslu í öðrum stofnunum þar sem bæði Evrópubandalagsríkin og EFTA-ríkin eiga hvort sem er samstarf.
    Það er enn önnur ástæða til þess að ég fer orðum um þetta atriði og hún er sú að nú þegar Ísland tekur við formennsku í EFTA-ráðinu, þá þykir mér það skipta máli að Ísland athugi þessi atriði sérstaklega vel, að við göngum ekki í þá gildru að styðja sem allra víðtækast samstarf á sem flestum sviðum í stofnunum sem eru ekki með samstarf í þeim greinum, heldur einbeitum okkur að því að ná árangri á þeim sviðum sem hægt er að fást við og sem við verðum að ná árangri á til að tryggja hagsmuni okkar og raunar samstarfsþjóða okkar í viðskiptamálum.
    Áður en ég vík að öðru vil ég svo sannarlega óska utanrrh. Íslands alls góðs í því vandasama starfi sem hann tekst á hendur þegar hann tekur við formennsku í EFTA-ráðinu og í sambandi við slíkar heillaóskir tel ég ekki síður ástæðu til þess að óska þeim hv. þm. sem annaðhvort hefur þegar verið útnefndur sendiherra eða verður það mjög fljótlega við sömu stofnun líka alls góðs í sínum störfum. Ég þekki hans störf að góðu. Ég tel hins vegar ástæðu til að undirstrika þetta. Við skulum ekki búa til enn eitt báknið. Við skulum nýta þessi bákn sem hafa möguleikana, sérfræðiþekkinguna og við eigum aðgang að og okkar sérfræðingar eiga aðgang að þátttöku í með litlum tilkostnaði, eins og Evrópuráðið. Það er atriði sem kannski hefur ekki þótt sérstaklega kurteislegt að vera að ræða en það skiptir okkur máli, að við nýtum það samstarf sem okkur býðst með tiltölulega litlum tilkostnaði. Með þessu er ég þó alls ekki að segja að við eigum aðeins að horfa á það atriði. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna eina stofnun sem ég tel að við raunar sinnum of lítið, en það er OECD.

Þar þurfa okkar menn að vísu að taka þátt í störfum með fullum tilkostnaði eins og í öðrum stofnunum nema Evrópuráðinu þar sem greitt er fyrir sérfræðingana. OECD er ein þeirra stofnana sem vinna svo frábæra
sérfræðivinnu að þar væri þó ekki áhorfsmál að taka meiri þátt í störfum. Ég nefni svið eins og t.d. heilbrigðisþjónustuna. Þar er unnið frábært starf sem getur verið til mikillar leiðbeiningar í sambandi við kostnað í heilbrigðisþjónustunni. Einnig í sambandi við kostnað og árangur í rekstri tryggingakerfis í ljósi breyttra aldurshlutfalla í íbúafjölda ríkjanna. Með öðrum orðum, þar byggja menn á nýjum tölfræðilegum upplýsingum og þróun sem sumpart þegar er orðin eða menn geta af faglegri þekkingu reiknað nokkuð fram í tímann. Á þessu vil ég vekja athygli að í þessu starfi gætum við tekið árangursríkari þátt. Við höfum séð að við höfum haft verulegt gagn af slíku samstarfi á menntamálasviðinu, og mér þykir það nægilegt dæmi að nefna í þessu sambandi og sams konar verk væri hægt að vinna á fleiri sviðum.
    Mér er sjálfri farið að þykja, frú forseti, sem ég sé komin í þann farveg sem ég hugsaði um þegar hæstv. ráðherra flutti ræðu sína að sennilega væri hæstv. utanríkisráðherra ekkert mannlegt óviðkomandi en þegar ég fór að athuga málið sá ég hve mjög utanríkismálin tengdust mörgum sviðum og einkanlega þegar þess er gætt að hið alþjóðlega samstarf sem við tökum þátt í tengist hinum margvíslegustu sviðum.
    Hæstv. ráðherra lagði sérstaka áherslu á tvennt sem ég hef ekki minnst á. Annars vegar umhverfismálasamstarf almennt og umhverfismálastarf hér á landi svo og viðskiptamál. Það gleður mig að hæstv. ráðherra leggur áherslu á það, ef ég skil hann rétt, að það sé ekki síst hlutur okkar Íslendinga sjálfra sem þarf að styrkja og bæta. Hvað við getum sjálf lagt af mörkum sem hefur þýðingu ekki einungis fyrir okkur heldur og fyrir umhverfi okkar allt.
    Þess vegna tek ég mjög eindregið undir orð hans í sambandi við umhverfismálin og ekki síst það sem veit að mengunarrannsóknum á höfunum sem við erum öðru hvoru minnt á, með óþyrmilegum hætti þó, hvaða þýðingu hefur fyrir okkur, bæði fyrir líf og heilsu fólks í landinu og ekki síður fyrir útflutningshagsmuni landsins. Beinlínis fyrir lífsbjörg þessa lands.
    Frá því máli vil ég svo flytja mig yfir í umfjöllun um utanríkisviðskiptin og sérstaklega eitt atriði sem hæstv. ráðherra hefur undirstrikað. Það er þáttur sem ég tel að of sjaldan sé tekinn verulegum tökum á Alþingi, enda er Alþingi kannski ekki sá aðalstaður sem ætti um það að fjalla en það er hins vegar verkefni sem Alþingi má aldrei loka augunum fyrir og er þetta: Til þess að ná árangri í utanríkisviðskiptum þurfum við Íslendingar ekki síst að gera hreint fyrir okkar eigin dyrum, ef svo má segja, og það er ekki síst hér á heimavettvangi sem við þurfum að gá að hlutunum. Svo maður orði það eins og ég gæti ímyndað mér að viðskiptafræðingar eða hagfræðingar

mundu orða það: Það þarf að styrkja samkeppnishæfni íslenskra útflutningsgreina. Ég sé að hv. þm. sem er hagfræðingur kinkaði kolli og ég leyfi mér að skilja það svo að ég hafi notað rétt hugtak. --- Það er samkeppnishæfni. Og hví skyldi ég vera að minnast á þetta í sambandi við umræður um utanríkismál? Það er ósköp einfaldlega vegna þess að mín skoðun er sú að á hverjum íslenskum útflytjanda hvíli næstum því meiri ábyrgð en á einstökum útflytjendum í miklu stærri og fjölmennari ríkjum.
    Ég held að sú vara sem er íslensk og keypt á erlendum markaði, af henni sé e.t.v. það sem íslenskt er metið. Ef hún er gölluð held ég að það sé stærri skaði heldur en einungis það sem maður verður fyrir ef hann kaupir gallaða vöru úr búð. Miklu stærri skaði verður ef heilu vörusendingarnar eða hluti af stórum vörusendingum úr mikilvægum útflutningsgreinum eru gallaðar. Þær draga úr áliti, ekki aðeins á þeim sem selja þá vöru heldur á allri íslenskri framleiðslu. Þetta kemur e.t.v. fyrir vegna þess að það er varla hægt að segja að Íslendingar séu orðnir að fullu iðnvædd þjóð. Við höfum e.t.v. ekki enn þá vanið okkur af þeirri hugsun að við getum einfaldlega sótt gull í greipar Ægis eða með einhverjum hætti það sem við höfum kallað lifað á landsins gæðum. Við teljum að það sem tryggi afkomuna sé e.t.v. einungis að ná auðlindunum með einhverjum hætti í fangið en hugsum ekki alla leiðina, þ.e. að allt verði að vera frágengið í þeim búningi sem best er á þeim mörkuðum sem harðastar kröfurnar gera.
    Þess vegna styð ég eindregið að því starfi sem unnið er á vegum utanrrn. og beinist að markaðsmálum erlendis sé í vaxandi mæli beint að því að veita aðhald til þess að auka samkeppnishæfni útflutningsvaranna. Þetta hygg ég að sé verkefni sem skili sér margfalt ef vel er að því staðið.
    Að lokum, frú forseti, eitt lítið atriði í sambandi við norræna samvinnu. Hv. þm. Eiður Guðnason, 3. þm. Vesturl., vék að ýmsum atriðum í norrænni samvinnu, m.a. tveimur atriðum í sambandi við menningarsamstarfið. Það er nú varla hægt að minnast ógrátandi á norræna sjónvarpshnetti svo það er best að gera það ekki. Það mál fór út um þúfur. Ég held að við séum orðin of sein með það vegna þeirrar þróunar sem hefur orðið annars staðar í heiminum og út um alla Evrópu, það sé í sjálfu sér ekki lengur á dagskrá. En hitt vil ég nefna að ég er innilega ósammála hv. þm. um það að við eigum að stefna að því að nota einungis ástkæra ylhýra málið á fundum erlendis, m.a. í norrænu samstarfi, og fá það þýtt jafnharðan eins og Finnar gera. Hvað gerist með
Finna sem eru ekki sænskumælandi eða mæla einhverja norræna tungu? Þeir einangrast meira og minna í samskiptum við annað fólk í hinu norræna samstarfi. Það er engan veginn nóg í slíku samstarfi að koma í ræðustól á hundrað manna fundi, flytja þar fimm mínútna ræðu og búið. Menn verða að geta tjáð sig, skilið annað fólk og látið skilja sig, geta náð persónulegu sambandi við starfsbræður og systur frá öðrum löndum. Í því er gildi þessa samstarfs fólgið.

Í því er fólginn möguleikinn til ótrúlega auðveldra upplýsingaskipta um mikilvæg þingmál og miðlun þekkingar. Því held ég að við ættum að láta af því að hafa nokkrar meiri háttar áhyggjur af því þó að við tölum okkar skandinavísku, skóladönskuna okkar með íslenskum framburði eða hvað sem það nú er sem við tölum. Það er algjörlega ljóst að þetta mál sem Íslendingar tala, skandinavískan, er fullkomlega gjaldgengt í norrænu samstarfi. Það skilja allir Íslendingana betur en t.d. Svíar skilja Dani. Það er miklu skynsamlegra að tala sína skandinavísku og láta skilja hana heldur en að tala sama málið næstum því, eins og Danir og Svíar virðast gera stundum, og skilja svo ekki hvor annan. Ég hef því ekki meiri háttar áhyggjur af því að það muni fara allur kúfurinn af orku hv. þm. í þessu samstarfi í það að koma frá sér nokkurra mínútna svari á skandinavísku í ræðustól. Ég hef m.a. heyrt hv. þm., sem nú vill fara að láta kosta upp á þýðingar fyrir okkur jafnharðan, margsinnis flytja ræður í Norðurlandaráði og eftir atvikum svara fyrir sig fullum hálsi. Mér hefur bara ekki dottið í hug annað en að það væri gjörsamlega áreynslulaust eða áreynslulítið fyrir hann. Auðvitað er það erfiðara að vinna á öðrum tungumálum en sínu eigin. Mér dettur ekki í hug að halda öðru fram. Það er miklu meiri áreynsla. En við breytum því ekki að okkar móðurmál er tungumál sem 250.000 manneskjur í heiminum skilja. Ef við ætlum ekki að einangrast í samstarfi við annað fólk verðum við að hlíta því að það kostar vinnu að vera fámenn þjóð sem vill halda uppi sjálfstæðri menningu og varðveita sitt eigið tungumál sem við vissulega viljum gera. Það kostar okkur þá vinnu að við verðum að leggja á okkur að læra eitthvað af öðrum tungumálum, enda er blessuðum börnunum ekki vorkennt það í grunnskólanum þegar þau byrja litlu greyin 10 og 11 ára gömul að læra erlend tungumál og með ágætum árangri.
    Ég held því að við ættum ekki að vera að fara inn á sömu braut í þessum þýðingarmálum og þær þjóðir sem tala tungumál sem eru í raun og veru ekki norræn. Þó að finnska þjóðin sjálf sé vissulega í hinni norrænu þjóðafjölskyldu þá er finnskan ekki norrænt tungumál að uppruna. Það vitum við og það væri einkennilegt ef við, sem erum eina þjóðin á Norðurlöndum sem hefur ekki gleymt tungunni sem var töluð þar til forna, ættum að fara að láta túlka. Það væri laglegur ósigur. Ef menn ekki treysta sér til að tala þessa skandinavísku, svo fögur eða ófögur sem hún er, þá tali þeir bara íslensku óþýtt. Ég er á móti tilkostnaði eins og þessum sem hv. 3. þm. Vesturl. nefndi. Óska að öðru leyti norrænu samstarfi vitaskuld alls hins besta.