Utanríkismál
Þriðjudaginn 25. apríl 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. utanrrh. fyrir það að upplýsa okkur nú að nokkru a.m.k. um það mál sem ég spurðist fyrir um, þ.e. þessa frétt að harkalegar kröfur væru af hálfu Ráðstjórnarríkjanna til veiðiheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu ef samningar ættu að nást, almennir viðskiptasamningar. Hæstv. ráðherra orðaði það svo að veiðiheimildir hefðu verið settar sem eitt grundvallaratriði fyrir því að samningarnir gætu tekist. Það er því nánast rétthermi að það hafi verið harkalegar kröfur sem fram hafa verið settar.
    Nú langar mig að biðja hæstv. utanrrh. að sjá til þess að hv. utanrmn. fái greinargerð þá sem hann segir að hæstv. fjmrh. hafi lagt fram í ríkisstjórn, að utanrmn. fái þá greinargerð í hendur, helst sem allra fyrst. Það má þá koma því til einstakra nefndarmanna, en lögum samkvæmt ber ríkisstjórninni að bera undir utanrmn. utanríkismál almennt og þá einkum og sér í lagi auðvitað alvarleg utanríkismál. Ég tel það eitt mjög alvarlegt mál að mikið viðskiptaríki okkar skuli gera slíka kröfu og ég held að það verði að skoðast mjög rækilega hver okkar viðbrögð verða við slíkri kröfugerð.
    Ég skal ekki orðlengja um þetta. Það er einföld ósk að við fáum að sjá þessa greinargerð sem lögð var fram í ríkisstjórninni væntanlega fyrir einum mánuði eða einum og hálfum mánuði eða svo. Ég fagna því að upplýsingar hafa fengist um þetta dularfulla mál. Það er sem sagt rétt að í þessum viðræðum, sem fjmrh. átti úti í Moskvu við ráðamenn þar, hafi Sovétmenn sett fram þessar kröfur um að þeir fengju veiðiheimildir ef samningar ættu að takast á sviði viðskipta.