Íslensk málnefnd
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Það frv. sem hér um ræðir, 415. mál þingsins, fjallar um breytingu á lögum um íslenska málnefnd og gerir í grundvallaratriðum ráð fyrir þeirri breytingu að það verði nokkuð fjölgað í málnefndinni frá því sem verið hefur, þar verði reynt að kalla til fleiri aðila en kostur hefur verið á samkvæmt gildandi lögum.
    Í málnefndinni eru núna fimm menn og hún er í meginatriðum skipuð sérfræðingum þannig að það hefur ekki verið kostur á því að kalla til fleiri aðila úr þjóðfélaginu til að fjalla um íslenskt mál og forsendur þess og þróunar íslenskrar tungu. Þess vegna er hér gert ráð fyrir því að tekið verði upp svipað fyrirkomulag og er í málnefndum grannlanda okkar, að það verði talsvert meiri fjöldi manna sem kallaður verði til starfa í málnefndinni. Gert er ráð fyrir hér í frv. eins og það liggur nú fyrir að nefndin verði skipuð 15 mönnum en innan hennar starfi svo fimm manna stjórn. Það er gert ráð fyrir að þessi nefnd komi saman einu sinni til tvisvar á ári eftir atvikum til að fjalla um almenna þróun málsins og stefnumótun, en síðan hafi stjórn málnefndarinnar með að gera daglega stjórn mála.
    Það er gert ráð fyrir að nefndin verði þannig skipuð að þar verði í fyrsta lagi fulltrúar háskólaráðs, heimspekideildar Háskóla Íslands og Orðabókar Háskólans, en í öðru lagi verði níu nefndarmenn skipaðir samkvæmt tilnefningum örnefnanefndar, Kennaraháskóla Íslands, Ríkisútvarpsins, Þjóðleikhússins, Staðlaráðs Íslands, Samtaka móðurmálskennara, Rithöfundasambands Íslands, Blaðamannafélags Íslands og loks Hagþenkis, félags höfunda fræðirita. Hið síðasta bættist inn í meðförum hv. Nd.
    Þá er gert ráð fyrir því að auk þessara sem hér hafa verið taldir verði ráðherra gert að skipa þrjá menn frá öðrum stofnunum, félögum eða samtökum sem fást við málrækt eða hafa mikil áhrif á málfar almennings og skal a.m.k. einn þeirra vera úr röðum íðorðafólks, þ.e. þeirra sem fjalla um margvíslega fræðiorða- og nýyrðasmíði, t.d. á vegum orðanefnda einstakra félaga eins og Verkfræðingafélagsins svo að það félag sé nefnt sem hefur sýnt þessum málaflokki mestan áhuga og verið duglegast við íðorðasmíð.
    Grundvallarhugsunin á bak við frv. er auðvitað þessi: Málstaður íslenskrar tungu má ekki aðeins vera málstaður sérfræðinganna. Hann þarf að vera málstaður þjóðarinnar, þarf að ná sem allra víðast út þannig að sem flestir finni til ábyrgðar gagnvart þróun móðurmálsins og þess vegna er þetta frv. flutt. Það er liður í málræktarátaki sem nú stendur yfir og má segja að sé hafið að frumkvæði forseta Íslands með áramótaávarpi hennar. Í framhaldi af því hefur menntmrn. falið, samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar, verkefnisstjóra að sinna þessu málræktarátaki og það heitir ekki málræktarátak menntmrn., heldur heitir það málræktarátak 1989 vegna þess að ætlunin er að kalla hérna til fjölmarga aðila, og aðalatriðið er að það fólk sem hefur áhuga

á þróun íslensks máls geti náð saman undir einu meginmerki. Við ákváðum að fara ekki að halda hátimbraðar samkomur til vegsemdar tungunni, heldur viljum við fyrst og fremst leggja á það áherslu að setja hér af stað straum, hreyfingu sem vonandi getur síðan gengið sjálf þegar þessu málræktarátaki er lokið. Við gerum ráð fyrir að það standi í meginatriðum núna frá sumarmálum 1989 og fram undir fullveldisdaginn 1. desember. Verkefnisstjórn hefur þegar komið saman. Í henni er fólk frá mjög ólíkum aðilum í þjóðfélaginu, frá fjölmiðlum, bæði prentmiðlum og ljósvakamiðlum, frá sérfræðistofnunum en einnig frá almannasamtökum eins og t.d. Æskulýðssambandi Íslands sem mun í haust beita sér fyrir sérstakri móðurmálsviku sem fer fram í grunnskólum og framhaldsskólum undir kjörorðinu ,,Íslenskan er málið``.
    Ég bendi á að þegar frv. var lagt fyrir hv. Nd. var gert ráð fyrir nokkuð fleiri mönnum í málnefndinni en hér er, þ.e. 19 í stað 15. Ég get fyrir mitt leyti alveg fallist á þá breytingu sem Nd. gerði á frv., en ég tek fram að aðalatriðið í mínum huga er kannski ekki fjöldinn heldur það að hin nýja stækkaða málnefnd starfi með þá hugmyndafræði að leiðarljósi að þetta verkefni þurfi að ná sem allra víðast þannig að sem flestir finni til skyldu og ábyrgðar andspænis þróun íslenskrar tungu.
    Ég legg til, herra forsti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.