Endurbætur forsetasetursins á Bessastöðum
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um endurbætur á forsetasetrinu á Bessastöðum. Eins og ég hygg að flestum þingmönnum sé ljóst hefur viðhald á Bessastöðum ekki verið eins og nauðsynlegt er og hefur hverjum verið fullljóst sem þangað hefur komið að ýmislegt hefur þar farið úrskeiðis. Nokkurt fjármagn var þó fyrir tveimur eða þremur árum lagt í að endurbæta neðstu hæð Bessastaðastofu. Gólf voru þar orðin mjög sigin og reyndar varla skammlaust að bjóða þangað gestum.
    Á þessu málefni í heild sinni var þó ekki tekið fyrr en í tíð síðustu ríkisstjórnar að skipuð var sérstök Bessastaðanefnd til að yfirfara allt ástand staðarins. Sömuleiðis hafa upp á síðkastið ýmsir heimsótt Bessastaði, bæði ráðherrar og fulltrúar fjvn. Það má segja að sameiginleg niðurstaða af þessari athugun hafi orðið sú að alls ekki verði lengur dregið að taka þetta merkilega menningar- og sögulega setur þjóðarinnar til gagngerðrar viðgerðar. M.a. hefur komið í ljós að efri hæð Bessastaðastofu er afar illa farin og má segja að hún sé nánast ónýt. Þar hefur vatn runnið um að því er virðist. Allir máttarviðir og reyndar viðir í heild sinni eru orðnir fúnir og lekur niður á neðri hæð hússins og liggur þar með það undir skemmdum sem nýlega er við gert.
    Sama má segja um önnur hús á Bessastöðum. T.d. er hús það sem kennt hefur verið við ráðsmann staðarins hreint ótrúlegt og er nánast furðulegt að það skuli standa uppi. Þetta má vitanlega verða okkur Íslendingum áminning um hvað illa við höfum farið með margar slíkar byggingar og úr því þarf að bæta, en það er út af fyrir sig ekki á dagskrá hér.
    Fjvn. ákvað nokkra fjárveitingu til viðgerða á efri hæð Bessastaðastofu, 12 millj. kr., og veitti jafnframt heimild til að taka lán til viðbótar þannig að ljúka mætti þeirri viðgerð. Áætlun hefur verið gerð fyrir þá viðgerð. Sú áætlun er upp á rúmar 50 millj. kr. Ég hef látið skoða hana að nýju og það má vera að nokkuð megi draga úr þeim kostnaði þó að það sé bitamunur en ekki fjár.
    Hins vegar eftir nýlega athugun á málinu í heild sinni varð það niðurstaða, m.a. þeirra úr fjvn. sem þarna komu og fleiri, að rétt væri að flytja sérstakt frv. um endurbætur og framtíðaruppbyggingu forsetasetursins á Bessastöðum. Því til grundvallar liggur m.a. að talið er óhjákvæmilegt að aðskilja þennan kostnað frá rekstri forsetaembættisins og hygg ég að öllum hv. þm. megi vera það ljóst að þessi mikli kostnaður verður varla færður þar til gjalda, a.m.k. nema valdi töluverðum misskilningi um útgjöld þess embættis. Sömuleiðis hefur niðurstaðan orðið sú að rétt sé að vinna að þessum endurbótum hratt og markvisst og hafa þar sem minnsta töf á.
    Þetta frv. gerir ráð fyrir því að á árinu 1989 verði heimilt að verja allt að 45 millj. kr. til verkefnisins og mun því verða ráðstafað, eins og hv. fjvn. hafði áður samþykkt, til viðgerða á efri hæð Bessastaðastofu. Jafnframt er ákveðið að gera skuli heildaráætlun um nýtingu lands og uppbyggingu mannvirkja á

Bessastöðum og skuli því lokið fyrir árslok 1990 og heimilað er að verja 5 millj. kr. til þess verks. Þetta er afar mikilvægt, bæði fyrir framhald verksins og einnig til þess að þannig megi standa að því að framtíðarsjónarmiða sé gætt.
    Sú nefnd sem ég nefndi í upphafi míns máls og hefur fjallað um Bessastaði hefur látið gera lauslega kostnaðaráætlun sem ég ætla ekki að fjalla um hér. Mér þykir sjálfum ýmsir liðir þar mjög háir og tel óhjákvæmilegt að það verði vandlega yfirfarið, enda hefur nefndin aldrei lagt það fram sem neina lokaáætlun um þennan kostnað.
    Í samræmi við þetta er ákveðið að framkvæmdaáætlun, ásamt fjárhagsáætlun um verkið í heild, skuli lögð fyrir Alþingi og tekin til meðferðar við gerð fjárlaga og jafnframt ákveðið að þriggja manna nefnd sem forsrh. skipar skuli annast bæði viðhald, eftirlit með verkinu og yfirstjórn verksins og sömuleiðis gerð þeirrar kostnaðaráætlunar sem hér um ræðir.
    Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég held að þetta mál skýri sig sjálft og sé reyndar þingmönnum flestum kunnugt. Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.