Viðskiptabankar
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 916 er prentað nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. sem hefur fjallað um frv. og leggur meiri hl. til að það verði samþykkt með þeirri breytingu að 2. gr. frv. verði felld brott. Meiri hl. nefndarinnar telur ástæðulaust að breyta ákvæðum gildandi laga um mannaráðningar við viðskiptabankana.
    Brtt. er á þskj. 917 en hún er þess eðlis að Ed. ákvað að taka þarna upp nýja breytingu sem ekki var í upphaflegu frv., þ.e. að rýra völd bankaráða hvað varðar mannaráðningar. Okkur sýndist að það væri ekki í takt við aðra stefnu frv. sem gerir ráð fyrir auknu valdi og aukinni ábyrgð bankaráðanna og leggjum við því til að greinin verði felld brott.