Viðskiptabankar
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 1. minni hl. fjh.- og viðskn. og aðfinnslur okkur við frv. eru ýmsar, ekki síst þær að svo virðist sem nokkuð hafi verið flaustrað við undirbúning frv. og fram kemur t.d. í nefndaráliti Sambands ísl. viðskiptabanka að ekki hafi verið haft fyrir því að hafa samráð við þá við undirbúning þessa frv.
    Nú er það svo að það má teljast orðin nokkuð almenn regla þegar flókin mál af þessu tagi eru undirbúin að haft sé samráð við þá hagsmunaaðila sem þarna koma að. Í þessu tilviki hefur þó þessi almenna regla verið brotin og er það mjög miður. Hér er um að ræða bæði flókin mál og erfið og tæknileg í ýmsum efnum sem ástæða er til að kalla sérfróða aðila til í því skyni að forðast misskilning og forðast það að setja á blað hugmyndir sem ekki kannski standast þá praktísku meðferð sem málin þurfa að fá.
    Fulltrúi Sambands ísl. viðskiptabanka sá enn fremur ástæðu til þess að ítreka þessa aðfinnslu sína á fundi fjh.- og viðskn. Nd. og undir hana tökum við í 1. minni hl. nefndarinnar. Sannleikurinn er sá í sambandi við þetta frv. að sumt í því er býsna meinalaust og skiptir ekki mjög miklu máli um framgang viðskiptabankalaganna og hefur ekki mjög mikla þýðingu um framkvæmd þeirra. Að sumu leyti er hér um að ræða eðlilega lagfæringu vegna stjórnsýslubreytinga og breytinga á núgildandi lögum, en að öðru leyti er hér um að ræða breytingar á lögunum sem fela í sér bæði lakari stjórnarhætti fyrir bankana og meiri rekstrarkostnað og ákaflega vafasamar breytingar sem ég mun víkja frekar að hér á eftir.
    Ég vil vekja athygli á því að við myndun núv. ríkisstjórnar var lögð á það höfuðáhersla af ýmsum stuðningsmönnum hennar að nauðsynlegt væri að koma böndum yfir bankakerfið. Ég býst við að þetta frv. sé einn liður í þeirri viðleitni. Það kemur m.a. fram í því að settar eru strangari skorður og nýjar við setu manna í ábyrgðarstöðum bankanna eins og fram kemur í 1. gr. þess. Þarna er að mínu mati um óþarflega strangar skorður að ræða. Í 1. gr. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hlutafjáreign í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki ræður úrslitum um stjórnun þess og sem fyrst og fremst telst ávöxtun sparisjár.``
    Hér er væntanlega verið að reyna að girða fyrir það að til komi hagsmunaárekstrar við stjórnun banka. Ég sé ekki að nauðsynlegt hafi verið að setja inn þetta ákvæði til þess að koma í veg fyrir slíkan hagsmunaárekstur. Miklu heldur sýnist mér að þarna sé einungis verið að koma í veg fyrir það að bankastjórar og aðrir stjórnendur bankastofnana geti átt hlut í fyrirtækjum, burt séð frá því hvort þessi fyrirtæki séu í viðskiptum við viðkomandi banka. Þess vegna held ég að þetta ákvæði, hafi því verið ætlað að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur, sé gjörsamlega óþarft og gegni ekki því hlutverki sem því er ætlað.
    Það sem hins vegar er auðvitað veigamesta

breytingin sem þetta frv. gerir ráð fyrir felst í 2. gr., þ.e. fyrri hluta 2. gr., en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Bankaráð ákvarðar vexti bankans og gjaldskrá þjónustugjalda fyrir einstaka þætti starfseminnar að fengnum tillögum bankastjórnar. Bankaráð fjallar einnig um vexti af skuldabréfum sem bankinn gefur út og þá vexti sem bankinn áskilur sér við kaup á viðskiptavíxlum og viðskiptaskuldabréfum. Við umfjöllun um vexti eða kaupgengi viðskiptavíxla og viðskiptaskuldabréfa skal bankaráð gæta þess að ávöxtunarkrafa bankans sé sambærileg við ávöxtun almennra útlána bankans í hliðstæðum áhættuflokkum.``
    Hér er eiginlega að tveimur atriðum að hyggja. Annars vegar að því hvert sé hið stranga hlutverk bankaráðanna og hins vegar að síðari hluta málsgreinarinnar. Í umsögn Sambands ísl. viðskiptabanka um þetta atriði er mjög varað við þessu ákvæði, og ég vek athygli á því, því að hér er um að ræða meginþungann í frv. Í fyrsta lagi bendir Samband ísl. viðskiptabanka á að yrði þetta ákvæði að lögum væru stigin skref aftur á bak hvað snertir stjórnunarlega uppbyggingu bankanna. Hér væri verið að leggja á herðar bankaráðanna ekki bara það eðlilega hlutverk að vera stefnumótandi um meginstefnu bankans, heldur er verið að tala um að bankaráðið eigi að taka afstöðu til hinna smæstu sem hinna stærstu mála.
    Í áliti Sambands ísl. viðskiptabanka kemur m.a. fram að flokkar innlána og útlána, svo sem verðbréfa sem hver um sig séu bundin sérstökum vaxtakjörum, nema tugum hjá hverjum banka og sama máli gegnir um þjónustugjöld. Tæki maður bókstaflega þessa málsgrein frv. þýddi þetta í rauninni það að bankaráðin yrðu að koma saman miklu oftar en nú er og hafa afskipti af málum sem miklu eðlilegra væri að bankastjórnin sjálf annaðist um, enda segir svo orðrétt í áliti Sambands ísl. viðskiptabanka:
    ,,Ákvæði 1. mgr. 2. gr. frv. felur í sér að bankaráð taki að verulegu leyti að sér framkvæmdastjórn banka, enda eru rekstrartekjur slíkrar stofnunar fólgnar í vaxtamun og þjónustugjöldum. Ákvæðið, ef að lögum verður, mun því
torvelda alla stjórnun bankastarfsemi og valda verulegum vafa um hverjir séu ábyrgir fyrir rekstri bankans. Verður ekki annað séð en ákvæðið gangi þvert á 23. gr. viðskiptabankalaga þar sem segir að bankastjórn skuli standa fyrir rekstri banka eins og fyrr greinir. Óvissa af þessu tagi er óviðunandi fyrir eigendur innlánsfjár og bankastarfsmenn.``
    Hér er vissulega kveðið mjög skýrt að og felldur harður dómur um þessa stjórnarstefnu sem felst í frv. Enn fremur er ástæða til þess að gjalda varhug við síðari hluta setningarinnar í þessari málsgrein þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Við umfjöllun um vexti eða kaupgengi viðskiptavíxla og viðskiptaskuldabréfa skal bankaráð gæta þess að ávöxtunarkrafa bankans sé sambærileg við ávöxtun almennra útlána bankans í hliðstæðum

áhættuflokkum.``
    Hér er bersýnilega verið að gera tilraun til þess að vernda hag seljenda bréfanna og það er í sjálfu sér virðingarverð viðleitni. En hér kemur það einmitt á daginn að þarna hefði verið nauðsynlegt að kveðja til þá menn sem sýsla um þessa hluti á degi hverjum, þ.e. bankastarfsmennina, og ástæða er til þess að vekja athygli á því að Samband ísl. viðskiptabanka telur þessa leið ekki vænlega að því marki sem að er stefnt.
    Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til þess að hafa mjög mörg önnur orð um þetta, en ég ítreka það að annars vegar er hér um að ræða almennar breytingar sem ekki er ástæða til þess að agnúast við og hins vegar breytingar sem eru nauðsynlegar vegna breytinga á öðrum lögum. En enn fremur er hér um að ræða veigamikla stefnubreytingu sem 1. minni hl. nefndarinnar telur síst til farsældar.