Sparisjóðir
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Virðulegi forseti. Það fer ekkert á milli mála að sparisjóðir gegna mjög þýðingarmiklu hlutverki í uppbyggingu atvinnulífs og við aðstoð við einstaklinga í uppbyggingu sinnar starfsemi úti um allt land. Þessar stofnanir, sem hafa þróast í tímans rás, hafa mjög víða orðið veigamikill þáttur í uppbyggingu byggðanna og gegna þess vegna mjög þýðingarmiklu hlutverki.
    Á árinu 1985 voru samþykkt merk lög um sparisjóði sem hlotið höfðu rækilegan undirbúning og fengu hér jákvæða meðferð á hinu háa Alþingi og urðu til þess að treysta enn fremur stöðu sparisjóðanna. Víða úti um land, vegna hinnar alvarlegu byggðaþróunar, hefur þessi starfsemi átt nokkuð undir högg að sækja, en engu að síður er það svo að ég hygg að íbúar dreifbýlisins kjósi að áfram verði sparisjóðirnir starfræktir sem hingað til og geti áfram gegnt því hlutverki sem þeim er ætlað.
    Ég hygg að því miður verði það ekki sagt um það frv. til laga um breytingu á lögum nr. 87/1985, um sparisjóði, sem hér liggur fyrir, að það þjóni því hlutverki að treysta sparisjóðina í landinu. Því miður ber frv. mjög þess merki að það er samið af mönnum sem standa á sjónarhóli sínum hér í Reykjavík og skilja ekki til fullnustu þær sérstöku aðstæður sem við er að glíma úti á landi og sem litlir sparisjóðir í veikum byggðum þurfa að búa við. Nú er kannski ekki mikið við því að segja þó að frv. af því tagi komi hér inn á þing, en maður hefði kannski getað ætlast til þess að frv. frá ríkisstjórn sem nýtur stuðnings og á líf sitt m.a. undir stuðningi manna sem kenna sig mjög við réttlæti gagnvart dreifbýlinu í landinu tæki mið af sérhagsmunum og séraðstæðum dreifbýlisins í landinu. Það er þó megineinkenni á frv. sem hér er til umræðu að þar er litið fram hjá þessum séraðstæðum og það þrátt fyrir að ítarleg og vönduð greinargerð Sambands ísl. sparisjóða hafi vakið athygli á þessu máli.
    Það er annars um þetta frv. að segja að það einkennist eins og hið fyrra frv. um viðskiptabankana annars vegar af því að vera nauðsynleg endurbót á lagaákvæðum sem hljótast af því að öðrum lögum hefur verið breytt, en hins vegar er um að ræða ákvæði sem síst verða til þess að auðvelda nauðsynlega uppbyggingu sparisjóðanna í landinu.
    Í þessu sambandi vil ég benda á að hér er, eins og í hinu fyrra frv., einnig verið að reyna að girða fyrir meintan hagsmunaárekstur í starfi sparisjóðanna sem innláns- og útlánsstofnana í landinu, en þar tekst mönnum ekki betur upp en í hinu fyrra tilviki. Í frv. er svo sem í hinu fyrra lögð áhersla á að forráðamenn innlánsstofnana séu ekki eigendur hlutafjár í fyrirtæki sem teljist þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki ráði úrslitum um stjórnun þess og sem fyrst og fremst teljist ávöxtun sparifjár. Þetta ákvæði er að dómi okkar hv. þm. Inga Björns Albertssonar, sem skrifar undir minnihlutaálit 1. minni hl. með mér, fullkomlega óþarft og þjónar ekki þeim tilgangi sem að er stefnt. Hægt er að ná þeim tilgangi með öðrum hætti og raunar er að því

stefnt síðar í frv. þó að ekki takist heldur nægilega vel til þar af þeim ástæðum og þeim aðstæðum sem eru í okkar þjóðfélagi.
    Nú er það að vísu svo, og ég vil vekja athygli á því, að í upphaflegu frv. til laga um breytingu á lögum um sparisjóði var gert ráð fyrir því í 4. gr. að sparisjóðsstjórn ein ákvarðaði vexti sparisjóðsins og galdskrá þjónustugjalda fyrir einstaka þætti starfseminnar.
    Að ósk Sambands ísl. sparisjóða var hér skotið inn í að sparisjóðsstjórnir ásamt stjórn Sambands ísl. sparisjóða gæti tekið þessa ákvörðun og þetta er mjög til bóta. Ástæðan er sú að á síðustu árum, í harðnandi samkeppni viðskiptabankanna, hafa sparisjóðirnir tekið upp með sér aukið samstarf í því skyni að efla sig og treysta stöðu sína í þessari miklu samkeppni. Sparisjóðasambandið hefur þess vegna fengið nýtt og öflugra hlutverk og það er nú enn treyst með þessu frv. og það er í sjálfu sér mjög til bóta.
    Hitt er það að í frv. er fullmikil áhersla á ýmiss konar skýrslugerð, pappírsfargan sem er nú í hróplegri mótsögn við þá umræðu sem fram hefur farið um bankakerfið í landinu og ekki síst af ráðherrum hæstv. ríkisstjórnar. En ég vek athygli á því að í frv. er m.a. gert ráð fyrir að reglur um lánveitingar og ábyrgðir sparisjóða skuli endurskoða árlega, svipað ákvæði er raunar að finna í viðskiptabankafrumvarpinu, þó að flestra manna mati nægði þarna að endurskoða þessar reglur svona eins og á tveggja ára fresti.
    En kerfið heimtar sitt og þrátt fyrir einlægan vilja manna til að einfalda það skýtur þarna upp kollinum eins og svo víða annars staðar tilhneiging til þess að gera einfalda hluti flókna og kalla á aukið pappírsfargan og skýrslugerð sem tröllríður okkar þjóðfélagi.
    Það eru hér tvö dæmi sem maður finnur í frv. sem einmitt undirstrika það að ekki hefur verið tekið nægilegt tillit til þeirrar sérstöðu sem ríkir í starfsemi sparisjóðanna í landinu. Það er í fyrsta lagi í 5. gr. frv. eins og það var upphaflega lagt fram, en þar segir svo:
    ,,Stjórnarmenn sparisjóðs og varamenn þeirra skulu ekki taka þátt í meðferð máls er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í. Sama gildir um þátttöku stjórnarmanna í meðferð máls er varðar aðila sem eru þeim tengdir, persónulega eða fjárhagslega.``
    Hér fer auðvitað ekkert á milli mála að ásetningur löggjafans gæti verið sá, ef þetta yrði samþykkt, að koma í veg fyrir óþarfa hagsmunaárekstra. Og síst skal mælt gegn þeirri viðleitni. Vandinn er bara sá að í starfsemi lítilla sparisjóða í smæstu byggðarlögunum gæti það orðið þrautin þyngri að uppfylla öll þessi skilyrði. Sannleikurinn er sá að í þessum smæstu byggðarlögum er málið ekki svona einfalt eins og það lítur út þegar menn eru að semja slík lög og horfa héðan frá Reykjavík eða í enn þá víðara samhengi. Sannleikurinn er sá að í þessum minnstu byggðarlögum kemur óhjákvæmilega upp sú aðstaða

að menn eru tengdir einhverjum böndum. Vel hefði mátt reyna að orða þetta af meiri gætni í því skyni að sníða af þessa agnúa. Málið er þannig að í þessum litlu byggðarlögum tengjast menn margs konar böndum, ekki bara fjárhagslegum, og það er auðvelt, sé til þess vilji, að túlka þessi ákvæði þannig að erfitt verði fyrir sparisjóðsstjórn að taka afstöðu í málum sem þó eru mjög mikilvæg og kalla á að tekin sé afstaða til á vettvangi sparisjóðsstjórnar.
    Í 6. gr. frv. er enn fremur um að ræða ákvæði sem ég óttast nokkuð að geti orðið til þess að valda vandræðum þegar fram í sækir. Hér á ég við það ákvæði frv. að við 1. mgr. 71. gr. núgildandi laga bætist svohljóðandi málsliður:
    ,,Sé bókfært virði fasteigna og búnaðar, sem sparisjóður notar til starfsemi sinnar, hærra en sem nemur 65% af eigin fé sparisjóðsins skal hlutfallið fara stöðugt lækkandi á þessu tímabili þar til 65% markinu er náð nema ráðherra veiti að fengnum tillögum bankaeftirlitsins undanþágu til hækkunar á hlutfallinu á tímabilinu.``
    Að vísu er þarna sleginn varnagli með síðustu setningunni, en að mínu mati hefði þó mátt hafa þetta ákvæði nokkuð almennara.
    Ég vek athygli á því að í umsögn sparisjóðasambandsins um þessa grein sérstaklega segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæðinu var ætlað að koma í veg fyrir að banki eða sparisjóður sem uppfyllir ekki 65% hlutfallið stofnaði nýtt útibú, sbr. 2. gr. laganna. Segja má að ákvæðið í þessum tilgangi sé góðra gjalda vert. Hitt er ljóst að fjölmargar peningastofnanir uppfylla ekki ákvæðið í dag en hafa gert áætlanir um að koma því í lag fyrir árslok 1990 þegar aðlögunartími rennur út. Hins vegar er ljóst að almennar fjárfestingar í búnaði og tækjum eru sífellt nauðsynlegar vegna breyttra aðstæðna og tækniþróunar. Túlkað eins og ákvæðið er sett fram nú meinar það öll tækjakaup þeirra innlánsstofnana sem ekki uppfylla 65% markið og er því óraunhæft og jafnvel til skaða.``
    Ég ítreka það að í sjálfu sér er auðvitað nauðsynlegt að gera strangar kröfur um eigið fé sparisjóðanna, en það má þó ekki ganga út í þær öfgar að hjá minnstu innlánsstofnunum, sem menn í byggðunum kjósa að starfrækja áfram, sé starfsemi þeirra svo þröngt skorinn stakkurinn að þær stofnanir megni ekki einu sinni að endurnýja nauðsynlegan tækjabúnað sem nútímatölvutækni krefst. Þess vegna hefði verið eðlilegt að orða þetta mál með öðrum hætti. En svo mikið liggur við að koma þessu frv. fram og gera það að lögum að ekki var talin ástæða til þess í meðferð nefndar.