Sparisjóðir
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vildi með örfáum orðum víkja að því sem komið hefur fram í máli hv. 1. þm. Vestf. og hv. 10. þm. Reykn., að tímaskortur hafi bagað menn við meðferð þessa máls í þinginu. Ég ætla að nefna nokkrar einfaldar staðreyndir sem mér virðast benda í gagnstæða átt.
    Mörg þau ákvæði sem hv. þm. gerðu að umtalsefni, ég nefni í þessu frv. ákvæðin um að bankaráðsmenn skuli ekki taka þátt í meðferð máls er varða viðskipti þeirra sjálfra o.s.frv. og hliðstætt ákvæði í sparisjóðafrv., hafa reyndar legið fyrir þinginu frá því í fyrra. Í frv. um sama efni sem lagt var fram á 110. löggjafarþingi var ítarlega um þetta fjallað og þetta frv. og þessi frv. sem ég sé ástæðu til að tala um í einu lagi, um viðskiptabanka annars vegar og sparisjóði hins vegar, hafa legið fyrir í þinginu frá því í fyrstu viku febrúar. Það hefur því gefist gott tækifæri til að kveðja til hagsmunaaðila og sérfróða aðila um þessi mál. Sá tími hefur verið notaður til slíkra viðræðna og athugana eins og m.a. kom fram í máli hv. 10. þm. Reykn. og bar það m.a. þann ávöxt að tekið var tillit til séraðstæðna sparisjóðanna með því að vitna í vaxtaákvörðunum til stjórnar Sambands íslenskra sparisjóða til þess að koma til móts við vanda hinna smæstu í þeim samtökum. Þannig er nú það. Þetta mál hefur sem sagt fengið, eftir því sem um er að gera, langa og rækilega meðferð hér í þinginu. Okkur ætti þess vegna ekki að vera neitt að vanbúnaði að ljúka málinu.
    Vegna þess sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf. Einari Guðfinnssyni um vandamál smæstu innlánsstofnananna, þá vildi ég blátt áfram benda á það að tillit til þeirra vandamála eða aðstæðna sem verða í hinum smæstu stöðum getur, og að því vék hv. 10. þm. Reykn., rekist á mikilvægustu ákvæði laganna um innlánsstofnanir, þ.e. lögunum er ætlað að tryggja öryggi innstæðueigenda, að tryggja hagkvæmni í rekstri bankakerfisins og jafnræði þeirra sem þessa starfsemi stunda gagnvart lögunum. Tillitssemi til aðstæðna á einstökum stöðum má ekki brjóta þessi meginatriði í löggjöfinni. Það er nákvæmlega vandamálið og úr þeim árekstri markmiða sem þarna verður stundum hefur verið skorið með samráði við samtök þessara aðila, sérstaklega sparisjóðanna, á þann hátt sem lengst má ganga að mínu áliti.
    Tilgangur laganna um banka og sparisjóði er að sjálfsögðu að skapa þessari starfsemi almennan lagaramma sem tryggir þetta þrennt sem ég nefndi, öryggi innstæðueigenda, hagkvæmni í rekstri þessara stofnana og jafnræði fyrir lögunum. Þetta eru svo þungt vegandi ástæður að það er ekki hægt að taka undir með hv. 1. þm. Vestf. þegar hann segir: ,,Það er eðlilegt að orða öryggisákvæði laganna um sparisjóði öðruvísi en um viðskiptabanka.`` Þvert á móti segi ég: Það er ekki eðlilegt að orða það öðruvísi. Ef slíkar reglur knýja til breytinga í skipulagi þessara stofnana, þá er það af því að það er þeim ætlað.
    Þetta var náttúrlega höfundum þessara laga vel ljóst. Það var beinlínis sú stefnubreyting sem ákveðin

var með lögunum um banka og sparisjóði, sem sett voru á árinu 1985, að setja með almennum ákvæðum, eins og t.d. um eiginfjárhlutföll og hlutföll fasteigna og búnaðar af eigin fé, almennar reglur frekar en beinar tilskipanir eða sérstakar ákvarðanir á hverjum stað sem menn yrðu svo að laga sig að. Um þetta hefur verið ítrekað fjallað, m.a. við Samband sparisjóða og niðurstaðan er sú sem hér liggur fyrir þinginu og hefur legið lengi fyrir þinginu. Því tel ég að nú sé komið að því að taka ákvarðanir.
    Þættir þessa máls eru tveir í aðalatriðum, annars vegar að girða fyrir hagsmunaárekstra og um það virðist ríkja nokkuð góð samstaða hér í þinginu að þær breytingar séu nauðsynlegar og gagnlegar og fyrir þann stuðning er ég þakklátur --- hins vegar er í fyrri mgr. 3. gr. frv., eins og það liggur hér fyrir deildinni, ákveðið að skilgreina að nýju viðfangsefni bankaráðanna við ákvarðanir á vöxtum. Það er engin tilviljun að þetta er gert á þennan hátt og það er fullkominn misskilningur hjá hv. 1. þm. Vestf. og 10. þm. Reykn. að í þessu felist breyting á valdaskiptingunni milli bankaráðs og bankastjórnar eða á valdframsali bankaráðsins til bankastjóranna sem eru auðvitað þeirra daglegu framkvæmdastjórar. Það er ekki. Megintilgangur breytingarinnar er að skilgreina nákvæmlega hvað felist í orðinu mótun vaxtastefnu eins og það var í ákvæðinu í gildandi lögum.
    Það hefur nefnilega komið í ljós að bankaráðin hafa ekki unnið þetta verk á þann hátt sem ætla má og telja má að eðlilegt sé. Þau hafa ekki tekið á öllum þáttum málsins. Ég tel þess vegna nauðsynlegt, og það er megintilgangur þessa hluta frv., að gera það ljóst að bankaráðin eigi í mótun stefnunnar að fjalla um alla þætti í vaxtaákvörðunum, ekki síst þann sem vikið er að í síðasta málsl. 1. mgr. 3. gr. frv. sem varðar breytingar á 4. mgr. 21. gr. laganna. Það má ekki líðast að það sé tvöfalt viðskiptakerfi í bönkunum --- sumir mundu kalla það tvöfalt siðferði --- að sumir viðskiptamannanna sitji við annað og betra borð en aðrir, þ.e. sumir njóti almennra hlaupareiknings- og víxilvaxtakjara en aðrir sæti afföllum við kaup á viðskiptaskuldabréfum og viðskiptavíxlum þótt þeir séu að öllu leyti jafngóðir viðskiptamenn, jafnlítil
eða mikil áhætta fylgi viðskiptum við þá og aðra sem hinna kjaranna njóta. Þetta er meinbugur á framkvæmd vaxtaákvarðana í bönkunum.
    Ég bendi hv. 1. þm. Vestf. og 10. þm. Reykn. á það að samtök atvinnuveganna, ekki síst Verslunarráðið og Félag ísl. iðnrekenda, en reyndar líka samtök sjávarútvegsfyrirtækja hafa ítrekað bent á þetta og talið þetta miður fara.
    Sú tillaga sem þarna er gerð leysir ekki hvers manns vanda. Hún leysir ekki vaxtaverkina í atvinnulífinu, en hún gefur færi á að taka á þessum málum á sanngjarnan hátt í samræmi við þarfir viðskiptalífsins og atvinnuveganna. Það er ekki búið með þessu að leysa málið en það er þó a.m.k. búið að setja það á réttan stað hverjir beri ábyrgð á stefnumótun í málinu. En ég endurtek: Í þessu felst ekki breyting á verkaskiptingunni milli bankaráðs og

bankastjórnar, hverjir taki hinar daglegu framkvæmdaákvarðanir, en fyrst og fremst, og það er aðalatriðið, er þetta skilgreining á því hverjar séu þær vaxtaákvarðanir sem bankaráðin hljóti að móta um stefnu í sínu starfi og fela bankastjórunum til framkvæmdar.