Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Það er út af fyrir sig ástæða til að fagna umræðu um þau ákvæði í stjórnarskrá sem varða Alþingi. Ég get hins vegar ekki annað en tekið undir með þeim sem gagnrýnt hafa aðferðina við að koma þessu máli nú til meðferðar í þinginu. Sú gagnrýni kom fram í þingskapaumræðu sem var hér sl. miðvikudag þegar taka átti málið til umræðu. Hv. 1. þm. Suðurl. vildi vita hvort ætlun flm. frv. væri að fá það samþykkt nú á þessu þingi og ná þannig fram þingrofi og nýjum kosningum. Hv. 1. flm. frv. svaraði því skýrt og skorinort þannig að það væri alls ekki ætlunin og að það ætti heldur ekki að afgreiða það á næsta þingi heldur þarnæsta. Það var því ekki að undra þótt hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni þætti hér vera um meiri fyrirhyggju að ræða en áður hefði sést við flutning mála á Alþingi. Ég hefði vel getað hugsað mér að leggja nokkuð af mörkum og nokkuð að mér til þess að samþykkja a.m.k. einhverjar greinar þessa frv. nú á þessu þingi ef það kynni að vera eina leiðin til að ná fram kosningum nú þegar.
    En þótt skammt sé til þinglausna þá virðist sem það sé álit ýmissa forustumanna stjórnarflokkanna að vel sé hægt að hefja umræðu um viðamikið mál sem ekki er ætlunin að afgreiða nú og ekki einu sinni á næsta þingi.
    En þessari umræðu varð þó að fylgja sá samningur að ræðutími yrði takmarkaður við fyrsta hluta umræðunnar. Það vekur hins vegar upp spurningar um það hvað lá á með þennan frumvarpsflutning. Það er jú starfandi stjórnarskrárnefnd sem þingflokkarnir eiga aðild að. Það hefur að vísu ekki farið mikið fyrir starfi hennar í opinberri umræðu en hún er samt að störfum undir forustu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar. Þetta frv. er ekki flutt í samráði við stjórnarskrárnefnd en auðvitað er hverjum og einum þingmanni og þeim saman í hóp heimilt að flytja þau mál sem þeim sýnist. Hv. 1. flm. tók hér fram áðan að það mætti ekki líta á þennan frumvarpsflutning sem vantraust á störf stjórnarskrárnefndar og þá yfirlýsingu ber að sjálfsögðu að meta.
    Mér var boðið að gerast meðflm. að þessu frv. Fyrir það er ég þakklátur en ég gat ekki þegið það boð og ástæðurnar voru einkum tvær:
    Í fyrsta lagi féll mér ekki við aðferðina. Það gengur ekki að koma til manns með fullgert frv. tveimur til þremur dögum áður en frestur til að leggja fram mál rann út og því ekki tími til að ræða neinar breytingar. En það hefði að vísu mátt vera ásættanlegt ef ekki hefði komið til hin ástæðan að ég er ekki sáttur við öll ákvæði frv. en ég er og hef lengi verið áhugamaður um að ákvæðum stjórnarskrár varðandi Alþingi verði breytt. Þess vegna tek ég þátt í þessari umræðu og hefði viljað leggja mitt af mörkum eins og ég sagði áðan til þess að þetta mál hlyti afgreiðslu nú en fyrir því er sem sagt ekki áhugi hjá flm.
    Eins og segir í grg. frv. er ætlunin með því í fyrsta lagi að gera alla málsmeðferð á Alþingi nútímalegri og einfaldari, m.a. með því að þingið starfi í einni málstofu. Þessum tilgangi er ég alveg sammála. Ég

styð þess vegna heils hugar þau ákvæði frv. sem leiða af þeirri tillögu að Alþingi starfi í einni málstofu. Ég fellst á þau rök sem talin eru fram í grg. frv. með þeirri tillögu og sem renna stoðum undir það að þessu eigi að breyta. Ég þekki vel röksemdir þeirra sem tala gegn þessari breytingu. Þau rök eru mörg hver einnig talin upp í grg. frv. en eins og flm. telja þá tel ég þau rök léttvæg.
    3. gr. frv. fjallar um þingrof og fresti sem annars vegar mega líða frá ákvörðun um kosningar og þar til stofnað er til þeirra og hins vegar hvenær þing skuli koma saman hið síðasta frá kosningum. Þessi ákvæði frv. eru til bóta frá því sem er vegna þess að frestir eru styttir en mér þykir hins vegar ekki nægilega langt gengið í hvorugu tilvikinu.
    Annars vegar er gert ráð fyrir 45 daga fresti í stað tveggja mánaða frá því þing er rofið og þar til kosningar fara fram. Spurning mín er hvers vegna þurfi 45 daga frest frá því ákvörðun er tekin um þingrof og þar til kosningar geti farið fram. Mér þykir þetta allt of langur frestur svo ég tali nú ekki um tvo mánuði eins og er nú. Lengi vel var Hagstofunni kennt um að þessi frestur þyrfti að vera svona langur vegna þess að það tæki þennan tíma að gera kjörskrár. Ég trúi því ekki og vísa þar til þess sem aðrar þjóðir geta gert þar sem milljónir manna eru á kjörskrá. Þar er hægt að koma á kosningum á miklu skemmri tíma.
    Í öðru lagi hefur því verið borið við að flokkarnir séu ekki tilbúnir með framboð sín. Ég vil leggja það á flokkana að hafa framboð sín ætíð tilbúin og af þeirri ástæðu sé ekki hægt að bera því við að nauðsyn sé á svo löngum fresti. Ég nefni í því sambandi þær aðferðir sem við þekkjum víða í nágrannalöndum okkar þar sem ársfundir flokkanna ákveða framboð, sem sagt framboð eru ákveðin einu sinni á ári, og af þeim ástæðum geta kosningar farið fram hvenær sem er. Með þeirri aðferð sýnist mér að mætti stytta frestina, t.d. þennan frest í 21 dag.
    Hitt tímamarkið sem þarna er sett er fjórir mánuðir í stað átta, til þess er Alþingi kemur saman. Þessi frestur er einnig allt of langur að mínu mati en þó til verulegra bóta. Mér sýnist þetta óhæfilega langur tími vegna þess að þegar
ríkisstjórn er mynduð eftir kosningar er í sjálfu sér engin vissa fyrir því að hún njóti meirihlutastuðnings eða hlutleysis Alþingis eins og reyndar hv. 1. flm. rakti hér mörg dæmi um áðan. Þetta hefur verið liðið en er ótækt og hefur verið ótækt alla tíð. Mér sýnist þess vegna rétt að stytta þennan frest, t.d. í tvær vikur frá kosningum, að þá skuli þingið koma saman hvort sem ríkisstjórn hefur verið mynduð eða ekki. Ég veit að þessu verður mótmælt einmitt með þeim rökum að svo kunni að vera að ekki hafi verið mynduð ríkisstjórn innan tveggja vikna frá kosningum. Það má vel vera en skiptir ekki máli að mínu mati. Þingið á engu að síður að koma saman, það á að kjósa sér forseta og aðra embættismenn en að því búnu mætti fresta fundum þar til stjórn hefur verið mynduð ef mönnum sýnist svo. Ef eftir þessum hugmyndum væri farið, þá mundi ekki líða lengri tími en 5 vikur frá

þingrofi og til þess tíma er nýtt þing kæmi saman.
    Það er auðvitað spurt hvers vegna megi ekki líða lengri tími eins og menn hafa sætt sig við til þessa. Ég svara því til að í fyrsta lagi tel ég að þingræðið sé í hættu ef áfram er búið við þessar reglur sem við höfum búið við á undanförnum tíma. Við höfum dæmi um stöðuna sem varð við myndun núv. hæstv. ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin var mynduð í lok september, þingið átti að koma saman að vanda 10. okt. og gerði það. Enginn vissi hvort um var að ræða meirihlutastjórn, það var treyst á huldufólk sem að vísu gaf sig svo fram þannig að stjórnin reyndist vera meirihlutastjórn. En slíkt er ekki Alþingi bjóðandi. Alþingi á að fá að tjá sig um stuðning eða hlutleysi við ríkisstjórn sem mynduð er eftir kosningar og það á þingið að gera þegar í stað.
    Í þessu samhengi þarf einnig að hafa í huga rétt ríkisstjórna til útgáfu bráðabirgðalaga. Alþingi getur ekki látið bjóða sér það að ný ríkisstjórn, sem ekki er vitað hvort nýtur trausts eða hlutleysis þingsins, byrji á því að gefa út bráðabirgðalög.
    Þetta var nú um 3. gr. frv. Auðvitað mætti margt fleira um hana segja og ekki síst vegna þess að þegar er nú komin fram brtt. frá einum hv. flm. frv. Það er að vísu svolítið óvenjuleg aðferð og auðvitað hefði ég t.d. getað verið meðflm. ef ég hefði sætt mig við þá aðferð að flytja svo brtt. við allar þær greinar sem ég er ekki alveg sáttur við bara til þess að vera með. En það er sem sagt komin fram brtt. um það að 24. gr. stjórnarskrárinnar, og 3. gr. frv. falli brott, þ.e. að óheimilt sé að rjúfa þing. Þetta er út af fyrir sig sjónarmið og virkilega þess virði að það sé rætt ofan í kjölinn hér á hv. Alþingi. Þetta er sú regla sem gildir t.d. í Noregi, en er heldur ekki óumdeild þar þótt ég viti ekki til að það sé svo sem neinn sérstakur áhugi fyrir því að breyta þeirri reglu í norska þinginu, en þó er það ekki óumdeilt og hefur oft og tíðum valdið vissum vanda. En engu að síður er ástæða til þess að ræða það hér í þessu samhengi.
    Ég kem þá að ákvæðum 5. gr. frv. sem fjallar um réttinn til útgáfu bráðabirgðalaga sem ég hef þegar tjáð mig um að nokkru. Frv. gerir ráð fyrir að verulega sé þrengdur réttur ríkisstjórna til slíkra athafna eins og hv. 1. flm. rakti hér einnig áðan. Allt er þetta til bóta, en ég vil hins vegar stíga skrefið til fulls og afnema algjörlega heimildina til að gefa út bráðabirgðalög. Þingmenn hafa gjarnan gagnrýnt yfirgang framkvæmdarvaldsins eins og það heitir og oftast er sú gagnrýni á rökum reist. En þeir eiga það hins vegar við sjálfa sig og eiga við sjálfa sig að sakast og raunar ekki aðeins um það að framkvæmdarvaldið gangi á rétt löggjafans, heldur verður að viðurkenna það að löggjafarvaldið seilist oft og tíðum inn á svið framkvæmdarvaldsins og það er ekkert betra. Það er á valdi þingsins hvaða heimildir það veitir framkvæmdarvaldinu. Þær heimildir eru allt of rúmar í dag. Löggjafarvaldið á aldrei að framselja. Það hefur hins vegar verið gert en þær heimildir ber að afnema. Meðan löggjafarvaldið gerir það ekki er gagnrýni á framkvæmdarvaldið að þessu leyti

marklaus. Það er auðvelt að kalla þingið saman ef nauðsyn krefur að sett sé ný löggjöf í þinghléum. Það eru allt aðrar aðstæður nú en ríktu hér á landi þegar þessi heimild var sett í stjórnarskrána. Samgöngur hafa gjörbreyst, þingið situr miklu lengur en það gerði áður. Raunar kom það ekki saman nema annað hvert ár til kannski nokkurra vikna setu. Og það er ekki bara það að þingið sitji lengur en áður, heldur eru líkur á að þingtíminn lengist með hverju ári sem líður. Allt þetta ber því að sama brunni. Heimildir til útgáfu bráðabirgðalaga eiga ekki að vera í stjórnarskrá. Þær á að afnema með öllu.
    Í tillögum flm. að nýjum IV. kafla stjórnarskrárinnar, lið h, er gert ráð fyrir að kosin verði sérstök stjórnsýslunefnd sem svo er kölluð. Hér er um mjög athyglisverða hugmynd að ræða sem ég hef hugsað talsvert um og þekki ákvæðið um í þingsköpum nágrannaþjóða okkar sumra. Hliðstæð nefnd þessari mun vera hvað athafnasömust í Svíþjóð, en hún er einnig vel þekkt í Noregi. Í Svíþjóð hefur mjög borið á starfi þessarar nefndar í sambandi við rannsókn á Palme-morðinu. Ég hef vaxandi efasemdir um réttmæti slíkrar nefndar, en ég vil athuga þetta með opnum huga og tel sem sagt hugmyndina þess virði að rækilega sé farið ofan í saumana á þessari tillögu.
    Hv. 1. flm. tók skýrt fram hér í framsögu sinni að svona nefnd þyrfti að starfa af hófsemi og ekki fyrir opnum tjöldum. Ég er alveg sammála þessari skoðun hv. flm. ef svona ákvæði kemst inn í okkar lög, en ég bendi á að þetta mun einnig hafa verið ætlunin t.d. í Svíþjóð, að stjórnsýslunefndin starfaði þar af hófsemi og ekki fyrir opnum tjöldum, en það hefur farið nokkuð á annan veg. Það með öðru veldur því að ég hef vaxandi efasemdir um réttmæti þessarar nefndar.
    Þá eru gerðar tillögur í þessu frv. um að þingmaður sem skipaður er ráðherra láti af þingmennsku á meðan hann gegnir ráðherradómi. Ég er samþykkur þessari tillögu. Með þessu er skilið mjög skýrt á milli löggjafar- og framkvæmdarvaldshafa og það er í samræmi við það sem ég hef áður sagt að beri að gera. Rök sem talin eru upp í greinargerð frv. eru öll til þess að renna stoðum undir þessa ákvörðun og ég skal ekki endurtaka þau. En ýmsu mætti raunar bæta við af röksemdum sem benda til að þessi breyting skuli gerð, t.d. því að ég er sannfærður um að það er auðveldara fyrir þingflokkana að tilnefna hæfa menn utan þings til ráðherradóms, og það tel ég af hinu góða, og er þess vegna ekki alveg sammála hv. 1. flm. sem telur mjög æskilegt að ráðherrar séu valdir úr hópi þingmanna. Ég ætla ekki að gera lítið úr því en tel það ekki nauðsynlegt. Þeir sem kjörnir hafa verið á þing en stendur til boða ráðherradómur verða þess vegna að velja um það hvort þeir vilja vera virkir í löggjafarstarfinu eða í æðstu störfum framkvæmdarvalds. Þeir geti sem sé ekki verið virkir í hvoru tveggja eins og menn eru við núverandi fyrirkomulag. Fyrst og fremst eru mín rök fyrir þessari breytingu þau að með þessu er skilið hvað

skýrast á milli löggjafar- og framkvæmdarvaldshafa. Auðvitað eru færð rök á móti þessu eins og t.d. þau að þetta þýði fjölgun þingmanna um þá tölu sem nemur ráðherratölunni hverju sinni, 9, 10 eða jafnvel 11 eftir atvikum. Ég tel þau rök léttvæg miðað við þau rök sem kalla á þessa breytingu.
    Í frv. eru nánari ákvæði en í gildandi stjórnarskrá um umframgreiðslur á fjárhagsári þar sem bætt hefur verið við ákvæði þess efnis að Alþingi geti sett almennar reglur um umframgreiðslur á fjárhagsári. Þetta er eflaust til bóta en spurning er hvort nóg sé að gert. Í því sambandi bendi ég á frumvörp þeirra hv. þm. Geirs H. Haarde og Pálma Jónssonar varðandi þetta atriði, frumvörp sem hafa verið flutt á þessu þingi og nú eru til meðferðar í þingnefnd.
    Þetta eru þau helstu atriði, herra forseti, sem ég sé ástæðu til að nefna varðandi brtt. frv. við stjórnarskrána. Eins og ég hef þegar tekið fram tel ég þær flestar ef ekki allar til bóta, en sumar ganga ekki nægilega langt, auk þess sem ég hef efasemdir um stjórnsýslunefndina, en útiloka ekki mögulega gagnsemi hennar eins og ég sagði áðan.
    Þessu frv. til stjórnarskipunarlaga fylgir til glöggvunar og kynningar, eins og þar segir, frv. til nýrra þingskapalaga, sett upp með mjög skýrum hætti, þar sem eru prentuð gildandi lög annars vegar og sýnt með skáletri hvað brott úr gildandi lögum fellur og svo hin nýju ákvæði í nýju þingskapafrv. Ég sé ekki ástæðu til að tefja umræðuna með því að fara að ræða þennan þátt sérstaklega, þar sem hér er ekki um frv. að ræða á sérstöku þingskjali, en fyrir utan nauðsynlegar breytingar vegna nýrra stjórnarskrárákvæða um þingið er hreyft ýmsum hugmyndum sem ástæða er til að gaumgæfa, svo sem um forsætisnefnd þingsins, breytt ákvæði um ræðutíma og heimild þingmanna til að gera stutta athugasemd við ræðu þegar eftir að hún hefur verið flutt þótt þingmaður sé ekki á mælendaskrá. Þetta fyrirkomulag þekkjum við vel t.d. í Norðurlandaráði og slík ákvæði er að finna í þingsköpum fjölmargra þjóðþinga. Ég er sannfærður um að þessa skipan eigum við að taka upp og tel þessi ákvæði alveg sjálfsögð.
    Ég hef ekki um þetta mál fleiri orð, herra forseti. Hér er hreyft þörfu máli eins og kom fram í upphafi máls míns, en ég er ekki alveg sáttur við málsmeðferðina hjá hv. flm. Það stendur hins vegar ekki í vegi fyrir því að við ræðum málið í fullri alvöru. Ég tel hins vegar afar vafasamt margra ástæðna vegna að geyma afgreiðslu svona máls, ekki aðeins til næsta þings heldur þar næsta eins og ætlun hv. flm. er.