Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 26. apríl 1989

     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Herra forseti. Ég er meðflm. að þessu frv. og raunar eru þeir sem hafa talað á undan mér búnir að segja flest eða allt það sem ég hefði þurft að segja svo að ég þarf ekki að hafa um þetta mörg orð, enda lítt hrifin af löngum ræðum og hefði kannski mátt bæta inn í þetta frv. okkar um þingsköpin að takmarka meira ræðutíma manna þannig að ræður yrðu yfirleitt styttri. En þessu er sjálfsagt ekki gott að koma fyrir í einum lögum.
    Ég hef alltaf haft áhuga fyrir því síðan ég fór eitthvað að fylgjast með Alþingi að Alþingi yrði í einni deild. Ég hef satt að segja aldrei skilið þessa deildaskiptingu. Þetta var kannski eðlilegt á meðan hér voru konungskjörnir menn og síðan voru menn kjörnir í landskjöri, en núna síðan farið var að kjósa alla þingmenn jafnri kosningu, þá finnst mér sannarlega mál til komið að breyta til þannig að þingið sé allt í einni deild. Ég er sannfærð um að þetta mundi bæta vinnubrögð mikið á Alþingi. Bæði væri hægt að fullafgreiða mun fleiri mál og vinna þau betur.
    Eins og hv. þm. Kristín Einarsdóttir er ég búin að vera stutt á þingi, en það hefur samt ekki farið fram hjá mér að hér eru oft lögð fram mál, sem kannski tekst ekki einu sinni að koma í umræðu, og ef það tekst og þá til nefnda og þar liggja þau. Og til þess að þau komist nokkurn tíma fram verður að taka þau svo upp á næsta þingi. Ég held að það gæfist mun betri tími til að fylgja hverju frv. eftir. Það yrði hægara að afgreiða mál en með þessu lagi, að frv. þurfi að ganga í gegnum þrjár umræður í báðum deildum og fara í nefnd þar að auki.
    Annað ákvæði sem mér geðjast mjög vel að í þessu frv. er um takmörkun á bráðabirgðalögum. Bráðabirgðalög hafa satt að segja yfirleitt verið eitur í mínum beinum. Í þeirri umræðu sem hefur komið og við tvenn eða þrenn síðustu bráðabirgðalög, þá er það greinilegt að síðan lýðveldið var stofnað hefur fjöldi þeirra algjörlega gengið út í öfgar. Nauðsynin á að setja þau yfirleitt sýnist með svona breyttum og bættum samgöngum vandséð. Sú hugsun hefur líka fest í almenningi við öll þessi bráðabirgðalög að til þess að stjórnin geti gert eitthvað sé eiginlega nauðsynlegt að senda þingið heim. Það hljóta fleiri að hafa heyrt þetta en ég, að þegar mikið er þjarkað um einhver málefni og hvorki rekur né gengur í þinginu, þá segir almenningur oft: Það þarf að senda þingið heim svo stjórnin geti farið að gera eitthvað. Það fer mjög að minni sannfæringu að þarna er þrengdur mikið þessi rammi. Kannski er nauðsynlegt að hafa möguleika á að gefa út bráðabirgðalög þó það ætti helst ekki að gefa þau út nema til kæmu náttúruhamfarir svo miklar að í raun og veru væri ekki hægt að kalla þingið saman. En þessi rammi er þarna a.m.k. þrengdur svo mjög að bráðabirgðalög ættu ekki að geta verið virk í sama mæli og þau hafa verið.
    Þá er lögð þarna meiri áhersla á að þingmenn séu aðeins bundnir sinni sannfæringu. Það er mér mjög að skapi líka og ég tel víst að a.m.k. velflestir þingmenn

hafi gengið í gegnum það að þurfa að gera upp á milli sinnar samvisku og sannfæringar og kannski flokksbanda. Vonandi hafa þeir ekki alls staðar þurft að ganga í gegnum neinar galdrabrennur þó þeir gerðu það.
    Ég tel að þessar breytingar, ef af verður, séu til mikilla bóta. Auðvitað verður að ræða þær og gefa sér góðan tíma til þess og auðvitað getur fleira komið til en þarna er talað um, en mér sýnist og ég veit að frsm. og 1. flm., hv. alþm. Páll Pétursson, hefur hugsað þetta mál lengi og vel og lagt í það mikla vinnu og árangurinn finnst mér eftir því.
    Ég hef svo ekki meira um þetta að segja í bili og læt máli mínu lokið.