Almennar stjórnmálaumræður
Fimmtudaginn 27. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það er að vísu varla þess virði að fjalla um gamanþátt Ólafs G. Einarssonar hér áðan, en þó er kannski rétt að taka þátt í þeirri upprifjun sem hann var með og rifja þá t.d. aðeins upp afskipti hv. sjálfstæðismanna af efnahagsmálum.
    Ég veit að menn muna það að í byrjun júní á sl. ári fór þáv. forsrh. Þorsteinn Pálsson í ferðalag til allmargra fiskvinnslufyrirtækja í landinu og það er að sjálfsögðu ekkert nema gott eitt um það að segja. Eins og þá kom fram í fréttum uppgötvaði Þorsteinn Pálsson að staða fiskvinnslunnar var afar erfið. Hann heimsótti m.a. fyrirtæki eitt á Vestfjörðum og fullvissaði stjórnendur þess þegar hann fór um það að það mundu ekki líða nema nokkrir dagar, þá yrði þessu kippt í lag.
    Eftir komu sína til Reykjavíkur átti Þorsteinn Pálsson fundi með forustumönnum samstarfsflokkanna. M.a. hitti ég þáv. forsrh. að morgni 25. júlí og hann gerði mér grein fyrir þessari niðurstöðu sinni um alvarlega stöðu útflutningsatvinnuveganna og sömuleiðis að það yrði ekki lengur beðið eftir því að grípa nú alvarlega í taumana.
    Við framsóknarmenn fögnuðum þessu og ákváðum samdægurs að taka af krafti þátt í þessari vinnu. Forsrh. skipaði síðan um mánaðamótin júlí--ágúst eða í byrjun ágúst þekkta nefnd leiðandi manna í atvinnulífinu og fól henni að gera tillögur um ráðstafanir í þágu atvinnulífsins. Við framsóknarmenn, og Alþfl. einnig, tókum af krafti þátt í störfum þessarar nefndar. Sjálfstæðismenn höfðu hins vegar ekki tíma til þess og það er kannski rétt að hv. þm. Ólafur G. Einarsson rifji upp hvers vegna það var.
    Við framsóknarmenn og sömuleiðis alþýðuflokksmenn féllumst á tillögur nefndarinnar um niðurfærslu, enda treystum við því satt að segja að þær væru gerðar í fullu samráði með þeim aðilum sem höfðu skipað nefndina. Svo reyndist því miður ekki vera. A.m.k. var tillögunum hafnað um leið og sjálfstæðismenn höfðu tíma til þess að líta á þær.
    Já, það er alveg hárrétt. Það er oft gott að rifja aðeins upp og þessi upprifjun er sannarlega nauðsynleg. Hún skýrir m.a. hvað varð banamein síðustu ríkisstjórnar og hún er líka umhugsunarverð vegna þess mjög svo verðmæta tíma sem tapaðist í þessum skollaleik ef ég má kalla það svo. Það var dýrmætur tími.
    Núverandi ríkisstjórn tók við þjóðarbúinu á elleftu stundu. Stjórnarflokkarnir höfnuðu þá því að fella gengið stórlega og efna til kollsteypu eins og oft hefur verið siður í íslensku efnahagslífi með þeim kjaraskerðingum sem því fylgja. Þeir ákváðu að vinna þjóðarbúið jafnt og þétt út úr erfiðleikunum, markvisst en ekki með kollsteypum. Að því hefur síðan verið unnið bæði með sérstökum og almennum aðgerðum allt frá stjórnarmyndun og miðar að mörgu leyti mjög vel. Það var mat stjórnarflokkanna að miklar skuldir og gífurlegur fjármagnskostnaður atvinnuveganna væri orðinn erfiðasti þátturinn í rekstrinum og kæmi jafnvel

í veg fyrir það að hefðbundnar leiðir dygðu til þess að rétta af rekstrargrundvöllinn. Því var ákveðið að ráðast í þá víðtækustu skuldbreytingu sem gerð hefur verið fyrir íslenskt atvinnulíf og þegar hafa verið samþykktar skuldbreytingar hjá Atvinnutryggingarsjóði fyrir 80 útflutningsfyrirtæki og nema þær um það bil 3 milljörðum kr. Hagræðingarlán hafa einnig verið samþykkt sem nema um 350 millj. kr. Hlutafjársjóður hefur jafnframt tekið til starfa og honum er ætlað að breyta skuldum í hlutafé hjá fyrirtækjum sem eru meginstoð atvinnulífs í viðkomandi byggðarlagi. Í fljótu bragði er talið að 15--16 fyrirtæki muni njóta slíkrar fyrirgreiðslu og bæta þannig eiginfjárstöðuna og vænti ég þess að fyrstu aðgerðir hlutafjársjóðsins verði nú mjög fljótlega.
    Sumir stjórnarandstæðingar leituðust við að gera starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs tortryggilega og tafði það nokkuð fyrir sölu skuldabréfa, en þetta hefur allt breyst. Skuldheimtumenn gera sér grein fyrir því að þarna er um mjög skynsamlega aðgerð að ræða og bréfin seljast vel. Þeim er ljóst að það er mikils virði fyrir þá einnig að bæta greiðslu- og skuldastöðu viðskiptavina sinna. Með þessu hefur greiðslustaða margra fyrirtækja verið stórlega bætt.
    Stjórnarflokkunum var að sjálfsögðu ljóst að útflutningsatvinnuvegirnir gátu ekki búið við það háa raungengi íslensku krónunnar sem varð í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Ríkisstjórnin hafnaði því þó að leiðrétta slíkt með stórfelldri gengisfellingu og þeim afleiðingum sem slíkt hefur. Smám saman og markvisst hefur raungengið hins vegar verið leiðrétt og er nú orðið um það bil 15% lægra en það varð hæst í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og er þá orðið mjög svipað því sem það var árið 1980.
    Um aðrar sérstakar aðgerðir, eins og t.d. greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði, ætla ég ekki að ræða hér ítarlega. Þær voru nauðsynlegar til þess að skapa svigrúm til þess að skoða stöðu atvinnuveganna. Þeim lýkur fljótlega. Þeim lýkur á þessu ári og reyndar e.t.v. fljótlega eftir mitt ár, enda er nauðsynlegt að ljúka slíkum greiðslum áður en frjáls verslun með fisk fæst 1. júlí á næsta ári innan Fríverslunarbandalags Evrópu.
    Kjarasamningar eru að sjálfsögðu afar mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni stjórnvalda að lagfæra stöðu atvinnuveganna og þjóðarbúsins. Vegna mikils samdráttar í afla á þessu ári og minnkandi þjóðartekna er ljóst að aðeins hógværir samningar samræmast því markmiði að vinna þjóðarbúið út úr erfiðleikunum án stórra skakkafalla. Á þessu hafa flestir launþegar sýnt mikinn og virðingarverðan skilning, ekki síst þeir sem lægri launin hafa. Með tilliti til erfiðleika atvinnuveganna hefði að sjálfsögðu verið eðlilegast að hinn almenni vinnumarkaður leiddi samningana, en því miður tókst það ekki. Eins og staðan var orðin átti ríkissjóður ekki annan kost en að ljúka samningum við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, enda um hógværa og sanngjarna samninga að ræða. Með þeim eru minnkandi þjóðartekjur og erfið staða þjóðarbúsins í raun viðurkennd.

    Nú er afar mikilvægt að samningar geti tekist sem fyrst á hinum almenna vinnumarkaði. Í því sambandi er skiljanlegt að samningar þeir sem ríkisvaldið gerði verði hafðir til viðmiðunar. Um samningana hefur ríkisstjórnin átt ágætar viðræður við fulltrúa vinnuveitenda og sömuleiðis við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar. Ríkisstjórnin er reiðubúin til þess að gera það sem í hennar valdi er til að stuðla að því að samningar megi takast skjótt og mun verða í viðræðum við þessa aðila næstu daga og allt bendir til þess að samningar takist jafnvel um næstu helgi.
    Ríkisstjórninni er að sjálfsögðu ljóst að staða atvinnuveganna er afar þröng. Öll úrtök sýna þó að afkoman hefur batnað hjá ýmsum fyrirtækjum. Í sumum tilfellum hefur framlegðin, þ.e. það fjármagn sem er til ráðstöfunar þegar breytilegur kostnaður hefur verið greiddur, tvöfaldast eða jafnvel meira. Þrátt fyrir það þola atvinnuvegirnir í raun sáralitlar kostnaðarhækkanir og verður vitanlega að hafa það í huga.
    Samkvæmt spám Seðlabanka Íslands mun raungengi fara hækkandi á ný þegar á árið líður. Það leiðir einfaldlega af þeirri verðbólgu sem er í landinu og af launahækkunum þótt hógværar séu. Hækkun á verðlagi sjávarafurða erlendis mun að öllum líkindum ekki gera meira en að vega upp á móti greiðslum sem nú eru inntar af hendi úr Verðjöfnunarsjóði og þótt hagræðing hjá fjölmörgum fyrirtækjum bæti verulega rekstrargrundvöll þeirra verður að sporna gegn óraunhæfri hækkun raungengis. Það mun ríkisstjórnin gera. Ekki er þó hægt að ætlast til þess að þeir launþegar sem gera hógværa samninga og með þeim taka í raun á sig nokkurn hluta af erfiðleikum þjóðarbúsins og minnkandi þjóðartekjur, þeim sem fram undan eru augljóslega, þurfi að þola frekari kjaraskerðingu. Aðrir verða að bera þær byrðar einnig, ekki síst peningastofnanir og fjármagnseigendur sem hagnast hafa mjög á undanförnum árum. Á síðasta ári var hagnaður viðskiptabanka og helstu sjóða 1 milljarður 462 millj. kr. eftir skatta. Hér er um að ræða um það bil 10% arð af eigin fé sem þætti nú dágott t.d. í sjávarútveginum. Fyrir greiðslu tekjuskatts var hagnaðurinn tæpir 2 milljarðar og þá höfðu hundruð milljóna verið lögð í varasjóði eða verið greidd Seðlabankanum í refsivexti.
    Þess má geta að hagnaður Seðlabankans á síðasta ári var um það bil 1100 millj. kr. Að vísu var stór hluti þess gengisuppfærsla. Í þessum tölum eru ekki þær upphæðir sem greiddar hafa verið fjármagnseigendum sjálfum, að sjálfsögðu, eins og t.d. sparifjáreigendum.
    Á sama tíma og peningastofnanir og fjármagnseigendur hafa hagnast vel metur Þjóðhagsstofnun hallann á botnfiskveiðum og vinnslu einni saman upp á 1,1 milljarð kr. á síðasta ári. Af þessu má ljóst vera að gífurlegir fjármagnsflutningar hafa átt sér stað frá atvinnuvegunum til peningastofnana og fjármagnseigenda.
    Með tilliti til þessa sem ég hef nú rakið er skiljanlegt að ríkisstjórnin hefur talið hvað mikilvægast

í endurreisn atvinnulífsins að draga úr hinum gífurlega fjármagnskostnaði. Á því sviði hefur náðst töluverður árangur. Raunvextir í viðskiptabönkum hafa lækkað úr um það bil 9% í 7,25% og ríkissjóður hefur nýlega gengið frá samningum við lífeyrissjóði um 6% raunvexti og lækkandi í 5% 1. júlí nk.
    Á grundvelli þeirra auknu heimilda sem Alþingi hefur veitt hefur ríkisstjórnin jafnframt lagt fyrir Seðlabankann áætlun um lækkun bæði innláns- og útlánsvaxta. Þess sjást jafnframt glögg merki að vextir á peningamarkaðnum utan viðskiptabankanna eru mjög lækkandi. Eftirspurn eftir fjármagni hefur farið minnkandi.
    Með þetta allt í huga tel ég vafalaust að það markmið muni fljótlega nást að lækka raunvexti af vel tryggðum lánum í 5%. Með þeirri lækkun verðbólgu sem fram undan er spáð skapast jafnframt grundvöllur til þess að afnema lánskjaravísitöluna eins og gert er ráð fyrir í samningi stjórnarflokkanna. Þar með yrði rutt úr vegi einum enn drifkrafti verðbólgunnar.
    Í Færeyjum er sögð dæmisaga af fjórum mönnum sem byggðu litla eyju. Einn var stjórnmálamaður, annar námsmaður, sá þriðji var eftirlaunamaður og fjórði var sjómaður. Sjómaðurinn reri daglega og kom að landi með fimm fiska. Stjórnmálamaðurinn, eftirlaunamaðurinn og námsmaðurinn fengu einn fisk hver.
Sjómaðurinn hélt eftir tveimur og lagði annan fiskinn í salt. Þegar gera þurfti við netin eða bátinn tók hann af saltfiskbirgðunum, reri til þorpsins og keypti það sem þurfti. Þeim þremur sem í landi voru þótti þeirra hlutur rýr. Þeir vildu fá meiri fisk. Þegar að kosningum kom lofaði stjórnmálamaðurinn að bæta úr þessu yrði hann kjörinn. Hann náði kjöri og efndi sitt loforð þannig að þá fengu stjórnmálamaðurinn, námsmaðurinn og eftirlaunamaðurinn fjóra fiska en sjómaðurinn hélt eftir einum og gat því ekkert lagt í salt. Dag einn kom hann að landi með aðeins fjóra fiska. Netin voru farin að bila og hann átti engan saltfisk til þess að gera við þau. Daginn eftir kom hann með þrjá fiska og daginn þar á eftir kom hann ekki að landi. Báturinn var orðinn fúinn og hann hafði engan fisk átt í salti til þess að kosta viðgerðina.
    Þótt vonandi sé ekki eins illa farið hjá okkur eins og fjórmenningunum færeysku óttast ég að meira sé af atvinnuvegunum tekið en þeir þola. Árið 1987 voru þjóðartekjur okkar Íslendinga á hvern íbúa þær næsthæstu af löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París. Eflaust átti rangt gengi nokkurn þátt í því. Hitt er athyglisverðara að við tókum þá stærra hlutfall þessara tekna til eigin nota, til neyslu einstaklinganna, en nokkur önnur þjóð eða um 65% borið saman við 60% eða lægra hjá flestum öðrum. Óskynsamleg fjárfesting og mikil einkaneysla eiga eflaust stærsta þáttinn í erfiðleikum atvinnulífsins í dag. Þetta kemur fram í miklum viðskiptahalla sem þjóðarbúið þolir ekki lengur. Þegar þannig er ástatt og þjóðartekjur lækka er óhjákvæmilegt að draga úr öllum kostnaðarliðum atvinnuveganna og úr okkar eigin eyðslu. Atvinnulífið verður að halda eftir meiru

til reksturs, endurnýjunar og viðhalds. Annars væri hætt við að færi illa eins og hjá fjórmenningunum í Færeyjum.
    Því miður eru erfiðleikarnir í þjóðlífinu margir. Þrátt fyrir einhver bestu lífskjör sem nokkur þjóð getur státað af er atvinnulífið í erfiðleikum. Fiskvinnslan hefur búið við afar óstöðugan grundvöll og ekki lært að laga sig að þeim grundvelli þannig að greiða niður skuldirnar þegar aflinn er mikill og sömuleiðis eru augljóslega vandræði í landbúnaðinum vegna uppsafnaðra birgða lambakjöts, og fleira af þessu mætti vissulega nefna eins og t.d. verslunina sem er í þrengingum vegna vonlausrar fjárfestingar og útþenslu og breytinga í verslunarháttum. Með öllum þessum þáttum er að sjálfsögðu mjög vandlega fylgst og ríkisstjórnin vinnur að því að bæta markvisst og án kollsteypu grundvöllinn í atvinnulífinu almennt.
    Því fer hins vegar víðs fjarri að þessir erfiðleikar verði leystir með einu pennastriki. Að vísu hefur heyrst að málið væri einfalt. Ríkisvaldið þyrfti aðeins að skrá gengið rétt og í þeim orðum hefur yfirleitt falist að það ætti að fella ríflega og um leið ætti að koma í veg fyrir verðbólgu og að sjálfsögðu að lækka fjármagnskostnað. Ég lýsi eftir tillögum um hvernig þetta allt verði gert á einfaldan máta jafnvel þótt afkoma almennings sé látin liggja á milli hluta.
    Sem betur fer er þó ekki allt svo erfitt sem af ofangreindri upptalningu mætti ráða. Allt bendir til þess að endurreisn atvinnulífsins þokist í rétta átt. Það mun takast ef okkur brestur ekki sjálfa þolinmæði og kjark.
    Sömuleiðis eru ýmsir ljósir punktar. Í landbúnaðinum er t.d. mjólkurframleiðslan komin í sæmilegt jafnvægi. Fiskeldið lofar góðu, stóriðjan skilar hagnaði, sumar greinar í sjávarútvegi skila viðunandi afkomu og fleira mætti telja. Verðmætast er þó það land og það umhverfi sem við eigum. Það er enn þá tiltölulega óspillt. A.m.k. á ekkert að geta stöðvað okkur í því að koma í veg fyrir frekara tjón á umhverfinu og reyndar bæta það sem úrskeiðis hefur farið. Í stöðugri umfjöllun um erfiðleika þótti mér því ánægjulegt að leggja fram á Alþingi nýlega frv. til laga um umhverfismál. Að þeim málum er búið að vinna í hartnær tvo áratugi. Því miður hefur þó ekki tekist að skipa þeim málum þannig að viðunandi sé. Enn eru umhverfismálin í höndum fjölmargra aðila og yfirleitt þeirra sem náttúruauðlindirnar nýta. Þá er hætt við hagsmunaárekstrum sem von er.
    Lagt er til að umhverfismálin verði lögð undir eina stjórn. Þó er gengið eins skammt og frekast er unnt í því að taka heildarþorra málaflokks frá ráðuneytum atvinnuveganna. T.d. er umhverfisráðuneytinu aðeins ætlað að fjalla um og setja reglur um mengun og önnur áhrif á umhverfið frá ýmsum framkvæmdum eða iðnaði án þess að hafa forræði framkvæmdanna sjálfra. Sömuleiðis er því ætlað að fylgjast með gróðri og nýtingu hans, m.a. takmarka beit ef um ofbeit er að ræða, en landbúnaðinum sjálfum er ætlað að annast landgræðsluna, enda eru það ekki síst hagsmunir bænda að vel sé að uppgræðslu staðið. Það veldur

mér vonbrigðum að búnaðarþing hefur lagst gegn þessari breytingu. Kemur þar fram þetta gamla viðhorf sem orða má svo: Umhverfisvernd er góð, jafnvel nauðsynleg, en látið okkur bara í friði. Þeir sem þannig hugsa skilja ekki hvað klukkan slær.
    Mengun og hvers konar tjón á umhverfi er að verða eitt alvarlegasta vandamál mannkyns. Gífurleg hætta blasir því miður afar víða við. Allir kannast við eyðingu ósonlagsins eða gróðurhúsaáhrifin eða mengun frá kjarnorkunni svo að
eitthvað sé nefnt. Það er skylda okkar Íslendinga að taka á skipulegan hátt þátt í að afstýra eyðileggingu umhverfisins. Umhverfismálin eru jafnframt e.t.v. mikilvægasta mál þessarar þjóðar þegar til lengri tíma er litið. Við eigum að vísu því láni að fagna að mengun er lítil í umhverfinu og við getum jafnvel sagt að hér sé tiltölulega hreint land þegar gróðureyðing er frátalin. Þetta er þó reyndar á mörkum. En ef við getum með sanni sagt að hér sé umhverfið hreint og þannig á gróðurmálum haldið að til fyrirmyndar sé, þá mun hreint og gott umhverfi verða eitt mikilvægasta einkenni þessa lands og þá um leið auðlind. Áhugi og áhersla manna um heim allan fer stöðugt vaxandi á þessum þætti. Afurðir frá hreinu landi verða eftirsóttar og reyndar um leið landið sjálft á meðal ferðamanna.
    Við Íslendingar eigum að taka virkan þátt í verndun umhverfisins og ekki síst í okkar heimshluta. Við eigum jafnframt að taka forustu á þeim sviðum sem varða okkur mest, t.d. verndun hafsins, og okkur er ekkert að vanbúnaði í þeim efnum fremur en sú forusta sem við áttum við útfærslu landhelginnar.
    Góðir Íslendingar. Við verðum að taka fast og markvisst á umhverfismálum áður en óbætanlegt tjón er orðið. Slíka fyrirhyggju hefur skort á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins. Allt of oft látum við stjórnast fremur af kappi en forsjá. Við siglum með svo mikinn fisk á erlendan markað að verðið fellur öllum til stórtjóns og fiskvinnslustöðvarnar heima fá ekki nægan afla. Við stækkum flotann þótt við vitum að minna kemur þá í hlut hvers. Við leitum eftir stundarhagnaði með því að vinna meiri fisk úti á sjó þótt um leið sé rekstrargrundvelli kippt undan fiskvinnslustöðvum í landi. Við fjárfestum í verslunar- og skrifstofuhúsnæði að því er virðist án nokkurrar fyrirhyggju og við kaupum fleiri bifreiðar en nokkur önnur þjóð að meðaltali svo að fáein dæmi séu nefnd. Þessir víxlar eru nú fallnir. Þá verður að greiða. Því miður hljóta þeir einnig að taka þátt í þeirri greiðslu sem enga sök eiga á óráðsíunni. Þjóðfélagið allt líður. Að mínu mati þurfum við Íslendingar nú í nokkur ár að halda mjög aftur af eyðslu okkar og fjárfestingu og leggja alla áherslu á að greiða skuldirnar. Ef við gerum það og leggjum jafnframt áherslu á að skapa traustan grundvöll fyrir atvinnulífið í landinu, byggðan á rannsóknum, vísindum og þekkingu, látum fyrirhyggju og forsjálni ráða, óttast ég ekki um framtíð þessarar þjóðar.
    Eftir harðan vetur ráðum við því ekki hvernig sumarið verður. En eftir erfið ár í íslensku þjóðlífi

getum við ráðið því sjálf að framtíðin verði góð og björt. Ég óska Íslendingum öllum góðs og gleðilegs sumars.